Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 207/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 24. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 207/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18020037

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 13. febrúar 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […], og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. janúar 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Ítalíu.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og 42. gr. sömu laga.

Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 21. ágúst 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Þýskalandi. Þann 1. september 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Þýskalandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 12. september 2017 barst svar frá þýskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu ekki viðtöku kæranda á grundvelli þess að kærandi hefði yfirgefið Þýskaland þann 9. ágúst 2017 og farið til Ítalíu þar sem hann virðist hafa dvalarleyfi. Þann 13. september 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Ítalíu, sbr. 1. eða 3. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þar sem ekki barst svar innan tilskilins tímafrests litu íslensk stjórnvöld svo á að ítölsk stjórnvöld hefðu samþykkt viðtöku, sbr. 7. mgr. 22. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, og sendi Útlendingastofnun ítölskum yfirvöldum bréf þess efnis, dags. 15. nóvember 2017. Þann 22. nóvember 2017 barst svar frá ítölskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu ekki viðtöku kæranda á grundvelli þess að kærandi hefði óskað eftir alþjóðlegri vernd í Þýskalandi þann 29. maí 2015 en þýsk yfirvöld hefðu ekki sent beiðni um viðtöku kæranda til Ítalíu innan tilskilinna tímamarka og því liggi ábyrgð á máli kæranda hjá Þýskalandi. Þann 28. nóvember 2017 ítrekaði Útlendingastofnun fyrra bréf sitt til ítalskra yfirvalda og benti á að svar hefði borist of seint og því bæru ítölsk yfirvöld ábyrgð á umsókn kæranda á grundvelli 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 18. janúar 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Ítalíu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 30. janúar 2018 og kærði kærandi ákvörðunina þann 13. febrúar 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda, ásamt fylgigögnum, barst kærunefnd 26. febrúar 2018. Þann 9. apríl 2018 bárust kærunefnd frekari gögn frá talsmanni kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Ítalíu. Flutningur kæranda til Ítalíu fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Ítalíu, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæra frestaði réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann vilji ekki snúa aftur til Ítalíu. Kærandi hafi dvalið á Ítalíu í 12 ár en hann hafi komið þangað fyrst 15 ára gamall, fundið sér vinnu og náð að byggja upp líf sitt. Kærandi hafi stofnað til fjölskyldu á Ítalíu en hins vegar hafi farið að síga á ógæfuhliðina hjá kæranda síðla árs 2014 en aðilar tengdir ítölsku mafíunni hafi farið að ofsækja fjölskylduna og hóta þeim ofbeldi. Þá hafi umræddir aðilar rænt eiginkonu kæranda og haldið henni nauðugri í átján daga […], myndbandsupptökur og ljósmyndir verið teknar af henni og því hótað að þær yrðu birtar. Fjölskyldan hafi því flúið til Þýskalands og sótt þar um alþjóðlega vernd en umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd hafi verið synjað þar í landi. Eiginkona kæranda og dætur þeirra dvelji enn í Þýskalandi en þær bíði nú flutnings til […], heimaríkis kæranda og eiginkonu hans, þar sem þær hafi ekki dvalarleyfi á Ítalíu. Staða fjölskyldunnar valdi kæranda miklum áhyggjum og aðskilnaður fjölskyldunnar sé honum erfiður. Þá hafi hann ítrekað þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna andlegra veikinda og jafnframt glími hann við líkamleg veikindi.

Til stuðnings aðalkröfu kæranda um efnislega meðferð umsóknar hans vísar hann m.a. til sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga vegna viðkvæmrar stöðu hans og hræðilegra aðstæðna hans á Ítalíu. Þá vísar kærandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu og nýlegra úrskurða kærunefndar útlendingamála máli sínu til stuðnings. Kærandi bendi á að hann hafi glímt við andleg veikindi, hann sofi illa, hafi áhyggjur, fái martraðir og svefnleysið hafi áhrif á líkamlegt heilsufar hans. Kærandi telji að sterkar vísbendingar séu uppi um að hann sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi til synjunar ítalskra stjórnvalda, dags. 22. nóvember 2017, um að taka kæranda í umsjá þar sem fram komi að verði hann endursendur til Ítalíu hafi hann enga möguleika á að hitta fjölskyldu sína þar sem ítölsk stjórnvöld hafi synjað beiðni þýskra stjórnvalda um að taka konu hans og börn í umsjá og þau bíði brottvísunar frá Þýskalandi til […]. Kærandi standi því frammi fyrir því að geta ekki sameinast fjölskyldu sinni verði honum gert að snúa til Ítalíu. Kærandi vísar máli sínu til stuðnings til grundvallarreglunnar um friðhelgi fjölskyldunnar, sbr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og meginreglunnar um að tryggja einingu fjölskyldunnar sem endurspeglist í lögum um útlendinga og Dyflinnarreglugerðinni.

Jafnframt kemur fram í greinargerð kæranda að ótækt sé að beita heimildinni í a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þvert á móti njóti kærandi verndar 42. gr. laga um útlendinga sem mæli fyrir um grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, eða banni við endursendingu fólks þangað sem líf þess eða frelsi sé í hættu, eða líkur séu á að það muni sæta pyndingum eða ómannúðlegri meðferð, sbr. einnig 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi vísi til heimilda um ástandið á Ítalíu og taki fram að hann hafi ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð þar í landi. Endursending kæranda til Ítalíu sé því m.a. brot á 3. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Kærandi gerir þá kröfu til vara að ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka mál hans til meðferðar að nýju, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að ítölsk stjórnvöld bera ábyrgð á umsókn kæranda á grundvelli 7. mgr. 22. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Ítalíu er byggt á því að ítölsk yfirvöld hafi ekki svarað beiðni um endurviðtöku innan tilskilins frests. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæður getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Greining á sérþörfum sbr. 25. gr. og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga

Kærandi var ekki metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans hjá Útlendingastofnun. Kærandi er giftur karlmaður á þrítugsaldri og á tvær dætur sem eru ekki hér á landi. Hann greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi miklar áhyggjur af stöðu fjölskyldunnar og hann hafi þurft að leggjast inn á sjúkrahús á Ítalíu vegna andlegra veikinda sökum atvika sem hafi átt sér stað þar í landi. Kærandi hugsi stöðugt um þessi atvik og hann sofi ekki og fái martraðir auk þess sem ástandið hafi áhrif á líkamlega heilsu hans. Kærandi hefur lagt fram komunótur frá Göngudeild sóttvarna, dags. frá 6. september 2017 til 7. febrúar 2018, þar sem kemur m.a. fram að hann glími við svefnleysi og sé með [...].

Að mati kærunefndar er kærandi ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi, enda fær kærunefnd ekki séð að heilsufar hans eða aðstæður hans að öðru leyti séu þess eðlis að hann hafi sérstakar þarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls hér eða að hann geti ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð á Ítalíu

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð á Ítalíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • World Report 2018 – European Union (Human Rights Watch, 18. janúar 2018),• 2016 Country Reports on Human Rights Practices – Italy (United States Department of State, 3. mars 2017),
  • Amnesty International Report 2017/2018 – Italy (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2016 (European Asylum Support Office, 5. júlí 2017),
  • Asylum Information Database. Country Report – Italy (European Council on Refugees and Exiles, 21. mars 2018),
  • Concluding observations of the Committee on the Elimination of Racial Discrimination (UN Committee on the Elimination of Racial Discrimination, 17. febrúar 2017),
  • ECRI Report on Italy (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 7. júní 2016),
  • Freedom in the World 2018 – Italy (Freedom House, 11. apríl 2018),
  • Is mutual trust enough? – The situation of persons with special reception needs upon return to Italy (Danish Refugee Council, febrúar 2017),
  • OSCE Office for Democratic Institutions and Human Rights (http://hatecrime.osce.org/italy),
  • Reception conditions in Italy. Report of the current situation of asylum seekers and beneficiaries of protection, in particular Dublin returnees (Swiss Refugee Council, ágúst 2016),
  • Report of the Working Group of Experts on People of African Descent on its mission to Italy (United Nations Human Rights Council, 12. ágúst 2016),
  • Information note, Dublin transfers post-Tarakhel: Update on European case law and practice (Elena, European legal network on asylum, október 2015),
  • Stjórnarskrá Ítalíu (aðgengileg á ensku á heimasíðu öldungadeildar ítalska þingsins, http://www.senato.it),
  • Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees. For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report – Universal Periodic Review: Italy (UNHCR, mars 2014),
  • UNHCR Recommendations on Important Aspects of Refugee Protection in Italy (UNHCR, júlí 2013) og
  • Vefsíða innanríkisráðuneytis Ítalíu (www.interno.gov.it).

Í framangreindum gögnum kemur fram að þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd eru endursendir til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar geta þeir lagt fram umsókn hjá lögreglunni (í. Questura) eða hjá landamæralögreglunni (í. Polizia di Frontiera), hafi þeir ekki áður lagt fram umsókn þar í landi. Hafi þeir þegar sótt um alþjóðlega vernd á Ítalíu vísar landamæralögreglan þeim til viðeigandi lögreglustöðvar eða stofnunar, þar sem þeir fái að vita um framhald umsóknar sinnar. Fái umsækjandi um alþjóðlega vernd synjun á umsókn sinni þá hefur hann kost á því að bera synjunina undir stjórnsýsludómstól (í. Tribunale Civile). Jafnframt eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða að um meðferð sé að ræða sem brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Af framangreindum gögnum má sjá að ítölsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi. Hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna meðal annars gagnrýnt skipulag og bolmagn hæliskerfisins til að taka við skyndilegu eða verulegu flæði flóttamanna til landsins. Þá hefur stofnunin einnig gert athugasemdir við brotakennd móttökuskilyrði og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna. Jafnframt hefur Flóttamannastofnun gagnrýnt að aðstoð við sérstaklega viðkvæma umsækjendur um alþjóðlega vernd sé oft ófullnægjandi vegna skorts á samhæfingu þjónustuaðila og eftirfylgni. Verður af framangreindu ráðið að ítölsk stjórnvöld hafa átt við margvíslegan vanda að etja í þessum málaflokki. Hins vegar hefur Flóttamannastofnun ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Fyrir liggur að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi sem falla undir ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar eru sendir til baka til meginlandsins með flugi. Í framangreindum gögnum kemur fram að á stærstu flugvöllum landsins, í Róm og Mílanó, eru frjáls félagasamtök til staðar sem veita umsækjendum um alþjóðlega vernd ráðgjöf og þjónustu. Umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ítalíu eiga almennt ekki rétt á gjaldfrjálsri lögfræðiaðstoð þegar þeir leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd en frjáls félagasamtök veita gjaldfrjálsa lögfræðiaðstoð í umsóknarferlinu. Þó geta umsækjendur lagt fram beiðni um gjafsókn (í. gratuito patrocinio) kjósi þeir að bera endanlega synjun á umsókn sinni undir dómstóla.

Ítalía er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá er Ítalía jafnframt aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna (e. 1951 Convention Relating to the Status of Refugees) og mannréttindasáttmála Evrópu, en grundvallarreglan um bann við endursendingu einstaklinga til svæðis þar sem þeir hafi ástæðu til að óttast ofsóknir eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð er lögfest í þessum alþjóðasáttmálum.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á gistirými í móttökumiðstöðvum. Flestir fái úthlutað gistirými í CAS (í. Centro di accoglienza straordinaria) sem eru tímabundnar móttökumiðstöðvar en ella eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á gistiplássi í SPRAR (í. Sistema di protezione per richiedenti asilo e rifugiati) móttökumiðstöðvunum. Framboðið sé hins vegar takmarkað og ekki fái allir umsækjendur úthlutað gistirými í þessum stöðvum. Þá bjóða sveitarfélög, frjáls félagasamtök og trúfélög í Róm og Mílanó upp á gistiaðstöðu en þau séu einnig af skornum skammti. Ítölsk yfirvöld vinni að því í að byggja upp fleiri móttökumiðstöðvar í því skyni að mæta þessum vanda.

Á grundvelli framangreindra skýrslna og gagna sem kærunefnd hefur kynnt sér verður jafnframt ráðið að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ítalíu eiga sama rétt og ítalskir ríkisborgarar til lögboðinnar heilbrigðisþjónustu. Umsækjendur þurfa þó að skrá sig inn í heilbrigðiskerfið en við slíka skráningu fá þeir útgefið tryggingakort (í. tessera sanitaria) sem veitir þeim m.a. rétt á meðferð sérfræðilækna. Þá er einstaklingum með stöðu flóttamanns eða viðbótarvernd tryggð í ítölskum lögum heimild til að óskað eftir fjölskyldusameiningu. Hvorki er gerð krafa um ákveðin tímamörk á framlagningu slíkra umsókna né ákveðið lágmark í innkomu svo að sameiningu geti orðið.

Í framangreindum skýrslum kemur fram að ítalska lögreglan hafi fullnægjandi úrræði til þess að rannsaka þau mál sem leitað er til hennar með. Þó hafi verið gagnrýnt að saksókn mála taki í sumum tilfellum of langan tíma.

Samkvæmt ítölskum lögum er kynþáttahatur, kynþáttafordómar og hvers kyns mismunun bönnuð, hvort sem er á grundvelli kynþáttar, trúar, uppruna eða annarra atriða. Í kjölfar athugasemda alþjóðlegra eftirlitsnefnda, stofnana og frjálsra félagasamtaka hafa ítölsk yfirvöld tekið mikilvæg skref í þá átt að vinna gegn kynþáttafordómum og hatursglæpum, þ. á m. með innleiðingu aðgerðaráætlunar gegn kynþáttahyggju, hræðslu við útlendinga og umburðarleysi (e. National Action Plan against Racism, Xenophobia and Intolerance). Þá hefur rannsóknum og ákærum fjölgað í málum er varða mismunun, hatursorðræðu og hatursglæpi á grundvelli kynþáttar og þjóðernis.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns á Ítalíu bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Áður hefur verið greint frá aðstæðum kæranda. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann glími við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að fyrir hendi sé ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a. reglugerðar um útlendinga. Af framangreindum gögnum verður ekki annað ráðið en að að verði kærandi fyrir mismunun á grundvelli kynþáttar geti hann leitað ásjár ítalskra yfirvalda vegna þess. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað um heilbrigðiskerfið á Ítalíu er það mat nefndarinnar að ekki séu forsendur til annars en að leggja til grundvallar í málinu að kæranda bíði fullnægjandi og aðgengileg heilbrigðisþjónusta á Ítalíu en umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þar í landi.

Kærandi hefur greint frá því að aðilar tengdir ítölsku mafíunni hafi ofsótt fjölskyldu hans, hótað þeim og beitt eiginkonu hans ofbeldi. Það er mat kærunefndar, m.t.t. þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu, að þarlend yfirvöld séu í stakk búin til þess að veita umsækjendum fullnægjandi vernd gegn slíkum hótunum og að kærandi geti leitað til lögreglunnar og annarra yfirvalda vegna þeirra.

Kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem kærandi lagði fram með kæru sinni, svo og skýrslur og upplýsingar um aðstæður á Ítalíu. Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 18. október 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 21. ágúst 2017.

Reglur stjórnsýsluréttar

Í greinargerð kæranda er gerð athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi hvorki rannsakað né rökstutt mál kæranda með fullnægjandi hætti, m.a. varðandi hver staða kæranda sé á Ítalíu. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun var beiðni um viðtöku kæranda beint til ítalskra stjórnvalda. Þau svöruðu beiðninni ekki innan tilskilins tímafrests skv. Dyflinnarreglugerðinni og ber Ítalía því ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli 7. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar.

Kærunefnd bendir á að í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun, dags. 24. október 2017, kveðst kærandi hafa haft dvalarleyfi á Ítalíu. Þá kemur einnig fram í gögnum frá Þýskalandi, dags. 12. september 2017, að kærandi virðist hafa dvalarleyfi þar í landi. Að mati kærunefndar var ekki tilefni fyrir Útlendingastofnun að rannsaka þennan þátt málsins betur. Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Samantekt

Í máli þessu hafa ítölsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Ítalíu með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                                                           Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum