Hoppa yfir valmynd
22. mars 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 157/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 22. mars 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 157/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU17120045

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 22. desember 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari Georgíu (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. desember 2017, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi sótti um vernd ásamt eiginmanni sínum.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt staða flóttamanns, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kærandi hljóti viðbótarvernd, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara fer kærandi fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 28. ágúst 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 1. nóvember 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 13. desember 2017, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þá var kæranda vísað frá landinu og veittur sjö daga frestur til að yfirgefa landið. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 22. desember 2017. Kæra frestaði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Kæranda var veittur frestur til að skila greinargerð til 4. janúar 2018. Með tölvupósti, dags. 2. janúar 2018, óskaði talsmaður kæranda eftir auknum frest til að leggja fram greinargerð. Kærunefnd féllst á þá beiðni og veitti viðbótarfrest til 8. janúar 2018. Með tölvupósti, dags. 9. janúar 2018, óskaði talsmaður kæranda öðru sinni eftir viðbótarfresti til framlagningu greinargerðar. Kærunefnd veitti lokafrest til 15. janúar 2018. Greinargerð talsmanns kæranda barst kærunefnd þann 17. janúar 2018. Kærandi kom fyrir kærunefndina þann 1. mars 2018 ásamt talsmanni sínum og gerði grein fyrir máli sínu og lagði fram frekari gögn, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hún umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún væri í hættu í heimaríki sínu vegna fyrrum starfa eiginmanns hennar fyrir georgíska herinn og búsetu þeirra nálægt stjórnsýslumörkum Georgíu og Suður-Ossetíu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga.

Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi búi í bænum Tsitelubani í Georgíu ásamt fjölskyldu. Tsitelubani liggi að stjórnsýslumörkum Georgíu og Suður-Ossetíu. Árið 2007 hafi maki kæranda hafið störf í georgíska hernum og síðar tekið þátt í átökum sem brutust út milli Georgíu og Rússlands árið 2008. Átökunum hafi aðallega verið beint að svæðunum Suður-Ossetíu og Abkhazia, svæðum sem séu opinberlega hluti af Georgíu en séu hins vegar undir stjórn annarra óháðra stjórnvalda. Í átökunum hafi Suður-Ossetía notið margs konar stuðnings frá Rússlandi, m.a. í formi hernaðarlegra aðgerða. Átökin hafi staðið yfir í fimm daga og margir einstaklingar látið lífið, slasast eða þurft að flýja heimili sín. Eftir að stríðinu hafi lokið hafi stór hluti einstaklinga reynt að snúa til baka á heimasvæði sín en ferðir þeirra hafi verið takmarkaðar með nokkurs konar landamæraeftirliti af hálfu rússneskra hermanna. Samandregið hafi umrædd átök leitt af sér mannfall, eyðileggingu innviða og að fjöldi fólks hafi misst heimili sín og lífsviðurværi.

Eftir að átökunum hafi lokið hafi kærandi flust til Tsitelubani. Fjölskylda maka kæranda eigi þar fasteign og nokkuð land. Maki kæranda hafi haldið áfram störfum sínum fyrir georgíska herinn og m.a. hlotið stöðu liðþjálfa árið 2012.

Í Tsitelubani og á öðrum nærliggjandi svæðum sé ástandið enn nokkuð viðkvæmt og óstöðugt. Rússneskar hersveitir haldi úti bækistöðvum í grennd við Tsitelubani og þá sé talsvert af rússneskum hermönnum í bænum. Rússneskir hermenn hafi á undanförnum árum ofsótt kæranda en þeir hafi m.a. tekið yfir land í eigu fjölskyldu maka kæranda sem þau hafi stundað búskap á, brennt eða tekið uppskeru, drepið húsdýr og búfénað í eigu fjölskyldunnar með grófum hætti, og lagt hald á landbúnaðartæki og krafist lausnargjalds fyrir. Þá hafi rússneskir hermenn nýverið fært stjórnsýslumörk Georgíu og Suður-Ossetíu með þeim afleiðingum að þau nái nú yfir hluta af kirkjugarði þar sem ástvinir kæranda séu grafnir. Kærandi sem sé trúuð geti ekki lengur heimsótt þann hluta kirkjugarðsins.

Rússneskir hermenn séu meðvitaðir um að maki kærandi hafi barist gegn Rússlandi í áðurnefndum átökum. Hafi þeir m.a. staðið fyrir utan heimili kæranda og hvatt maka hennar til að koma út. Reglulega heyrist skothljóð í nágrenni við Tsitelubani. Kærandi og maki hennar forðist að stofna til vandræða við rússneska hermenn og haldi sig eins fjarri þeim og hægt sé. Þá séu kærandi, maki hennar og fjölskylda hans einu íbúarnir af georgískum uppruna í Tsitelubani. Aðrir íbúar af georgískum uppruna hafi flutt á brott og þeir sem eftir sitji séu hliðhollir Rússum og hafi því horn í síðu maka kæranda. Jafnframt hafi rússneskir hermenn rænt einstaklingum af georgískum uppruna sem staddir hafi verið á eða við umrædd stjórnsýslumörk og einungis sleppt þeim gegn greiðslu lausnargjalds. Nágranna kæranda hafi til að mynda verið rænt. Kærandi óttist að sömu örlög geti hent sig.

Þá nefnir kærandi að hún og maki hennar hafi án árangurs leitað eftir aðstoð lögreglu og annarra stjórnvalda í Georgíu. Maki hennar hafi kannað hvort stjórnvöld gætu veitt sér lið við að flytja á nýjan stað en verið tjáð að engin úrræði væru í boði fyrir hann. Ennfremur hafi maki hennar farið til lögreglu í heimabæ sínum. Lögreglan hafi tjáð honum að hún gæti ekki aðstoðað hann enda hefði hún ekki vald eða getu til að aðhafast neitt á þessu svæði. Um leið og skothljóð heyrðust forðaði lögreglan sér. Um sé að ræða svæði sem sé hernumið af Rússum svo ekki sé hægt að ganga úr skugga um að kærandi njóti verndar yfirvalda í Georgíu. Vegna ástandsins í heimabæ kæranda hafi kærandi og maki hennar ákveðið að flýja land og sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Þau hafi komið börnum sínum tveimur fyrir hjá systur kæranda sem búi á öðrum stað í Georgíu.

Í greinargerð kæranda kemur fram að eiginmaður hennar geri þá aðalkröfu að fá stöðu sem flóttamaður hér landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Eiginmaður kæranda hafi ástæðuríkan ótta við að sæta ofsóknum af hálfu stjórnvalda og rússneskra hermanna vegna fyrrum starfa hans fyrir georgíska herinn og búsetu hans nálægt áðurnefndum stjórnsýslumörkum. Maki kæranda tilheyri þjóðfélagshópi, þ.e. sem fyrrum hermaður, í skilningi d. liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá sé maki hennar ofsóttur vegna þjóðernis en heimildir hermi að Rússar herji á Georgíumenn sem búi við stjórnsýslumörk Suður-Ossetíu. Því beri að veita maka kæranda alþjóðlega vernd og kæranda vernd samkvæmt ákvæði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð kæranda gerir kærandi jafnframt þá kröfu að sér verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til stuðnings framangreindu vísar kærandi í leiðbeiningar og handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Í umfjöllun um aðalkröfu kæranda er fjallað um stöðu mannréttinda í heimaríki hennar og þau átök sem brutust út milli Georgíu og Suður-Ossetíu árið 2008. Er þess getið að Suður-Ossetía sé fullvalda ríki í Suður-Kákasusfjöllunum sem sé innan landamæra Georgíu. Í kjölfar stríðsins árið 2008 hafi Rússland ásamt nokkrum öðrum ríkjum viðurkennt sjálfstæði Suður-Ossetíu. Georgía hafi aftur á móti neitað að viðurkenna tilvist Suður-Ossetíu. Um nokkurn tíma hafi staðið yfir deilur um yfirráð á Suður-Ossetíu og blossað upp deilur og stríð vegna þessa. Af lestri mannréttindaskýrslna sé ljóst að þetta samband sé áhyggjuefni á meðal mannréttindasamtaka, alþjóðastofnana o.fl.

Þann 17. júlí 2017 hafi alþjóðleg mannréttindasamtök lýst yfir miklum áhyggjum vegna ástands á svæðum í Georgíu og Suður-Ossetíu, meðal annars af ránum rússneskra öryggissveita á einstaklingum sem séu georgískir að uppruna. Þá hermi heimildir að Rússar fikri sig sífellt lengra inn í Georgíu og séu að taka yfir svæði. Þetta hafi m.a. leitt til þess að georgískir ríkisborgarar, sem séu búsettir í grennd við Suður-Ossetíu, hafi margir hverjir misst ræktarlönd sín og orðið fyrir margs konar áreiti af hálfu Rússa. Þá séu stjórnsýslumörkin afar óljós og ekki merkt. Ljóst sé að spenna ríki enn á svæðinu, rússneskir hermenn séu á ferli í kringum stjórnsýslumörkin og hafi georgískir borgarar, sem farið hafi yfir mörkin, verið hnepptir í varðhald af Rússum og líst yfir slæmri meðferð sem þeir hafi orðið fyrir.

Kærandi tekur m.a. fram að Útlendingastofnun hafi skilgreint Georgíu sem öruggt ríki. Þrátt fyrir það telur kærandi ljóst að ákveðin svæði í landinu séu fjarri því að vera örugg og að ástandið á stjórnsýslumörkum hinna hernumdu svæða sé mjög óstöðugt og að einstaklingar þar geti verið í mikilli hættu. Vísar kærandi í þessu samhengi til úrskurðar kærunefndar nr. 596/2017 frá 2. nóvember 2017 þar sem nefndin hafi m.a. tekið fram að í ákvörðun Útlendingastofnunar um að setja Georgíu á lista yfir örugg ríki hafi ekki verið fjallað um hvaða áhrif það kunni að hafa á mat á umsóknum um alþjóðlega vernd frá georgískum ríkisborgurum að georgísk yfirvöld fari í reynd ekki með fullt vald yfir svæðum í Suður-Ossetíu og Abkhaziu.

Varakrafa kæranda, um að henni verði veitt viðbótarvernd samkvæmt ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, er byggð á sams konar sjónarmiðum og hvað varðar aðalkröfu, þ.e. varðandi aðstæður í heimaríki. Til viðbótar vísar kærandi til þess að endursending hennar til heimaríkis myndi brjóta í bága við grundvallarreglu 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, þ.e. að ekki megi senda útlending til svæðis þar sem hann hafi ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greini í flóttamannahugtakinu sé í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Til frekari rökstuðnings vísar kærandi m.a. til ákvæða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 1. mgr. 68. gr. íslensku stjórnarskrárinnar.

Í umfjöllun um þrautavarakröfu kæranda, um að sér verði veitt dvalarleyfi af mannúðarsjónarmiðum samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, er m.a. fjallað um inntak þess ákvæðis sem og lögskýringargögn sem liggja því að baki. Kæranda sé veruleg hætta búin nálægt stjórnsýslumörkunum við Suður-Ossetíu. Kærandi og maki hennar hafi, þrátt fyrir beiðni þess efnis, ekki fengið neina aðstoð frá stjórnvöldum við búferlaflutninga. Þá hafi kærandi glímt við slæmt heilsufar og m.a. þurft að leggjast inn á spítala hér á landi. Í gögnum sem kærandi hafi framvísað með kæru sinni komi m.a. fram að hún hafi lagst inn á kvennadeild Landspítalans vegna sára á kynfærum og erfiðleika með þvaglát. Þá hafi hún jafnframt verið greind með sýkingu í nýra. Ganga verði úr skugga um að kærandi geti sótt sér fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í heimaríki.

Kærandi mótmælir því sem fram komi í ákvörðun Útlendingastofnunar um að yfirvöld í Georgíu skorti ekki vilja eða getu til að veita kæranda aðstoð og vernd. Frásögn kæranda sem og alþjóðlegar skýrslur bendi til annars. Að mati talsmanns kæranda sé ákvörðun Útlendingastofnunar almenn og stofnunin hafi ekki rannsakað aðstæður kæranda með fullnægjandi hætti í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi telji að flutningur innanlands sé ekki mögulegur, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð kæranda er fjallað ítarlega um það ákvæði, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum við ákvæðið og leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna varðandi möguleika á flutningi innanlands (e. Guidelines on International Protection. „International Flight or Relocation Alternative within the Context of Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol Relating to the Status of Refugees“ frá 23. júlí 2003). Bendir kærandi m.a. á að hugtakið um raunverulega vernd í öðrum hluta heimalands sé ekki meginregla í alþjóðlegri flóttamannalöggjöf.

Þess sé ekki krafist í alþjóðlegri löggjöf að einstaklingur sem sæti ofsóknum hafi útilokað alla möguleika í heimalandi sínu áður en hann sæki um alþjóðlega vernd í öðru landi, þ.e. umsókn um alþjóðlega vernd þurfi ekki að vera lokaúrræði. Þá skuli við mat á flutningi innanlands taka tillit til ýmissa þátta, m.a. fjölskylduaðstæðna og möguleika viðkomandi á atvinnu. Kærandi telji að í sínu tilfelli sé flutningur innanlands hvorki raunhæfur né sanngjarn. Útilokað sé fyrir kæranda eða maka hennar að selja eignir sínar og flytja á brott enda séu allar eignir á umræddu svæði verðlausar vegna þess ástands sem þar ríki. Aðrir íbúar sem áður hafi flúið frá Tsitelubani hafi átt í önnur hús að vernda og ef til vill getað selt eignir sínar. Þá sé heimaríki kæranda tiltölulega lítið land.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað georgísku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé georgískur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Georgíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/2018: Georgia (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Council of Europe – Action Plan for Georgia 2016-2019 (Council of Europe, 25. febrúar 2016);
  • Consolidated report on the conflict in Georgia October 2016 – March 2017 (Council of Europe – Committee of Ministers, 11. apríl 2017);
  • Georgia - Country Reports on Human Rights Practices for 2016 - (U.S. Department of State, 3. mars 2017);
  • South Ossetia (Max Planck Foundation for International Peace and the Rule of Law, janúar 2013);
  • Freedom in the World 2018 – Georgia (Freedom House, 16. febrúar 2018);
  • Independent International Fact-Finding Mission on the Conflict in Georgia, Report (Volume I-III, 2009);
  • Joint Staff Working Document – Association Implementation Report on Georgia, (European Commission, 25. nóvember 2016);
  • Nations in Transit 2017 - Georgia (Freedom House, 9. maí 2017);
  • Second Report Submitted by Georgia Pursuant to Article 25, Paragraph 2 of the Framework Convention for the Protection of National Minorities (Council of Europe, 20 maí 2012);
  • Situation in Georgia – Decision on the Procecutor’s request for an authorization of an investigation (International Criminal Court, 27 janúar 2016);
  • Georgia – Health system review (WHO Regional Office for Europe, september 2009);
  • Georgia – National Health Care Strategy 2011-2015 (Ministry of Labour, Health and Social Affairs of Georgia, Tblisi 2011);
  • Report of the United Nations High Commissioner for Human Rights on Cooperation with Georgia (United Nations – General Assembly, 17. ágúst 2017).
  • World Report 2017 – Georgia (Human Rights Watch, 12. janúar 2017) og

10 December Report on the situation of Protection of Human Rights and Freedoms in Georgia 2016, (Public Defender of Georgia, 2016).

Georgía er skilgreint sem lýðræðisríki með um 3,7 milljónir íbúa. Georgía gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1999 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu það sama ár. Georgía gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna þann 9. ágúst 1999, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þann 3. ágúst 1994 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 8. júlí 2005. Þann 1. júlí 2016 gekk í gildi samstarfssamningur milli Evrópusambandsins og Georgíu. Með þeim samningi hefur Georgía meðal annars skuldbundið sig til að efna víðtækar skuldbindingar á sviði lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis. Þann 19. júní 2017 setti Útlendingastofnun Georgíu á lista stofnunarinnar yfir örugg upprunaríki.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að stjórnarskrá Georgíu kveði á um jafnrétti allra fyrir lögunum og mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, tungumáls, kyns, trúar- og lífsskoðana, stjórnmálaskoðana, þjóðernis, félagslegrar stöðu eða tengsla, uppruna, búsetu eða efnahagslegrar stöðu sé refsiverð skv. refsilöggjöf landsins. Umboðsmaður (e. Public Defender (Ombudsman)) hafi verið starfandi í Georgíu frá árinu 1997. Umboðsmaðurinn hafi eftirlit með mannréttindum og frelsi borgaranna í Georgíu innan lögsögu ríkisins. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. stjórnarskrár Georgíu gangi alþjóðasamningar, sem fullgiltir hafi verið af hálfu Georgíu, framar landslögum. Svo framarlega sem slíkir samningar gangi ekki gegn stjórnarskrá landsins sé hægt að beita þeim sem hluta af almennri löggjöf.

Af ofangreindum gögnum er ljóst að samband Georgíu við Rússland og svonefnd svæði Suður-Ossetíu og Abkhazia sé nokkuð áhyggjuefni á meðal alþjóðastofnana, georgískra stjórnvalda, mannréttindasamtaka og fleiri. Abkhazia, sem er u.þ.b. 8600 ferkílómetrar að stærð, er staðsett í vesturhluta Georgíu og liggur m.a. að Svartahafinu. Suður-Ossetía er hins vegar er landlukt svæði, u.þ.b. 3900 ferkílómetrar, sem er staðsett á Suður-Kákasus svæðinu við landamæri Rússlands. Í gögnunum er því lýst að Suður-Ossetía hafi lýst yfir sjálfstæði gagnvart Georgíu árið 1992 og Abkhazia hafi gert slíkt hið sama árið 1999. Örfá ríki heims hafi viðurkennt sjálfstæði Abkhazia og Suður-Ossetíu, t.d. Rússland, Venesúela og Nicaragua. Staða Abkhazia og Suður-Ossetíu sem ríkja, og hvort þau geti yfirhöfuð borið réttindi og skyldur að þjóðarétti, sé hins vegar umdeild.

Eins og landamæri og lögsaga Georgíu séu skilgreind opinberlega nái þau yfir bæði Abkhazia og Suður-Ossetíu. Árið 2008 tóku gildi lög í Georgíu um hernumin svæði (e. Law of Georgia on Occupied Territories). Í formála þeirra laga er kveðið á um að Georgía sé fullvalda, sameinað og óskiptanlegt ríki og viðvera vopnaðra hópa innan yfirráðasvæðis þess án skýrs og sannanlegs samþykkis georgískra yfirvalda feli í sér ólöglegt hernám á svæði fullvalda ríkis samkvæmt Haag reglugerð frá 1907, Genfarsáttmála frá 1949 og viðmiðum og venjum alþjóðalaga. Í 1. gr. laganna kemur m.a. fram að markmið þeirra sé að skilgreina stöðu hinna hernumdu svæða og koma yfir þau lagalegum böndum. 

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að ýmis togstreita, spenna og átök hafi ríkt í langan tíma á milli Georgíu annars vegar og Suður-Ossetíu og Rússlands hins vegar. Í ágúst 2008 hafi brotist út alvarleg vopnuð átök milli Georgíu og Suður-Ossetíu en í þeim átökum hafi Suður-Ossetía notið víðtæks stuðnings Rússlands, svo sem í formi hernaðarlegra aðgerða. Átökin, sem hafi farið fram innan alþjóðlegra skilgreindra landamæra Georgíu, hafi t.d. leitt af sér mannfall, eyðileggingu innviða og að fjöldi fólks hafi misst heimili sín og lífsviðurværi. Þann 12. ágúst 2008 hafi Rússland og Georgía, fyrir tilstilli Evrópusambandsins, gert með sér samkomulag um vopnahlé. Einhver átök hafi þó áfram átt sér stað en þau hafi að mestu liðið undir lok skömmu síðar.

Samkvæmt framangreindum skýrslum hafi ástand mála á stjórnsýslumörkum (e. administrative boundary) Georgíu og Suður-Ossetíu verið tiltölulega stöðugt. Þó sé enn nokkur spenna á svæðinu sem stafi m.a. af því að rússneskir hermenn og landamæraverðir séu á ferli í kringum stjórnsýslumörkin og haldi þar uppi ýmsu eftirliti. Lega stjórnsýslumarkanna sé óljós og georgískir borgarar sem fari yfir þau, t.d. vegna misskilnings, hafi verið hnepptir í hald af rússneskum hermönnum eða landamæravörðum og gjalds sé krafist svo þeim sé sleppt. Þá er í skýrslum fjallað um að georgískir borgarar sem sætt hafi slíku haldi hafi kvartað yfir slæmri meðferð. Ennfremur hafi rússneskir hermenn og Suður-Ossetíubúar nýverið fært stjórnsýslumörk Suður-Ossetíu lengra inn á georgískt yfirráðasvæði og í þeim tilgangi sett upp girðingar, aðvörunarskilti o.fl. Í skýrslum er tekið fram að sú framkvæmd hafi leitt til margvíslegra neikvæðra áhrifa fyrir georgíska ríkisborgara sem búsettir séu í grennd við Suður-Ossetíu, svo sem missi ræktarlands og vatnsbóla.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi byggir ástæður flótta síns á því að hún sé georgískur ríkisborgari búsett nærri landamærum Suður-Ossetíu og Georgíu og að hún og eða maki hennar eigi á hættu ofsóknir vegna fyrrum starfa hans fyrir georgíska herinn.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimaríki sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd að hluta til á umsókn maka síns og á búsetu þeirra nálægt stjórnsýslumörkum Georgíu og Suður-Ossetíu. Kærandi búi í bænum Tsitelubani sem sé afar nálægt stjórnsýslumörkum Georgíu og Suður-Ossetíu. Maki hennar hafi verið fyrrum hermaður í georgíska hernum og tekið þátt í átökum Georgíu og Rússlands árið 2008. Kváðust kærandi og maki hennar hafa orðið fyrir ofsóknum af hálfu rússneskra hermanna sem haldi til nálægt Tsitelubani og séu á ferli í bænum. Rússneskir hermenn hafi vitneskju um að maki kæranda hafi þjónað í georgíska hernum og tekið þátt í áðurnefndum átökum. Hafi þeir m.a. tekið yfir land í eigu fjölskyldu maka kæranda, drepið húsdýr og búfénað með grófum aðferðum, ýmist brennt eða tekið uppskeru og lagt hald á landbúnaðartæki og krafist lausnargjalds fyrir. Þá hafi þeir t.d. staðið fyrir framan heimili kæranda og egnt maka hennar til að stíga út. Kærandi, maki hennar og fjölskylda séu einu íbúarnir af georgískum uppruna í Tsitelubani. Aðrir íbúar séu hliðhollir Rússum og í nöp við kæranda og maka hennar. Dæmi séu um að einstaklingum af georgískum uppruna hafi verið rænt við stjórnsýslumörk Georgíu og Suður-Ossetíu og lausnargjalds krafist. Greindi kærandi frá því í viðtali hjá kærunefnd þann 1. mars 2018 að í febrúar sl. hefði georgískum hermanni, búsettum í bænum Akhalgori, verið rænt og hann tekinn af lífi. Kærandi telji sig enga vernd geta fengið af hálfu georgískra stjórnvalda.

Með vísan til þeirra skýrslna sem kærunefnd hefur skoðað telur nefndin ljóst að staða mála á stjórnsýslumörkum Georgíu og Suður-Ossetíu séu að nokkru leyti varhugaverðar. Skýrslur alþjóðastofnana, mannréttindasamtaka, eftirlitsaðila o.fl. renni stoðum undir þá frásögn kæranda að rússneskir hermenn hafi undanfarið fært stjórnsýslumörk Georgíu og Suður-Ossetíu lengra inn á georgískt yfirráðasvæði. Þá telur kærunefnd að gögn málsins styðji frásögn kæranda um handahófskenndar handtökur rússneskra hermanna og landamæravarða á georgískum borgunum sem staddir séu á eða við umrædd stjórnsýslumörk. Ennfremur telur kærunefnd að leggja megi til grundvallar að rússneskir hermenn hafi í einhverjum mæli áreitt, hótað og beitt ofbeldi gagnvart georgískum ríkisborgurum sem staddir séu við stjórnsýslumörkin. Þá fær sú frásögn kæranda um að ræktarland og uppskera í eigu fjölskyldu maka hennar hafi verið skemmd og tekin ófrjálsri hendi af rússneskum hermönnum stoð í þeim skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér. 

Nefndin er þeirrar skoðunar að frásögn kæranda beri það með sér að hún hafi sætt eða hafi með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún muni sæta ofsóknum af hálfu rússneskra hermanna sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Ofsóknirnar megi rekja til þjóðernis kæranda sem georgísks ríkisborgara sem búi í grennd við stjórnsýslumörk Georgíu og Suður-Ossetíu, sbr. c. liður 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, sem og stöðu maka hennar sem fyrrum hermanns. Kærunefnd telur að þó þeir aðilar sem valdir séu að ofsóknunum og því ofbeldi sem kærandi varð fyrir eða á hættu á að verða fyrir teljist ekki vera á vegum georgískra stjórnvalda hafi á nægilega skýran hátt verið sýnt fram á að georgíska ríkið hafi ekki eða geti ekki veitt kæranda vernd, sbr. c. lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur niðurstöðu Útlendingastofnunar um að kærandi geti leitað sér verndar georgískra yfirvalda vegna ágangs eða ofsókna rússneskra hermanna á stjórnsýslumörkunum við Suður-Ossetíu ekki eiga sér stoð í gögnum sem stofnuninni bar að kynna sér. Að þessu virtu er það mat kærunefndar að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu alþjóðlegrar verndar. Kemur því næst til athugunar hvort innri flutningur sé tækt úrræði fyrir kæranda og hvort útilokunarástæður eigi við í málinu.

Mat á möguleika á flutningi innanlands

Í 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga segir að ef útlendingur getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimalands síns en hann flúði frá, viðkomandi getur ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt og hægt er með sanngirni að ætlast til þess af viðkomandi að hann setjist að á því svæði getur verið að 1. og 2. mgr. eigi ekki við í þeim tilvikum og hann teljist ekki flóttamaður. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga segir m.a. að beiting ákvæðisins geti aðeins komið til sem hluti af mati á því hvort viðkomandi einstaklingur teljist flóttamaður og geti því ekki verið grundvöllur fyrir synjun á því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Niðurstaða um hvort útlendingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta heimaríkis geti aðeins verið byggð á einstaklingsbundnu mati á persónulegum aðstæðum útlendingsins og aðstæðum sem séu í því ríki. Við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að útlendingur setjist að á því svæði sem talið er öruggt samkvæmt ákvæði þessu skuli tekið tillit til ýmissa þátta, svo sem aldurs, kyns, heilsu, fjölskylduaðstæðna, trúar, menningar sem og möguleika viðkomandi útlendings á vinnu eða menntun. Við mat samkvæmt ákvæðinu skuli m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Guidelines on International Protection: „Internal Flight or Relocation Alternative“ within the Context og Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relating to the Status of Refugees, frá 23. júlí 2003).

Í leiðbeiningunum, sem varða möguleika á flutningi innanlands þegar einstaklingur hefur flúið heimaríki af ástæðuríkum ótta við ofsóknir, er lagt til grundvallar að mat á því hvort möguleiki sé á að einstaklingur geti flust búferlum til annars svæðis í heimaríki sé tvíþætt. Annars vegar verði að kanna hvort flutningur innanlands sé raunhæft úrræði. Að því er mál kæranda varðar kemur í þessu sambandi einkum til athugunar hvort það svæði sem lagt er til að hún flytjist til sé aðgengilegt á öruggan og löglegan hátt og hvort flutningur hennar þangað skapi hættu á að kærandi verði fyrir ofsóknum eða alvarlegum skaða. Hins vegar beri að kanna hvort viðkomandi geti, með hliðsjón af aðstæðum í heimaríki hans, lifað tiltölulega eðlilegu lífi án þess að standa frammi fyrir óþarfa erfiðleikum. Við þann þátt matsins verður m.a. að horfa til persónulegra aðstæðna viðkomandi, t.a.m. félags- og efnahagslegra aðstæðna á því svæði sem lagt er til. Í leiðbeiningunum segir m.a. um síðastnefnt atriði að það sé ósanngjarnt að ætlast til þess að lífsviðurværi einstaklings verði lægra en það sem talist geti viðunandi eða að viðkomandi búi við eymd.

Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér kemur fram að sú spenna sem ríki í Georgíu eftir átök þess við Rússland árið 2008 sé staðbundin við svæðin Suður-Ossetíu og Abkhaziu og stjórnsýslumörk þeirra við Georgíu. Á hinn bóginn geti georgísk yfirvöld almennt verndað grundvallarmannréttindi ríkisborgara sinna gagnvart rússneskum hermönnum á öðrum svæðum í Georgíu. Að mati kærunefndar bendir ekkert til þess að önnur svæði í heimaríki kæranda, sem eru undir stjórn georgískra yfirvalda, séu henni ekki aðgengileg á raunhæfan, öruggan og löglegan hátt.

Nefndin telur því að flutningur kæranda innanlands til slíkra svæða sé ekki til þess fallinn að skapa henni hættu á að verða fyrir ofsóknum eða alvarlegum skaða. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að flutningur innanlands komi til álita í máli kæranda. Að uppfylltu fyrra skilyrði við mat á möguleika á flutningi innanlands verður því næst að taka afstöðu til þess hvort unnt sé, með hliðsjón af einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda og aðstæðum hennar í heimaríki, að ætlast með sanngirni til þess að kærandi setjist að á öðru svæði í Georgíu.

Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 1. nóvember 2017 að það væri auðséð að margir öruggir staðir væru í Georgíu þar sem fólk lifði friðsælu lífi. Hins vegar gæti kærandi ekki flutt þangað þar sem slíkt útheimti fjármagn og enga aðstoð væri að fá frá yfirvöldum. Í viðtali hjá kærunefnd þann 1. mars 2018 útskýrði kærandi að vegna ástandsins í heimabæ hennar vildi enginn kaupa fasteign eða land fjölskyldunnar. Eignir þeirra væru því verðlausar og ómögulegt fyrir fjölskylduna að koma sér fyrir á öðrum stað. Aðrir íbúar sem hafi flúið frá Tsitelubani hafi t.d. átt fasteignir fyrir í Adjara. Þá geti systir kæranda sem búi í bænum Chiatura ekki veitt fleiri einstaklingum húsaskjól og aðra aðstoð, en börn kæranda dvelji þegar hjá henni.

Kærunefnd dregur ekki í efa að sú fasteign og eða það land sem fjölskylda maka kæranda á kunni að vera lítils virði eða verðlaus. Því geti það reynst erfitt eða ómögulegt fyrir kæranda eða maka hennar að selja fasteignina og landið í þeim tilgangi að afla nægilegs fjár til kaupa á fasteign á öðrum stað í Georgíu. Ljóst sé að flytjist kærandi á brott frá Tsitelubani geti hún staðið frammi fyrir vissum efnahagslegum áskorunum hvað varðar húsnæði sem og t.d. möguleika á atvinnu. Kærunefnd telur aftur á móti að þær áskoranir séu ekki þess eðlis að það sé ósanngjarnt að ætlast til þess að kærandi setjist að á öðru svæði í Georgíu. Hefur nefndin þá m.a. litið til þess að kærandi er frá Chiatura í Georgíu og á þar nokkurt tengslanet, en börn hennar og maka dvelja þar hjá systur hennar. Þá liggur fyrir að kærandi er ung að árum og að maki hennar hefur haft atvinnu síðustu ár. Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað kemur einnig fram að félagslega kerfið í Georgíu tryggi einstaklingum sem þurfi á að halda fjárhagsaðstoð frá ríkinu. Félagsleg aðstoð sé veitt til þeirra sem á þurfi að halda og eigi í miklum erfiðleikum og miði hún sérstaklega að því að styrkja efnahagslega stöðu þeirra sem séu verst settir.

Þá kemur jafnframt fram að georgíska ríkið hafi unnið að því á undanförnum árum að draga úr fátækt og auka hagvöxt í Georgíu og bæta þannig félagslegar aðstæður og lífskjör þjóðarinnar. Almannatryggingakerfi ríkisins feli m.a. í sér að greiða atvinnuleysisbætur, fjölga störfum í landinu, þjálfa einstaklinga fyrir atvinnulífið, greiða sjúkratryggingar, félagslega aðstoð og fjölga íbúðum. Þá tryggi félagslega kerfið fjárhagsaðstoð til efnaminni barnafjölskyldna, fæðingarorlof, meðlagsgreiðslur til einstæðra foreldra og foreldrum á vinnumarkaði sé veitt aðstoð við umönnun barna þeirra. Þá sé öllum börnum tryggð í lögum endurgjaldslaus menntun. Samhliða almannatryggingakerfi ríkisins séu einnig starfrækt frjáls mannúðar- og félagasamtök í Georgíu, rekin af innlendum og erlendum aðilum, sem veiti einstaklingum m.a. mat, fatnað og aðrar nauðsynjar og séu þau aðgengileg öllum hópum samfélagsins. Þá stendur íbúum í Georgíu til boða heilbrigðisþjónusta. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að skilyrði 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt og kærandi teljist því ekki flóttamaður.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi teljist ekki flóttamaður á hún ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 4. mgr. 37. gr. og 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga um útlendinga segir m.a. að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þá geti ákvæðið einnig tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki, en ekki yrði að jafnaði talið að ákvæðið tæki til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts.

Málsatvik hafa þegar verið rakin en kærandi byggir á því að yfirvöld í heimaríki hennar séu ekki fær um að vernda hana fyrir ágangi Rússa. Staða kæranda sé sérstaklega slæm þar sem maki hennar hafi áður þjónað í georgíska hernum og sæti því ofsóknum. Þá hefur kærandi jafnframt borið því við að kæranda eða maka hennar sé ómögulegt að selja eignir fjölskyldu sinnar og flytjast á brott frá heimabæ sínum. Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum að baki 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og í ljósi þess að kærandi hefur raunhæfan og sanngjarnan möguleika á að flytjast til annarra landshluta innanlands og njóta þar verndar stjórnvalda er það mat kærunefndar að aðstæður hennar hvað varðar framangreint teljist ekki uppfylla skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis af mannúðarsjónarmiðum. 

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun sagði kæranda að hún hafi lifað í stanslausum ótta í heimaríki sínu og heilsufari hennar því hrakað. Kærandi hafi glímt við veikindi og þurft að leggjast inn á spítala hér á landi. Ekki sé fyllilega ljóst hvað ami að. Með greinargerð kæranda hafi fylgt ýmis gögn úr sjúkraskrá hennar hérlendis. Af þeim gögnum verður af ráðið að kærandi hafi m.a. lagst inn á kvennadeild Landspítalans vegna sára á kynfærum og erfiðleika með þvaglát. Í skjali úr bráðamóttökuskrá Landspítalans, dags. 22. desember 2017, kemur m.a. fram að kærandi hafi verið með hita, mikinn höfuðverk og fundist sárt að anda. Þá segir í skjali, dags. 24. desember 2017, úr sjúkraskrá, að kærandi sé á sýklameðferð við nýrnasýkingu (pyelonephritis) og finni mikið til við þvaglát. Samkvæmt skjali, dags. 28. desember 2017, frá göngudeild þvagfæra, gekkst kærandi undir blöðruspeglun. Í göngudeildarnótu, dags. þann sama dag, frá sömu deild, segir m.a. að blöðruspeglun hafi verið eðlileg en kærandi hafi verið í eftirliti vegna sára á kynfærum. Kærandi eigi pantaðan tíma á göngudeild kvenna á nýju ári. Í læknisvottorði, dags. 1. febrúar 2018, segir m.a. að kærandi hafi fenginn mikinn hita í desember og reynst vera með þvagfærasýkingu sem hafi verið komin upp í nýrað og þurft að fá sýklalyf í æð. Kærandi hafi einnig farið í uppvinnslu hjá kvensjúkdómalæknum vegna sára og flipa á kynfærum, farið í nokkrar skoðanir og prufur og komið í ljós að um hafi verið að ræða góðkynja breytingar.

Í ofangreindum gögnum um aðstæður í Georgíu kemur fram að það hafi allir rétt á heilbrigðisþjónustu og að ekki megi mismuna einstaklingum er þurfa á slíkri aðstoð að halda á grundvelli eignastöðu. Þá geti þeir sem lifi undir fátæktarmörkum fengið aðstoð við að kaupa sjúkdómatryggingu. Með vísan til framburðar og gagna kæranda er ljóst að kærandi er ekki í meðferð hér á landi sem er óforsvaranlegt að rjúfa. Kærunefnd telur, með vísan til þess sem komið hefur fram að framan og á grundvelli heilstæðs mats á aðstæðum hennar að hún hafi ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd vegna heilsufars.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 28. ágúst 2017 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hennar um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hennar hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi hefur glímt við talsverð veikindi og m.a. þurft að leggjast inn á spítala hér á landi. Þá kemur kærandi frá nokkuð óstöðugu svæði í Georgíu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Kæranda er leiðbeint um að í 5. málsl. 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga segir að útlendingur skuli tilkynna Útlendingastofnun um fyrirhugaða brottför sína og leggja fram sönnun þess að hann hafi yfirgefið landið. Þar segir jafnframt að ef útlendingurinn fer ekki úr landi svo sem fyrir hann er lagt eða líkur eru á að hann muni ekki fara sjálfviljugur má lögregla færa hann úr landi. Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa henni. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave Iceland voluntarily.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                        Pétur Dam Leifsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum