Hoppa yfir valmynd
6. október 2009 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Sex loftferðasamningar áritaðir

Sex loftferðasamningar voru áritaðir fyrir hönd Íslands á ráðstefnu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um loftferðasamninga sem fram fór í Istanbúl í Tyrklandi 28. september til 2. október.

Samningarnir sex eru við Azerbaijan, Dóminíska lýðveldið, Kúveit, Sýrland, Túrkmenistan og Víetnam.

Markmið ráðstefnunnar var að skapa aðildarríkjum stofnunarinnar vettvang til að hittast til viðræðna um gerð tvíhliða loftferðasamninga. Fulltrúar utanríkisráðuneytisins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis á ráðstefnunni voru Helgi Ágústsson sendiherra og Karl Alvarsson skrifstofustjóri. Hittu þeir fulltrúa fjölmargra ríkja en auk áritananna var fundað formlega með fulltrúum Jamaíka, Kirgisistan og Pakistan.

Markmið samninganefndar Íslands í öllum tvíhliða viðræðum um loftferðasamnga hefur verið að leita eftir opnum samningum sem veita flugrekendum eins mikið frelsi til að veita þjónustu milli samningsríkja eins og hægt er. Tvíhliða samningar sem þessir snúast fyrst og fremst um gagnkvæmar heimildir til áætlunarflugs en um leið hefur verið leitað eftir samningum sem heimila óreglubundið flug auk farmflutinga. Í flestum samninganna hefur náðst verulegur árangur í þessa átt sem opnar ný tækifæri fyrir íslenska flugrekendur til áætlunarflugs eða óreglubundins flugs með farþega og vörur.

Alls hafa nú verið gerðir sjö samningar á þessu ári en áritaður var samningur við Tyrkland í vor.

Loftferðasamningur Íslands og Víetnam áritaður.  
Fulltrúar Víetnam og Íslands árita loftferðasamning ríkjanna á ráðstefnu í Tyrklandi.      


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira