Hoppa yfir valmynd
8. desember 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 733/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 8. desember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 733/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23050076

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 11. maí 2023 kærði […], fd. […], ríkisborgari Venesúela (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. apríl 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunnar verði felld úr gildi og honum verði veitt alþjóðleg vernd, á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, til vara að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laganna, til þrautarvara að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á grundvelli 1. og 2. mgr. 74. gr. laganna.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 27. apríl 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 21. júní 2022 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 26. apríl 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 11. maí 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 25. maí 2023.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna og almenns ástands í landinu. Hann hafi tekið þátt í fjölda mótmæla gegn ríkisstjórninni áður en hann flúði til Bandaríkjanna árið 2016 og verið virkur í starfi stjórnmálahreyfinganna Acción Democratica og Primero Justicia. Hann hafi sætt áreiti og hótunum frá Colectivos. Þá hafi hann verið rændur af Colectivos og byssu miðað á hann. Hann hafi snúið aftur til Venesúela árið 2018 en flúið þaðan að nýju vegna þess að hann hafi misst starf sitt, verið félagslega einangraður og ekki haft efni á mat eða læknisþjónustu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Kæranda var veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljugur innan frestsins yrði endurkomubannið fellt niður.

Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að kærandi telji Útlendingastofnun ekki hafa gætt jafnræðis við töku ákvörðunar í máli kæranda. Á þeim tíma frá því hann sótti um alþjóðlega vernd og mánuðina eftir viðtal við umsækjanda hafi nánast öllum þeim sem hafi komið frá Venesúela veitt viðbótarvernd samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útendinga, án þess í sumum tilvikum að þurfa að skila greinargerð málatilbúnaði sínum til stuðnings. Kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 27. apríl 2022, tveimur mánuðum síðar hafi efnisviðtal við hann farið fram. Síðan þá hafi hann beðið í um 12 mánuði þar til Útlendingastofnun tók ákvörðun í máli hans og sé því um að ræða brot á málshraðareglu og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 9. gr. og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í greinargerð kemur fram að kærandi sé fæddur og uppalinn í borginni Karakas í Venesúela, og að hann hafi búið þar alla ævi að frátöldu tímabilinu 15. október 2016 til 4. desember 2018 þegar hann hafi verið umsækjandi um alþjóðlega vernd í Bandaríkjunum. Kærandi hafi verið virkur í stjórnmálahreyfingunum Acción Democratica og Primero Justicia í Venesúela og hafi verið í ungliðahreyfingu fyrrnefndu hreyfingarinnar áður en hann flúði til Bandaríkjanna. Kærandi og fjölskylda hans hafi öll verið í Acción Democratica þar sem móðir hans starfaði fyrir hreyfinguna. Móðir hans hafi gerst aðili að flokknum árið 2001 og kærandi árið 2006, þegar hann hafi verið 12 ára gamall. Hlutverk hans í flokknum hafi meðal annars verið að aðstoða við skipulagningu og mönnun mótmæla. Kærandi og fjölskylda hans hafi búið í hverfi þar sem fjölmargir meðlimir samtakanna Colectivos bjuggu. Árið 2012 hafi móðir kæranda haft eftirlit með kosningum í Venesúela fyrir hreyfinguna Acción Democratica þar sem hún hafi vakið athygli á því að verið væri að eiga við úrslit kosninganna. Frá þeim tíma hafi fjölskyldan verið undir smásjá hópa innan Colectivos. Þau hafi verið áreitt daglega, rusli hafi verið grýtt í heimili þeirra, ökutæki þeirra hafi verið eyðilagt og fúkyrðum og hótunum hafi verið hreytt í þau. Móðir kæranda hafi ekki látið það stoppa sig og hafi haldið áfram starfi fyrir hreyfinguna. Skömmu síðar hafi þau verið rænd. Framangreindir atburðir hafi lagst þung á kæranda sem hafi orðið þunglyndur og hætt í verkfræðinámi sínu. Hann hafi hafið nám í lögfræði síðar til að geta tekið þátt í að bæta stjórnfar í landinu. Árið 2014 hafi kærandi tekið þátt í nemendamótmælum í háskólanum þar sem stjórnvöld hafi gripið til harkalegra aðgerða til að bæla niður, fjölmargir hafi særst og tveir látið lífið. Kærandi hafi verið á staðnum, komst undan og falið sig í skóbúð þar til hann taldi öruggt að koma sér heim.

Kærandi hafi tekið þátt í starfi stjórnmálahreyfingunni First Justice frá árinu 2015. Hann hafi verið virkur í starfi hreyfingarinnar, mætt á viðburði og á mótmæli og tekið þátt í verkefni á vegum hreyfingarinnar við að meta stig fátæktar og aðstæður fátækra. Hann hafi deilt mynd af konu í leiðtogahlutverki hjá hreyfingunni og eftir það hafi áreiti gegn kæranda af hálfu Colectivos aukist. Kæranda hafi verið ógnað og hann rændur og fjölskylda hans ekki séð annan kost en að flýja frá Venesúela. Fjölskylda hans hafi komið til Bandaríkjanna 15. ágúst 2016 og sótt um alþjóðlega vernd þar í landi. Móðir kæranda og systkini hafi fljótlega hlotið vernd en umsóknir kæranda hafi misfarist og engin svör borist við þeim fyrr en hann hafi verið kveðinn fyrir dóm og síðar gefin út brottvísunarákvörðun í máli hans og því lokað. Aðstaða hans í Bandaríkjunum hafi orðið erfið hvað varðar fjárhag og atvinnu. Að ráðleggingum stjúpföður kæranda hafi kærandi snúið aftur til Venesúela 4. desember 2018. Kærandi hafi eytt öllum pólitískum færslum, nýlegum skrifum, myndum og öðru. Hann hafi flutt til ömmu sinnar og afa og starfað á bifreiðaverkstæði stjúpföður síns. Hann hafi ekki látið neinn vita að hann væri í landinu og haldið sig alfarið heima á milli þess sem hann mætti í vinnu. Þannig hafi hann lifað í fjögur ár, vinalaus, fátækur og félagslega einangraður. Hann hafi ekki tekið þátt í stjórnmálahreyfingum af ótta við frekari ofsóknir af hálfu Colectivos sem og aðgerða stjórnvalda gegn mótmælendum sem urðu stöðugt harðari. Með versnandi efnahagsaðstæðum í Venesúela hafi laun hans orðið verðminni. Kærandi hafi verið stöðvaður af lögreglumönnum sem tóku allan peninginn hans sem mútugreiðslu. Kærandi hafi þá brotnað saman, heilsu hans hefði hrakað, hann hefði grennst og misst tvær tennur og hafði ekki efni á mat. Kærandi hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun greint frá því að óttast ekki um líf sitt eða heilsu í Venesúela heldur að einhver myndi vita af tilvist hans eða að upplýst um stjórnmálaskoðanir sínar og lenda aftur í ofbeldi og hótunum. Í greinargerð kæranda er rakin þýðing á frásögn kæranda vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd í Bandaríkjunum.

Aðalkrafa kæranda er sú að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann uppfyllir öll skilyrði þess að teljast flóttamaður í skilningi ákvæðisins. Kærandi hafi lýst því og lagt fram gögn til stuðnings því að hann og fjölskylda hans hafi verið virk í stjórnmálahreyfingu sem hafi verið á móti ríkjandi valdhöfum og hafi gagnrýnt stjórnvöld og sætt ofbeldi, áreiti og niðurlægingu þess vegna. Þá hafi kærandi orðið fyrir ofbeldi hermanna venesúelska hersins í mótmælum sem hann hafi tekið þátt í og óttist að verða fyrir frekara ofbeldi. Vísar kærandi til landaupplýsinga máli sínu til stuðnings. Kærandi sé útlendingur utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna pólitískra skoðana sinna og sem getur ekki fært sér í nyt vernd Venesúela enda stafi ofsóknirnar frá valdhöfum eða hópi ofbeldismanna á vegum yfirvalda. Kærandi vísar til hinnar kærðu ákvörðunar og vísar til þess að Útlendingastofnun hafi ekki efast um frásögn hans hvað varðar þátttöku í mótmælum og starfi stjórnmálahreyfinga og að kærandi hafi orðið fyrir áreiti og hótunum ótilgreindra meðlima Colectivos. Kærandi hafi þurft að fela persónu sína og stjórnmálaskoðanir af ótta við ofsóknir og geti það ekki verið eðlileg og sanngjörn krafa að umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hafi ástæðuríkan ótta vegna ofsókna í heimaríki sínu þurfi að passa að fela sig, einangra sig félagslega og fela lífs- og trúarskoðanir. Kærandi gerir athugasemd við ákvörðun Útlendingastofunnar sem óréttmætri og telur hana brjóta gegn þeirri vernd sem ber að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd samkvæmt alþjóðasamning um stöðu flóttamanna sbr. 3. og 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi telji forsendur ákvörðunar Útlendingastofnunnar ganga í berhögg við fyrirliggjandi upplýsingar um heimaland kæranda.

Varakrafa kæranda er að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi flúið Venesúela af ástæðuríkum ótta við menn sem hafi komist upp með að ræna, hóta og áreita hann og fjölskyldu hans ítrekað án þess að lögreglan hafi aðhafst, enda hafi mennirnir verið herliðar yfirvalda. Uppfylli sú hætta sem kærandi upplifir í Venesúela öll skilyrði að teljast til ómannúðlegrar og vanvirðandi meðferðar í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá vísar kærandi til 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um að kærandi geti ekki fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta Venesúela. Kærandi hafi flúið þær aðstæður og ástand sem ríkir í Venesúela. Kærandi vísar í úrskurð kærunefndar útlendingamála nr. 453/2021 og þeirra skýrslna sem að úrskurðinum liggja hvað varðar aðstæður í Venesúela.

Þrautarvarakrafa umsækjanda er sú að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til framangreindrar umfjöllunar og þess að kærandi hefur ekki fengið niðurstöður í máli sínu hjá stjórnvöldum innan 18 mánaða frá því að hann sótti um alþjóðlega vernd sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað venesúelsku vegabréfi. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi sé venesúelskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Venesúela, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2022 Country Reports on Human Rights Practices: Venezuela (U.S. Department of State, 20. mars 2023);
  • 2021 Country Reports on Human Rights Practices: Venezuela (U.S. Department of State, 12. apríl 2022);
  • Amnesty International Report 2022/23: Venezuela (Amnesty International, 27. mars 2023);
  • Annual Report 2020 – Chapter IV.B: Venezuela (Inter-American Commission on Human Rights, 2021);
  • Annual Report 2022 – Chapter IV.B: Venezuela (Inter-American Commission on Human Rights, 2023);
  • Bolivarian Republic of Venezuela interim country strategic plan 2023-2025 (World Food Programme, 1. febrúar 2023);
  • Country of Origin Information Report. Venezuela Country Focus (European Asylum Support Office, ágúst 2020);
  • Detailed findings of the independent international fact-finding mission on the Bolivarian Republic of Venezuela (United Nations. Human Rights Council, 15. september 2020);
  • Election Observation Mission – Venezuela 2021 (European Union, 22. febrúar 2022);
  • Fostering Impunity: The Impact of the Failure of the Prosecutor of the International Court to Open an Investigation into the Possible Commission of Crimes against Humanity in Venezuela (Organization of American States, OAS, 2. desember 2020);
  • Freedom in the World 2022 – Venezuela (Freedom House, 28. febrúar 2022);
  • Freedom in the World 2023 – Venezuela (Freedom House, 10. mars 2023);
  • General Country of Origin Information Report. Venezuela 2020 (Netherlands. Ministry of Foreign Affairs, júní 2020);
  • Guidance Note on International Protection Considerations for Venezuelans – Update I (UNHCR, maí 2019);
  • Human Rights Violations in the Bolivarian Republic of Venezuela: A Downward Spiral with No End in Sight (Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights, OHCHR, júní 2018);
  • Humanitarian Access overview (ACAPS, desember 2022);
  • Humanitære forhold (Landinfo, 2. mars 2023);
  • Independence of the justice system and access to justice in the Bolivarian Republic of Venezuela, including for violations of economic and social rights, and the situation of human rights in the Arco Minero del Orinoco region (United Nations High Commissioner for Human Rights, OHCHR, 29. september 2020);
  • Informe Annual de Violencia 2022 (Observatorio Venezolano de Violencia, 29. desember 2022);
  • Latest Asylum Trends (European Union Agency for Asylum, 17. maí 2023);
  • Outcomes of the investigation into allegations of possible violations of the human rights to life, liberty, and physical and moral Integrity in the Bolivarian Republic of Venezuela (Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights, OHCHR, 17. september 2020);
  • Quarterly Report April – June 2023 – Venezuela (The UN Refugee Agency, 8. ágúst 2023);
  • Report of the General Secretariat of the Organization of American States and the Panel of Independent International Experts on the Possible Commission of Crimes Against Humanity in Venezuela. Second Edition (Organization of American States, OAS, mars 2021);
  • Report of the independent international fact-finding mission on the Bolivarian Republic of Venezuela (Human Rights Council, 18. september 2023);
  • Rise of the Criminal Hybrid State in Venezuela (InSight Crime, júlí 2023);
  • Situation of human rights in the Bolivarian Republic of Venezuela (Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights, OHCHR, 16. júní 2021);
  • Situation of human rights in the Bolivarian Republic of Venezuela (The United Nations High Commissioner for Human Rights, OHCHR, 4. júlí 2023);
  • Situation of Venezuelans who have returned and seek to return to their country in the context of COVID-19 (Organization of American States, OAS, september 2020);
  • UNHCR Venezuela Annual Report 2022 (The UN Refugee Agency, 8. ágúst 2023);
  • UNHCR Response – Venezuela, January – June 2023 (The UN Refugee Agency, 8. ágúst 2023);
  • Vefsíða Sameinuðu þjóðanna (http://news.un.org/en/story/2023/01/1132957 – sótt 20. júní 2023);
  • Venezuela: Availability of health care, including for persons with disabilities and older persons; treatment of persons with disabilities and older persons within the healthcare system (2021-January 2023) (Immigration and Refugee Board of Canada, 13. febrúar 2023);
  • Venezuela: Humanitarian Action, (OCHA, 30. nóvember 2022);
  • Venezuela: Humanitarian Response Plan 2022-2023 (OCHA, 7. september 2022);
  • Venezuela in 2022: Building solutions with communities affected by armed violence (International Committee of the Red Cross, 6. janúar 2023);
  • Venezuela Country Focus (European Asylum Support Office, EASO, ágúst 2020);
  • Venezuela Country Forus (European Union Agency for Asylum, EUAA, nóvember 2023;
  • Venezuela Country Report 2022 (Bertelsmann Stiftung, 2022);
  • Venezuela’s Humanitarian Emergency (Human Rights Watch, 4. apríl 2019);
  • Venezuela: Joint Statement on Venezuela Negotiation in Mexico (The Diplomatic Service of the European Union, 26. nóvember 2022);
  • Venezuela: Los Colectivos (Landinfo, 1. október 2019);
  • Venezuela Organized Crime Observatory (InSightCrime, síðast uppfært 14. júní 2023);
  • Venezuela: Overview of U.S. Sanctions (Congressional Research Service, 30. nóvember 2022);
  • Venezuela: Overview of U.S Sanctions (Congressional Research Service, 8. ágúst 2023);
  • Venezuela: Political Crisis and U.S Policy (Congressional Research Service, 1. september 2023);
  • Venezuela: Progress Report March – April 2023 (OCHA, 31. maí 2023);
  • Venezuela: Sikkerhetssituasjonen for sivilbefolkningen (Landinfo, 14. apríl 2020);
  • Venezuela: Tidligere og nåværende protestaksjoner, og retursituasjonen for personer som deltok i de store demonstrasjonene i 2017-2019 (Landinfo, 30. maí 2023);
  • Venezuela: Ytringsfrihet og kritiske ytringer i sosiale medier (Landinfo, 28. júní 2023);
  • Venezuela situation (UNHCR, janúar 2023);
  • Venezuela Situation Fact Sheet (UNHCR, 8. mars 2023);
  • Venezuela: Treatment of citizens by the authorities based on whether or not they participate in anti-government protests, including whether some are more targeted than others and for what reasons; whether access to social security programs may be affected by political activities (2017-January 2021) (Immigration and Refugee Board of Canada, 3. febrúar 2021);
  • Venezuela: UN Experts warn of persisting attacks on civil society, media and trade union leaders (UNCHR, 22. mars 2023);
  • Venezuela: Utsatte grupper og reaksjoner fra myndighetene (Landinfo, 11. júní 2020);
  • Venezuela: Treatment of citizens by the authorities based on whether or not they participate in anti-government protests, including whether some are more targeted than others and for what reasons; whether access to social security programs may be affected by political activities (2017–January 2021) (Immigration and Refugee Board of Canada, 3. febrúar 2021);
  • The World Factbook – Venezuela (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 29. ágúst 2023);
  • What’s Ahead for Venezuela’s Crisis (World Politics Review, 20. apríl 2023);
  • World Report 2022 – Venezuela (Human Rights Watch, 15. janúar 2022) og
  • World Report 2023 – Venezuela (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).

Venesúela er stjórnarskrárbundið lýðveldi með rúmlega 30 milljónir íbúa. Í landinu aðhyllast um 96% íbúa kristna trú, þar af meirihlutinn rómversk-kaþólska trú. Hinn 15. nóvember 1945 gerðist Venesúela aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1978. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gegn konum árið 1983 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1991.

Í framangreindum skýrslum, þ. á m. skýrslum bandarísku utanríkisþjónustunnar frá 2022 og 2023, bandarísku leyniþjónustunnar frá 2023 og Human Rights Watch frá 2023, kemur fram að Venesúela sé fjölflokka lýðræðisríki að nafninu til. Nicolás Maduro, forseti landsins frá árinu 2013, hafi hins vegar styrkt völd sín jafnt og þétt og um leið veikt löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvald landsins. Stjórnarkreppa hafi ríkt í Venesúela frá árinu 2019. Forsetatíð Nicolás Maduro hafi lokið 10. janúar 2019, en hann hafi neitað að afsala sér völdum og haldið því fram að hann hafi unnið sigur í forsetakosningum árið áður. Niðurstöður kosninganna, sem hafi sætt mikilli gagnrýni og hvorki talist óháðar né sanngjarnar, hafi verið ógiltar af venesúelska þinginu. Hinn 23. janúar 2019 hafi stjórnarandstaðan lýst Juan Guaido, forseta venesúelska þingsins, forseta til bráðabirgða. Guaido hafi haft fullt stjórnskipulegt umboð frá þinginu og yfir 50 ríki hafi viðurkennt lögmæti hans sem bráðabirgðaforseta, þ. á m. Bandaríkin og flest ríki innan Evrópusambandsins. Þrátt fyrir það hafi Maduro farið með stjórn allra ríkisstofnana landsins auk þess sem hann hafi notið stuðnings öryggissveita. Guaido hafi því ekki getað beitt valdheimildum sínum og aðeins haft yfirráð yfir nokkrum sendiráðum og eignum Venesúela erlendis. Samkvæmt skýrslu Evrópusambandsins frá árinu 2022 hefur stjórnarandstaðan sniðgengið þrennar kosningar í landinu frá árinu 2015 vegna skorts á lýðræðislegum skilyrðum en hafi árið 2021 verið boðið að sitja í kjörstjórn sveitastjórnarkosninga og hafi sendinefnd á vegum Evrópusambandsins verið boðið að fara með kosningaeftirlit þeirra. Stjórnarandstaðan hafi tekið þátt í kosningunum en framkvæmd þeirra hafi hins vegar verið ábótavant. Í nóvember 2022 hafi samningaviðræður milli stjórnarandstöðunnar og ríkisstjórnar Maduro hafist að nýju en þær hafi legið niðri síðan í október 2021. Samningsaðilar hafi komist að samkomulagi um að bæta mannúðarástand í landinu með stofnun sjóðs á vegum Sameinuðu þjóðanna sem sótt gæti fjármagn í frystar eignir Venesúela erlendis. Í desember 2022 í kjölfar viðræðnanna hafi stjórnaraðstaðan dregið stuðning sinn við Guaido til baka og leyst upp bráðabirgðastjórn hans í landinu þar sem honum hafi mistekist að ná þeim yfirráðum sem stefnt hafi verið að. Markmið stjórnarandstöðunnar sé enn að koma Maduro frá völdum en hún telji Guaido ekki réttan fulltrúa sinn. Á fundi í Barbados 17. október 2023 hafi ríkisstjórn Venesúela og stjórnarandstaðan samþykkt að halda forsetakosningar í Venesúela á seinni hluta ársins 2024. Alþjóðlegir eftirlitsmenn hafi verið viðstaddir fundinn og hafi samningurinn verið undirritaður með milligöngu Noregs. Samkvæmt samningnum sé einnig gert ráð fyrir að Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar hafi eftirlit með kosningunum. Hinn 22. október 2023 hafi stjórnarandstaðan valið Maria Corina Machado sem fulltrúa sinn í komandi forsetakosningum. Hinn 30. október 2023 hafi Hæstiréttur Venesúela þó ógilt þá niðurstöðu og frestað forkosningum stjórnarandstöðunnar vegna mögulegs lögbrots.

Í skýrslu EASO frá 2020 sem uppfærð var með skýrslu EUAA frá 2023 kemur fram að fljótlega eftir að Maduro hafi orðið forseti árið 2013 hafi olíuverð farið hríðlækkandi. Olía hafi lengi verið helsta tekjulind Venesúela og hafi um helmingur af árlegum tekjum ríkissjóðs komið til vegna olíuvinnslu. Lækkun olíuverðs hafi, ásamt efnahagsstefnu stjórnvalda og íþyngjandi regluverki er snúi að atvinnulífinu, átt þátt í niðursveiflu hagkerfisins í Venesúela. Óðaverðbólga og kreppa hafi dregið verulega úr kaupmætti almennings í landinu og orsakað skort á matvælum, lyfjum og öðrum nauðsynjavörum. Þrátt fyrir að lágmarkslaun hafi verið hækkuð hafi meginþorri almennings ekki getað keypt nauðsynjavörur eða framfleytt sér án fjárhagsaðstoðar. Þá kemur fram að öll aðstoð sé veitt í gegnum föðurlandskerfið og föðurlandskortið (s. sistema Patria, Carnet de la Patria) en kortið sé forsenda þess að geta fengið opinbera aðstoð, m.a. matvælaaðstoð í formi svokallaðra CLAP matarpakka (s. Comité Local de Abastecimiento y Producción). Kerfið hafi verið notað til að fylgjast með íbúum og upp hafi komið tilvik þar sem einstaklingum hafi verið neitað um aðstoð vegna þess að þeir hafi verið taldir á móti ríkisstjórn landsins. Þannig hafi föðurlandskortið verið verkfæri til samfélagsstjórnunar í gegnum matvæla- og fjárhagsaðstoð. Árið 2022 hafi ríkisstjórn Venesúela hafið átak til að bregðast við þörfum og vandamálum upp hafi komið í samfélaginu. Einstaklingar geti hlaðið niður smáforriti, svokölluðu VenApp, sem gerir þeim kleift að tilkynna beint til stjórnvalda ef bilun verður í veitingu grunnþjónustu, s.s. vatns, gas eða rafmagns. Einstaklingar sem hyggist nota slíkt smáforrit þurfa að gefa samþykki fyrir því að forritið fái aðgang að persónuupplýsingum og staðsetningu notanda og sé því einnig tæki sem notað sé til að fylgjast með íbúum. Í skýrslu Human Rights Watch frá árinu 2023 kemur fram að flestir íbúar Venesúela séu í þörf fyrir aðstoð vegna skorts á mat, vatni, heilbrigðisþjónustu og hreinlæti. Rúmlega sjö milljónir venesúelskra ríkisborgara hafi lagt á flótta eða séu á vergangi vegna ástandsins í landinu og venesúelska flóttamannakrísan sé talin eitt alvarlegasta vandamál nútímans og fólksflutningarnir þeir fjölmennustu í nútímasögu Suður-Ameríku.

Í skýrslu Landinfo frá mars 2023 kemur fram að árið 2021 hafi aukning orðið í olíuframleiðslu í landinu, en Maduro hafi slakað á þeim ströngu reglum sem gilt höfðu um gjaldeyrismál og gefið leyfi fyrir auknum viðskiptum í erlendri mynt. Í kjölfar þess hafi hagkerfið farið að vaxa að nýju eftir að hafa verið í frjálsu falli síðustu ár og talið sé að hagkerfið hafi styrkst um 15% árið 2022. Fátæktin sé þó enn mikil, sérstaklega hjá þeim sem ekki hafi aðgang að erlendum gjaldeyri. Þá kemur fram að efnahagsástand í landinu hafi farið batnandi síðan árið 2019 þrátt fyrir að enn sé langt í land. Í kjölfar afléttinga ýmissa innflutningshafta og lækkunar verðbólgu hafi framboð af matvælum og lyfjum aukist. Samt sem áður hafi fæstir efni á að nálgast slíkt sökum lágra launa og hækkandi matvöruverðs. Flestir sem yfirgefi landið geri það af efnahagslegum ástæðum. Ástandið í Karakas sé mun betra en á öðrum svæðum þar sem rafmagnsleysi hafi áhrif á aðgengi fólks að bæði rafmagni og rennandi vatni. Samkvæmt skýrslunni hafi um 50% heimila í Venesúela verið undir fátæktarmörkum árið 2022 samanborið við 65% árið 2021 og 87% árið 2017.

Í skýrslu Freedom House frá 2021 kemur fram að strangar hömlur hafi verið settar á grundvallarréttindi venesúelskra ríkisborgara, þ. á m. á tjáningar-, samkomu- og félagafrelsi. Stjórnarandstæðingar, blaðamenn, aðgerðarsinnar, mótmælendur og einstaklingar sem taldir séu andsnúnir ríkisstjórninni hafi verið skotmörk yfirvalda og hafi m.a. þurft að sæta handahófskenndum rannsóknum og handtökum. Í skýrslu Freedom House frá 2023 kemur fram að yfirvöld í landinu hafi takmarkað borgaraleg réttindi og sótt til saka pólitíska andstæðinga sína án réttlátrar málsmeðferðar. Þrátt fyrir að efnahagur landsins hafi náð vexti á ný eftir margra ára samdrátt sé enn mannúðarkrísa í landinu sem drifin sé af pólitísku ójafnvægi. Í skýrslu Human Right Watch frá 2023 kemur fram að ríkisstjórn landsins hafi fangelsað pólitíska andstæðinga sína. Að minnsta kosti 114 pólitískir fangar hafi dvalið í meira en þrjú ár í gæsluvarðhaldi sem samræmist ekki hegningarlögum landsins. Öryggissveitir og vopnaðir hópar sem styðji ríkisstjórnina hafi ítrekað ráðist á mótmælendur með ofbeldisfullum árásum, barsmíðum og skotárásum. Dómskerfi landsins hafi hætt að starfa sem óháð ríkisvald árið 2004 og hafi dómsmálayfirvöld verið samsek venesúelskum yfirvöldum í misnotkun á kerfinu, t.a.m. með því að gefa út afturvirkar heimildir til handtöku og fyrirskipa gæsluvarðhöld á grundvelli ónægra sönnunargagna. Í samantekt rannsóknarnefndar á vegum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna frá 22. mars 2023 kemur m.a. fram að yfirvöld handtaki enn pólitíska andstæðinga sína, hindri mótmæli verkalýðsfélaga og loki fjölmiðlum. Varðhald og pyndingar af hálfu stjórnvalda hindri tjáningarfrelsi og réttinn til mótmæla. Handahófskennd gæsluvarðhöld af pólitískum ástæðum séu enn áhyggjuefni og séu að minnsta kosti 282 einstaklingar enn í haldi, þ. á m. óbreyttir borgarar og hermenn.

Í skýrslu EASO frá 2020 sem var uppfærð með skýrslu EUAA frá 2023 kemur fram að morðtíðni í Venesúela sé ein sú hæsta í Mið- og Suður-Ameríku. Frá 2018 til 2019 hafi morðum fækkað en það sé ekki til marks um að ofbeldi í landinu hafi farið minnkandi. Vopnahópum hafi tekist að viðhalda yfirráðasvæðum sínum og komið á fót eiginlegum smáríkjum (e. micro-states) innan Venesúela sem hafi gert það að verkum að dregið hafi úr átökum milli stríðandi fylkinga. Þá megi rekja fækkun morða til aukinnar fátæktar og flutnings fólks úr landi. Mannránum hafi einnig fækkað og megi rekja það til erfiðleika við greiðslu lausnargjalda vegna óðaverðbólgu. Á sama tíma hafi tíðni annarra glæpa aukist, s.s. fjárkúgun, fíkniefnasala og heimilisofbeldi. Á undanförnum þremur árum hafi hins vegar þeim glæpum sem dregið hafði úr á liðnum árum, s.s. ránum, mannránum og fjárkúgun, fjölgað aftur. Það megi einkum rekja til lögleiðingu og greiðara aðgengis að erlendum gjaldmiðli í Venesúela. Þá hafi aukning á notkun Bandaríkjadals í efnahagskerfi Venesúela leitt til þess að smærri, staðbundnari glæpahópar hafi horfið og runnið saman við stærri glæpasamtök. Venezuelan Observatory of Violence gefur árlega út skýrslu um glæpatíðni í landinu. Í skýrslu þeirra frá desember 2020 kemur fram að morðtíðni í landinu það ár hafi verið um 45,6 morð á hverja hundrað þúsund íbúa. Þá hafi orðið aukning í morðum af hálfu yfirvalda en árið 2020 hafi verið fyrsta árið, frá árinu 2016, þar sem skráð morð af hálfu lögreglu hafi verið fleiri en af hálfu annarra gerenda. Í skýrslu þeirra frá desember 2021 kemur fram að morðtíðni það ár hafi verið 40,9 morð á hverja hundrað þúsund íbúa og a.m.k. 6,3 morð hafi verið framin á hverjum degi af hálfu yfirvalda. Aukning hafi orðið á morðum sem skráð séu óupplýst og því óvíst um gerendur og þá hafi orðið aukning í óútskýrðum mannshvörfum, eða um 4,4 mannshvörf á dag árið 2021. Í skýrslu þeirra frá desember 2022 kemur fram að morðtíðni fari lækkandi en tíðni síðasta árs hafi verið um 40,4 morð á hverja hundrað þúsund íbúa.

Samkvæmt framangreindum skýrslum, m.a. skýrslu bandarísku leyniþjónustunnar (CIA) frá árinu 2023 og skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2022, heyra lögreglu- og öryggismál landsins m.a. undir alríkislögregluna, herlögregluna, svæðisbundin lögregluembætti og lögregluembætti sveitarfélaga. Um 45 þúsund lögreglumenn starfi hjá alríkislögreglunni en yfirvöld hafi gefið það út að stefnt sé að því að fjölga þeim í 100 þúsund árið 2024. Í fyrrnefndri skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar kemur fram að stjórn yfirvalda yfir öryggissveitum landsins hafi minnkað undanfarin ár. Hin ólögmæta og sífellt óvinsælli ríkisstjórn Maduro hafi treyst á hersveitir-, leyniþjónustu og vopnahópa (Colectívos) til þess að veikja stöðu stjórnarandstæðinga og draga úr vilja almennings til mótmæla. Í skýrslu Landinfo frá 2019 kemur fram að Colectívos sé sameiginlegt heiti yfir vopnahópa sem starfi í Venesúela og styðji ríkisstjórnina. Colectívos, sem samanstandi af allt að 100 mismunandi vopnahópum, séu með viðveru um land allt. Óljóst sé að hve miklu leyti vopnahópunum sé stjórnað af yfirvöldum en Colectívos hafi verið þátttakendur í aðgerðum yfirvalda gegn mótmælendum og stjórnarandstæðingum ríkisstjórnar Maduro. Í niðurstöðuskýrslu óháðrar nefndar á vegum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna (e. Detailed findings of the independent international fact-finding mission on the Bolivarian Republic of Venezuela) frá 2020 er fjallað um ítarlega rannsókn á aðgerðum yfirvalda í Venesúela frá árinu 2014. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að yfirvöld í Venesúela og vopnahópar á þeirra vegum hafi framið svívirðilega glæpi, þ. á m. kerfisbundnar pyndingar og aftökur án dóms og laga, sem geti fallið undir skilgreiningu á glæpum gegn mannkyni (e. crimes against humanity). Meirihluti glæpanna hafi verið hluti af kerfisbundnu ofbeldi gegn almenningi í samræmi við eða til að framfylgja stefnu stjórnvalda, m.a. í því skyni að þagga niður, letja eða brjóta á bak aftur andstöðu tiltekinna einstaklinga við ríkisstjórn Maduro og að berjast gegn glæpum. Þá hafi háttsettir embættismenn og herforingjar haft vitneskju um glæpina og ekki gripið til aðgerða til að sporna gegn þeim. Samtök Ameríkuríkja (e. Organization of American States, OAS) hafa í skýrslum sínum frá 2020 og 2021 komist að sömu niðurstöðu. Í skýrslunum kemur m.a. fram að umfang og alvarleiki glæpa gegn mannkyni í Venesúela hafi aukist frá því að fyrri skýrsla samtakanna hafi verið gefin út árið 2018. Skráð tilvik aftaka án dóms og laga séu yfir 18 þúsund og fjöldi einstaklinga hafi þurft að sæta handahófskenndum handtökum og varðhöldum. Þvinguð mannshvörf hafi verið tíð og yfirvöld hafi beitt ýmsum aðferðum við pyndingar, s.s. kynferðislegu ofbeldi. Samkvæmt skýrslu Human Rights Watch frá 2023 gaf saksóknari alþjóðlega sakamáladómstólsins (International Criminal Court (ICC)) út yfirlýsingu í nóvember 2021 um þá ákvörðun sína að hefja rannsókn á ætluðum glæpum gegn mannkyni sem framdir hafi verið í Venesúela. Í mars 2022 hafi saksóknarinn fengið heimild til að opna skrifstofu sína í Karakas og samkvæmt skýrslu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna frá júní 2022 hefur dregið verulega úr dauðsföllum í aðgerðum öryggissveita þó nefndin telji að slíkar aðgerðir hafi haldið áfram.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2023 kemur fram að konur njóti sömu réttinda og karlar samkvæmt stjórnarskrá landsins. Konur og karlar séu lagalega jöfn í hjónabandi, lögin kveði á um jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og vinnuveitendur megi ekki mismuna konum varðandi laun eða vinnu. Engu að síður sé ójöfnuður á vinnumarkaði viðvarandi og lögum ekki framfylgt. Í skýrslunni kemur einnig fram að dómsmálaráðherra Venesúela hafi sett á fót stofnun sem taki á móti kvörtunum vegna ofbeldis gegn konum og börnum. Ráðherra hafi sett saman teymi lögfræðinga, geðlækna og annarra sérfræðinga sem eingöngu hafi sinnt málum er tengjast morðum á konum, kynbundnu ofbeldi og öðrum glæpum gegn konum. Nauðgun sé refsiverð í Venesúela og geti varðað fangelsi allt að 14 árum. Þá kveði lögin á um tuttugu til þrjátíu ára fangelsisrefsingu fyrir morð á konum og refsingu fyrir líkamlegt, kynferðislegt eða andlegt ofbeldi. Lögreglan í landinu sé þó treg við að grípa inn í og koma í veg fyrir ofbeldi í samböndum og sé ekki þjálfuð til að takast á við slík mál. Þrátt fyrir að lög í landinu kveði á um refsingar fyrir ofbeldi gegn konum sé lögunum sjaldan fylgt í raun.

Samkvæmt skýrslum mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, innflytjenda- og flóttamannanefndar Kanada og Landinfo frá 2023 eru bæði opinberar og einkareknar heilbrigðisstofnanir í Venesúela en aðeins 3% íbúa Venesúela hafi tök á að nýta sér þjónustu einkarekinna heilbrigðisstofnana. Yfir 200 opinber sjúkrahús og fjöldi heilsugæslustöðva séu í landinu en þar hafi skort allar helstu nauðsynjar til að sinna sjúklingum síðustu ár. Í framangreindum skýrslum, þ. á m. skýrslum Human Rights Watch frá 2022 og 2019 og EASO frá 2020 sem uppfærð var með skýrslu EUAA frá 2023, kemur fram að frá árinu 2012 hafi heilbrigðisþjónusta í landinu farið versnandi. Innviðir heilbrigðiskerfisins séu veikburða og skortur sé á heilbrigðisvörum og lyfjum. Árið 2022 hafi stjórnvöld áfram stutt við aðgengi að heilbrigðisþjónustu og lyfjum á fátækustu svæðum landsins en aðbúnaði sé ábótavant og skortur sé á heilbrigðisstarfsfólki sem hafi flúið land í miklum mæli. Fjölda sjúkrahúsa hafi verið lokað undanfarin ár og afkastageta þeirra sjúkrahúsa sem enn séu starfrækt hafi verið takmörkuð, t.a.m. hafi mörg þeirra ekki haft reglulegan aðgang að rafmagni og vatni. Umfang vandans liggi ekki fyrir vegna vanrækslu yfirvalda við birtingu heilbrigðisupplýsinga. Þó liggi fyrir að barnadauði og útbreiðsla sjúkdóma sem hefði mátt koma í veg fyrir með bólusetningum, s.s. barnaveiki, malaríu og mislinga, hafi aukist verulega á undanförnum árum. Heilbrigðiskerfið í Venesúela hafi verið illa undirbúið fyrir Covid-19 faraldurinn og hafi einstaklingar sem greinst hafi með sjúkdóminn ekki fengið viðeigandi meðferð. Þá hafi læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk sætt hótunum og jafnvel handtökum af hálfu yfirvalda hafi þau tjáð skoðanir sínar opinberlega á stöðu heilbrigðiskerfisins og aðgerðarleysi stjórnvalda í þeim málum. Í skýrslu Human Rights Watch frá árinu 2023 kemur fram að Venesúela standi enn frammi fyrir alvarlegri mannúðarkrísu þar sem milljónir hafi ekki aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu og næringu. Í mars 2023 hafi rúmlega átta milljónir alvarlega veikra einstaklinga átt í erfiðleikum með að fá heilbrigðisþjónustu í Venesúela og meira en níu milljónir sem þurft hafi á lyfjum eða heilbrigðisþjónustu að halda hafi ekki haft efni á að nálgast slíkt. Aðgangur að drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu hafi dregist saman frá árinu 2021 til ársins 2022 sem m.a. hafi leitt til þess að rúmlega fjórar milljónir séu í mikilli þörf fyrir drykkjarvatn.

Frá árinu 2021 hefur hagkerfi landsins farið að vaxa að nýju og í skýrslu mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá september 2023 kemur fram að hagvöxtur hafi aukist um 17,3% árið 2022. Þrátt fyrir hagvöxt hafi önnur atvik og aðstæður áfram haft neikvæð áhrif á nauðsynlega almannaþjónustu, s.s. samgöngur, menntun og heilbrigðisþjónustu. Í framangreindri skýrslu Human Right Watch frá árinu 2023 kemur fram að nýkjörinn forseti Kólumbíu hafi tilkynnt að hann hygðist opna landamærin að Venesúela að nýju og hafi skipað sendiherra sem tekið hafi við embætti í Karakas 29. ágúst 2022. Í apríl 2022 hafi argentínsk yfirvöld tilkynnt áform sín um að endurnýja stjórnmálasamband við Venesúela. Í mars og júní 2022 hafi Bandaríkin sent opinberar sendinefndir til Venesúela í fyrsta sinn í mörg ár til samræðna vegna áhuga stjórnar landsins á að opna fyrir olíuviðskipti við Venesúela að nýju. Í nóvember 2022 hafi orðið vendipunktur í stjórnarfari Venesúela þegar ríkisstjórn Maduro og stjórnarandstaðan hafi undirritað samkomulag um að auka mannúðaraðstoð í landinu. Samkomulagið kveði á um úthlutun þriggja milljarða Bandaríkjadala til velferðarmála, m.a. til að tryggja betri heilbrigðisþjónustu, fæðuöryggi og rafmagn í landinu, en fram að þessum tíma hafi Maduro, forseti landsins, verið tregur við að þiggja mannúðaraðstoð þrátt fyrir þrýsting frá Bandaríkjunum og öðrum löndum. Þá hafi samningsaðilar samþykkt að halda viðræðum áfram um hin ýmsu mannréttindamál og ákvarða nákvæma tímasetningu kosninga í landinu árið 2024. Bandaríkin hafi í nóvember 2022 dregið úr viðskiptaþvingunum í kjölfar samningaviðræðna ríkisstjórnar landsins og stjórnarandstöðunnar og hafi heimilað bandarísku fyrirtæki að hefja að nýju vinnslu á olíu frá Venesúela og innflutning á henni til Bandaríkjanna. Samkvæmt sameiginlegri yfirlýsingu Evrópusambandsins, Bandaríkjanna, Kanada og Bretlands 26. nóvember 2022 hyggjast ríkin endurskoða viðskiptaþvinganir sínar verði sýnt fram á lýðræðislegar umbætur í Venesúela.

Samkvæmt frétt á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna fór mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Volker Türk, í opinbera heimsókn til Venesúela í janúar 2023. Türk fundaði með Maduro forseta landsins sem lýsti opinberlega yfir vilja til að vinna að því að bæta réttarkerfi landsins. Türk hafi þá boðið fram stuðning og sérfræðiþekkingu til að fylgja því eftir. Türk hafi einnig hitt varaforseta landsins, háttsetta embættismenn, yfirmann dómstóla, stjórnarandstöðu og fleiri háttsetta aðila sem allir hafi viðurkennt þörfina á umbótum í landinu. Ítrekaði Türk þá tilmæli sín til aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um að fresta eða aflétta ráðstöfunum sem grafi undan mannréttindum í landinu. Þá hafi Türk hvatt yfirvöld í Venesúela til að efla samstarf sitt við stofnanir Sameinuðu þjóðanna til að tryggja frjálsa, örugga og virðulega endurkomu þeirra sem kjósi að snúa aftur til heimaríkis. Í skýrslu Landinfo frá árinu 2023 kemur fram að frá árinu 2019 hafi Sameinuðu þjóðirnar aukið viðveru sína og mannúðaraðstoð í landinu. Þá hafi aðgengi ýmissa hjálparsamtaka að landinu aukist en aðstoðin komi aðallega frá Sameinuðu þjóðunum, Rauða krossinum og öðrum alþjóðlegum félagasamtökum. Í ávarpi mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, Volker Türk til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, dags. 5. júlí 2023, kemur fram að skráðum tilvikum drápa af hálfu öryggisstofnana, og tilkynningum um pyndingar og illa meðferð haldi áfram að fækka. Stjórnvöld hafi haldið áfram að saksækja og refsa embættismönnum sem gerst hafi sekir um pyndingar og illa meðferð. Þó þurfi stjórnvöld að halda áfram að bregðast við tilkynningum um slíka glæpi án undantekninga og af gagnsæi. Í skýrslu hinnar óháðu nefndar á vegum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um stöðu mála í Venesúela, frá 18. september 2023, kemur fram að einhver árangur hafi náðst við að draga þá til ábyrgðar sem framið hafi þau brot sem nefndin hafi rannsakað. Þó telji nefndin ástæðu til að ætla að stjórnvöld hafi ekki gert nauðsynlegar breytingar á stofnunum og hafi jafnvel stuðlað að framgangi þeirra sem beri ábyrgð á ofbeldinu. Þá hafi árásum á borgaralegum og lýðræðislegum vettvangi fjölgað á ný. Sé það einkum vegna stefnu stjórnvalda er miði að því að þagga niður í stjórnarandstöðu og gagnrýni á forseta landsins og ríkisstjórn hans. Þrátt fyrir að nefndinni hafi borist færri tilkynningar um meint alvarleg mannréttindabrot síðasta ár en undanfarin ár, hafi hún skrásett fjölda slíkra brota gegn raunverulegum og ætluðum andstæðingum ríkisstjórnarinnar. Brotin hafi einkum beinst að ákveðnum meðlimum borgaralegs samfélags, þ. á m. verkalýðsleiðtogum, blaðamönnum og baráttufólki fyrir mannréttindum.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurriti af viðtali hennar hjá Útlendingastofnun 21. júní 2022, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Í e. lið 3. mgr. 38. gr. útlendingalaga kemur fram að stjórnmálaskoðanir vísi einkum til skoðana á stefnumótun og aðferðum stjórnvalda sem kunni að beita ofsóknum án tillits til þess hvort viðkomandi hefur aðhafst eitthvað til að tjá skoðanir sínar. Í handbók um réttarstöðu flóttamanna kemur fram að það eitt að hafa aðrar stjórnmálaskoðanir en ríkisstjórnin nægi ekki til að gera tilkall til réttarstöðu flóttamanns. Í umfjöllun í handbók flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna um stjórnmálaskoðanir í skilningi alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 1951 kemur fram að umsækjandi verði að sýna fram á að hann óttist að verða fyrir ofsóknum vegna þessara skoðana sinna. Gengið sé út frá því að stjórnmálaskoðanir umsækjanda feli í sér gagnrýni á stefnu eða aðferðir stjórnvalda sem séu stjórnvöldum ekki þóknanlegar. Einnig sé gert ráð fyrir að stjórnvöldum sé kunnugt um slíkar skoðanir eða að þau ætli að umsækjandi hafi þær. Við mat á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir á grundvelli stjórnmálaskoðana í skilningi samningsins er þannig ekki skilyrði að viðkomandi hafi skoðanir sem feli í sér gagnrýni á stjórnvöld, heldur aðeins að stjórnvöld ætli að umsækjandi hafi slíkar skoðanir. Samkvæmt e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga vísa stjórnmálaskoðanir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laganna einkum til skoðana á stefnumótun og aðferðum stjórnvalda sem kunna að beita ofsóknum án tillits til þess hvort viðkomandi hefur aðhafst eitthvað til að tjá skoðanir sínar. Með vísan til þess sem fram kemur í umfjöllun í handbók flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna verður lagt til grundvallar að ætlaðar stjórnamálaskoðanir geti einnig fallið undir e-lið 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna almenns ástands þar. Kærandi byggir jafnframt á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu stjórnmálaskoðanna og þáttöku í mótmælum. Annars vegar vegna eigin stjórnmálaskoðana, en hann hafi tekið þátt í starfi stjórnmálahreyfinganna Acción Democratica og Primero Justica og líkur standi til þess að hann muni sæta áframhaldandi ofsóknum verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Hins vegar vegna starfa móður hans fyrir Acción Democratica en hún starfaði fyrir hreyfinguna við kosningaeftirlit og fjölskyldan varð í kjölfarið fyrir áreiti og ofsóknum meðlima Colectivos. Í kjölfarið flúði kærandi og fjölskylda hans til Bandaríkjanna þar sem þau hafi öll fengið alþjóðlega vernd nema kærandi.

Við meðferð málsins lagði kærandi m.a. fram myndir af sér í mótmælum, mynd af staðfestingu stjórnmálahreyfingarinnar Acción Democratica um störf móðir hans fyrir hreyfinguna, mynd af staðfestingu á að kærandi og móðir hans hafi verið skráð í stjórnmálahreyfinguna Acción Democratica. Þá lagði kærandi fram afrit af ökuskírteinum móður sinnar, systra og bróður gefin út af yfirvöldum í Texas fylki í Bandaríkjunum.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að vera fæddur og uppalinn í Karakas í Venesúela. Kærandi hafi búið í Venesúela allt sitt líf fyrir utan tímabil á árunum 2016-2018 þegar hann dvaldi í Bandaríkjunum sem umsækjandi um alþjóðlega vernd. Kærandi hafi þá búið í Venesúela frá 4. desember 2018 þar til hann flúði til Íslands 25. apríl 2022. Kærandi greindi frá því að vera meðlimur í stjórnmálahreyfingunni Acción Democratica, og hafa gengist til liðs við hreyfinguna árið 2006 en móður hans árið 2001. Hlutverk þeirra hafi verið að safna fólki saman til mótmæla. Kærandi greindi frá að líkamlegri heilsu hans hafi hrakað, hann hafi lést og misst tvær tennur en að andlega heilsan hans væri góð. Kærandi kvaðst hafa búið í hverfi þar sem mikið væri um hópa af Colectivos. Hann greindi frá því að árið 2014 hafi móðir hans sinnt kosningaeftirliti fyrir stjórnmálahreyfinguna og vakið athygli á kosningasvindli hermanna með fölsuð skilríki sem reyndu að kjósa oftar en einu sinni í kosningunum. Í kjölfar þess hafi þau verið rænd. Þá hafi meðlimir Colectivos farið að áreita fjölskylduna, henda rusli í hús þeirra og skemmt bíl þeirra. Kærandi greindi frá því að hafa tekið þátt í stúdentamótmælum árið 2014 þar sem lögreglan hafi haft afskipti af mótmælendum. Í einum mótmælum hafi nemendur látið lífið og hann hafi þurft að fela sig í skóbúð þar til óhætt væri að snúa heim og í öðrum mótmælum hafi meðlimur þjóðvarðarliðsins lamið hann í höfuðið með hjálm þegar hann reyndi að aðstoða annan mótmælanda. Kærandi greindi frá því að árið 2015 hafi hann aðstoðað aðra stjórnmálahreyfingu, First Justice, og þegar hann hafi birt mynd af sér með forseta hreyfingarinnar á samfélagsmiðlinum Instagram hafi hann sætt áreiti nágranna sinna. Kærandi kveðst hafa verið mjög gagnrýnin á yfirvöld árið 2016 og þegar hann hafi komið í háskólann þá hafi meðlimir Colectivos beðið eftir honum, hótað honum og rænt hann. Í kjölfar þess hafi fjölskyldan ákveðið að flýja til Bandaríkjanna. Hann greindi frá því að hann hafi búið í Bandaríkjunum á tímabilinu 2016-2018 en hafi snúið aftur til Venesúela í desember 2018 og starfað með stjúpföður sínum og afa. Hann hafi eytt út öllum myndum tengdum mótmælum og af meðlimum stjórnmálahreyfinga, og ákveðið að taka ekki þátt í mótmælum. Hann hafi verið stoppaður af lögreglu eitt skipti sem hafi viljað mútur og hann hafi látið þá hafa alla sína fjármuni. Kærandi greindi frá því að hann óttaðist engan sérstakan í Venesúela, heldur taldi lífi sínu sóað í Venesúela þar sem hann væri einsamall án fjölskyldu sinnar. Þá hafi verðbólga í landinu gert honum ókleift að lifa af launum sínum.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er lagt mat á trúverðugleika kæranda. Þar kemur annars vegar fram að frásögn kæranda um að hafa tekið þátt í fjölda mótmæla í Venesúela, verið virkur í stjórnmálahreyfingum áður en hann flúði til Bandaríkjanna og kunni að hafa orðið fyrir áreiti og hótunum ótilgreinda meðlima Colectivos vegna þess væri ekki dregin í efa. Hins vegar kemur þar fram að Útlendingastofnun hafi litið til þess að umsækjandi hafi getað snúið aftur til Venesúela árið 2018 og dvalið þar áður en hann kom hingað til Íslands í apríl 2022, þá af öðrum ástæðum, því væri ekki hægt að leggja til grundvallar frásögn umsækjanda um að hann gæti ekki snúið aftur til heimaríkis. Að öðru leyti hafi hann borið fyrir sig almennt ástand í landinu.

Samkvæmt upplýsingum um heimaríki kæranda, m.a. skýrslu Human Rights Watch frá árinu 2023, hafa öryggissveitir stjórnvalda ítrekað ráðist gegn mótmælendum í landinu síðan árið 2014 en tugir þúsunda manna hafa mótmælt ríkjandi stjórnvöldum í landinu frá þeim tíma. Í skýrslu Freedom House frá 2021 kemur fram að strangar hömlur hafi verið settar á grundvallarréttindi venesúelskra ríkisborgara, þ. á m. á tjáningar-, samkomu- og félagafrelsi. Stjórnarandstæðingar, blaðamenn, aðgerðarsinnar, mótmælendur og einstaklingar sem taldir séu andsnúnir ríkisstjórninni hafi verið skotmörk yfirvalda og hafi m.a. þurft að sæta handahófskenndum rannsóknum og handtökum. Af gögnum, m.a. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2023, verður ekki annað séð en að þeir sem eigi á mestri hættu að sæta handtöku og refsingu vegna andstöðu sinnar við stjórnvöld séu einstaklingar eða samtök sem njóti vegna stöðu sinnar meiri athygli en aðrir.

Með hliðsjón af trúverðugleikamati Útlendingastofnunar, þeim landaupplýsingum sem kærunefnd hefur kynnt sér og þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu telur kærunefnd ekki ástæðu til að draga þá frásögn kæranda í efa um að hann hafi tekið þátt í mótmælum, tekið þátt í störfum stjórnmálahreyfinganna Accion Democratica og Primero Justicia, og að hann og fjölskylda hans kunni af þeim sökum að hafa orðið fyrir tilteknu áreiti og hótunum frá ótilgreindum meðlimum Colectivos áður en hann flúði til Bandaríkjanna árið 2016.

Af frásögn kæranda verður ekki ráðið að hann hafi gengt stóru hlutverk innan stjórnmálahreyfinganna eða að hann hafi verið áberandi fyrir hönd þeirra. Þá verður ekki ráðið að hann hafi komið að starfsemi þessara stjórnmálahreyfinga eða annarra stjórnarandstöðuflokka í heimaríki frá árinu 2016. Af frásögn kæranda verður ekki ráðið að hann hafi upplifað áreiti eða ofbeldi af hálfu stjórnvalda eða tiltekinna einstaklinga vegna stjórnmálaskoðana eftir að hann snéri aftur til Venesúela í desember 2018 og þar til hann yfirgaf landið í apríl 2022. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að kærandi eigi ekki frekar á hættu að verða fyrir áreiti en aðrir einstaklingar í heimaríki hans sem séu mótfallnir stjórnvöldum og hafa tekið þátt í mótmælum.

Að teknu tilliti til framlagðra gagna, þ.á.m. afrita af ökuskírteinum fjölskyldumeðlima kæranda útgefnum af bandarískum yfirvöldum, telur kærunefnd ekki ástæðu til að draga í efa að fjölskylda kæranda sé handhafi alþjóðlegrar verndar í Bandaríkjunum. Kærunefnd telur hins vegar ekkert hafa komið fram í málinu um að móðir kæranda hafi gengt stóru hlutverki innan stjórnmálahreyfingarinnar Acción Democratica í Venesúela eða að hún hafi verið áberandi fyrir hönd hennar. Af frásögn kæranda og framlögðum gögnum verður ekki ráðið að móðir hans hafi komið að starfsemi stjórnmálahreyfingarinnar eða annarra stjórnarandstöðuflokka í heimaríki frá árinu 2016. Verður því ekki lagt til grundvallar að kærandi hafi eða muni vekja athygli yfirvalda í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana móður hans.

Að mati kærunefndar benda gögn málsins og framburður kæranda samkvæmt framangreindu ekki til þess að hann eigi á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda á grundvelli stjórnmálaskoðana í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Kærunefnd telur gögn málsins að öðru leyti ekki benda til þess að kærandi eigi á hættu ofsóknir af því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Er því ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga hefur kærunefnd talið rétt að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008, 110 mgr., og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997, 40. mgr.).

Með úrskurðum kærunefndar nr. 539/2023, 526/2023 og 525/2023 frá 27. september 2023 komst nefndin að þeirri niðurstöðu, með vísan til alþjóðlegra skýrslna um ástandið í Venesúela, að í landinu væri ekki stríð eða útbreidd vopnuð átök. Þó öryggisástand í landinu væri enn ótryggt og glæpa- og morðtíðni há hafi dregið úr átökum í landinu undanfarin ár og hafi þau að mestu verið staðbundin við svæði við landamæri Kólumbíu. Var því talið að aðstæður í landinu næðu ekki því marki að sérhver einstaklingur sem þangað færi ætti á hættu að láta lífið eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum. Vísaði nefndin þá til þess að efnahagsástand í landinu hafi þokast í rétta átt með afléttingum ýmissa viðskiptaþvingana, innflutningstakmarkana og verð- og gjaldeyrisstýringar. Ákveðnar breytingar hafi orðið á stjórnarfari landsins síðasta árið og með því samkomulagi sem ríkisstjórn Maduro og stjórnarandstaðan hafi undirritað í nóvember 2022 virðist viðhorf samningsaðila hafa breyst og bendi til þess að aðilar séu tilbúnir að vinna saman að bættum aðstæðum í landinu. Framangreindur samningur og samtal milli stjórnar og stjórnarandstöðu í landinu bæri með sér að dregið hafi úr því pólitíska ójafnvægi sem áður hafi ríkt þegar íbúar Venesúela og aðrar þjóðir hafi skipst í fylkingar með tveimur sitjandi forsetum landsins. Stjórnvöld í Venesúela hafi nú viðurkennt þörfina á mannúðaraðstoð og greint frá þeim vilja sínum að vinna að bættu réttarkerfi í landinu en ríkisstjórn Maduro hafi fram að því hafnað allri mannúðaraðstoð og lokað fyrir innflutning til landsins. Auk þess höfðu fjölmörg ríki heims sett á Venesúela viðskiptaþvinganir sem vonir standi til að létt verði á vinni stjórnvöld í Venesúela með alþjóðasamfélaginu að umbótum í landinu. Samkvæmt alþjóðlegum skýrslum líti út fyrir að forsetakosningar verði í landinu árið 2024, efnahagur landsins hafi þokast í rétta átt síðustu árin, olíuviðskipti hafi hafist að nýju og samningur verið gerður milli stjórnar og stjórnarandstöðu um aukna mannúðaraðstoð í landinu. Er það því jafnframt mat kærunefndar að þrátt fyrir alvarlega stöðu í Venesúela þá nái almennar aðstæður þar ekki því alvarleikastigi að hver sem þar sé staddur teljist eiga á hættu dauðarefsingu eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í skilningi 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Það er því afstaða kærunefndar, með vísan til niðurstöðu framangreindra úrskurða og gagna um Venesúela, að frekari persónulegir þættir þurfi að vera til staðar svo umsækjandi um alþjóðlega vernd frá Venesúela teljist eiga á hættu meðferð í skilningi 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í úrskurðunum féllst kærunefnd á breytta framkvæmd Útlendingstofnunar og eiga þau sjónarmið við að breyttu breytanda í úrskurði þessum.

Heimaborg kæranda, Karakas, er höfuðborg og stærsta borg Venesúela og staðsett í norðurhluta landsins. Samkvæmt alþjóðlegum skýrslum, m.a. skýrslu Landinfo frá árinu 2023, eru almennar aðstæður í höfuðborginni mun betri en á strjálbýlli stöðum í landinu. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2023, kemur fram að ríkislögreglan sé aðallega við störf í höfuðborginni og nágrenni hennar og þá bera heimildir ekki með sér að vopnuð átök eða árásir á almenna borgara séu tíðar í heimahéraði kæranda. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að kærandi eigi á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum verði hann sendur aftur til heimaríkis. Með vísan til fyrri umfjöllunar er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að kærandi hafi tekið þátt í starfi stjórnmálahreyfinga er ekkert í gögnum málsins eða framburði kæranda sem gefur tilefni til að ætla að sérstakar aðstæður hans leiði til þess að hann eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu snúi hann til baka.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefnd að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Er því ljóst að kærandi uppfyllir heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði 37. og 39. gr. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-liðum 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi sé, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 27. apríl 2022. Frá því kærandi sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, 8. desember 2023, eru liðnir um 19 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.  

Er því heimilt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins að uppfylltum öðrum skilyrðum 74. gr. laga um útlendinga.

Að mati kærunefndar uppfyllir kærandi skilyrði a- til d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram vegabréf sem lagt hefur verið til grundvallar auðkenni kæranda. Verður því ekki talið að vafi leiki á því hver kærandi sé, sbr. b-lið 2. mgr. 74. gr. laganna. Þá er það mat kærunefndar að ákvæði a- til d-liðar 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.  

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. .gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er ekki þörf á að fjalla um kröfur kæranda skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest hvað varðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir því að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda er varðar umsókn hans um alþjóðlega vernd er staðfest. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

The decision of the Directorate of Immigration regarding the appellant´s application for international protection is affirmed. The Directorate is instructed to issue the appellant a residence permit based on Article 74(2) of the Act on Foreigners.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Valgerður María Sigurðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum