Hoppa yfir valmynd
7. desember 2012 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur ÖSE samþykkir stefnumörkun til 2015

Utanríkisráðherrar ÖSE í Dyflinni.

Utanríkisráðherrafundur Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, var haldin í Dyflinni, Írlandi 6. – 7. desember 2011. Ráðherrarnir samþykktu stefnumörkunarferli til að styrkja stöðu stofnunarinnar fram að 40 ára afmæli stofnsáttmála ÖSE, Helsinkiyfirlýsingarinnar, árið 2015. Einnig voru samþykktar ákvarðanir um baráttuna gegn spillingu, peningaþvætti og hryðjuverkum, og yfirlýsing um friðarumleitanir varðandi Transnístríu.

Stefán Skjaldarson, fastafulltrúi  Íslands hjá ÖSE, ávarpaði fundinn fyrir hönd Íslands. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að efla mannréttindi, lýðræðisþróun og aðgerðir gegn mansali. Stefán sagði mismunun ólíðandi, þar með talið mismunun á grundvelli kynhneigðar, og að sérstakri athygli þyrfti að beina að mismunun og ofbeldi á grundvelli hennar. Hann ræddi mikilvægi tjáningarfrelsis og frelsi fjölmiðla, sem einnig næði til nýrra miðla eins og stafrænna miðla og samfélagsmiðla. Fastafulltrúi harmaði ennfremur að borgaraleg- og stjórnmálaleg réttindi væru í hættu í nokkrum þátttökuríkjum ÖSE. 

Ræða Íslands er viðhengd.

Annað árið í röð náði ráðherrafundur ÖSE ekki samstöðu um ákvarðanir á mannréttindasviðinu. Ísland tók undir yfirlýsingu Evrópusambandsins við lok fundar þar sem lýst er miklum vonbrigðum þetta.

ÖSE er stærsta svæðisbundna öryggisstofnun heims og eru þátttökuríki 57 í Evrópu, Mið-Asíu og Norður-Ameríku. Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu samtakanna á vefslóðinni: www.osce.org

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum