Nr. 017, 15. mars 2000. Utanríkisráðherrafundur Barentsráðsins 14.-15. mars
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 017
- Utanríkisráðherrrafundur Barentsráðsins var haldinn í Oulu í Finnlandi dagana 14.-15.mars undir finnskri formennsku. Þetta var 7. ráðherrafundur ráðsins sem stofnað var í ársbyrjun 1993.
Á fundinum var rætt um ýmsa þætti þess starfs sem fram fer á vegum Barentsráðsins á sviði efnahagsmála, umhverfismála, orkumála, samgangna og heilbrigðismála. Meðal mála sem fundurinn lagði áherslu á voru samningaviðræður við Rússland um samstarf til að bægja frá hættunni af geislavirkum úrgangi í norðvestur hluta Rússlands, norðlæg vídd Evrópusambandsins og hlutverk Barentsráðsins. Þá var einnig lögð áhersla á að efla samvinnu og tengsl í fjölþjóðasamstarfi sem fram fer á vettvangi Eystrasaltsráðsins, Barentsráðsins og Norðurskautsráðsins.
Sverrir Haukur Gunnlaugsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sótti fundinn fyrir hönd Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra.
Í ræðu sinni á fundinum beindi hann athyglinni að þeim hagsmunum sem Íslendingar deila með öðrum aðildarríkjum Barentsráðsins, þar á meðal sjáfbærri þróun og mengunarvörnum. Hann fagnaði auknum áhuga á málefnum norðurslóða sem að undanförnu hefur endurspeglast í utanríkisstefnu Evrópusambandsins, Bandaríkjanna og Kanada og vakti athygli á áherslum Íslands á sviði umhverfismála á norðurslóðum, einkum vernd gegn mengun sjávar og ítrekaði stuðning við samstarf sem beinist að verndun umhverfisins fyrir hættum sem stafa af geislavirkum úrgangi.
Yfirlýsing ráðherrafundarins er meðfylgjandi.

Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 15. mars 2000.