Hoppa yfir valmynd
2. október 2023 Utanríkisráðuneytið

Sextíu prósenta fjölgun fylgdarlausra flóttabarna á Miðjarðarhafi

Ljósmynd: UNICEF - mynd

„Miðjarðarhafið er orðinn kirkjugarður fyrir börn og framtíð þeirra, sem reyna að komast yfir til Evrópu í von um betra líf,“ segir Regina De Dominicis, svæðisstjóri UNICEF í Evrópu og Mið-Asíu og sérstakur umsjónarmaður flóttamannamála í Evrópu. Það sem af er ári hafa rúmlega 11.600 börn flúið yfir Miðjarðarhafið án foreldra sinna eða forsjáraðila,  60 prósent fleiri en í fyrra en þá flúðu 7.200 fylgdarlaus börn yfir hafið.

UNICEF segir að dauðsföll og mannshvörf á Miðjarðarhafsleiðinni hættulegu hafi þrefaldast í sumar miðað við sumarið 2022. Á milli júní og ágúst á þessu ári létust að minnsta kosti 990 manns, þar á meðal börn, en í fyrra nam fjöldinn 334 manns. Raunverulegur fjöldi dauðsfalla er þó líklega mun hærri, þar sem mörg börn sem leggja ferðalagið á sig eru hvergi skráð eða finnast aldrei. Sem dæmi um þessa gífurlegu aukningu koma daglega um 4.800 manns á flótta til eyjarinnar Lampedusa á suður Ítalíu.

„Stríð, átök, ofbeldi og fátækt eru meðal helstu ástæðna að baki þessum mikla fjölda fólks á flótta. Rannsóknir sýna að fylgdarlaus börn eiga í mikilli hættu á að vera misnotuð á ferð sinni yfir Miðjarðarhafið, þá sérstaklega stúlkur og börn frá Afríku, sunnan Sahara. Fylgdarlaus börn sem hætta ein í þessa ferð eru ítrekað sett í yfirfulla gúmmíbáta eða aðra lélega báta sem þola ekki slæm veðurskilyrði. Aðstæðurnar eru sérstaklega slæmar fyrir börn og er mikill skortur á svæðisbundinni og samræmdri leitar- og björgunargetu á svæðinu sem eykur hættuna fyrir börn sem neyðast til flýja heimalönd sín,“ segir í frétt UNICEF.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
1 Engin fátækt
2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum