Hoppa yfir valmynd
10. júlí 2019 Utanríkisráðuneytið

Jafnréttisskólinn með námskeið um kynjajafnrétti í Malaví og Úganda

Þátttakendur á námskeiðinu í Malaví. - mynd

Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna við Háskóla Íslands (UNU-GEST) hefur staðið fyrir tveimur fimm daga námskeiðum í samstarfslöndum Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu það sem af er árinu. Námskeiðið „Teaching Gender to Youth“ var haldið í Malaví í apríl og í síðustu viku lauk námskeiðinu „Gender and Climate Change“ í Úganda.

Námskeiðið um fræðslu til ungs fólks um kynjafræði var haldið í Mangochi héraði í Malaví í samstarfi við sendiráð Íslands í Lilongwe. Þátttakendur voru 56 og í hópnum voru kennaranemar, kennarar og skólastjórnendur. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Kristín Ragnarsdóttir, kennari við Lækjarskóla, og Þórður Kristinsson, kennari við Kvennaskólann í Reykjavík. Kristín og Þórður hafa reynslu af kynjafræði- og jafnréttiskennslu á grunn- og menntaskólastigi.

Námskeiðið var haldið undir merkjum samstarfsverkefna íslenskra stjórnvalda með héraðsstjórninni í Mangochi héraði og markmið þess var að innleiða kynjafræði í námskrá sem styður við framgang kvenna og jafnrétti kynjanna í Malaví. 

Námskeiðið í Úganda fjallaði um kynjafræði og loftslagsbreytingar. Það var haldið í borginni Mbale þar sem sérfræðingum frá Karamoja héraði var boðið að taka þátt. Námskeiðið var byggt á fyrra námskeiði sama efnis sem haldið var í Úganda árin 2012-2013. Námskeiðið í ár var unnið í samstarfi við kvenna- og kynjafræðideild Makerere háskóla, umhverfisráðuneyti Úganda og jafnréttisráðuneyti Úganda með stuðningi íslenska utanríkisráðuneytisins. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru sömu og árið 2013, Beatrice Mukasa, Maria Nandago, Lawrence Aribo og Bob Natifu.

Þátttakendur námskeiðsins voru 35 talsins og  komu bæði úr opinbera og einkageiranum, meðal annars starfsmenn héraðsstjórna, félagasamtaka og fjölmiðla. Með námskeiðinu „Gender and Climate Change“ er lögð áhersla á að hugað sé að kynjajafnrétti í aðgerðum gegn loftslagshamförum. Námskeiðið tengir aðila sem vinna að loftslagsmálum og við stefnumótun á ólíkum svæðum Úganda.

Bæði námskeiðin eru til marks um mikilvægi samstarfs Jafnréttisskólans við Malaví og Úganda. Skólinn stefnir að því að bjóða upp á samskonar námskeið í fleiri löndum.

  • $alt
  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum