Hoppa yfir valmynd
29. september 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 26. september sl. aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis sem tekur til áranna 2006 til 2011.

Gerð aðgerðaáætlunarinnar byggði á tillögu félagsmálaráðherra og dómsmálaráðherra frá október 2005 um að hafin yrði vinna við gerð aðgerðaáætlunar vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis gegn konum og börnum. Áætlunin var unnin á vettvangi samráðsnefndar félagsmálaráðuneytis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Við gerð áætlunarinnar var meðal annars höfð til hliðsjónar drög frjálsra félagasamtaka að aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi sem hafði verið send einstökum fagráðherrum í apríl 2005.

Meginmarkmið aðgerðaáætlunarinnar er að vinna gegn ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi sem beinist að konum og börnum sem og að bæta aðbúnað þeirra er orðið hafa fyrir ofbeldi eða eru í áhættuhópi hvað þetta varðar.

Aðgerðaáætlunin skiptist í tvo hluta:

  1. Aðgerðir vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis gegn börnum.
  2. Aðgerðir vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis gegn konum.

Í hvorum hluta fyrir sig eru eftirfarandi markmið höfð að leiðarljósi:

  • Auka fyrirbyggjandi aðgerðir sem stuðla að opinni umræðu um ofbeldi gegn börnum og kynbundnu ofbeldi og viðhorfsbreytingum í þjóðfélaginu.
  • Styrkja starfsfólk stofnana í því að sjá einkenni ofbeldis hjá börnum og kynbundins ofbeldis og koma þolendum til aðstoðar.
  • Tryggja einstaklingum sem eru þolendur ofbeldis á heimili eða kynferðislegs ofbeldis viðeigandi aðstoð.
  • Rjúfa vítahring ofbeldis með því að styrkja meðferðaúrræði fyrir gerendur.

Um er að ræða efnismikla aðgerðaáætlun sem felur í sér 37 aðgerðir. Hverri aðgerð er lýst sérstaklega ásamt tilgangi hennar. Einstökum ráðuneytum hefur verið falin ábyrgð á framkvæmd sérhverrar aðgerðar ásamt því að settur er fram tiltekinn tímarammi um framkvæmdina.

 

Skjal fyrir Acrobat ReaderAðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis (291 KB)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum