Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 486/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 486/2022

Miðvikudaginn 18. janúar 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 29. september 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála útreikning á greiðslum vegna frestunar á töku ellilífeyris í tengslum við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hóf töku ellilífeyris 1. september 2019. Vegna frestunar á töku ellilífeyris í 42 mánuði fékk kærandi 21% hækkun á lífeyri og vegna búsetu erlendis í 28,72 ár á aldursbilinu 16 til 67 ára var búsetuhlutfall hans 71,8%. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. maí 2022, var kæranda tilkynnt að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2021 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 77.273 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfi, dags. 27. maí 2022, andmælti kærandi niðurstöðu endurreikningsins sem var svarað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. september 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. september 2022. Með bréfi, dags. 6. október 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 31. október 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með bréfi, dags. 3. nóvember 2022, bárust athugasemdir kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. nóvember 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er krafist leiðréttingar á útreikningi á auknum réttindum vegna frestunar á töku lífeyris eins og fram komi í bréfi kæranda til Tryggingastofnunar, dags. 27. maí 2022.

Í reglugerð sé ekki tekið fram að breyting á fjárhæð ellilífeyris sé reiknuð samkvæmt skertum réttindum. Túlkun Tryggingastofnunar og útreikningar feli í sér misrétti.

Í athugasemdum kæranda frá 3. nóvember 2022 kemur fram að í greinargerð Tryggingstofnunar segi meðal annars: „Tekur hækkun vegna lífeyristöku mið af fjárhæð ellilífeyrisgreiðslna eins og þær eru reiknaðar út samkvæmt lögum um almannatryggingar þar sem m.a. er tekið tillit til búsetu hér á landi.“

Auk þess hafi verið vísað í reglugerð: „Breyting á fjárhæð ellilífeyris vegna frestunar eða flýtingar lífeyristöku. Eftir að greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar hafa verið reiknaðar út skal hækka fjárhæð ellilífeyrisins samkvæmt tryggingafræðilegum forsendum fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris hefur verið frestað skv. 1. gr. reglugerðar þessarar. Á sama hátt skal lækka fjárhæð ellilífeyris fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris hefur verið flýtt skv. 2. gr. reglugerðar þessarar.“

Tryggingastofnun túlki þessa reglugerð ekki rétt sem valdi mismunun. Í reglugerðinni sé hvergi nefnt að tekið skuli tillit til búsetu hér á landi þegar reiknuð sé hækkun bóta vegna frestunar.

Í greinargerð Tryggingastofnunar hafi ekki komið fram nein sérstök rök sem hreki andmæli kæranda við útreikning á skerðingu á réttindum vegna greiðslna úr lífeyrissjóði og tekna.

Hvergi sé í reglugerðum tekið fram að frítekjumark skuli miðast við skertar bætur. Því sé gert ráð fyrir að miðað sé við lágmarksbætur, annað væri misrétti.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2021.

Rétt til ellilífeyris öðlist þeir sem hafi náð 67 ára aldri og hafi verið búsettir hér á landi í að minnsta kosti þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Full réttindi ávinnist samkvæmt greininni með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt sé samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun lífeyrisins. Í 3. gr. reglugerðar nr. 1195/2017 um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar, sem sett hafi verið á grundvelli heimildar og skyldu í 7. mgr. 17. gr. og 6. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar, sé fjallað um breytingu á fjárhæð ellilífeyris vegna frestunar eða flýtingar lífeyristöku. Þar segi að eftir að greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar hafi verið reiknaðar út skuli hækka fjárhæð ellilífeyris samkvæmt tryggingafræðilegum forsendum fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris hafi verið frestað samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. sömu greinar sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Í a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um fjármagnstekjur og þar komi eftirfarandi fram:

„Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.“

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun  um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 2. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar komi fram að Tryggingastofnun megi endurskoða grundvöll bótaréttar hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem hafi orðið á aðstæðum greiðsluþega.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi á skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Ellilífeyrisgreiðslur kæranda séu búsetuskertar samkvæmt lögum um almannatryggingar og séu greiðslurnar reiknaðar út frá þeim forsendum áður en til hækkunar komi vegna frestunar lífeyristöku. Taki hækkun vegna lífeyristöku mið af fjárhæð ellilífeyrisgreiðslna eins og þær séu reiknaðar út samkvæmt lögum um almannatryggingar þar sem meðal annars sé tekið tillit til búsetu hér á landi.

Þann 19. maí 2022 hafi farið fram endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna vegna ársins 2021. Í bréfi Tryggingastofnunar frá 19. maí 2022 komi fram að greiðslur ársins 2021 hafi verið endurreiknaðar á grundvelli skattframtals 2022. Niðurstaða uppgjörs hafi leitt í ljós skuld að upphæð 77.273 kr.

Niðurstaða endurreiknings kæranda hafi verið sú að heildargreiðslur á árinu 2021 hafi verið 2.299.309 kr., en samkvæmt skattframtali hafi réttindi verið 2.186.584 kr. Mismunurinn hafi verið 112.725 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta að fjárhæð 35.452 kr. Til innheimtu hafi því staðið krafa að fjárhæð 77.273 kr.

Með bréfi, dags. 27. maí 2022, hafi kærandi andmælt framangreindri niðurstöðu sem hafi verið svarað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 9. september 2022. Þar komi fram að rétt til ellilífeyris öðlist þeir sem náð hafi 67 ára aldri og hafi verið búsettir hér á landi í að minnsta kosti þrjú almanaksár frá 16-67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Í 2. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar komi fram að heimilt sé að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun lífeyrisins.

Einnig komi fram í bréfinu að í 3. gr. reglugerðar nr. 1195/2017 um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar, sem sett hafi verið á grundvelli heimildar og skyldu í 7. mgr. 17. gr. og 6. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar, sé kveðið á um þær breytingar á fjárhæð ellilífeyris vegna frestunar eða flýtingar lífeyristöku. 

Í áðurnefndri reglugerð segi enn fremur:

„Breyting á fjárhæð ellilífeyris vegna frestunar eða flýtingar lífeyristöku.

Eftir að greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar hafa verið reiknaðar út skal hækka fjárhæð ellilífeyrisins samkvæmt tryggingafræðilegum forsendum fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris hefur verið frestað skv. 1. gr. reglugerðar þessarar. Á sama hátt skal lækka fjárhæð ellilífeyris fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris hefur verið flýtt skv. 2. gr. reglugerðar þessarar.“

Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 1332/2020 um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2021 hafði ellilífeyrisþegi vegna útreiknings á ellilífeyri annars vegar 300.000 kr. almennt frítekjumark og hins vegar 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna.

Búsetuútreikningur kæranda sé tilkominn á þann hátt að hann sé skráður með búsetu hér á landi samkvæmt Þjóðskrá í 28,72 ár á aldursbilinu 16-67 ára sem gefi 71,8% af fullum rétti til ellilífeyris. Samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um réttindaávinnslu á aldursbilinu 16-67 ára.

Þeim sem fresti töku á ellilífeyri sé umbunað með ávinnslu réttinda. Þeir sem fresti töku ellilífeyris ávinni sér aukningu réttinda sem nemi 0,5% fyrir hvern mánuð sem þeir fresti töku á ellilífeyri eftir að 67 ára aldri hafi verið náð.

Kærandi hafi sótt um ellilífeyri með umsókn, dags. 8. ágúst 2019, og hafi óskað eftir því að greiðslur hæfust 1. september 2019. Þá hafði kærandi frestað töku á ellilífeyri um 3,5 ár eða í 42 mánuði. Greiðsluréttur kæranda hafi þar af leiðandi reiknast 121% vegna frestunar.

Við útreikning á ellilífeyrisgreiðslum hafi réttur kæranda verið margfaldaður með ávinnslunni sem sé 71,8 × 1,21 = 86,88%. Þessari ávinnslu hafi ekki sérstaklega verið ætlað að bæta búsetuskert réttindi kæranda heldur sé þetta afleiddur réttur af búsetu hans. 

Ekki sé að finna frekari frítekjumörk í lögum eða reglugerðum sem kveði á um frekari frítekjumörk fyrir ellilífeyrisþega og heldur ekki fyrir þá ellilífeyrisþega sem þiggi búsetuskertar ellilífeyrisgreiðslur.

Við meðferð kærumálsins hafi aftur verið farið yfir gögn málsins. Farið hafi verið sérstaklega yfir hvort útreikningur væri í samræmi við fyrirliggjandi gögn og reyndist svo hafa verið.

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda um ellilífeyri og frestun á töku hans sé rétt út reiknaður og niðurstaða í uppgjöri ársins 2021 sé rétt reiknuð út og taki mið af faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar útreikning á hækkun greiðslna vegna frestunar á töku ellilífeyris.

Í 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er fjallað annars vegar um að greiðsla ellilífeyris er háð búsetu hér á landi og hins vegar um heimild til frestunar töku ellilífeyris að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Svohljóðandi er 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. ákvæðisins:

„Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.

Heimilt er að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun lífeyrisins, sbr. 3. mgr. 23. gr.“

Með stoð í 70. gr., sbr. 7. mgr. 17. gr. og 5. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar, og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð var sett reglugerð nr. 1195/2017 um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar. Í 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram:

„Eftir að greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar hafa verið reiknaðar út skal hækka fjárhæð ellilífeyrisins samkvæmt tryggingafræðilegum forsendum fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris hefur verið frestað skv. 1. gr. reglugerðar þessarar. Á sama hátt skal lækka fjárhæð ellilífeyris fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris hefur verið flýtt skv. 2. gr. reglugerðar þessarar.“

Hlutfallshækkun lífeyris vegna frestunar töku lífeyris er birt í töflu í viðauka I við reglugerðina. Þar kemur fram að greiðsluþegar ávinni sér aukningu réttinda sem nemur 0,5% fyrir hvern mánuð sem þeir fresta töku á ellilífeyri eftir að 67 ára aldri hafi verið náð.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim laga- og reglugerðarákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Kærandi varð 67 ára í febrúar 2016 og frestaði töku ellilífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins til 1. september 2019 og fékk 21% hækkun á lífeyri um 42 mánuði. Vegna búsetu kæranda erlendis í 28,72 ár á aldursbilinu 16 til 67 ára var búsetuhlutfall hans 71,8%.

Ágreiningur málsins varðar útreikning Tryggingastofnunar á hækkun greiðslna vegna frestunar á töku ellilífeyris að teknu tilliti til búsetuskerðingar kæranda. Kærandi gerir athugasemdir við túlkun Tryggingastofnunar á framangreindri reglugerð um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar að tekið skuli tillit til búsetu hér á landi áður en reiknuð sé hækkun bóta vegna frestunar töku ellilífeyris.

Fjallað er um framkvæmd einstakra atriða er varða útreikning vegna frestunar á töku ellilífeyris samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar í reglugerð nr. 1195/2017 um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar, sbr. 7. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar. Í 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að áður en hækkun greiðslna vegna frestunar töku ellilífeyris komi til skuli fyrst reikna út fjárhæðir greiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar. Við útreikning á  fjárhæðum greiðslna ber að taka tillit til búsetuskerðingar samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar. Ekki er ágreiningur í málinu um búsetuhlutfall kæranda sökum búsetu erlendis.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindu að Tryggingastofnun ríkisins hafi reiknað greiðslur vegna frestunar á töku ellilífeyris kæranda lögum samkvæmt. Ákvörðun Tryggingastofnunar um útreikning á auknum réttindum vegna frestunar á töku ellilífeyris kæranda er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á auknum réttindum vegna frestunar á töku ellilífeyris A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum