Hoppa yfir valmynd
19. maí 2014 Utanríkisráðuneytið

Næstum dauður tvisvar - seinni hluti

Stefán Lárus Stefánsson
Stefán Lárus Stefánsson

Það er erfiðara að festa á blað það sem skeði eftir jarðskjálftann.

Seinni hlutinn, stóð mikið, mikið lengur, hann gekk ekki yfir á sex mínútum eins og jarðskjálftinn. Framvindan öll varð miklu flóknari. Sú skynjun að standa aftur frammi fyrir því að maður gæti dáið varð aftur áþreifanleg en með allt öðrum hætti en meðan á jarðskjálftanum stóð. Dauðinn var samt sá sami. 

Eftirfarandi er í mínum huga upprifjun á hugarástandi frekar en skýrsla um atburði þessa daga.

Jarðskjálftinn sem ég lýsti áður var að styrkleika 9.0 og er flokkaður sem risaskjálfti, hamfaraskjálfti.  Þegar hann reið yfir Tokyo föstudagseftirmiðdaginn 11. mars 2011 þá var ekki hægt ímynda sér að framundan væru mestu hörmungar sem japanskt samfélag hafði upplifað frá seinni heimstyrjöld. Risa jarðskjálftinn var einungis fyrsta bylmingshöggið af þremur sem Japan þyrfti að þola þessa daga, tvö af völdum náttúrunnar, eitt af mannavöldum.

© PK

Atburðarásin næstu klukkustundir stendur eiginlega eftir sem ótal myndbrot í huganum. 

Fyrst var að reyna að hrista af sér áfallið eftir jarðskjálftann og hvimleiða riðu sem herjaði á mann fyrstu mínúturnar líklega vegna þess að innra eyrað og jafnvægisskynið hafði farið úr skorðum. Það var þó eins og aumlegt suð í flugu miðað við það sem á eftir fylgdi.

Fljótlega eftir skjálftann kom í ljós að símarnir okkar virkuðu ekki innanlands í Japan. Með internet símunum gátum við hringt til útlanda en farsímar virkuðu alls ekki fyrstu dagana. Allar lestar hættu að ganga í borginni og um gervallt Japan þar sem hamfaranna hafði gætt og leigubílar hættu samstundis akstri. 

Allar samgöngur voru sem sagt í lamasessi í Tokyo og víðar. Það er skelfileg tilhugsun að vera símasambandslaus og hafa hvorki leigubifreiðar né almenningssamgöngur í rúmlega 36 milljón manna stórborg. Á fréttamyndum í sjónvarpi sáum við fólk standa ráðalaust í hópum fyrir utan brautarstöðvar eins og Shinagawa stöðina rétt hjá sendiráðinu. Við gerðum okkur grein fyrir því að þarna var fólk á eigin vegum, nánast bjargarlaust og varð að koma sér sjálft heim, fótgangandi. Ekki var hægt að hringja í neinn og biðja um hjálp.

Heilinn í manni getur stundum, undir miklu álagi, verið dálítið skrítið stykki, en hann var, þegar þarna var komið. kannski að reyna að róa mig með einhverjum ósjálfráðum taugaboðum. Þegar ég horfði á þessar myndir frá troðfullum brautarstöðvum þá var eina framlag míns miðaldra heila, gamall breskur slagari frá mínum yngri árum, sem ég man að mér hafði þótt frekar leiðinlegur á sínum tíma. Textinn hafði hins vegar þröngvað sér inn í heilabúið á mér og blundað þar síðan ásamt laglínuni:  „My baby takes the morning train, he works from nine to five and then he takes another home again to find me waiting for him.......bla, bla, bla. Þvílík hörmung. Mér leið ekkert betur og róaðist ekki. 

Flóðbylgjan

Það slokknaði á slagaranum í hausnum þegar allir voru kallaðir að sjónvarpinu. Fréttir fóru að berast af því að yfirvöld hefðu gefið út „tsunami“ viðvaranir, eða viðvaranir um jarðskjálftaflóðbylgjur meðfram nærfellt allri austurströnd Japans. Á þeirri stundu hafði ég ekki hugmynd um hvar Tokyo var statt á landakortinu með tilliti til hvort eða hvernig þessar flóðbylgjur myndu skella á borginni. Þessi tegund flóða er þekkt í Kyrrahafinu og Suð-Austur Asíu en minna í Atlantshafi  þar sem jarðflekarnir eru að togast í sundur frekar en að skella saman eins og raunin varð á þarna í Japan.  Það eina sem ég mundi eftir var jarðskjálftaflóðbylgjan sem flæddi um þéttbýlissvæði í Suð-Austur Asíu og hrifsaði með sér um rúmlega 280.000 sálir í nærri 14 löndum á annan í jólum 2004. 

Sem sagt, ég vissi ekki hverju ég átti von á.

© US Navy

En hvað með það, síðan kom dauðinn til þúsunda íbúa austurstrandarinnar í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Grá-brún eðja sem átti að heita Kyrrahafið sást ryðjast á land og brjóta og drepa allt sem á vegi hennar varð. Það eina sem hún skildi eftir voru húsgrunnar, spítnabrak, beyglaðir bílar og skip og bátar á þurru landi. Þúsundir létu lífið og þúsundir hurfu sporlaust.

Fukushima Daiichi

Mitt í öllu þessu gekk önnur flóðbylgja á land við kjarnorkuver sem er um 238 kílómetra  norð-austur af Tokyo, og ber heitið Fukushima Daiichi eða Fukushima númer eitt. Þá fyrst byrjuðu hamfarir sem eiginlega eru einstakar á heimsvísu. Fukushima Daiichi var fram að þessu eitt af 15 stærstu kjarnorkuverum í heimi.

Það gerðist svo margt næstu daga að það er þægilegra að muna þetta með því að grípa niður í atburðarrásina hér og þar. Það var auðvitað nöturleg kaldhæðni örlaganna að þurfa að sætta sig við þá staðreynd, að eftir að hafa varið mestum tíma mínum í Japan að reyna að telja fólki og stjórnvöldum trú um að sækja meira í jarðvarmann, hreinann og hættulausann, þá var ég í þeim sporum að horfa fram á að deyja úr geislaveiki í sama landi. 

Þegar hamfarajarðskjálftinn reið yfir Fukushima kjarnokuverið, um kl. 14:46 föstudaginn 11. mars 2011, þá slökkti sjálfvirkur búnaður á þeim þremur kjarnaofnum sem enn voru starfræktir í þessu gamla kjarnorkuveri. Rafmagnið rofnaði, og dísel rafstöðvar fóru í gang til að knýja kælibúnað kjarnaofnana. 

En aðeins í stutta stund.

Síðan gekk jarðskjálfta flóðbylgjan á land með öllum sínum eyðileggingarmætti  rétt fyrir neðan Fukushima Daiichi og skall á kjarnorkuverinu. Við það drapst á öllum rafmagnsbúnaði nema neyðarkælibúnaði sem átti eftir að endast í aðeins tæpan sólarhring.

Með engan traustan kælibúnað í gangi fyrirskipuðu stjórnvöld  brottflutning allra íbúa innan við 3 km. radíus kringum kjarnorkuverið, síðan 10 km. radíus og þar á eftir 20 km. radíus. Hættumerkin hrönnuðust upp.

© IAEA

Lítið var um svefn í sendiráðinu aðfararnótt laugardagsins 12. mars. Áfram hélt vinnan við að hafa upp á Íslendingum í Japan, en í sendiráðinu voru með mér Akiko Hasegawa viðskiptafulltrúi, Bolli Thoroddsen og Halldór Elís Pálsson sem báðir tengdust fyrirtækjum sem leigðu í kjallara sendiráðsins. Það tókst að hafa upp á öllum Íslendingunum á einum sólarhring og þar með varð íslenska sendiráðið í Tokyo það fyrsta sem gat gert grein fyrir öllum sínum ríkisborgurum í landinu.

Hvað sem því leið, þá héldu kjarnaofnarnir í Fukushima áfram að malla eins og þrír drísildjöflar úr helvíti sem færðust svo allir í aukanna eftir að neyðarkælibúnaðurinn loksins gaf sig. 

Upp frá þeirri stundu var ekkert sem gat bjargað Fukushima Daiichi. 

Nú var barist uppá líf og dauða í kjarnorkuverinu, hitastigið rauk upp í öllum ofnum og reynt var að losa um þrýsting í öryggishólfi kringum kjarnaofn númer eitt. Allur fjandinn varð laus þegar vetnissprenging átti sér stað og þakið tætist af  þar sem kjarnaofninn er hýstur. Þá sást í myndavélum kælivatnstankur þar sem notaðar kjarnorkueldsneytisstangir eru geymdar. Kælivatnið byrjar strax að gufa upp.

Naglinn í þessa kjarnorkulíkkistu er rekinn í botn þegar sú övæntingafulla ákvörðun er tekin að byrja að sprauta sjó yfir laskaðann kjarnaofn númer 1. Þetta voru bæði góðar fréttir og slæmar fréttir. Þær góðu voru að sjórinn kældi sannanlega kjarnaofnin, þær slæmu voru að sjórinn tærði og eyðilagði viðkvæmann málmbúnaðinn. Hann var sem sagt gereyðilagður.

Fjöldaflótti frá Tokyo

Allar fréttir sem berast frá Fukushima eru, þegar þarna er komið sögu, vondar og þær eiga eftir að versna.

Sunnudaginn 13. mars er byrjað að dæla sjó á kjarnaofn nr. 3 sem þakkar fyrir sig með vetnissprengingu daginn eftir þann14. mars og þá er öllum orðið ljóst að það verður ekki við neitt ráðið. Kjarnaofn nr. 2 fer einnig í sjóbað. Þá eru allir þrír gerónýtir.

Í Tokyo er skólum lokað, við heyrum að allar flugvélar og lestar frá borginni séu uppbókaðar, frá Kína kemur floti af 747 vélum frá Air China sem flýgur burt með alla kínverska námsmenn í borginni, flugliðar hjá SAS neita að fljúga venjulegt aðflug til Narita flugvallar þar sem sú leið liggur yfir geislaspúandi Fukushima kjarnorkuverið. Sendiráð annarra landa byrja að skella í lás. Allsherjarhræðsla grípur um sig. Almenningur treystir ekki fréttaflutningnum.

© IAEA

Það var um miðbik sunnudagsins sem ég ákvað að labba niðrá Shinagawa lestarstöð og kaupa eitthvað að borða. Óvenjuleg kyrrð var yfir hverfinu og margar búðir og matsölustaðir sem venjulega voru í fullum rekstri voru lokaðar. Við enda götunnar frá sendiráðinu var hundahárskera og snyrti-salon, hún var þó opin. Ónotaleg tilfinning gerði vart við sig í maganum þegar á vegi mínum varð ósköp venjulegur drykkjarvörusjálfsali sem finna má um alla borgina. Sjálfsalinn var galtómur. 

Í þessari einsemd velti ég því fyrir mér ef allt færi á versta veg þá væri þó hægt að fara með hund í bjútítrítment og loppusnyrtingu.

Ég fór í stóru matarbúðirnar á Shinagawa stöðinni. Á ensku kallast það sem við mér blasti „panic buying“ eða ofsahræðslu innkaup, að hamstra. Tómar matarhillur. Sérstaklega brauð, mjólkurvara og dósamatur. Fólk var greinilega farið að hamstra og búa sig undir langa inniveru. Ég man ég stakk einhverju í körfuna sem ég taldi vera ætilegt og lagði svo af stað með mína poka upp brekkuna í áttina að sendiráðinu. Á leiðinni þangað sá ég að það var jafnvel búið að loka uppáhalds Ramensúpu staðnum okkar sem var alltaf opinn og ég hélt að myndi aldrei loka nema vegna yfirvofandi heimsendis. Allir súpu snillingarnir  sem þekktu okkur þar voru flúnir úr borginni.

Um miðja brekkuna er lítil Seven/Eleven kjörbúð og ég ákvað að bæta í birgðirnar þar. En þar hafði greinilega ofsahræðslan farið um gólf með innkaupakerrur og þar var nánast ekkert ætilegt til. Hvað með það ég ætlaði þó að finna mér eitthvað að drekka. Þegar ég nálgaðist drykkjarvörukælin tók skjannabirta á móti mér sem lýsti upp galtómar hillurnar. Nei, þarna voru nokkrar dósir, ég hafði dottið í lukkupottinn þrátt fyrir allt. Ég rýndi í letrið á einni dós, já, já þetta var þá bjór, það væri þá hægt að sturta þessu í sig ef langdreginn heimsendir kæmi í heimsókn frá Fukushima. Við frekari lestur af dósinni rann upp fyrir mér að þetta var ekki venjulegur bjór heldur 0-núll prósent bjór, hvernig er hægt að framleiða núll prósent bjór? Ég skilaði dósinni og hélt áfram för minni.

Þvílík einsemd.

Eldar loga nú í Fukushima kjanorkuverinu. Vetnissprenging verður í húsi nr. 2 og  skemmdir koma í ljós á öryggishylki ofnsins þar. Hundruð þúsundir flýja Tokyo og nær umhverfi, mest útlendingar. 

Orðrómur gengur nú staflaus um Tokyo að kjarnorkueldsneytið hafi brætt sér leið gegnum allar varnarhlífar í kjarnaofnunum  þremur og lekið, engin veit hvert. Þetta var kallað „nuclear meltdown“ meðal sendiráðskollegana.

Japanskir fjölmiðlar greina frá því að fjölmörg sendiráð hafi skellt í lás og allt starfslið flúið borgina til að komast burt frá væntanlegri geislun. Það voru 27 sendiráð, sem vitað er um, að lokuðu sínum dyrum, þar á meðal Finnland, Þýskaland og Sviss.

Ekki sendiráð Íslands í Tokyo. 

Við lokuðum ekki.

Ekki voru allir Íslendingar sem við vissum um farnir frá Tokyo þegar þarna var komið.  Ég ákvað að bíða og sjá hvernig þetta færi. 

Ég myndi, þar að auki, örugglega aldrei upplifa aftur kjarnorkuslys, ef svo má að orði komast.

Stefán Lárus Stefánsson, sendiherra. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum