Hoppa yfir valmynd
4. maí 2023

Mál nr. 97/2023 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 97/2023

Fimmtudaginn 4. maí 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. febrúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. desember 2022, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á bið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 10. nóvember 2022. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 7. desember 2022, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt en með vísan til þess að hann ætti ótekinn biðtíma frá fyrri umsókn yrðu bætur ekki greiddar fyrr en sá tími væri liðinn.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 21. febrúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 10. mars 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. mars 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa fengið viðurlög í sex mánuði. Kærandi óski eftir að dregið verði úr viðurlögunum því að hann sé saklaus.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að upphaf máls kæranda megi rekja til  ákvarðana Vinnumálastofnunar frá 21. júlí 2022 og 2. ágúst 2022. Með ákvörðunum Vinnumálastofnunar hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og síðar á grundvelli 1. mgr. 59. gr. sömu laga. Bótaréttur kæranda hafi með framangreindum ákvörðunum verið felldur niður í tvo mánuði og svo þrjá mánuði, sbr. 1. mgr. 61. gr. laganna. Kærandi hafi verið afskráður í kerfum stofnunarinnar frá og með 16. júlí 2022 eftir að upplýsingar hafi borist um að hann væri staddur erlendis.

Kærandi hafi aftur sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 4. september 2022, en þeirri umsókn hafi verið hafnað með erindi, dags. 14. september 2022, þar sem fyrir hafi legið að kærandi væri staddur erlendis. Kærandi hafi síðast sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 10. nóvember 2022. Með erindi, dags. 7. desember 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að bótaréttur væri ákveðinn 92%. Með vísan til ótekinna viðurlaga yrðu bætur til hans hins vegar ekki greiddar fyrr en að 4,87 mánuðum liðnum.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta eftirstöðvum viðurlaga sinna þegar hann hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta þann 10. nóvember 2022.

Eins og að framan hafi verið rakið hafi kæranda þann 21. júlí 2022 verið gert að sæta viðurlögum í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hann hafi hvorki mætt né boðað forföll í boðað viðtal. Þá hafi kæranda þann 2. ágúst 2022 verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í þrjá mánuði, sbr. 1. mgr. 61. gr. sömu laga, því að hann hafi ekki tilkynnt stofnuninni um dvöl sína erlendis.

Í 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er meðal annars kveðið á um að sá sem hafi sætt viðurlögum samkvæmt 57. til 59. gr. eða biðtíma samkvæmt 54. og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greini eigi sér stað að nýju á sama tímabili samkvæmt 29. gr. skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum. Ákvörðun um viðurlög á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi því leitt til ítrekunaráhrifa fyrri viðurlaga kæranda samkvæmt 1. mgr. 61. gr. þar sem hann hafi ekki unnið sér inn réttindi til nýs bótatímabils samkvæmt 29. gr. laganna. Heildarviðurlagatími hans hafi því verið fimm mánuðir.

Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um nokkur tilvik þar sem biðtími eða viðurlög samkvæmt lögunum falli niður eða frestist. Þannig sé meðal annars kveðið á um í 3. mgr. 58. gr. að taki hinn tryggði starfi sem ekki sé hluti af vinnumarkaðsaðgerðum á meðan á viðurlagatíma samkvæmt 1. mgr. standi falli viðurlögin niður eftir að hinn tryggði hafi starfað í að minnsta kosti hálfan mánuð áður en hann sæki aftur um atvinnuleysisbætur, enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum. Þá segi í 3. mgr. að vari starfið í skemmri tíma, hann hafi sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann eigi sjálfur sök á haldi viðurlagatíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sæki aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 61. gr. Í 3. mgr. 59. gr. sé að finna efnislega samhljóða ákvæði. Kærandi uppfylli hvorki skilyrði 3. mgr. 58. gr. né 3. mgr. 59. gr. um niðurfellingu viðurlagatíma, enda hafi hann ekki tekið starfi á viðurlagatímanum áður en hann hafi sótt aftur um atvinnuleysisbætur.

Þá sé í 4. mgr. 61. gr. kveðið á um að ítrekunaráhrif samkvæmt ákvæðinu falli niður þegar nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist, sbr. 30. eða 31. gr. laganna. Eins og áður segi hafi kærandi ekki unnið sér inn réttindi til nýs bótatímabils.

Með vísan til framangreindra lagaákvæða sé ljóst að skilyrði þess að viðurlagatími verði felldur niður séu ekki uppfyllt í málinu. Það sé því niðurstaða Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda og að eftirstöðvar biðtíma hans skuli halda áfram að líða frá síðasta umsóknardegi kæranda, dags. 10. nóvember 2022.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. desember 2022, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á bið.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 21. júlí 2022 var réttur kæranda til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar með vísan til þess að hann hefði ekki mætt á boðaðan fund hjá stofnuninni sem fara átti fram 13. júlí 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 2. ágúst 2022 var réttur kæranda til atvinnuleysisbóta felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006, sbr. 1. mgr. 61. gr. laganna, með vísan til þess að hann hefði ekki tilkynnt stofnuninni fyrir fram um dvöl erlendis.

Samkvæmt gögnum málsins og upplýsingum frá Vinnumálastofnun var kærandi staddur erlendis á tímabilinu 15. júlí til 27. ágúst 2022 og því skráður í orlof. Kærandi var svo sjálfkrafa afskráður af atvinnuleysisskrá frá og með 1. september 2022 þar sem hann staðfesti ekki atvinnuleit sína þann mánuðinn. Kærandi sótti á ný um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 4. september 2022. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. september 2022, með vísan til þess að hann væri ekki staddur á Íslandi. Kærandi sótti á ný um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 10. nóvember 2022.  Umsóknin var samþykkt en tekið fram að bætur yrðu ekki greiddar fyrr en ótekinn biðtími frá fyrri umsókn væri liðinn.

Í 29. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Þá segir í 31. gr. laga nr. 54/2006 að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.   

Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi ekki, þegar umsókn hans barst Vinnumálastofnun þann 10. nóvember 2022, starfað í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafði því ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/2006 og því hélt allur ótekinn biðtími vegna eldri viðurlaga áfram að líða þegar hann skráði sig atvinnulausan að nýju 10. nóvember 2022. 

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. desember 2022, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til A, á bið er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

___________________________________

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum