Hoppa yfir valmynd
8. desember 2004 Utanríkisráðuneytið

Ástand mála í Afganistan

Ástand mála í Afganistan var rætt í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær, miðvikudaginn 8. desember 2004. Hjálmar W. Hannesson, sendiherra og fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum flutti þar ávarp og greindi frá því að mikið hefði áunnist frá því að Bonn-samkomulagið um Afganistan var undirritað 5. desember 2001. Á þessu ári hefði verið samþykkt ný stjórnarskrá landsins og nýafstaðnar forsetakosningar hafi í heildina þótt takast vel.

Fastafulltrúi vakti athygli á þeirri vá sem stafi af ópíumrækt í Afganistan en í nýútkominni skýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna kemur fram að ópíumrækt í landinu hafi nú tvöfaldast frá því í fyrra. Talið er að þar sé nú framleitt tæplega 90 af hundraði alls ópíums í heiminum. Mikilvægt sé að ráðast að rótum þess vanda og til þess þurfi samstillt átak alþjóðasamfélagsins.

Hann lýsti jafnframt yfir því að Ísland veitti endurreisnarstarfi í Afganistan stuðning. Íslendingar hafi frá því í júní á þessu ári annast stjórn og rekstur alþjóðaflugvallarins í Kabúl. Á þessu tímabili hafi mikið áunnist í endurbótum á flugvellinum og nánasta umhverfi sem hefur komið almennu flugi og starfsemi alþjóðlega herliðsins til góða. Til stendur að Ísland afhendi Tyrklandi stjórn flugvallarins 1. febrúar n.k. Íslendingar muni þó áfram starfa á flugvellinum fram á mitt næsta sumar.

Ávarp fastafulltrúa er að finna hér. (á ensku)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum