Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2004 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 14/2003

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 14/2003:

  

A

gegn

dómsmálaráðherra

 

--------------------------------------------------------------

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 5. apríl 2004 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með kæru K hrl., fyrir hönd A, dags. 30. október 2003, óskaði kærandi eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort dómsmálaráðherra hefði brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, með skipan í embætti dómara við Hæstarétt Íslands sem kunngerð var 19. ágúst 2003.

Kærunni fylgdu eftirtalin gögn: 1) Ljósrit úr 91. tölublaði Lögbirtingablaðsins, dags. 30. júní 2003, 2) bréf kæranda, dags. 23. júlí 2003, ásamt umsókn og ferilskrá, 3) bréf dómsmálaráðuneytis, dags. 6. ágúst 2003, ásamt umsögn Hæstaréttar er fylgdi því, 4) ósk kæranda um rökstuðning, dags. 28. ágúst 2003, 5) rökstuðningur dómsmálaráðherra, dags. 2. september 2003, 6) hæfnismat vegna umsóknar kæranda um stöðu prófessors við B-háskóla frá því í desember 1994, 7) málaskrár, 8) kynningarefni af heimasíðu D-háskóla um meistaranám í Evrópurétti, 9) kvörtun L hrl. til umboðsmanns Alþingis, dags. 3. september 2003, 10) ljósrit úr Tímariti lögfræðinga, 2. hefti september 2003, 11) grein úr 3. tölublaði Lögmannablaðsins 2003 og 12) prófskírteini. 

Kæran, ásamt fylgigögnum, var kynnt dómsmálaráðherra með bréfi kærunefndar jafnréttismála, dags. 6. janúar 2004. Með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000 var óskað upplýsinga um það hvar og hvenær embætti hæstaréttardómara var auglýst laust til umsóknar, upplýsinga um fjölda og kyn þeirra sem sóttu um embættið, upplýsinga um fjölda og kyn dómara í Hæstarétti og afrits af umsóknargögnum þess sem skipaður var í embættið. Þá var sérstaklega óskað eftir því ef ráðherra byggi yfir ítarlegri upplýsingum en fram komu í umsögn Hæstaréttar um menntun og starfsreynslu þess sem skipaður var í embættið, og/eða upplýsingum um aðra sérstaka hæfileika hans, að slík gögn væru látin í té. Þá var óskað eftir afriti af öðrum gögnum en umsóknargögnum og umsögn Hæstaréttar sem kynnu að hafa legið til grundvallar hæfnismati umsækjenda og vali þess sem skipaður var í embættið. Þá var jafnframt óskað upplýsinga um það á hvaða þætti lögð hafi verið áhersla við hæfnismat umsækjenda og hvað hafi ráðið vali þess sem skipaður var í embættið. Óskað var eftir upplýsingum um hæfnisröð umsækjenda, hafi þeim verið raðað. Jafnframt var óskað eftir afstöðu ráðherra til erindis kæranda sem og öðru því sem ráðherra vildi koma á framfæri og teldi til upplýsinga fyrir málið.

Með bréfi dómsmálaráðherra, dags. 23. janúar 2004, bárust svör við framangreindum fyrirspurnum auk gagna. Þau gögn voru: 1) Forsíða 91. tölublaðs 96. árgangs Lögbirtingablaðsins, dags. 30. júní 2003, 2) umsókn þess sem skipaður var í embætti hæstaréttardómara, dags. 23. júlí 2003, 3) umsögn nefndar skv. 5. gr. laga nr. 92/1989, dags. 10. febrúar 1992, um þann sem skipaður var, 4) umsögn sömu nefndar um sama einstakling, dags. 5. maí 1997, og 5) bréf dómsmálaráðherra til umboðsmanns Alþingis, dags. 10. nóvember 2003, ritað í tilefni kvartana L hrl. og M hrl.

Með bréfi, dags. 26. janúar 2004, var lögmanni kæranda kynnt umsögn dómsmálaráðherra og óskað eftir frekari athugasemdum kæranda ef einhverjar væru. Athugasemdir bárust með bréfi, dags. 20. febrúar 2004, ásamt fylgigögnum sem voru athugasemdir kæranda sjálfs, kvörtun N til umboðsmanns Alþingis, dags. 30. desember 2003, og ljósrit úr 1. tölublaði Stúdentablaðsins 2004. Með bréfi kærunefndar jafnréttismála, dags. 26. febrúar 2004, var dómsmálaráðherra gefinn kostur á að gera athugasemdir við athugasemdir kæranda. Svar ráðherra barst með bréfi, dags. 11. mars 2004, en því fylgdi afrit af bréfi til umboðsmanns Alþingis ritað í tilefni af áðurgreindri kvörtun N. Svar ráðherra var kynnt kæranda sem taldi það ekki gefa tilefni til frekari athugasemda. Sú afstaða var kynnt ráðherra og því lýst yfir af hálfu kærunefndarinnar að hún teldi gagnaöflun lokið.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II

Málavextir

Í 91. tölublaði Lögbirtingablaðsins, útgefnu 30. júní 2003, auglýsti dóms- og kirkjumálaráðuneytið dómaraembætti við Hæstarétt Íslands laust til umsóknar. Kærandi sótti um embættið með umsókn, dags. 23. júlí 2003. Umsækjendur voru átta að kæranda meðtöldum; sex karlar og tvær konur. Hæstiréttur Íslands sendi dómsmálaráðherra skriflega umsögn sína, þann 5. ágúst 2003, um hæfi og hæfni umsækjenda, með vísan til 4. mgr. 4. gr. laga um dómstóla, nr. 15/1998. Í umsögn sinni mat Hæstiréttur alla umsækjendur hæfa en gat þess með sérstökum rökstuðningi að rétturinn teldi heppilegast að annar hvor tveggja nafngreindra karla í hópi umsækjenda yrðu fyrir valinu í þetta sinn. Dómsmálaráðherra tilkynnti ákvörðun sína um skipun dómara í Hæstarétt Íslands þann 19. ágúst 2003 en fyrir valinu varð þriðji karlinn. Með bréfi, dags. 28. ágúst 2003, óskaði kærandi eftir rökstuðningi dómsmálaráðherra fyrir ákvörðun hans með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Svar dómsmálaráðherra barst með bréfi, dags. 2. september 2003. Kærandi undi ekki skýringum ráðherra og kærði því skipunina til kærunefndar jafnréttismála með bréfi, dags. 30. október 2003. 

 

III

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að dómsmálaráðherra hafi, með tillögu um skipun þess sem hlaut embætti dómara við Hæstarétt Íslands, brotið gegn tilgangi og markmiðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000. Kærandi byggir á því að lögfræðileg viðfangsefni Hæstaréttar séu margbrotin og víðfeðm og að rétturinn gegni afar þýðingarmiklu hlutverki í stjórnskipan landsins. Til þess sé að líta að hæstaréttardómarar eru skipaðir af forseta Íslands í samræmi við tillögu dómsmálaráðherra. Leiði þetta meðal annars til þess að gera verði mjög ríkar kröfur til framkvæmdavaldsins þegar það taki ákvörðun um tillögu um skipan hæstaréttardómara. Það verði að vera hafið yfir allan vafa að slík ákvörðun standist lög í hvívetna og að hún sé tekin á grundvelli skýrra og málefnalegra sjónarmiða.

Að mati kæranda er meginmarkmið laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, sbr. 1. gr. laganna. Þetta meginmarkmið laganna og önnur ákvæði þeirra leggi þær skyldur á atvinnurekendur og veitingarvaldshafa að sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf, sbr. 13. gr. sömu laga. Hafi Hæstiréttur ítrekað áréttað í dómum að lög þessi yrðu þýðingarlítil nema sá skilningur sé í þau lagður að veita beri konu starf, sé hún að minnsta kosti jafnhæf karlmanni sem hún keppi við, að því að er varði menntun og annað sem máli skipti og ef á starfssviðinu séu fáar konur. Þessar meginreglur verði að leggja til grundvallar við úrlausn máls þessa. Kærandi vísar, máli sínu til stuðnings, til nokkurra dóma Hæstaréttar sem gengið hafa í jafnréttismálum sem varða stöðuveitingar og álit umboðsmanns Alþingis um sams konar mál. Af orðalagi auglýsingar um embætti hæstaréttardómara megi sjá að ráðherra hafi verið, eða hafi átt að vera framangreint ljóst, en í auglýsingunni segi meðal annars að sú regla gildi hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess að hafa skuli í heiðri jafnrétti kynjanna við stöðuveitingar.

Af hálfu kæranda kemur fram að þar sem aðeins tveir af níu dómendum Hæstaréttar séu konur sé ljóst að lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eigi hér við. Til viðbótar megi benda á að það hljóti að vera sérstaklega mikilvægt að konur, sem séu helmingur þjóðarinnar og leiti eins og karlar réttar síns fyrir dómstólum, eigi fulltrúa til jafns við karla við æðsta dómstól landsins. Enn fremur beri að stjórnsýslurétti að skipa þann umsækjanda í embætti sem sé hæfari og við mat á því beri eingöngu að leggja málefnaleg sjónarmið til grundvallar. Hér verði að gera strangar kröfur og út frá jafnréttis- og stjórnsýslusjónarmiðum geti dómsmálaráðherra ekki, án ítarlegs og málefnalegs rökstuðnings, gengið gegn þeim, en það hafi hann gert að mati kæranda. Með ákvörðun sinni viðhaldi dómsmálaráðherra kynjamisrétti og ójöfnuði milli kvenna og karla. Þá er bent á af hálfu kæranda að reglur laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hafi fengið aukið vægi með tilkomu jafnréttisreglu 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995.

Enn fremur byggir kærandi á því að dómsmálaráðherra hafi ekki haft í heiðri lög- og venjubundnar viðmiðunarreglur íslenskrar stjórnsýslu um mat á hæfni einstaklinga við stöðuveitingar. Stjórnsýsluákvörðun ráðherra hafi brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar. Umboðsmaður Alþingis hafi lagt áherslu á að stjórnvald hafi ekki frjálsar hendur þegar valið sé á milli hæfra umsækjenda í starf. Í því felist að gera verði skýran samanburð á þeim þáttum sem skipti máli við mat á umsækjendum við val í starf og sé þar almennt einkum litið til menntunar, starfsreynslu og starfsaldurs. Sé umsækjandi talinn hafa einhverja sérstaka kosti eða galla sem máli skipta við ákvörðunina, þá beri að gera grein fyrir þeim. Allt miði þetta að því að ljóst sé að ekki sé um hentiákvörðun að ræða. Slík málsmeðferð sé grundvöllur þess að unnt sé að meta hvort farið hafi verið að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Að mati kæranda hafi brestur á framangreindu leitt til þess að lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hafi verið brotin gagnvart henni. Telja verði að kærandi standi framar þeim sem embættið hlaut hvað varði menntun, rannsóknar- og ritstörf, starfsferil og reynslu og önnur mikilvæg matsatriði sem ráðherra hafi borið að taka tillit til.

Við meðferð kærumálsins beri nauðsyn til að gera samanburð á hæfni kæranda og hæfni þess umsækjanda sem skipaður hafi verið í embætti dómara við Hæstarétt. Þetta sé sett fram án þess að kastað sé rýrð á menntun og starfsferil þess sem embættið hlaut. Það sé ekki erindi kærunnar en hæfni annarra umsækjenda en hans komi ekki til skoðunar við úrlausn málsins. Ræðst kærandi síðan í að bera saman menntun, starfsreynslu og fræðastörf kæranda og þess sem embættið hlaut.

Er þar fyrst vikið að menntun kæranda og þess sem embættið hlaut. Kærandi hafi lokið embættisprófi í lögum frá B-háskóla árið 1971 með I. einkunn en sá sem embættið hlaut með II. einkunn árið 1987. Þá hafi kærandi lagt stund á nám í réttarheimspeki í um tvö ár á árunum 1971 til 1974 við lagadeild E-háskóla og lokið forprófi til B.Litt.-gráðu. Síðar hafi kærandi lagt stund á meistaranám í heimspeki við F-háskóla 1977 til 1979 með réttarheimspeki sem sérsvið. Þá hafi kærandi lagt stund á rannsóknir á lagamáli, sótt fjölbreytt fagnámskeið og vinni nú að stórri ritgerð undir heitinu „G“. Sá sem embættið hlaut hafi stundað framhaldsnám við D-háskóla árið 2001 til 2002 og lokið því með LL.M.-prófi í Evrópurétti. Kærandi vekur athygli á að í umsögn Hæstaréttar komi fram að kærandi hafi lagt mesta stund á framhaldsnám eftir embættispróf af umsækjendum. Megi af þessu ljóst vera að kærandi hafi mun meiri framhaldsmenntun en sá sem embættið hlaut og hefur lokið æðri prófgráðum. Árangur hennar á embættisprófi í lögum er jafnframt betri.

Í umfjöllun kæranda um starfsreynslu hennar og þess sem embættið hlaut er á því byggt að dómaraferill kæranda sé mjög fjölbreyttur auk þess sem hann spanni um þrjá áratugi. Auk hans hafi hún gegnt störfum sem dómarafulltrúi við þrjú embætti og verið sýslumaður í tæp fjögur ár. Jafnframt því sem hún hafi ítrekað verið sett sem bæjarfógeti og sýslumaður. Þá hafi hún gegnt dómarastörfum í tuttugu ár við þann dómstól landsins þar sem rekin eru fleiri, margþættari og viðameiri dómsmál en við aðra héraðsdómstóla. Sem dómari hafi hún margsinnis farið með formennsku í fjölskipuðum dómi og verið meðdómari, auk þess að vera dómsformaður í gerðardómum. Kærandi hefur einnig kennt sem stundakennari við lagadeild B-háskóla um árabil og verið prófdómari þar. Kærandi hefur jafnframt átt sæti í fjölda nefnda um fjölbreytt málefni, þar á meðal í gjafsóknarnefnd, kærunefnd jafnréttismála, áfrýjunarnefnd háskólanema og er formaður þverfaglegrar siðanefndar gagnagrunns á heilbrigðissviði. Kærandi telur starfsreynslu þess sem embættið hlaut vera mun minni en hann hafi gegnt störfum sem fulltrúi yfirsakadómara í sveitarfélaginu O um tæplega eins árs skeið, sinnt störfum sem fulltrúi sýslumanna um tæplega þriggja ára skeið en gegnt dómarastörfum frá þeim tíma eða frá 1. júní 1990 er hann var fyrst settur í embætti héraðsdómara. Hann hafi síðan verið settur sem hæstaréttardómari í tveimur málum í Hæstarétti árið 2000 og átt sæti í einni nefnd á vegum dómsmálaráðuneytisins og verið formaður endurskoðendaráðs frá árinu 2001.

Um rit- og fræðastörf þessara aðila vísar kærandi til þess sem fram komi í gögnum málsins, einkum til ferilskrár kæranda og umsagnar Hæstaréttar. Ekki sé saman að jafna hvað þau tvö varði og raunar segi Hæstiréttur beinlínis í umsögn sinni að kærandi hafi sinnt fræðastörfum umfram aðra umsækjendur úr dómara- og lögmannastétt.

Af framanrituðu og öðru sem fram komi í gögnum málsins er fullyrt af hálfu kæranda að hún hafi mun lengri og fjölbreyttari starfsreynslu og hafi starfað við dómstóla sem almennt sinni fjölbreyttari, flóknari og viðameiri dómsmálum en þeir dómstólar á landsbyggðinni sem sá sem embættið hlaut hefur starfað við. Meðal gagna málsins séu dómsmálalistar sem séu til sanns um það. Nefndastörf kæranda séu sýnu fjölbreyttari og viðameiri og hið sama eigi við um þátttöku í félagsmálum.

Á því er byggt af hálfu kæranda að dómsmálaráðherra hafi í rökstuðningi fyrir niðurstöðu sinni um tillögu um skipan í embætti hæstaréttardómara hvorki rökstutt ákvörðun sína né gefið skýringar á því hvernig þau viðmið sem hann nefnir standist samanburð við hæfni og reynslu annarra umsækjenda og þær skyldur sem lagðar eru á veitingarvaldið með lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kærandi telur að brotið hafi verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og góðum stjórnsýsluháttum við embættisveitinguna og telur sig, af þeirri ástæðu og sökum þess hversu málefnasnauður og umdeilanlegur rökstuðningur dómsmálaráðherra er, knúna til að leita álits kærunefndar jafnréttismála.

 

IV

Sjónarmið kærða

Á því er byggt af hálfu kærða, dómsmálaráðherra, að vísa eigi máli þessu frá kærunefnd jafnréttismála þar sem röksemdir kæranda lúti í raun að allt öðru álitaefni en jafnréttislöggjöfinni. Telur kærði að kærunefnd jafnréttismála hafi ekki umboð til að leggja mat á hvort svar kærða til kæranda, dags. 2. september 2003, sem fól í sér rökstuðning kærða fyrir tillögu um skipan í embætti hæstaréttardómara, hafi verið „málefnasnautt“ eða hvort reglum stjórnsýsluréttar hafi verið réttilega fylgt. Það að skiptar skoðanir séu um ákvörðun kærða brjóti ekki í bága við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Þá er á því byggt að kærði hafi fært meginrök fyrir niðurstöðu sinni um tillögu um skipan í embætti hæstaréttardómara og almennt verði ekki gerðar frekari kröfur til rökstuðnings af hálfu stjórnvalds. Þess verði ekki krafist að farið sé í mannjöfnuð milli þess umsækjanda sem embættið hlaut og annarra í slíkum rökstuðningi.

Samanburði kæranda á hæfi hans og þess sem embættið hlaut er kærði ósammála. Allir umsækjendur hafi verið hæfir og við þær aðstæður sé það hlutverk þess sem fer með veitingarvaldið að fara yfir fyrirliggjandi umsóknir og gera það upp við sig hver eða hverjir umsækjenda hafi til að bera einhverja þá eiginleika sem verði til þess að þeir teljist æskilegastir í starfið í það sinn. Við þessar aðstæður verði að játa ráðherra töluvert svigrúm til slíks mats enda komi fjölmörg atriði til skoðunar. Vísar kærði í þessu sambandi jafnframt til þess að í umsögn Hæstaréttar sé lagt annað mat á gildi menntunar og reynslu umsækjanda en fram komi af hálfu kæranda. Það hafi þannig verið mat kærða með vísan til eiginleika þess sem embættið hlaut, aldurs hans, reynslu og þekkingar að rétt væri að gera tillögu um að hann yrði skipaður hæstaréttardómari að þessu sinni. Hafi þar vegið þyngst sérþekking hans á Evrópurétti sem kærði hafi metið sem mjög eftirsóknarverða fyrir Hæstarétt. Vísar kærði til frekari rökstuðnings af sinni hálfu fyrir þeirri áherslu sem kærði lagði á nefnt réttarsvið til svarbréfs hans til umboðsmanns Alþingis þar sem kemur meðal annars fram að ákvörðun kærða hafi byggst á langri reynslu hans sem sérfróðs manns um þróun utanríkismála. Svo og sem alþingismanns og formanns utanríkismálanefndar þegar EES-samningurinn var þar til meðferðar og sem menntamálaráðherra og dómsmálaráðherra. Á þeim grunni byggði kærði það mat sitt að nefnt réttarsvið skipti meiru eftir því sem fram líði stundir. Þá hafi við því verið hreyft að sérstakur vandi biði þeirra sem fáist við lögskýringar að túlka og beita evrópskum reglum sem nefndur samningur hafi í för með sér og með það í huga hafi kærði gert tillögu um þann sem embættið hlaut. Kærði telur að kærandi hafi ekki sýnt fram á líkur á beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við veitingu embættis hæstaréttardómara.

Kærði vekur athygli á að Hæstiréttur hafi í umsögn sinni talið tvo af umsækjendum heppilegri en aðra fyrir dómstólinn og að kærandi hafi ekki verði þar á meðal. Telur kærði að ef Hæstiréttur hefði talið lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eða tilgang þeirra skylda kærða til að velja milli þeirra kvenna sem sóttu um embættið hefði rétturinn gert grein fyrir því sjónarmiði. Telur kærði þá staðreynd að Hæstiréttur hafi ekki talið sér skylt að víkja sérstaklega að þessu atriði í umsögn sinni vera því sjónarmiði til stuðnings að kærða hafi verið heimilt að lögum að gera tillögu um þann sem embættið hlaut á þeim forsendum sem raktar hafa verið.

Loks byggir kærði á að ef kærunefnd jafnréttismála komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið staðið á lögmætan hátt að tillögu um skipan hæstaréttardómara sé vegið að eðlilegu og hæfilegu svigrúmi kærða til að taka ákvarðanir á verksviði sínu.

 

V

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. sömu laga.

Við mat á því hvort um mismunun á grundvelli kynferðis sé að ræða við framangreindar aðstæður hefur verið litið til þeirra kosta sem umsækjendur hafa og er þá einkum litið til menntunar umsækjenda og starfsreynslu, svo og annarra sérstakra kosta eftir því sem við á í hverju tilviki. Líta verður svo á að við mat á hæfni umsækjenda til þess að hljóta skipun í embætti hjá opinberum aðila skuli sá sem stöðuna veitir leggja til grundvallar lögbundin embættisgengisskilyrði, sé þeim til að dreifa. Við það mat ber að taka tillit til málefnalegra sjónarmiða meðal annars í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Samkvæmt 4. gr. laga um dómstóla, nr. 15/1998, skipar forseti Íslands dómara ótímabundið við Hæstarétt Íslands samkvæmt tillögu dómsmálaráðherra. Embætti dómara við Hæstarétt var auglýst laust til umsóknar með auglýsingu dóms- og kirkjumálaráðuneytis sem birtist í Lögbirtingablaði þann 30. júní 2003. Í auglýsingunni voru ekki gerðar sérstakar kröfur til umsækjenda, en þess þó sérstaklega getið að sú regla gildi hjá ráðuneytinu og undirstofnunum þess að hafa í heiðri jafnrétti kynjanna við stöðuveitingar.

Af hálfu kæranda er þess farið á leit að kærunefnd jafnréttismála kanni og taki afstöðu til þess hvort kærði hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, með tillögu sinni um skipan í embætti dómara við Hæstarétt Íslands sem kunngerð var 19. ágúst 2003. Þar sem ósk kæranda fellur beinlínis að lögbundu hlutverki kærunefndar jafnréttismála, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 96/2000, eru engin efni til að fallast á kröfu kærða um að vísa máli þessu frá nefndinni þó kærandi styðji mál sitt einnig við réttarreglur á sviði stjórnsýsluréttar.

Um embættisgengisskilyrði hæstaréttardómara fer skv. 4. gr. laga um dómstóla, nr. 15/1998. Samkvæmt 8. tölul. 2. mgr. 4. gr. laganna má þann einn skipa í embætti hæstaréttardómara sem telst vera hæfur til að gegna embættinu í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. laganna skal dómsmálaráðherra leita umsagnar Hæstaréttar um hæfi og hæfni umsækjenda til að gegna embættinu og verður umsækjanda ekki veitt embættið ef í umsögninni kemur fram það álit að hann fullnægi ekki skilyrðum 5. eða 8. tölul. 2. mgr. 4. gr. laganna. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum um dómstóla, nr. 15/1998, kemur fram að með hinu síðastgreinda ákvæði sé Hæstarétti falið vald til að útiloka að umsækjanda verði veitt þar dómaraembætti. Það verði þó aðeins gert á þeim grundvelli að brestur sé á hæfi umsækjandans í þeim atriðum er 5. eða 8. tölul. 2. mgr. 4. gr. fjalla um, og áréttað að ætla verði að farið verði með það vald af varfærni.

Fyrir kærunefnd jafnréttismála hefur verið lögð umsögn Hæstaréttar, dags. 5. ágúst 2003, þar sem fram kemur að allir umsækjendur voru taldir fullnægja þeim lágmarkskröfum um hæfni sem gera verði til dómaraefnis á grundvelli 8. tölul. 2. mgr. 4. gr. laga um dómstóla. Hæstiréttur taldi þó að að öðru leyti mætti greina nokkuð á milli umsækjendanna í þeim efnum. Fram kom í umsögn réttarins að tveir umsækjendur væru heppilegastir til setu í réttinum í þetta sinn af sérstökum tilgreindum ástæðum. Það voru hvorki kærandi né sá sem skipaður var í embættið.

Fyrir kærunefnd jafnréttismála hafa verið lögð gögn varðandi kæranda og þann sem skipaður var í embættið. Ekki eru efni til þess að bera saman starfshæfni annarra en kæranda og þess sem skipaður var í embættið eða leggja mat á önnur sjónarmið við veitingu embættisins en þau sem kærði byggir á. Samanburður á starfshæfni kæranda og þess sem embættið hlaut er óhjákvæmilegur svo leysa megi úr því álitaefni hvort brotið hafi verið gegn 24. gr. laga nr. 96/2000.

Kærandi lauk embættisprófi frá B-háskóla haustið 1971 með I. einkunn. Hún stundaði nám í réttarheimspeki í tvö ár árin 1971 til 1974 við lagadeild E-háskóla, og lauk forprófi og aflaði sér réttar til að taka námsgráðuna B.Litt. Þá stundaði kærandi nám í heimspeki við F-háskóla, 1977 til 1979, með réttarheimspeki sem kjörsvið. Kærandi lauk náminu með M.A.-gráðu. Að auki stundaði kærandi rannsóknir á lagamáli við H-háskóla 1990 til 1991 og við I-háskóla vorið 1996.

Kærandi starfaði hluta árs 1973 við þinglýsingar við embætti bæjarfógetans í sveitarfélaginu P, og frá sumri 1974 til hausts árið 1975 starfaði hún sem dómarafulltrúi hjá embættum bæjarfógetanna í sveitarfélaginu R og í sveitarfélaginu P. Frá hausti 1975 til ársloka 1979 starfaði kærandi sem dómarafulltrúi hjá embætti S. Þá var kærandi sýslumaður T-sýslu frá ársbyrjun 1980 til sumars 1983. Kærandi var S frá sumri 1983 til sumars 1992, en frá þeim tíma var hún héraðsdómari í sveitarfélaginu O. Að auki hefur kærandi verið settur bæjarfógeti í sveitarfélaginu U í júlí 1987, settur bæjarfógeti í sveitarfélaginu V um þriggja mánaða skeið sumarið 1990 og sýslumaður í T-sýslu í júlí árin 1992, 1994 og 1995.

Kærandi var árin 1982 til 1992 prófdómari í réttarheimspeki við B-háskóla, og sinnti jafnframt stundakennslu við háskólann 1985 til 1989 og 1992 til 1997, auk haustannar 1998. Kærandi sat árin 1992 til 2000 í gjafsóknarnefnd, og var varamaður formanns í kærunefnd jafnréttismála frá 1991 til 1997 þegar hún var skipuð aðalmaður í nefndinni til ársins 2000. Frá árinu 1999 hefur kærandi setið í áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema og frá árinu 2000 í ráðgjafarnefnd evrópskra dómara fyrir hönd íslenskra dómara. Þá hefur kærandi verið formaður siðanefndar vegna gagnagrunns á heilbrigðissviði frá árinu 2001 og varaformaður endurskoðendaráðs, skv. 12. gr. laga nr. 18/1997, frá stofnun þess. Kærandi var varamaður í dómnefnd til að fjalla um hæfi umsækjenda um embætti héraðsdómara skv. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 15/1998 frá árinu 2001 og varamaður í nefnd um dómarastörf skv. IV. kafla sömu laga, frá 15. maí 2002.

Kærandi tilgreinir í gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina 13 birtar fræðigreinar. Að auki hefur kærandi haldið fræðileg erindi bæði hérlendis og erlendis.

Sá sem skipaður var í embættið lauk embættisprófi frá B-háskóla vorið 1987 með II. einkunn. Hann lauk meistaraprófi í Evrópurétti við D-háskóla í júní 2002 með ágætiseinkunn. Frá 1. júlí 1987 til 5. apríl 1988 var hann fulltrúi yfirsakadómara í sveitarfélaginu O. Frá 5. apríl 1988 til 1. júní 1990 var hann fulltrúi sýslumannsins í X-sýslu og bæjarfógetans í sveitarfélaginu Y. Hann var settur til að gegna embætti héraðsdómara frá 1. júní 1990 til 30. júní 1992 og var skipaður héraðsdómari við Héraðsdóm Z frá 1. júlí 1992 fram til 1. júlí 1997 er hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Þ. Þá var hann skipaður dómstjóri við Héraðsdóm Þ til fimm ára frá 16. september 1998. Hann hefur verið settur hæstaréttardómari í tveimur málum og hefur verið skipaður í nefnd til að endurskoða reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum. Þá hefur hann verið formaður endurskoðendaráðs skv. 12. gr. laga nr. 18/1997, frá árinu 2001.

Fyrir utan námsritgerðir í meistaranámi er tilgreind ein birt fræðigrein eftir þann sem embættið hlaut í þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina.

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að auk starfsferils varpi nám og rannsóknarstörf umsækjenda ljósi á lögfræðilega þekkingu þeirra. Kærandi og sá sem skipaður var í embættið hafa bæði starfað sem héraðsdómarar, en sá sem skipaður var í embættið starfaði sem dómstjóri við Héraðsdóm Þ frá árinu 1998. Kærandi hefur þó mun lengri starfsreynslu sem héraðsdómari og hefur þar að auki gegnt embætti sýslumanns, samtals um nokkurra ára skeið. Þá hafa kæranda verið falin umfangsmeiri trúnaðarstörf í nefndum og ráðum en þeim sem skipaður var í embættið. Það er álit kærunefndar jafnréttismála að starfsreynsla kæranda sé veigameiri og starfsferill hennar fjölbreyttari en þess sem skipaður var í embættið. Með vísan til þess, framhaldsnáms kæranda í heimspeki og réttarheimspeki og þeirra rannsóknarstarfa hennar sem áður hefur verið lýst verður að telja að eftir almennum hlutlægum mælikvarða hafi kærandi meiri lögfræðilega þekkingu en sá sem skipaður var í embættið.

Samkvæmt 8. tölul. 2. mgr. 4. gr. laga um dómstóla, nr. 15/1998, skal sá sem skipaður er í embætti hæstaréttardómara vera hæfur til að gegna embættinu í ljósi starfsferils síns og lögfræðilegrar þekkingar eins og áður gat. Hæstiréttur mat það svo í umsögn sinni skv. 4. mgr. 4. gr. laganna að allir umsækjendur hafi fullnægt lágmarkskröfum ákvæðisins um hæfni þótt að öðru leyti hafi mátt greina nokkuð á milli þeirra í þeim efnum. Tiltekur Hæstiréttur meðal annars í umsögn sinni að kærandi hafi lagt mest stund á framhaldsnám af umsækjendum og sinnt fræðistörfum umfram aðra umsækjendur úr hópi héraðsdómara og lögmanna, en sá sem embættið hlaut er einnig úr hópi þeirra. Það er mat kærunefndar jafnréttismála að á grundvelli hinna lögbundnu embættisgengisskilyrða laga um dómstóla, nr. 15/1998, sé kærandi hæfari en sá sem embættið hlaut. Kærði hefur tilgreint meistarapróf í Evrópurétti og tiltölulega ungan aldur sem sérstaka kosti þess sem embættið hlaut umfram aðra umsækjendur. Með vísan til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og í ljósi hinna lögbundnu skilyrða laga um dómstóla geta sjónarmið um sérstaka kosti tiltekinna umsækjenda ekki komið til skoðunar nema í því skyni að velja á milli umsækjenda sem teljast jafnhæfir í ljósi starfsferils og lögfræðilegrar þekkingar. Verða þau sjónarmið sem kærði tiltekur, ein og sér, því ekki talin haldbær í skilningi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Upplýst er að tveir dómarar af níu við Hæstarétt Íslands eru konur. Eins og málið liggur fyrir kærunefnd jafnréttismála bar kærða að gæta þess er hann gerði tillögu um skipun í embættið að velja konu enda teldist hún að minnsta kosti jafn hæf eða hæfari en sá karl sem embættið hlaut, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 96/2000.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 er óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef máli er vísað til kærunefndar og leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við ráðningu í starf, skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðuninni, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000. Þykir kærða ekki hafa tekist á málefnalegan hátt að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að með skipun J í embætti dómara við Hæstarétt Íslands hafi dómsmálaráðherra brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kærunefnd beinir þeim tilmælum til dómsmálaráðherra að fundin verði viðunandi lausn á málinu.

 

 

Björn L. Bergsson

Oddný Mjöll Arnardóttir

Ása Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira