Hoppa yfir valmynd
2. júní 2022 Utanríkisráðuneytið

Verkefni Barnaheilla í Síerra Leóne gegn ofbeldi á börnum

Ljósmynd: Barnaheill. - mynd

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hófu þróunarverkefni í Síerra Leóne haustið 2021 með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu. Verkefni Barnaheilla ber heitið „Segðu nei við ofbeldi“ (Say no to Violence) og fer fram í tíu skólum í Pujehun héraði, fátækasta héraði landsins, en margir þeirra eru í afskekktum þorpum sem ekki er hægt að ná til nema á báti. Meginmarkmið verkefnisins er að vernda stelpur og stráka gegn ofbeldi í skólum. Barnaheill vinna náið með systursamtökum sínum í Síerra Leóne sem fara með framkvæmd verkefnisins.

Í byrjun maí fór starfsfólk Barnaheilla – Save the Children á Íslandi til Síerra Leóne, þær Guðrún Helga Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Barnaheilla, Kolbrún Pálsdóttir, verkefnastjóri erlendra verkefna og kynningarmála og Guðrún Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna. Tilgangur ferðarinnar var meðal annars að skoða verkefni Barnaheilla sem og að eiga tæknilegt samtal við starfsfólk sem vinnur að verkefni Barnaheilla í Síerra Leóne.

Starfsfólk Barnaheilla heimsótti fimm samfélög þar sem verkefnið hefur verið innleitt. Þar fékk starfsfólk að kynnast börnum sem þar ganga í skóla, foreldrum þeirra, kennurum, skólastjórnendum og öðrum meðlimum samfélagsins. Starfsfólk Barnaheilla tók rýnihópaviðtöl og fékk þannig betri innsýn inn í líf barna og fullorðinna í samfélögunum. Úr viðtölunum kom í ljós að flest börnin, ef ekki öll, voru meðvituð um hvað ofbeldi væri og hvernig ætti að tilkynna slíkt ef þau verða fyrir ofbeldi. Barnaheill – Save the Children í Síerra Leóne standa fyrir hjálparlínunni 922 og er það ein af mörgum tilkynningaleiðum sem börnin nýta sér. Einnig vissu þau flest að þau gætu tilkynnt ofbeldi til skólastjóra eða ,,höfðingja samfélagsins“.

Ofbeldi í skólum hefur lengi tíðkast í Síerra Leóne, þar sem börn verða fyrir ofbeldi af hendi bæði kennara og annarra nemenda. Í þeim þorpum sem starfsfólk Barnaheilla heimsótti var oft mikill munur á samþykktum samfélagslegum venjum. Tíðni ofbeldis var mismunandi eftir samfélögum og refsingar misþungar. Öll samfélögin hafa fengið eða munu koma til með að fá fræðslu um ofbeldi, t.d. hvernig megi koma í veg fyrir ofbeldi, bregðast við ofbeldi, koma auga á dulið ofbeldi og fleira.

Í Síerra Leóne ríkir eitt mesta kynjaójafnrétti í heiminum og eru stúlkur og konur sérstaklega berskjaldaðar fyrir ofbeldi. Kynlífsþrælkun, mansal og kynferðisofbeldi er gríðarlega stórt samfélagslegt vandamál í landinu, 13% stúlkna ganga í hjónaband fyrir 15 ára aldur en 40% fyrir 18 ára aldur og 64% kvenna á aldrinum 15-49 ára verða fyrir ofbeldi í nánum samböndum. Þá hafa 86% kvenna sætt limlestingu á kynfærum.

Tæknilegt samtal á milli starfsfólks Barnaheilla á Íslandi og starfsfólks Barnaheilla í Síerra Leóne stóð yfir tvo síðustu daga heimsóknarinnar. Þá hafði starfsfólk Barnaheilla á Íslandi fengið góða innsýn inn í líf barna í skólunum þar sem verkefnið hefur verið innleitt. Markmiðið með tæknilegu samtali er að deila þekkingu á milli verkefna og aðstæðna á Íslandi og í Síerra Leóne. Þar hafði starfsfólk tækifæri til að ræða um hindranir og áskoranir sem snúa að ofbeldi gegn börnum sem finnast í samfélögunum. Einnig ræddi starfsfólk samtakanna um leiðir til þess að búa til betra samfélag fyrir börn, án ofbeldis.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll
3. Heilsa og vellíðan
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum