Hoppa yfir valmynd
3. maí 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur starfshóps um bætta tannheilsu öryrkja og aldraðra

Velferðarráðuneytið í Skógarhlíð - myndVelferðarráðuneytið

Leitað verður samninga við tannlækna um nýja gjaldskrá vegna tannlækninga öryrkja og aldraðra og kostnaðarþátttaka ríkisins aukin. Byggt verður á tillögum starfshóps heilbrigðisráðherra um aukna greiðsluþátttöku ríkisins í tannlækningum þessa hóps sem skilaði tillögum sínum fyrir nokkru.

Samkvæmt fjárlögum er hálfur milljarður króna til ráðstöfunar á þessu ári sem nýttur verður til að draga úr greiðsluþátttöku öryrkja og aldraðra vegna tannlæknaþjónustu. Áætluð aukning fjár í þessu skyni nemur einum milljarði króna á ári. Verkefni starfshóps heilbrigðisráðherra var að gera tillögur um hvernig tryggja megi að fjárframlög vegna kostnaðar aldraðra og öryrkja við tannlæknaþjónustu nýtist sem best í samræmi við þarfir þeirra sem þurfa á þjónustu að halda.

Samkvæmt reglugerð nr. 451/2013 um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði við tannlækningar ætti greiðsluþátttaka ríkisins í kostnaði aldraðra og öryrkja við tannlækningar að nema 75% að jafnaði og vera einstaklingum á hjúkrunarheimilum að kostnaðarlausu. Greiðsluhlutfallið sem kveðið er á um í reglugerðinni tekur mið af gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands sem hefur verið óbreytt frá árinu 2004. Í raun nema því greiðslur ríkisins að jafnaði um fjórðungi af þeim kostnaði sem lífeyrisþegar greiða fyrir tannlækningar.

SÍ falið að semja við tannlækna um nýja gjaldskrá

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur nú veitt Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) umboð til að semja við tannlækna um nýja gjaldskrá fyrir tannlækningar öryrkja og aldraðra á grundvelli tillagna starfshópsins. Eins og fram kemur í umfjöllun hópsins þarf að gera ráð fyrir aukinni meðferðarþörf vegna hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar og í ljósi þess að æ stærri hópur aldraðra heldur eigin tönnum. Eins þarf að huga að því að öldruðum og öryrkjum hefur fjölgað til muna á síðustu áratugum.

Starfshópurinn telur mikilvægt að áhersla verði lögð á forvarnarstarf fyrir bættri tannheilsu aldraðra og öryrkja sem til lengri tíma litið muni lækka kostnað hins opinbera og um leið auka lífsgæði fólks.

Íslendingar ekki lengur eftirbátar

„Þetta er mikilvægt skref og tímabært að taka á þessum málum þar sem þeir hópar sem hér um ræðir hafa allt of lengi borið skarðan hlut frá borði. Íslendingar hafa verið eftirbátar nágrannaþjóðanna í tannheilsumálum en nú erum við að rétta úr kútnum. Frá því um síðustu áramót njóta öll börn að 18 ára aldri gjaldfrjálsra tannlækninga og nú mun staða aldraðra og öryrkja batna til muna þegar kostnaður þeirra vegna tannlæknaþjónustu verður mun viðráðanlegri en verið hefur“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Auk fulltrúa velferðarráðuneytisins í starfshópnum áttu þar sæti fulltrúi Embættis landlæknis, Tannlæknafélags Íslands, Öryrkjabandalags Íslands og Landssambands eldri borgara.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum