Hoppa yfir valmynd
21. júní 2018 Utanríkisráðuneytið

Aukinn heilbrigðisstuðningur við Róhingja í Bangladess

Aðalheiður ásamt sjálfboðaliðum úr hópi Róhingja og íbúa Bangladess. Ljósmyndir: Rauði krossinn. - mynd

Rauði krossinn á Íslandi hefur ákveðið að veita rúmlega 15 milljónum króna til stuðnings Róhingjum í Bangladess vegna heilbrigðisverkefnis í flóttamannabúðum á svæðinu. Verkefnið er framkvæmt af Rauða hálfmánanum í Bangladess, í samstarfi við Rauða krossinn í Danmörku og Rauða krossinn á Íslandi.

Markmið verkefnisins er að veita fólki sálrænan stuðning í kjölfar mikilla áfalla, s.s. ofbeldis og flótta frá heimkynnum sínum. Sálrænn stuðningur Rauða krossins gerir þolendum ofbeldis og átaka oft betur kleift að takast á við daglegt líf og þær áskoranir sem fylgja því að búa í yfirfullum flóttamannabúðum, en um 700 þúsund Róhingjar hafast við í flóttamannabúðum í Cox´s Bazar í Bangladess.  

Rauði krossinn á Íslandi hefur frá því í september á síðasta ári stutt við tjaldsjúkrahús Rauða krossins sem sinnir læknisþjónustu vegna líkamlegra sjúkdóma og áverka meðal Róhingja í flóttamannabúðunum. Alls hafa 24 sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi starfað á sjúkrahúsinu, þökk sé mánaðarlegum framlögum Mannvina Rauða krossins.

„Verið er að koma upp svokölluðum öruggum rýmum (e. safe spaces) víða í flóttamannabúðunum en þangað getur fólk leitað vegna sálrænna vandamála. Margir hafa upplifað afar erfiða lífsreynslu fyrir flóttann og á flóttanum auk þess sem lífið í flóttamannabúðunum getur verið erfitt á sál og líkama. Þetta verkefni er viðbót við stuðning okkar við sjúkrahúsið,“ segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs hjá Rauða krossinum á Íslandi.

Verkefnið felst í því að sálfræðingar á vegum Rauða krossins þjálfa sjálfboðaliða úr hópi Róhingja og íbúa Bangladess til þess að veita sálrænan stuðning á svæðinu undir leiðsögn sérfræðinga.  „Það er mikilvægt að sjálfboðaliðar komi úr hópi Róhingja sjálfra og heimafólks en séu ekki aðeins utanaðkomandi. Lykilatriði er að þjálfa upp staðbundna getu og að þörfum sé mætt á jafningjagrundvelli,“ segir Atli Viðar.

Aðalheiður Jónsdóttir er ein þeirra 24 sendifulltrúa Rauða krossins á Íslandi sem hafa starfað á vettvangi í Bangladess en hún er nýkomin heim eftir fjögurra vikna starf sem fól í sér þarfagreiningu og skipulagningu neyðarviðbragða vegna sálrænna vandamála í flóttamannabúðunum. „Það eru ríkjandi fordómar og ranghugmyndir gagnvart andlegum erfiðleikum og því mikilvægt að stuðla að vitundarvakningu um orsakir og afleiðingar sálrænna erfiðleika og að fólk eigi kost á því að leita sér faglegrar aðstoðar,“ segir Aðalheiður.

Framlag Rauða krossins á Íslandi samanstendur m.a. af söfnunarfé frá almenningi og deildum Rauða krossins á Íslandi, en félagið hóf söfnun vegna Róhingja í Bangladess í nóvember 2017. „Stuðningur Mannvina Rauða krossins sem og almennings skiptir sköpum í öllu okkar hjálparstarfi og er skýrt dæmi um hvað stuðningur frá einstaklingi á Íslandi getur haft mikil og jákvæð áhrif á framtíð einstaklinga á neyðarsvæðum“ segir Atli Viðar.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira