Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 544/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 27. nóvember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 544/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19080047

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 21. ágúst 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. október 2018, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Þann 27. febrúar 2018 tilkynnti Útlendingastofnun kæranda um hugsanlega brottvísun og endurkomubann vegna ólögmætrar dvalar hér á landi, sbr. a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Þann 4. apríl 2018 synjaði Útlendingastofnun umsókn kæranda um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki þar sem kærandi dvaldi ólöglega í landinu. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar ekki til kærunefndar útlendingamála. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. október 2018, var kæranda brottvísað og gert endurkomubann til Íslands í tvö ár. Ákvörðunin var tilkynnt kæranda þann 21. ágúst 2019 og kærði hann ákvörðunina samdægurs til kærunefndar útlendingamála. Þann 2. september 2019 var kæranda skipaður talsmaður í málinu og 3. september sl. barst kærunefnd greinargerð kæranda. Í greinargerð óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 6. september sl. féllst kærunefndin á þá beiðni. Frekari upplýsingar bárust frá Útlendingastofnun þann 20. september sl. Með tölvupósti þann 24. september sl. var kæranda leiðbeint að leggja fram frekari gögn í málinu. Þann 30. september sl. framvísaði kærandi vegabréfi sínu til kærunefndar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt upplýsingum úr vegabréfi kæranda, sem sé [...] ríkisborgari og þurfi ekki vegabréfsáritun til landgöngu, hefði hann dvalið á Schengen-svæðinu frá 26. júní 2017 en engan útstimpil af Schengen-svæðinu væri að finna í vegabréfinu. Vísaði stofnunin til og reifaði skilyrði 49. gr. og 50. gr. laga um útlendinga auk skilyrða 8. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Þá vísaði stofnunin til þess að samkvæmt a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga væri heimilt að brottvísa útlendingi sem sé án dvalarleyfis ef hann dvelst ólöglega í landinu.

Útlendingastofnun komst að þeirri niðurstöðu í ákvörðun sinni að kærandi væri ekki með dvalarleyfi hér á landi og þá hefði dvöl hans ekki takmarkast við 90 daga dvöl á Schengen-svæðinu á 180 daga tímabili. Hefði að mati stofnunarinnar ekkert komið fram í málinu sem leiddi til þess að sú ráðstöfun að brottvísa kæranda gæti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans með hliðsjón af tengslum hans við landið eða atvikum máls, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Að framangreindu virtu var það mat Útlendingastofnunar að heimilt væri og skylt að brottvísa kæranda frá Íslandi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Var kæranda brottvísað og gert endurkomubann til landsins í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga, með hliðsjón af alvarleika brots kæranda.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að hann hafi yfirgefið landið þann 6. mars 2018 og haldið til Ungverjalands og farið svo þaðan til heimaríkis. Hafi hann verið í góðum samskiptum við löggæsluyfirvöld vegna málsins og m.a. sent tölvupóst á lögreglumann hjá stoðdeild ríkislögreglustjóra eftir komuna til [...], með myndum úr vegabréfi sínu af stimplum því til sönnunar. Í kjölfar þess hafi hann talið sig hafa sinnt sínum skyldum og hafi því verið í góðri trú þegar hann hafi komið aftur hingað til lands 25. september 2018. Hafi það komið kæranda í opna skjöldu þegar lögreglan hafi þann 21. ágúst sl. birt honum ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. október 2018. Hann búi nú með eiginkonu sinni en þau hafi gift sig þann 23. desember 2018 og hafi hann talið sig hafa rétt til þess að dveljast á landinu sökum þess að hann væri giftur íslenskum ríkisborgara.

Kærandi telur ákvörðun Útlendingastofnunar brjóta í bága við rétt hans til friðhelgis einkalífs og fjölskyldu sem verndaður sé í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var á Íslandi með lögum nr. 62/1994. Þá feli ákvörðun um brottvísun og endurkomubann í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum og maka hans í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, enda muni ákvörðunin girða fyrir það að hann geti dvalið með eiginkonu sinni hér á landi. Vísar kærandi loks til þess að hann hafi sannarlega yfirgefið Ísland innan tilskilins frests og hafi allan tímann verið í góðri trú um að staðfesting þess efnis hefði borist yfirvöldum hér á landi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga er útlendingi, sem ekki þarf vegabréfsáritun til landgöngu, heimilt að dveljast hér á landi í 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu telst jafngilda dvöl hér á landi. Þá segir í 1. mgr. 50. gr. laganna að útlendingur sem hyggist dvelja hér á landi lengur en honum sé heimilt skv. 49. gr. þurfi að hafa dvalarleyfi.Í 8. gr. reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum, er nánar fjallað um dvöl án dvalarleyfis. Þar segir í 1. mgr. 8. gr. að útlendingur, sem þurfi vegabréfsáritun til landgöngu, megi ekki dveljast hér á landi lengur en áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Öðrum útlendingum sé óheimilt án sérstaks leyfis að dveljast hér lengur en 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu teljist jafngilda dvöl hér á landi. Samanlögð dvöl á Schengen-svæðinu megi ekki fara yfir 90 daga á 180 daga tímabili. Þá segir í 2. mgr. 8. gr. að dvalartími útlendings sem er undanþeginn áritunarskyldu reiknist frá þeim degi er hann kom inn á Schengen-svæðið. Ef útlendingurinn hefur dvalarleyfi í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu reiknist dvalartíminn frá þeim degi er hann fór yfir innri landamæri Schengen-svæðisins.

Kærandi er ríkisborgari [...] og þarf því ekki vegabréfsáritun til landgöngu hér á landi. Þá liggur fyrir að kærandi er nú hér á landi. Á grundvelli a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann dvelst ólöglega í landinu. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal, svo framarlega sem 102. gr. á ekki við, vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna.

Líkt og fyrr greinir framvísaði kærandi vegabréfi sínu til kærunefndar. Samkvæmt stimplum í vegabréfi kæranda yfirgaf hann Schengen-svæðið þann 6. mars 2018 og kom aftur inn á Schengen-svæðið 25. september s.á. Af því er ljóst að kærandi fylgdi fyrrgreindum leiðbeiningum Útlendingastofnunar, dags. 27. febrúar 2018, um að yfirgefa landið sem fram komu í tilkynningu stofnunarinnar til kæranda um ólögmæta dvöl, hugsanlega brottvísun og endurkomubann. Ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann er dagsett 16. október 2018 en var ekki birt fyrir kæranda fyrr en 21. ágúst 2019, eða um tíu mánuðum síðar. Þegar Útlendingastofnun tók ákvörðun þann 16. október 2018 um brottvísun kæranda er ljóst að hann dvaldi hér á landi í löglegri dvöl. Með vísan til þess verður ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann því felld úr gildi.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated.

 

Áslaug Magnúsdóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum