Hoppa yfir valmynd
30. október 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 515/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 30. október 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 515/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19070048

 

Kæra […]

og barna hennar

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 22. júlí 2019 kærði kona sem kveðst heita […], vera fædd […], vera ríkisborgari Írak (hér eftir nefnd kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 2. júlí 2019 um að synja kæranda og börnum, […], fd. […] (hér eftir A), og […], fd. […] (hér eftir B) um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og þeim verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og þeim verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 17. ágúst 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 2. og 6. maí 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 2. júlí 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda og börnum hennar um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 22. júlí 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 13. ágúst 2019 ásamt fylgigögnum. Þá bárust viðbótargögn þann 16. ágúst sl. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 8. október 2019. Kærunefnd bárust viðbótargögn frá kæranda þann 23. október 2019.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í málum barna kæranda kom fram að þau væru svo ung að árum að ekki yrði talið tilefni til að taka viðtal við þau. Fram kom að umsóknir barna kæranda væru grundvallaðar á framburði móður þeirra og henni hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli móður þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, útlendingalaga og barnaverndarlaga, að hagsmunum barna kæranda væri ekki stefnt í hættu fylgdu þau móður sinni til heimaríkis. Börnum kæranda var vísað frá landinu.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til framburðar hennar í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Í viðtölunum hafi hún greint frá því að vera fædd og uppalin í Sulaymaniyah í Kúrdistan í Írak. Kærandi hafi lagt á flótta vegna atvika sem rekja mætti til deilna á milli hennar fjölskyldu og annarrar fjölskyldu. Deilurnar hafi leitt til þess að þvinga átti kæranda í hjónaband með manni sem hún vildi ekki giftast. Sá maður, […] að nafni, hafi hótað kæranda og börnum hennar lífláti, m.a. með því að siga meðlimum samtakanna sem kenna sig við íslamska ríkið (ISIS) á kæranda. Umræddar deilur hafi átt sér stað árið 1987 og hafi faðir kæranda skaðað einstakling í annarri fjölskyldu, mann að nafni […], en hann hafi misst báða fæturna. Í kjölfarið hafi fjölskyldurnar gert með sér samkomulag sem hafi m.a. falið í sér að kærandi skyldi giftast inn í þá fjölskyldu, eða bróðursyni […], fyrrnefndum […]. Þegar samkomulagið hafi verið gert hafi kærandi verið ársgömul. Á fullorðinsárum hafi kærandi síðan neitað að giftast […] enda hafi hann t.a.m. verið trúlofaður frænku sinni. Hafi faðir […] samþykkt að hætt yrði við hjónaband þeirra en […] hafi verið því ósammála.

Árið 2010 hafi kærandi gifst manni að nafni […] en hann hafi ýmist verið búsettur í Bretlandi eða með kæranda í heimaríki. Faðir […] hafi látist árið 2015 og í framhaldinu hafi […] farið að valda kæranda vandamálum á ný og viljað ná fram hefndum. Eftir að faðir kæranda hafi látist árið 2016 hafi […] hótað kæranda og krafist þess að hún myndi skilja við eiginmann sinn og giftast […], sem hafi þá verið fráskilinn. Kærandi hafi sagt upp starfi sínu í Sulaymaniyah og flust til Kirkuk. Kærandi kveður […] hafa tengsl við PUK-stjórnmálaflokkinn og að í Kirkuk hafi einstaklingar tengdir flokknum hótað kæranda og sagt henni að yfirgefa eiginmann sinn og giftast […]. Eftir að […] hafi hótað að drepa eiginmann kæranda og börn þeirra hafi kærandi flutt í annað hverfi í Kirkuk, Domyz. Það hverfi hafi hins vegar ekki verið öruggt og mikið um sprengingar og einstaklinga sem hafi aðstoðað ISIS hryðjuverkasamtökin. Kærandi hafi í kjölfarið lagt á flótta og haldið til Tyrklands, en snúið aftur til heimaríkis til að eiga annað barn sitt. Skömmu síðar hafi hún fengið símtal frá […] þar sem hann hafi hótað henni, m.a. með því að siga ISIS liðum á hana. Nokkrum dögum síðar hafi tveir ISIS liðar komið á heimili hennar og sagt henni og börnum hennar að koma með þeim. Kærandi hafi streist á móti og mennirnir á endanum farið. […] hafi síðar hringt í kæranda og tjáð henni að hann hefði sent mennina og hótað kæranda og börnum hennar lífláti. Í kjölfarið hafi kærandi lagt aftur á flótta.

Í greinargerð vísar kærandi til umfjöllunar í greinargerð hennar til Útlendingastofnunar að því er varðar almennar aðstæður í heimaríki hennar. Kemur þar m.a. fram að árið 2014 hafi hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamska ríkið lagt undir sig stór landsvæði í norður- og vesturhluta Írak og hafi um langt skeið gengið fram með ofbeldi, morðum og mannránum. Bendi nýjustu heimildir til þess að ISIS ráði ekki lengur yfir neinu landsvæði í Írak en að liðsmenn samtakanna ferðist hins vegar óáreittir um afskekktari og dreifbýl svæði í landinu, m.a. Kirkuk, þar sem öryggissveitir stjórnvalda hafi takmarkaða viðveru. Þá kveði heimildir á um að samtökin hafi yfir að ráða svokölluðum „sleeper cells“ í Kirkuk og í þorpum í nágrenni þeirra. Samkvæmt nýjustu skýrslu flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sé enn hætta á árásum hryðjuverkasamtakanna í Kúrdistan. Byggir kærandi á því að að með vísan til framangreinds sé öryggisástandið ennþá óstöðugt í heimaríki kæranda. Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum hafi tæplega 100 almennir borgarar fallið á árunum 2017 og 2018, en heimildir beri með sér að raunverulegar tölur séu mun hærri. Þótt árásum ISIS í Kirkuk hafi fækkað á árinu 2018 sé héraðið enn eitt helsta árásarsvæði samtakanna og skeri sig að því leyti úr samanborið við önnur svæði í Írak. Kemur fram að á fyrsta ársfjórðungi 2018 hafi 39 árásir verið gerðar að meðaltali á mánuði.

Í fyrrnefndri skýrslu Sameinuðu þjóðanna komi jafnframt fram að konur sem hafi verið þvingaðar í hjónaband eða eigi á hættu að verða þvingaðar í hjónaband séu sérstaklega nefndar sem dæmi um einstaklinga sem kunni að hafa þörf fyrir alþjóðlega vernd. Kærandi vísar einnig til þess að Útlendingastofnun hafi nýlega veitt einstaklingum alþjóðlega vernd hér á landi á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vegna slæms öryggisástands í Kirkuk. Þá vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála frá júní 2018 þar sem fram komi það mat nefndarinnar að þegar teknar séu ákvarðanir um endursendingar til Írak sé mikilvægt að leggja mat á aðstæður í þeim landshluta sem senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til, en ekki eingöngu á aðstæðum í landinu almennt. Kærandi vísar til frásagnar sinnar um þvingað hjónaband og hótanir um ofbeldi af hálfu mannsins og telur að heimfæra megi aðstæður hennar að þessu leyti undir hugtakið heiðursglæp. Eigi heiðursglæpir m.a. rót að rekja til þess að konur séu álitnar eign fjölskyldunnar og að karlkyns fjölskyldumeðlimir geti stjórnað því hverjum þær giftast. Sé kona talin ganga gegn heiðri fjölskyldunnar kann hún að vera myrt í því skyni að endurvekja heiður fjölskyldunnar. Heimildir beri með sér að heiðurstengt ofbeldi sé algengt meðal Kúrda í Írak og að slíkir glæpir hafi aukist töluvert á undanförnum árum. Þá sé heiðurstengt ofbeldi ekki tekið alvarlega af yfirvöldum.

Í greinargerð kæranda til kærunefndar gerir kærandi margvíslegar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hennar. Vísar kærandi til þess að Útlendingastofnun hafi talið að kærandi hafi ekki leitt líkur að því að hafa búið í Kirkuk. Fram kemur að kærandi hafi nú lagt fram skilríki sem sýni fram á búsetu hennar í Kirkuk. Þá telur kærandi að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi tilefni til að draga frásögn hennar í efa. Kærandi gerir jafnframt alvarlegar athugasemdir við túlkun Útlendingastofnunar á landaupplýsingum í Írak og áréttar umfjöllun um aðstæður í Kirkuk. Vísar kærandi í alþjóðlegar skýrslur um aðstæður í Kúrdistan, en þar komi m.a. fram að kúrdíska réttarkerfið sé undir pólitískum þrýstingi og að mjög erfitt sé fyrir einstaklinga að leita réttar síns á eigin spýtur án nokkurra tengsla. Þá séu stjórnvöld á svæðinu fyrst og fremst upptekin af pólitískum átökum og valdabaráttu á milli mismunandi stjórnmálaafla og þjóðfélagshópa í landinu og skeyti litlu um að gæta öryggis almennra borgara eða aðstoða þá, nema að því marki sem það hentar meðlimum og bandamönnum þeirra sjálfra.

Kærandi vísar enn fremur til handbókar flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna, en í handbókinni segi m.a. að við ákvörðun um stöðu flóttamanns beri fyrst og fremst að leggja mat á framburð umsækjanda. Byggir kærandi á því að frásögn hennar sé í fullkomnu samræmi við opinberar heimildir um ástand mála í Írak. Niðurstaða Útlendingastofnunar hafi hins vegar verið byggð á því að kærandi hafi ekki lagt fram gögn til að sanna þær ofsóknir sem hún óttist í heimaríki. Ljóst sé að kærandi hafi ekki verið látin njóta vafans við meðferð málsins líkt og lög geri ráð fyrir. Kveður kærandi að henni hafi aðeins borist hótanir munnlega og því geti hún ekki lagt fram gögn til stuðnings frásögn sinni. Framburður hennar hafi verið skýr og hafi ekkert komið fram sem gefi tilefni til að draga frásögn hennar í efa. Byggir kærandi með vísan til framangreinds á því að líf hennar og frelsi sé í hættu við endursendingu til Íraks, annars vegar vegna þeirra ofsókna sem hún sæti í Sulaymaniyah og hins vegar vegna almenns hættuástands í heimahéraði hennar Kirkuk.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún telji eiginmann sinn ósáttan við að hún hafi tekið það upp hjá sjálfri sér að flýja með börnin, án samráðs við hann. Telur kærandi að af þeirri ástæðu hafi hann ekki reynt að fá hana eða börnin til Bretlands. Þá hafi eiginmaður hennar einnig verið ósáttur við kæranda fyrir að hafa ekki sagt honum frá umræddum ráðahag sem gerður hafi verið þegar kærandi hafi verið kornabarn. Kærandi líti á sig sem einstæða móður vegna afskiptaleysis eiginmanns síns og takmarkaðs áhuga hans á að hjálpa henni og börnum þeirra. Af hálfu kæranda er byggt á því að hún, sem einstæð móðir með tvö börn sem hafi orðið fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi, sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki metið hana í sérstaklega viðkvæmri stöðu í ákvörðun sinni í málinu. Þá gerir kærandi athugasemd við að hvergi í hinni kærðu ákvörðun sé fjallað um þá málsástæðu hennar að hún sæti kynbundnum ofsóknum. Kveður kærandi að ótti hennar við kynbundnar ofsóknir sé í fullkomnu samræmi við opinberar og áreiðanlegar heimildir um stöðu kvenna í Írak og möguleika þeirra á vernd gegn kynbundnum ofsóknum og ofbeldi í landinu. Vísar kærandi jafnframt til meginreglunnar um að það sem sé barni fyrir bestu skuli haft að leiðarljósi við töku ákvörðunar sem varðar barn. Gerir kærandi athugasemdir við rökstuðning Útlendingastofnunar í ákvörðunum barna kæranda. Kærandi styður þrautavarakröfu við þau rök að hún sé ung og í viðkvæmri stöðu, en hún og börn hennar þurfi á miklum stuðningi að halda. Þegar aðstæður séu metnar heildstætt sé ljóst að félagslegar aðstæður þeirra séu afar erfiðar. Þá byggir kærandi á því að efnahagsleg og félagsleg staða kvenna í heimaríki hennar sé bágborin, en einnig sé fullljóst að framfærsla barna hennar verði ótrygg í heimaríki verði þau send aftur þangað. Telur kærandi loks að með því að senda hana til Írak myndu íslensk stjórnvöld gerast brotleg við meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sem lögfest sé í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur lagt fram gögn fyrir kærunefnd, m.a. tölvupósta frá Rauða krossinum um að kærandi sé á slæmum stað andlega og skilríki sem kærandi kveður sýna fram að hún hafi verið búsett í Kirkuk. Þá liggur fyrir umsögn frá grunnskólakennara um að skólaganga A hér á landi hafi gengið vel.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt neitt fram sem væri til þess fallið að sanna á henni deili. Leysti stofnunin því úr auðkenni kæranda á grundvelli mats á trúverðugleika. Við meðferð málsins gekkst kærandi undir tungumála- og staðháttapróf. Að teknu tilliti til þess, trúverðugleikamats, frásagnar kæranda og þeirrar staðreyndar að hún talar sorani var það mat Útlendingastofnunar að rétt væri að leggja til grundvallar að hún væri frá Sulaymaniyah í Kúrdistan. Fyrir kærunefnd hefur kærandi lagt fram skilríki sem hún kveður sýna fram á að hún hafi verið búsett í Kirkuk í heimaríki. Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur tilefni til að hnekkja mati Útlendingastofnunar um þetta atriði og verður byggt á því að kærandi og börn hennar séu ríkisborgarar Írak. Að öðru leyti er auðkenni kæranda og barna hennar óljóst.

Réttarstaða barna kæranda

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd móður sinnar og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Írak m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • ·      Anställning och avslutande av tjänst i peshmergan [Irak - KRI] (Migrationsverket, 30. júní 2017);
  • Country Policy and Information Note Iraq: Internal relocation, civil documentation and returns (UK Home Office, 19. febrúar 2019);
  • Country Policy and Information Note Iraq: Security and humanitarian situation (UK Home Office, 19. nóvember 2018);
  • Country Report on Human Rights Practices 2018 - Iraq (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Iraq – Actors of Protection (EASO, nóvember 2018);
  • Kurdistan Region of Iraq (KRI): Women and Men in Honour-Related Conflicts (Danish Immigration Service, 9. nóvember 2018);
  • Country Policy and Information Note, Iraq: Kurdish “honour” crimes (UK. Home Office, ágúst 2017);
  • Freedom in the World 2017 - Iraq (Freedom House, 2. júní 2017);
  • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing the Republic of Iraq (UNCHR, maí 2019);
  • Iraq - Security situation. EASO Country of Origin Information Report (EASO, 1. mars 2019);
  • Iraq - Targeting of Individuals (EASO, 7. mars 2019);
  • Irak: Basisinfo (Landinfo, 6. janúar 2016);
  • Irak – desertering (Migrationsverket, 12. janúar 2018);
  • Irak: Politi og rettsvesen i de tre kurdiskstyrte provinsene (KRI) (Landinfo, 27. október 2016);
  • 2018 Country Reports on Human Rights Practices: Iraq (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • Iraq: Relevant COI for Assessments on the Availability of an Internal Flight or Relocation Alternative (IFA/IRA) (UNHCR, 12. apríl 2017);
  • Kurdistan Region of Iraq (KRI) - Report on issuance of the new Iraqi ID card (Udlændingestyrelsen, 5. nóvember 2018);
  • Northern Iraq - Security situation and the situation for internally displaced persons (IDPs) in the disputed areas, incl. possibility to enter and access the Kurdistan Region of Iraq (KRI) (Udlændingestyrelsen, 5. nóvember 2018);
  • Rättsligt ställningstagande angående situationen i Irak (Migrationsverket, 19. janúar 2018);
  • Thematic report: The Security Situation in Iraq-July 2016-November 2017 (version 4.0) (Migrationsverket, 18. desember 2017);
  • Initiatives to Improve Quality of Education in the Kurdistan Region – Iraq: Administration, School Monitoring, Private School Policies, and Teacher Training (Kurdistan Regional Government, Ministry of Planning, Ministry of Education, 2016);
  • The Kurdistan Region of Iraq (KRI) Access, Possibility of Protection, Security and Humanitarian Situation (Danish Immigration Service, 1. apríl 2016) og
  • UNHCR position on returns to Iraq (UNHCR, 14. nóvember 2016).

Samkvæmt framangreindum gögnum er Írak lýðræðisríki með tæplega 40 milljónir íbúa. Írak varð til eftir fyrri heimsstyrjöldina þegar Þjóðabandalagið ákvarðaði núverandi landamæri Íraks. Ríkið var breskt yfirráðasvæði fram til ársins 1932, þá tók við tímabil sem einkenndist af pólitískum óstöðugleika sem lauk árið 1958 þegar komið var á fót lýðveldi. Árið 1945 gerðist Írak aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1986, alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið 2010 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2011.

Í framangreindum gögnum kemur fram að frá árinu 1968 til 2003 hafi Írak verið alræðisríki sem hafi lotið stjórn Ba‘ath-flokksins. Stjórn flokksins hafi verið steypt af stóli í kjölfar innrásar bandaríska hersins og bandamanna þeirra í Írak árið 2003. Frá innrásinni hafi ástandið á mörgum svæðum í Írak verið óstöðugt. Hafi samtök sem kenna sig við íslamskt ríki (Daesh) hafið uppreisn árið 2014 og náð undir sig stórum landsvæðum. Frá þeim tíma hafi íröksk stjórnvöld, með aðstoð alþjóðasamfélagsins, náð miklum árangri í að ná aftur fullri stjórn yfir ríkinu þótt enn séu lítil svæði í vesturhluta landsins sem uppreisnarmenn hafi á valdi sínu. Þá hafi íröksk yfirvöld ekki fulla stjórn yfir hersveitum sínum og dæmi séu um að hersveitir á vegum yfirvalda fremji mannréttindabrot gegn almennum borgurum, þ. á m. ólögmætar aftökur og pyndingar í varðhaldi. Alvarleg mannréttindabrot og brot á mannúðarlögum hafi haft mikil áhrif á almenna borgara á þeim svæðum í Írak sem átökin hafi náð til. Af þeim sökum hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum Íraka frá þeim svæðum þar sem átök geisi og þar sem ástandið sé óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh. Þá sé það mat stofnunarinnar að vegna almenns ástands í Írak, þ.m.t. vegna fjölda þeirra sem hafi þurft að flýja innanlands, sé í miklum meirihluta mála ekki grundvöllur til að líta svo á að Írakar frá þessum svæðum geti notið verndar í öðrum hlutum landsins.

Ráða má af framangreindum gögnum að spilling sé mikið vandamál í Írak, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Á tímabilinu 2005 til 2014 hafi íröksk stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist The European Union Integrated Rule of Law Mission for Iraq (EUJUST-LEX-Iraq) og hafi m.a. 1800 lögreglumenn og 900 dómarar undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd. Bera gögnin með sér að yfirvöld í Kúrdistan séu í stakk búin til að geta veitt fullnægjandi vernd en að aðgengi að réttarkerfinu geti þó verið háð ýmsum atriðum, svo sem trúarskoðunum, ættbálkastöðu og tengslaneti viðkomandi.

Í framangreindum gögnum kemur þá fram að flestir Kúrdar í Írak búi í norðurhluta landsins. Áður en ráðist hafi verið inn í Írak árið 2003 hafi héruð í norðurhluta landsins lotið stjórn pólitískra yfirvalda Kúrda. Árið 2005 hafi Kúrdum verið tryggð svæðisbundin sjálfstjórn í stjórnarskrá Íraks og sé norðausturhluti landsins skilgreindur sem sjálfsstjórnarhérað Kúrda (e. Kurdish Region of Iraq (KRI)). Löggæsla sé mun markvissari í KRI, sé það landsvæði borið saman við suður- og mið-Írak. Stofnanir eins og lögregla, saksóknari, dómstólar og fangelsi séu til staðar á svæðinu og heyri þær undir svæðisstjórn Kúrda en ekki ríkisstjórn Íraks. Fyrir utan hefðbundna lögreglu sé KRI einnig með öryggissveitir sem nefnist Asayish. Hersveitir kúrdíska hersins, Peshmerga, tryggi að sjálfsstjórnarhéruð Kúrda séu tiltölulega örugg miðað við önnur svæði í Írak. Her Kúrda og öryggissveitir þeirra hafi unnið hörðum höndum við að verja svæðið gegn uppreisnarmönnum Daesh og annarra tengdra samtaka.

Af framangreindum gögnum má ráða að á undanförnum árum og áratugum hafi verið spenna milli Kúrda og stjórnvalda í Írak. Meðal annars hafi verið deilt um stærð þess svæðis sem lúti sjálfsstjórn Kúrda. Þann 25. september 2017 hafi farið fram atkvæðagreiðsla meðal íbúa KRI að tilstuðlan forseta KRI þar sem kosið hafi verið um stofnun sjálfstæðs ríkis KRI. Íröksk stjórnvöld hafi mótmælt atkvæðagreiðslunni og hafi ekki viðurkennt niðurstöður kosninganna. Tæplega 93% kjósenda hafi kosið með sjálfstæði en fréttir hafi borist af því að minnihlutahópar á deilusvæðum hafi verið beittir miklum þrýstingi til að kjósa annaðhvort með eða á móti. Í kjölfar kosninganna hafi írakski stjórnarherinn tekið aftur stjórn yfir ytri landamærum Írak innan KRI og landsvæðum sem hafi verið undir stjórn kúrdískra yfirvalda frá árinu 2014, þ. á m. borgina Kirkuk. Þá hafi forseti KRI sagt af sér í nóvember 2017. Áratugum saman hafi tveir stjórnmálaflokkar verið ráðandi í KRIen það séu PUK flokkurinn (e. The Patriotic Union of Kurdistan) og KDP flokkurinn (e. The Kurdistan Democratic Party). Í september 2013 hafi orðið talsverðar breytingar þegar PUK flokkurinn hafi misst stöðu sína sem næststærsti flokkurinn til klofningsframboðsins Gorran (e. The Movement for Change). Í kosningum sem fram fóru þann 30. september 2018 hafi PUK flokkurinn endurheimt stöðu sína sem annar stærsti flokkurinn og KDP flokkurinn haldið stöðu sinni sem stærsti flokkurinn í KRI. Samband PUK flokksins og KDP hafi jafnan verið stirt og einkennst af vantrausti sem og vopnuðum átökum.

Í framangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að heiðurstengt ofbeldi sé refsivert samkvæmt landslögum þá sé það nokkuð útbreitt í menningu KRI. Heiðursmorð sé yfirleitt morð á kvenkyns ættingja sem framið sé í því skyni að endurheimta heiður fjölskyldunnar þar sem þolandinn hafi á einhvern hátt vanvirt fjölskylduna. Írakar tilheyri mismunandi ættbálkum og lifi eftir fornum ættbálkasiðum, venjum og lögum, en hefðbundin fjölskyldugildi séu rótgróin í menningunni. Séu konur í miklum meirihluta þeirra sem verði þolendur heiðursglæpa og þá yfirleitt fyrir að hafa, að mati fjölskyldna þeirra, fært skömm yfir fjölskylduna með einhverjum hætti. Gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda enn fremur til þess að í Kúrdistan sé þekkt að konur séu neyddar í hjónabönd af ýmsum ástæðum.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd er byggð á því að henni stafi ógn af manni í heimaríki hennar, […] að nafni, en hún geti ekki leitað til yfirvalda af ótta við […] og stöðu hans innan PUK-stjórnmálaflokksins. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi hafa sætt ítrekuðum hótunum af hálfu […]. Þá hafi hún í tvígang orðið fyrir ofbeldi af hálfu manna á vegum […] auk þess sem menn, sem kennt hafi sig við ISIS-hryðjuverkasamtökin, hafi komið á heimili hennar og ætlað að nema hana og börn hennar á brott. Hafi […] tjáð kæranda að hann hafi sent mennina á heimili hennar, en kærandi hafi í kjölfarið lagt á flótta. Kærunefnd boðaði kæranda í viðtal hjá nefndinni, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga, sem fór fram þann 8. október 2019.

Í viðtalinu var kærandi m.a. spurð um fyrrgreinda sátt sem gerð hafi verið á milli fjölskyldu hennar og föðurbróður […]. Greindi kærandi frá því að fyrir um 30 árum hafi fjölskylda hennar átt í deilum við aðra fjölskyldu vegna landsvæðis sem hafi endað með því að faðir hennar hafi skaðað mann í hinni fjölskyldunni. Kvað kærandi að í heimaríki hennar væru stúlkur gefnar „í blóði“ til að sætta deiluaðila. Kærandi hafi verið gefin „í blóði“ til bróðursonar mannsins, […], til að binda enda á deiluna. Í frásögn kæranda kom fram að þetta fyrirkomulag væri eðlilegt í menningu heimaríkis hennar og að hún hafi þá verið trúarlega gift […]. Á meðan skólagöngu kæranda hafi staðið hafi hún lýst þeirri skoðun sinni að hún vildi ekki giftast […] og hafi faðir hennar stutt þá ákvörðun. Kærandi hafi síðar kynnst núverandi eiginmanni sínum, […], en hann hafi starfað í Bretlandi og dvalið ýmist þar eða með kæranda í Kirkuk í heimaríki hennar. Kærandi kvaðst hafa búið í Kirkuk en unnið á fimm daga fresti á spítala í Sulaymaniyah í Kúrdistan. Þá hafi hún jafnan dvalið hjá fjölskyldu sinni í Sulaymaniyah þegar eiginmaður hennar hafi verið í burtu. Þrátt fyrir gögn um að kærandi hafi gengið að eiga eiginmann sinn í Kirkuk og að þau hafi þar átt sameiginlegt heimili kvaðst kærandi vera fædd og uppalin í Sulaymaniyah og hafi líkt og áður kemur fram búið þar fram að hjúskap þeirra og að miklu leyti eftir hjúskapinn vegna atvinnu sinnar og stuðnings fjölskyldu sinnar. Verður því lagt til grundvallar að Sulaymaniyah en ekki Kirkuk sé heimaborg kæranda.

Í viðtali kæranda hjá kærunefnd greindi kærandi frá því að eiginmaður hennar væri breskur ríkisborgari og lagði hún jafnframt fram afrit af vegabréfi hans þar sem kemur fram að hann sé breskur ríkisborgari. Samband þeirra hafi versnað eftir að […] hafi komist að því að kærandi hafi verið lofuð […] og að samskipti þeirra lytu einungis að börnum þeirra. Aðspurð um stöðu […] innan PUK-stjórnmálaflokksins kvað kærandi hann vera háttsettan og með lífverði. Eftir að faðir hennar hafi látist hafi […] hótað henni símleiðis og lífverðir hans einnig. Kærandi hafi hins vegar ekki leitað til lögreglu þar sem hún gerði ekkert í málum þar sem um háttsetta aðila væri að ræða. Í máli kæranda kom fram að eftir fæðingu yngra barns hennar hafi […] aftur hótað henni í gegnum síma. Síðar hafi tveir menn komið á heimili hennar og bendlað sig við ISIS-hryðjuverkasamtökin, en kærandi kvaðst í viðtalinu ekki vita hvort þeir hafi í raun verið liðsmenn samtakanna. Í viðtalinu lýsti kærandi ástandinu í heimaríki hennar sem slæmu, en þar gætu háttsettir menn t.a.m. myrt eiginkonur sínar án þess að sæta afleiðingum gjörða sinna.

Kærandi hefur hvorki lagt fram gögn sem styðja við frásögn af hótunum í hennar garð né að fyrrnefndur […] sé háttsettur innan PUK stjórnmálaflokksins í Kúrdistan. Í greinargerð byggir kærandi á því að þar sem henni hafi einungis borist munnlegar hótanir geti hún ekki lagt fram gögn þess efnis. Vísar kærandi m.a. til handbókar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna, en þar segi m.a. að í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem umsækjendur um alþjóðlega vernd séu í, og hversu erfitt geti reynst að leggja fram sannanir, beri að gera minni kröfur um sönnunarfærslu en ella. Illmögulegt geti verið fyrir flóttamenn að sanna öll atriði máls síns og því þurfi oft að láta umsækjanda njóta vafans. Telur kærandi að frásögn hennar hafi í öllum atriðum verið skýr og að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi tilefni til að draga í efa frásögn hennar um að hún óttist nefndan […]. Verður frásögn kæranda um það atriði því lagt til grundvallar við úrlausn málsins.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 2. maí 2019 greindi kærandi frá ástæðum þess að hún lagði á flótta, en í frásögn hennar kom m.a. fram að […] starfaði fyrir upplýsingadeild innan PUK. Í viðtali hjá stofnuninni þann 6. maí 2019 var kærandi spurð sérstaklega um hvaða stöðu […] gegndi hjá PUK, en í svari kæranda kom fram að hann væri starfsmaður leyniþjónustudeildar innan PUK, Zanyari. Aðspurð af hverju hún hafi áður sagt að […] væri starfsmaður upplýsingadeildar kvað kærandi að hún hefði alltaf sagt […] vinna fyrir Zanyari og taldi að mistök hefðu átt sér stað við túlkun. Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi jafnframt spurð um stöðu […] innan PUK. Kvað kærandi að hann væri meðlimur PUK og að hann starfaði hjá hersveitum (e. department of armed forces). Hafði kærandi áður greint frá því í viðtalinu að þegar hún hafi átt að giftast […] hafi hann starfað hjá hersveitum í heimaríki.

Samkvæmt framangreindu er frásögn kæranda um stöðu […] innan PUK á reiki, a.m.k. að því leyti hvort […] starfi fyrir leyniþjónustudeild eða hersveitir PUK, sem að mati kærunefndar byggir ekki undir trúverðugleika frásagnar hennar um að hann sé háttsettur einstaklingur innan flokksins. Að mati kærunefndar er ekki ósanngjarnt að gera þá kröfu að kærandi sýni fram á með einhverjum hætti að sá aðili sem hún óttast gegni valdastöðu í heimaríki. Þar sem kærandi hefur ekki lagt fram eða vísað til gagna eða upplýsinga sem renna stoðum undir þá fullyrðingu að […] sé háttsettur í PUK-stjórnmálaflokknum, og að teknu tilliti til misræmis í framburði hennar um hvaða stöðu hann gegnir í flokknum, er það mat kærunefndar að ekki sé unnt að leggja til grundvallar frásögn kæranda um að […] gegni valdastöðu innan PUK-stjórnmálaflokksins eða sé að öðru leyti í stöðu til draga úr möguleikum kæranda á því að fá viðeigandi aðstoð stjórnvalda vegna hótana af hans hálfu.

Þrátt fyrir að kærandi kveði að hún hafi verið lofuð í hjónaband þegar hún hafi verið ungabarn hefur hún ekki borið fyrir sig að hafa sætt þrýstingi af hálfu fjölskyldu sinnar síðar meir um að ganga í hjónaband með […]. Þá verður ekki ráðið af framburði hennar að hún óttist ofbeldi af hálfu fjölskyldu sinnar eða að fjölskylda kæranda telji hana hafa svert heiður fjölskyldunnar. Verður því ekki talið að kærandi eigi á hættu að sæta svonefndu heiðurstengdu ofbeldi vegna þeirrar ákvörðunar að ganga ekki í hjónaband með […].

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa orðið fyrir eða óttast ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi eigi slíkt á hættu. Kærandi kveðst ekki hafa leitað til lögreglu vegna aðstæðna sinna. Kærandi hefur eins og áður segir ekki lagt fram gögn sem styðja þá málsástæðu hennar að […] sé valdamikill maður innan PUK og geti í krafti stöðu sinnar takmarkað aðgengi kæranda að viðeigandi vernd stjórnvalda. Þau gögn og skýrslur um aðstæður í heimaríki kærenda sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar benda ekki til annars en að ætla megi að réttarvörslukerfið þar í landi hafi burði til að veita viðeigandi vernd. Þó fallast megi á að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla í heimaríki kærenda sé að einhverju leyti ábótavant og að gögn um Kúrdistan beri með sér að aðgengi að réttarkerfinu þar geti t.a.m. verið háð ættbálkastöðu og tengslum þess sem þangað leita þá er það niðurstaða kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld í heimaríki kærenda skorti vilja eða getu til að veita henni og börnum hennar viðeigandi aðstoð eða vernd gegn athöfnum sem feli í sér hótanir, áreiti eða ofbeldi, m.a. með því að ákæra og refsa fyrir þær athafnir, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Þá benda þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um réttarvörslukerfið í KRI, þ.m.t. skýrsla dönsku útlendingastofnunarinnar frá 2016, eindregið til þess að lögregla og öryggissveitir í KRI myndu bregðast án tafar við upplýsingum um mögulega virkni ISIS samtakanna innan sjálfsstjórnarsvæðisins.

Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. skal, við mat skv. 1. og 2. mgr. 37. gr. í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi. Í ákvæðinu kemur fram að við það mat beri að líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis barnsins, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í ljósi ungs aldurs A og B taldi Útlendingastofnun ekki þörf á að taka viðtöl við þær. Að mati kærunefndar var sjónarmiðum þeirra nægilega komið á framfæri með framburði foreldra hennar og hagsmunagæslu talsmanns. Leggur kærunefnd því mat á hagsmuni A og B samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, með hliðsjón af upplýsingum úr fyrirliggjandi gögnum málsins og aðstæðum í heimaríki þeirra. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er skólaskylda í Kúrdistan frá 1. til 9. bekk. Bera gögnin með sér að um 95% barna hefji skólagöngu og að 65% ljúki grunnskólanámi. Hafa börn kæranda því greiðan aðgang að menntun í Kúrdistan. Í málinu liggur ekki fyrir að A og B hafi sérþarfir sem taka þurfi tillit til. Þótt kærandi hafi sætt áðurnefndu áreiti liggur ekki annað fyrir en að kærandi hafi getað framfært börnum sínum og séð þeim fyrir húsnæði í heimaríki auk þess sem hún hafi notið aðstoðar fjölskyldu sinnar. Þá bera gögn málsins ekki annað með sér en að kærandi sé við ágæta heilsu og vinnufær, en hún kveðst hafa starfað sem hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsi í heimaríki. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar, að teknu tilliti til sjónarmiða um öryggi, velferð og félagslegan þroska A og B, að það sé þeim fyrir bestu að þær fylgi kæranda til heimaríkis.

Með vísan til alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kærenda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærendur séu í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verði þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kærenda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Kærandi byggir varakröfu á því að hún hafi verið búsett í Kirkuk í heimaríki og að almennar aðstæður þar séu með þeim hætti að veita beri henni vernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hún væri fædd og uppalin í Sulaymaniyah í Kúrdistan. Af framburði kæranda í málinu má ráða að hún hafi flust til Kirkuk um það leyti sem hún hafi gifst eiginmanni sínum árið 2010. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi þó hafa búið að mestu leyti hjá fjölskyldu sinni í Sulaymaniyah, enda hafi eiginmaður hennar dvalið talsvert í Bretlandi vegna vinnu. Samkvæmt framangreindu verður litið svo á að heimaborg kæranda sé Sulaymaniyah og er af þeim sökum fyrst og fremst litið til aðstæðna þar. Í greinargerð kæranda og yfirlýsingu talsmanns hennar við fyrirtöku málsins hjá kærunefnd þann 8. október sl. vísaði talsmaður til ákvarðana Útlendingastofnunar þar sem einstaklingar frá Kirkuk höfðu að hennar sögn hlotið vernd. Af þeim málum dró talsmaður þá ályktun að kærandi ætti að sama skapi einnig rétt á alþjóðlegri vernd. Með vísan til þess að kærunefnd telur heimasvæði kæranda fyrst og fremst vera Sulaymaniyah en ekki Kirkuk og að ákvarðanir Útlendingastofnunar hafa ekki fordæmisgildi fyrir kærunefnd er ekki ástæða til að fjalla frekar um þá málsástæðu.

Eins og að framan greinir benda skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur farið yfir eindregið til þess að Kúrdistan sé talið öruggt og að lögregla og öryggissveitir Kúrda séu öflugar og vel búnar. Þá sé heimaborg kærenda, Sulaymaniyah, langt inni í landi Kúrdistan þar sem lögregla og öryggissveitir hafi stjórn á aðstæðum. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærandi sé í raunverulegri hættu, á heimasvæði sínu í Kúrdistan, á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hún send aftur þangað eða hún verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður kæranda og barna hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst en kærandi byggir kröfu um dvalarleyfi á því að hún og börn hennar hafi búið við erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki, auk þess sem konur standi höllum fæti í samfélaginu í Kúrdistan. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um Kúrdistan bera með sér að þar séu íhaldssöm gildi um vald feðra ríkjandi og að aðstæður kvenna sem séu einstæðar og án raunverulegs stuðnings fjölskyldu geti verið erfiðar. Hvað aðstæður kæranda varðar hefur hún greint frá því að faðir hennar sé látinn. Þá kveðst hún vera í hjúskap með manni sem sé ríkisborgari Bretlands og mestmegnis búsettur þar, en af framburði kæranda í málinu má ráða að samband þeirra á milli sé stirt. Verður því að leggja til grundvallar að kærandi og börn hennar muni njóta takmarkaðs stuðnings frá eiginmanni kæranda og að félagslegar aðstæður kæranda í heimaríki séu þar með erfiðari en hjá þeim konum sem eru í hjúskap og njóta hefðbundins stuðnings eiginmanns.

Í viðtali hjá kærunefnd greindi kærandi frá því að móðir hennar og bróðir væru búsett í Sulaymaniyah, en að bróðir hennar væri heilsuveill vegna nýrnavandamála og án fjölskyldu. Þá kom fram í viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun að hún hafi fengið aðstoð frænda sinna við að komast úr landi. Er því ljóst að kærandi hafi eitthvert stuðningsnet fjölskyldu í heimaríki, en eins og áður greinir kvaðst kærandi hafa dvalið að nokkru leyti hjá foreldrum sínum í Sulaymaniyah á milli þess sem hún hafi búið í Kirkuk. Þá sé kærandi háskólamenntuð og hafi starfað sem hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsi í Sulaymaniyah. Eins og fram er komið hafa börn kæranda jafnframt rétt til menntunar í heimaríki og þá liggur ekki annað fyrir en að þeim hafi verið tryggð framfærsla og húsnæði. Að því er heilsufar varðar bera gögn málsins með sér að kæranda líði ekki vel vegna aðstæðna sinna, en engin læknisfræðileg gögn hafa verið lögð fram um ástand hennar eða barna hennar. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér hafa kærandi og börn hennar jafnframt aðgang að heilbrigðiskerfi í heimaríki.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda og barna hennar í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún og börn hennar hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd litið til hagsmuna barna kæranda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og 3. mgr. 25. sömu laga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda og barna hennar í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kæranda og barna hennar. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda og barna hennar þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 23. júní 2018 og sótti um alþjóðlega vernd 17. ágúst sama ár ásamt börnum sínum. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar og barna hennar um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda og börnum hennar því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi og börn hennar eru við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa henni. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar

Eins og áður er rakið gerir kærandi ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, m.a. um að Útlendingastofnun hafi ekki lagt sjálfstætt mat á hagsmuni barna hennar. Kærunefnd hefur farið yfir ákvarðanir og málsmeðferð Útlendingastofnunar í málum barna kærenda og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við ákvarðanirnar. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar eru staðfestar. Lagt er fyrir kæranda og börn hennar að hverfa af landi brott. Kæranda og börnum hennar er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant and her children are affirmed. The appellant and her children are requested to leave the country. The appellant and her children have 30 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                                Bjarnveig Eiríksdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum