Hoppa yfir valmynd
28. september 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Álagning opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2017

Ríkisskattstjóri hefur nú lokið álagningu opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2017, sem er mánuði fyrr en á síðasta ári. Álögð gjöld eru samtals 186,8 ma.kr. sem er hækkun um 752 milljónir króna á milli ára, en breytingar einstakra skatttegunda eru bæði til hækkunar og lækkunar. Stærstu breytingarnar snerta tekjuskatt lögaðila, sem lækkar um 5,6 ma.kr. og tryggingagjald, sem hækkar um 5,9 ma.kr. Rétt er þó að hafa í huga að hér er um að ræða svokallaða frumálagningu sem getur tekið ákveðnum breytingum síðar en niðurstöður hennar eru í góðu samræmi við áætlanir fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Gjaldskyldum félögum fjölgar um 1.522, eða 3,6% milli ára, og eru nú 43.240. Aftur á móti fækkar félögum sem greiða tekjuskatt um 120, eða 0,7% milli ára. Þrátt fyrir að álagning lögaðila fari nú fram mánuði fyrr en verið hefur, þá voru skil framtala annað árið í röð mjög góð og hafa í raun aldrei verið betri en síðustu tvö árin. Færri sæta því áætlunum en verið hefur. Sá árangur leiðir til færri kæra og endurákvarðana og skapar meiri vissu um að álagningin skili sér í ríkissjóð.

 

 

Tekjuskattur lögaðila

Álagður tekjuskattur er 74,9 ma.kr. og lækkar því sem fyrr segir um 5,6 ma.kr. eða tæp 7% milli ára ásamt því að gjaldendum fækkar um 120. Lækkunin á milli ára skýrist að miklu leyti af því að hagnaður Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. er mun lægri í ár en í fyrra (Heimildir: Ársskýrslur Seðlabanka Íslands 2016 og 2017) sem endurspeglast í álagningu óverulegs tekjuskatts í ár samanborið við mjög háa álagningu í fyrra. Ef skoðuð er skipting álagðs tekjuskatts eftir atvinnugreinum þá er fjármála- og vátryggingastarfsemi eins og oft áður með hæstu álagninguna af einstökum atvinnugreinum, eða 26,7% af heildarálagningunni, þó hlutdeild þeirrar starfsemi lækki talsvert milli ára, m.a. vegna lægri tekjuskatts hjá ESÍ sem áður var nefnd. Því næst kemur heild- og smásöluverslun og viðgerðir á vélknúnum ökutækjum með um 13,9% af heildarálagningunni sem er mun hærra hlutfall en árið áður. Hlutdeild vinnslu sjávarafurða og stóriðju lækkar milli ára sem skýrist væntanlega að stórum hluta af sterku gengi íslensku krónunnar á árinu 2017 með tilheyrandi áhrifum á útflutningsgreinarnar.

 

 

Fjármagnstekjuskattur

Lögaðilar bera almennt ekki fjármagnstekjuskatt. Þó skulu þeir lögaðilar sem eru undanþegnir almennri tekjuskattskyldu greiða fjármagnstekjuskatt, eins og sveitarfélög og ýmis sjálfseignarfélög. Álagður fjármagnstekjuskattur á þessa lögaðila nemur 1.533 m.kr. sem er 351 m.kr. lægri fjárhæð en á árinu 2017, eða lækkun um 18,6% milli ára. Lægri vextir á síðasta ári samanborið við árið 2016 gætu skýrt hluta af þeirri þróun.

Útvarpsgjald

Álagt útvarpsgjald á lögaðila nemur 695 m.kr. sem er 5,4% hækkun milli rekstraráranna 2016 og 2017, en á hvern gjaldanda hækkaði það úr 16.800 kr. í 17.100 kr., eða 1,8%. Þá fjölgaði gjaldendum þess um 1.393 sem er í góðu samræmi við fjölgun gjaldskyldra aðila.

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki („bankaskattur“)

 

Samkvæmt gildandi lögum er skatthlutfall sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki 0,376% og er gjaldstofninn heildarskuldir viðkomandi lögaðila sem eru yfir 50 ma.kr. í lok hvers árs. Þess má geta að gjaldhlutfallið hefur verið óbreytt frá árinu 2014. Álagður bankaskattur nemur nú um 9,4 ma.kr. og hækkar um 703 m.kr. á milli ára. Fjórir lögaðilar greiða þennan skatt líkt og á síðasta ári.

Fjársýsluskattur

Álagning fjársýsluskatts, sem er innheimtur í staðgreiðslu nemur 3,2 ma.kr. og nær til 147 lögaðila. Skattstofninn er allar tegundir launa eða þóknana hjá fjármála- og tryggingafyrirtækjum, þar með talið bónusgreiðslur ef einhverjar eru. Gjaldstofn fjársýsluskatts var 58,3 ma.kr. rekstrarárið 2017 og hækkaði um 8,4% milli ára. Skatt¬hlutfallið var óbreytt frá fyrra ári, 5,5% og hækkaði álagður skattur því einnig um 8,4%.

Sérstakur fjársýsluskattur

Sérstakur 6% fjársýsluskattur leggst á hagnað fjármálafyrirtækja, þ.m.t. tryggingafélaga, sem er umfram 1 ma.kr. Samkvæmt álagningartölum ríkisskattstjóra nemur hann um 3,6 ma.kr. á þessu ári sem er sama fjárhæð og á árinu 2017. Átta fyrirtæki greiða þennan skatt í ár samanborið við sex í fyrra.

Tryggingagjald

Álagning tryggingagjalds á launagreiðslur ársins 2017 nemur 93,2 ma.kr. samanborið við 87,3 ma.kr. árið áður og er það hækkun um 6,8% á milli ára. Rúmlega 98% af álögðu gjaldi hafa þegar verið innheimt í staðgreiðslu. Þá fjölgaði gjaldendum tryggingagjalds um 1.134, eða 5,6%. Álagt gjald hækkaði hins vegar minna en sem nemur 10,5% hækkun stofnsins milli ára þar sem almenna tryggingagjaldið var lækkað um 0,5 prósentustig 1. júlí 2016. Fyrstu tveir áfangar hækkunar mótframlags margra launagreiðenda í lífeyrissjóð, 1. júlí 2016 og 1. júlí 2017, skýra einnig hluta hækkunar stofnsins, þar sem framlagið er hluti af kjörum launþega og ber því tryggingagjald.

Afsláttur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar

Heildarafsláttur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar nemur alls 2.749 m.kr. samkvæmt álagningunni í ár samanborið við 2.524 m.kr. í fyrra. Viðmið styrkhæfs kostnaðar fyrir rannsóknir og þróun innan fyrirtækis er nú, samkvæmt gildandi lögum, 300 m.kr. og vegna aðkeyptrar rannsókna- og þróunarvinnu 450 m.kr. Afslátturinn gengur upp í álagðan tekjuskatt, ef fyrirtækið er með hagnað en er annars útborganlegur að fullu. Endurgreiðslan í ár er að upphæð 2.124 m.kr. og skuldajöfnunin að upphæð 625 m.kr. samanborið við 2.107 m.kr. endurgreiðslu í fyrra og 417 m.kr. skuldajöfnunin. 138 lögaðilar eiga rétt á afslættinum í ár en þeir voru 131 fyrir ári síðan eins og fram kemur í eftirfarandi töflu.

 

 

Árétta skal að þessar tölur miðast við frumálagningartölur og gætu þær breyst ef til koma kærur og endurúrskurðir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum