Hoppa yfir valmynd
17. júlí 2025 Dómsmálaráðuneytið

Áform um breytingar á lögum um Schengen-upplýsingakerfið lögð fram í samráðsgátt

Breytingin er liður í að efla öryggi á landamærum - myndGolli

Dómsmálaráðherra hefur kynnt áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Schengen-upplýsingakerfið í Samráðsgátt stjórnvalda. Með frumvarpinu er lögfest heimild til að skrá upplýsingar um ríkisborgara þriðju ríkja sem tengjast hryðjuverkum eða öðrum alvarlegum afbrotum í Schengen-upplýsingakerfið. Þá er einnig mælt fyrir um aðgerðir sem heimilt er að grípa til á grundvelli slíkra skráninga.

„Með þessum breytingum erum við að tryggja aðgang landamæraeftirlits og lögreglu að gögnum sem geta skipt sköpum í að koma í veg fyrir alvarlega glæpi og hryðjuverk. Þannig höldum við áfram að efla landamærin okkar og auka öryggi borgaranna.“ segir Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.

Breytingarnar eru liður í því að tryggja betur öryggi á Schengen-svæðinu og uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Þær eru mikilvægar í baráttunni gegn skipulögðum glæpum og tryggja aðildarríkjum Schengen-samstarfsins aðgang að mikilvægum upplýsingum við eftirlit á landamærum.

Liður í að efla öryggi á landamærum

Schengen-upplýsingakerfið gegnir lykilhlutverki í samvinnu um öryggis- og löggæslumál. Í ljósi þess að alvarleg brot og hryðjuverk eru framin þvert á landamæri skipta upplýsingar sífellt meira máli í baráttunni gegn brotastarfsemi.

Löggæslusamvinnustofnun Evrópu (Europol) hefur það meginverkefni að miðla og greina upplýsingar ásamt því að vera samstarfsvettvangur aðildarríkja um aðgerðir á sviði skipulagðrar glæpastarfsemi og hryðjuverka. Upplýsingum um ríkisborgara þriðju ríkja sem tengjast hryðjuverkum eða öðrum alvarlegum afbrotum er deilt með Europol sem vinnur upplýsingarnar og deilir greiningarniðurstöðum sínum með aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Nauðsynlegt þykir að veita notendum Schengen-upplýsingakerfisins, líkt og landamæravörðum og lögreglu, aðgang að þessum verðmætu upplýsingum sem Europol eru veittar en gildandi lög heimila ekki ávallt skráningu slíkra upplýsinga í kerfið. Samkvæmt frumvarpinu þarf beiðni að berast frá Europol um skráningu og verður einungis heimilt að skrá upplýsingar í kerfið að undanfarinni greiningu og sannprófun gagnanna.

Áformin hafa nú verið birt í Samráðsgátt stjórnvalda og er öllum gefinn kostur á að senda inn umsagnir til og með 29. júlí nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta