Hoppa yfir valmynd
24. maí 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 241/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 24. maí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 241/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18030016

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 27. febrúar 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. febrúar 2018, um að afturkalla dvalarleyfi hans, sbr. 59. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Hin kærða ákvörðun var birt fyrir kæranda þann 16. febrúar sl.

Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar verði hnekkt og að hann fái tækifæri til að leita sér að vinnuveitanda sem Vinnumálastofnun samþykkir, fyrir 2. júlí 2018, þegar núverandi atvinnuleyfi hans rennur út.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi útgefið atvinnuleyfi hjá Vinnumálastofnun þann 3. júlí 2017 með gildistíma til 2. júlí 2018. Útlendingastofnun veitti kæranda í kjölfarið dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki með gildistíma frá 3. júlí 2017 til 2. júlí 2018. Vinnumálastofnun afturkallaði atvinnuleyfi kæranda þann 6. febrúar 2018. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 12. febrúar 2018, afturkallaði Útlendingastofnun dvalarleyfi kæranda. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar þann 27. febrúar sl., en með kæru fylgdu einnig athugasemdir kæranda. Með bréfi frá Útlendingastofnun, dags. 25. apríl sl., var kæranda skipaður talsmaður, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga. Með tölvupósti, dags. 30. apríl sl., var kæranda veittur frestur til 16. maí sama árs til að leggja fram greinargerð. Greinargerð barst þann 15. maí sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að útgáfa dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki væri háð því skilyrði að atvinnuleyfi hefði verið veitt, sbr. b. liður 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga. Ákvæði 59. gr. sömu laga heimilaði stofnuninni að afturkalla dvalarleyfi ef skilyrðum fyrir veitingu þess væri ekki lengur fullnægt. Vísaði stofnunin til þess að þann 6. febrúar sl. hafi Vinnumálastofnun afturkallað atvinnuleyfi kæranda. Því væri ljóst að kærandi uppfyllti ekki lengur skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki og var leyfi hans afturkallað af þeirri ástæðu.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi vísar til þess að þann 3. júlí 2017 hafi hann fengið útgefið atvinnuleyfi hjá Vinnumálastofnun á grundvelli skorts á vinnuafli með gildistíma til 2. júlí 2018. Hafi kærandi verið við störf hjá þeim vinnuveitanda sem sótt hafi verið um atvinnuleyfi fyrir sig. Sá vinnuveitandi hafi hins vegar vanefnt skuldbindingar sínar gagnvart kæranda og því hafi kærandi leitað sér að annarri vinnu. Kærandi hafi fundið annan vinnuveitanda sem hafi viljað ráða sig. Vinnumálastofnun hafi þó neitað að gefa út nýtt atvinnuleyfi sér til handa þar sem enginn skortur væri á vinnuafli á EES-svæðinu. Þá hafi Vinnumálastofnun, eftir að hafa móttekið hina nýju umsókn kæranda um atvinnuleyfi, afturkallað fyrra atvinnuleyfi hans, með úrskurði frá 6. febrúar sl.

Kærandi telur að við afgreiðslu máls hans, þegar hann óskaði eftir að skipta um atvinnurekanda, hafi átt að horfa til 9. og 16. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Hvað varðar fyrrnefnda ákvæðið bendir kærandi á að hann hafi verið staddur á Íslandi þegar hann hafi óskað eftir atvinnuleyfi á grundvelli skorts á vinnuafli hjá hinum tilvonandi vinnuveitanda og ekki hefði átt að líta til EES-svæðisins í því samhengi. Er kærandi þeirrar skoðunar að horfa hefði átt til 55. gr. laga um útlendinga og 2. mgr. 62. gr. laganna. Kærandi hefði fullnægt áskilnaði um að fá lengra dvalarleyfi á Íslandi, m.a. til þess að leita sér að annarri vinnu, þar sem Vinnumálastofnun hafi synjað kæranda um að hefja störf hjá hinum tilvonandi vinnuveitanda, sem sótt hafi um atvinnuleyfi fyrir hann.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að afturkalla dvalarleyfi kæranda þar sem skilyrði fyrir veitingu þess séu ekki lengur fyrir hendi, sbr. 59. gr. laga um útlendinga. Eins og að framan greinir dvaldi kærandi hér á landi á grundvelli dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga.

Í 62. gr. laga um útlendinga er fjallað um heimildir til útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 1. mgr. 62. gr. laganna eru m.a. þau að útlendingur fullnægi grunnskilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 62. gr., og að tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki hafi verið veitt á grundvelli laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga.

Í ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga er mælt svo fyrir um að Útlendingastofnun taki ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Af ákvæðinu er ljóst að ákveðin verkaskipting er milli Útlendingastofnunar annars vegar og Vinnumálastofnunar hins vegar. Er hlutverk Útlendingastofnunar m.a. fólgið í að kanna hvort skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis samkvæmt umsókn þar að lútandi séu fyrir hendi í samræmi við ákvæði laga um útlendinga á meðan Vinnumálastofnun annast m.a. framkvæmd laga atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002, þ.m.t. hvort útlendingi skuli veitt atvinnuleyfi.

Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun heimilt að afturkalla dvalarleyfi og ótímabundið dvalarleyfi ef útlendingur hefur við umsókn, gegn betri vitund, veitt rangar upplýsingar eða leynt atvikum sem hefðu getað haft verulega þýðingu við leyfisveitinguna eða ekki eru lengur uppfyllt skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis eða ótímabundins dvalarleyfis eða það leiðir að öðru leyti af almennum reglum stjórnsýsluréttar.

Í máli þessu liggur fyrir að með ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 6. febrúar sl. var tímabundið atvinnuleyfi kæranda vegna skorts á starfsfólki afturkallað. Engin gögn liggja fyrir í málinu um að þeirri ákvörðun hafi verið hnekkt. Kærandi uppfyllir því ekki lengur skilyrði b-liðar 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga. Er því heimilt að afturkalla dvalarleyfi kæranda, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum