Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2019 Utanríkisráðuneytið

Íslendingum og Bretum áfram kleift að flytjast milli ríkjanna

Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, undirrituðu samninginn í dag. - mynd

Íslensk og bresk stjórnvöld hafa komist að samkomulagi um fólksflutninga milli ríkjanna eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (ESB) og Evrópska efnahagssvæðinu (EES), fari svo að útgangan verði án samnings við ESB. Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, og Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, undirrituðu samkomulagið í utanríkisráðuneytinu í dag.

Réttindi til áframhaldandi búsetu hafa þegar verið tryggð með samningum en nýja samkomulagið gerir Íslendingum og Bretum áfram kleift að flytjast milli ríkjanna til að stunda atvinnu eða nám og fá dvalarleyfi sem gilda í að minnsta kosti 36 mánuði.

„Íslendingar hafa um árabil sótt sér menntun og vinnu í Bretlandi og Bretar sem hér búa auðgað okkar samfélag. Áframhaldandi möguleikar fólks til að afla sér þekkingar og reynslu í Bretlandi munu einnig stuðla að góðum tengslum á öðrum sviðum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, sem er erlendis þessa vikuna. „Það hefur verið forgangsmál okkar að tryggja réttindi íslenskra borgara sem búa í Bretlandi og breskra borgara sem hér búa og nú hefur verið gengið skrefinu lengra.“

Samkomulagið gildir um þá sem flytja á milli ríkjanna frá útgöngudegi og til loka árs 2020. Að svo stöddu er ekki unnt að semja lengra fram í tímann þar sem framtíðarstefna Bretlands er enn í mótun. Leitast verður eftir því að tryggja sem mestan sveigjanleika hvað varðar flutninga fólks á milli ríkjanna þegar fram líða stundir og er þetta samkomulag mikilvægt fyrsta skref í þá átt.

Útgöngu Bretlands úr ESB hefur nú verið frestað til 31. janúar 2020 og enn ríkir óvissa um það hvernig útgöngu verði háttað og hvort hún verði á grundvelli útgöngusamnings við ESB eður ei. Ef útgöngusamningur Bretlands og ESB nær fram að ganga mun aðlögunartímabil taka gildi eftir útgöngu þar sem EES-samningurinn og reglur um frjálsa för fólks gilda áfram til loka árs 2020 með möguleika á framlengingu.

Fari hins vegar svo að Bretland gangi úr sambandinu án samnings hættir EES-samningurinn að gilda um Bretland strax við útgöngu og þar með reglur um frjálsa för fólks milli ríkjanna. Þess vegna er mikilvægt að samkomulagið sé til staðar svo réttindi fólks séu tryggð sama hvernig fer.

Aðrir samningar sem gerðir hafa verið í aðdraganda Brexit tryggja m.a. að ekki verði röskun á flugi og að núverandi tollkjör í vöruviðskiptum verði áfram þau sömu jafnvel þótt Bretland gangi úr ESB án samnings.

Nánari upplýsingar um undirbúning íslenskra stjórnvalda fyrir útgöngu Bretlands úr EES er að finna á vef Stjórnarráðsins: www.utn.is/brexit

Ítarefni:

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum