Hoppa yfir valmynd
30. júní 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Nýjar áskoranir kalla á leiðsögn Hafréttarsamningsins

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á Hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Lissabon. - mynd

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir nýjum áskorunum varðandi vernd og sjálfbæra nýtingu heimshafanna og lífríkis þeirra. Mikilvægt er að ná góðri niðurstöðu varðandi nýjan samning um líffræðilega fjölbreytni í úthöfunum, sem nú er á lokasprettinum. Nýir samningar og reglur verða þó að byggja á Hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna, sem er stjórnarskrá hafanna og hornsteinn í öllu alþjóðlegu starfi sem varðar þau.

Þetta kom fram í máli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra þegar hann ávarpaði Hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Lissabon í dag. Ráðherra stýrði þar málstofu um hafrétt og leiðsögn hans varðandi helstu viðfangsefni samtímans í hafmálum, ásamt Vivian Balakrishnan, utanríkisráðherra Singapore.

Ráðherra sagði að Íslendingar hefðu fljótlega eftir landnám ákveðið að byggja samfélag sitt á grunni laga með stofnun Alþingis, sem væri elsta samfellt starfandi þjóðþing heims. Íslendingar teldu einnig nauðsynlegt að byggja alþjóðlegt samstarf á grunni laga, ekki síst varðandi málefni hafanna. Hafréttarsamningurinn hefði sannað gildi sitt á þeim 40 árum sem liðin eru frá undirskrift hans. Hann hefur stuðlað að friði, sagði ráðherra og á grunni hans hafa verið samþykktir mikilvægir undirsamningar, s.s. Úthafsveiðisamningur S.þ.

Þótt grunnreglur Hafréttarsamningsins séu enn góð leiðsögn um nær öll málefni sem varða höfin, hafa ný viðfangsefni skotið upp kollinum, sem kalla á frekari útfærslu hans. Þar má nefna loftslagsbreytingar af mannavöldum, sem hafa margvísleg áhrif á höfin. Mikilvægast sé þar að taka á rót vandans og draga úr losun og skipta úr jarðefnaeldsneyti yfir í hreina og endurnýjanlega orkugjafa. Við þurfum hins vegar að glíma við margvíslegar afleiðingar loftslagsbreytinga óháð því, s.s. hækkun sjávarborðs, sem hafi hafréttarlegar afleiðingar, sem geti komið smáeyjaríkjum og fleirum illa. Slíkt sé ekki sanngjarnt og Ísland vilji sjá þar réttláta lausn.

Guðlaugur Þór sagði að ekki megi einblína á vandamál í umræðu um hafmál; höfin bjóði líka upp á fjölmargar lausnir á vandamálum sem mannkynið glími við. Matvæli úr höfunum – „bláfæða” – séu mikilvæg lífsbjörg milljarða manna. Þar sé hægt að auka afrakstur og minnka umhverfisáhrif. Einnig sé þar  þörf á leiðsögn hafréttar og Úthafsveiðisamningsins, til að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlinda. „Flökkustofnar fiska eru ekki með vegabréf. Bráðnandi hafís og örplast virða ekki lögsögur og landamæri. Við verðum að vinna saman við að nýta auðlindir og mæta ógnum. Hafréttarsamningurinn hjálpar okkur þar, með því að setja grunnreglur sem hafa staðist tímans tönn; með því að tryggja að við byggjum starf okkar á lögum. Við megum ekki taka þeim árangri sem náðst hefur hvað það varðar sem sjálfsögðum hlut, við þurfum að standa vörð um hann og gera enn betur,” sagði Guðlaugur Þór.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum