Hoppa yfir valmynd
16. október 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 078, 16. október 2000Ávarp fulltrúa á allsherjarþinginu

Utanríkisráðuneytið

Fréttatilkynning

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 078


Fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Þorsteinn Ingólfsson sendiherra, flutti þrjú ávörp á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í sl. viku.
Ávörpin fjölluðu um málefni kvenna, mannréttindi barna og afvopnunarmál.

Í ávarpinu um málefni kvenna lagði fastafulltrúi áherslu á mikilvægi alþjóðasamningsins um afnám alls misréttis gegn konum og skoraði á þau ríki sem ekki hafa enn gerst aðilar að samningnum eða fullgilt hann að gera það hið fyrsta.
Hann fagnaði því að Sádi-Arabía hefði nýlega fullgilt samninginn og ítrekaði að aðild hefði í för með sér skyldur af hálfu samningsríkjanna um að fara eftir öllum ákvæðum hans, m.a. með því að tryggja að öll löggjöf sé í fullu samræmi við samninginn og ekki síður að löggjöfinni sé fylgt eftir.

Fastafulltrúi lagði áherslu á að jafnréttismál væru ekki eingöngu mál kvenna heldur vörðuðu þau bæði kynin. Hann skýrði frá nýlegum lögum á Íslandi um jafnan rétt til fæðingar- og foreldraorlofs.

Fastafulltrúi fagnaði áformum öryggisráðsins um að taka til umfjöllunar stöðu kvenna í stríði og friði á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október n.k.

Í ávarpinu um mannréttindi barna fagnaði fastafulltrúinn þeirri áherslu sem þessi málaflokkur fékk í yfirlýsingu leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna. Hann lagði ennfremur áherslu á mikilvægi valfrjálsu bókananna tveggja við alþjóðasamninginn um réttindi barnsins sem forsætisráðherra undirritaði fyrir Íslands hönd á leiðtogafundinum.
Bókanirnar fjalla annars vegar um þátttöku barna í vopnuðum átökum og hins vegar um mansal barna, barnavændi og barnaklám. Fastafulltrúi kvaðst telja að tilvísun í bókanirnar í yfirlýsingu leiðtogafundarins og fjöldi undirritana væru merki um það hversu alvarlegum augum alþjóðasamfélagið liti á þessi mál. Hann taldi mikilvægt samt sem áður að bókanirnar drægju ekki athyglina frá alþjóðasamningnum sjálfum um réttindi barnsins. Hann minnti á að sá samningur héldi áfram að vera aðalréttarheimildin á þessu sviði og lagði áherslu á þörfina á auknu eftirliti með framkvæmd hans.

Fastafulltrúi gerði eyðni og alnæmisfaraldurinn og áhrif hans á börn að umtalsefni. Íslensk stjórnvöld styddu að þessu mál kæmu til umræðu á sérstöku aukaallsherjarþingi sem haldið yrði á næsta ári. Hann ræddi einnig um fátækt og eiturlyfjavandamálið og áhrif þess á líf barna. Hann ítrekaði ennfremur það mikilvæga hlutverk sem frjáls félagasamtök gegna á þessu sviði.

Í ávarpinu um afvopnunarmál sagði fastafulltrúi að niðurstaða endurskoðunarráðstefnu aðildarríkjanna um alþjóðasamninginn um bann við útbreiðslu kjarnavopna (NPT) væri mikilvæg. Hún styrkti samninginn. Samkomulagið um mikilvæg skref í átt að afvopnun á sviði kjarnavopna stuðli vonandi að raunverulegum árangri. Aðild allra ríkja að samningnum og að farið væri að ákvæðum hans væru grundvallaratriði til að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnavopna.

Fastafulltrúi lagði einnig áherslu á mikilvægi alþjóðasamningsins um bann við kjarnatilraunum til að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnavopna (CTBT). Hann kvað íslensk stjórnvöld fagna ákvörðun rússneska þingsins um að fullgilda samninginn.
Íslensk stjórnvöld skoruðu ennfremur á þau ríki sem hvorki hefðu undirritað samninginn né fullgilt hann að gera það hið fyrsta svo samningurinn geti tekið gildi.

Fastafulltrúi kvað íslensk stjórnvöld sammála þeirri ákvörðun að halda á næsta ári alþjóðaráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna um ólögmæt viðskipti með handvopn. Bjóða ætti frjálsum félagasamtökum að taka þátt í þeirri ráðstefnu.

Ávörp fastafulltrúa fylgja hjálagt.








Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 16. október 2000.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum