Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 282/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 20. ágúst 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 282/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20060021

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 133/2020, dags. 8. apríl 2020, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. október 2019, um að synja einstaklingi sem kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 20. apríl 2020. Þann 27. apríl 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Þann 5. maí 2020 barst kærunefnd greinargerð kæranda. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd með úrskurði nefndarinnar í máli KNU20040025, dags. 6. maí sl. Þann 12. júní 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 8. apríl 2020. Þá bárust frekari gögn þann 20. júlí 2020.

II. Málsástæður og rök kæranda

Af tölvupóstum kæranda til kærunefndar, dags. 12. júní, 29. júní, 7. júlí og 20. júlí 2020, má ráða að hann krefjist endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd þar sem hann telji að hann eigi rétt á að fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi vísi kærandi til þess að hann hafi ekki fengið niðurstöðu í máli sínu innan 18 mánaða. Þá telji kærandi að hann hafi nú sannað á sér deili og vísi hann í því sambandi til þess að hann hafi lagt fram auðkennisskilríki við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun sem stofnunin eða lögregla hafi svo glatað.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærunefnd kvað upp úrskurð í máli kæranda þann 20. apríl 2020. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi framvísaði pakistönsku persónuskilríki þegar hann sótti um alþjóðlega vernd þann 11. september 2018. Samkvæmt gögnum málsins, þ. á m. svari embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við fyrirspurn kærunefndar, var ekki lagt hald á skilríkið og var það því ekki í höndum stjórnvalda við meðferð málsins. Þrátt fyrir leiðbeiningar kærunefndar þar um lagði kærandi ekki fram umrætt skilríki eða önnur gögn við meðferð málsins sem voru til þess fallin að sanna á honum deili, sbr. 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga um útlendinga og 37. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Að því virtu var það mat kærunefndar að skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. hafi ekki verið fyrir hendi í máli kæranda, en kærunefnd taldi vafa leika á því hver hann sé. Var það því niðurstaða kærunefndar að kæranda yrði ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, þrátt fyrir að niðurstaða hafi ekki fengist í máli hans á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða.

Þann 20. júlí 2020 lagði kærandi fram ýmis gögn til stuðnings beiðni sinni um endurupptöku, þ. á m. pakistanskt kennivottorð og vottorð um skólagöngu hans í Pakistan. Má af tölvupóstum kæranda til nefndarinnar ráða að hann telji að fyrrgreind gögn taki af allan vafa um hver hann sé. Þann sama dag óskaði kærunefnd eftir því að Flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum framkvæmdi rannsókn á fyrrgreindu kennivottorði, en skýrsla lögreglu barst 1. ágúst sl. Kemur þar m.a. fram að það væri ekki að sjá neitt í kennivottorðinu sem gæfi til kynna að búið væri að eiga við það á einn eða annan hátt.

Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að kærandi hafi, til stuðnings beiðni sinnar um endurupptöku, lagt fram pakistanskt kennivottorð sem hafi verið metið ófalsað af lögreglu. Að því virtu er það mat kærunefndar, eins og hér stendur sérstaklega á, að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að kærunefnd kvað upp úrskurð í máli kæranda. Eru skilyrði fyrir endurupptöku á grundvelli 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga því uppfyllt.

Ákvæði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Pakistan, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices: Pakistan (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Country Reports on Terrorism 2017 – Foreign Terrorist Organizations: Tehrik-e Taliban Pakistan (U.S. Department of State, 19. september 2018);
  • Country Information Note. Pakistan: Documentation. (UK Home Office, janúar 2020);
  • Country Policy and Information Note. Pakistan: Security and humanitarian situation, including fear of militant groups (UK Home Office, janúar 2019);
  • Country Policy and Information Note. Pakistan: Background information, including actors of protection, and internal relocation (UK Home Office, júní 2017);
  • EASO Country of Origin Report – Pakistan Security Situation (EASO, október 2019);
  • Freedom in the World 2020 – Pakistan (Freedom House, 4. mars 2019);
  • Khyber Pakhtunkhwa Tribal Districts. Annual Security Report 2018 (FATA Research Centre, 15. janúar 2019);
  • Khyber Pakhtunkhwa Tribal Districts. Annual Security Report 2019 (FATA Research Centre, 13. janúar 2020); 
  • Pakistan: Country Report (Asylum Research Consultancy, 18. júní 2018);
  • Pakistan: First Information Reports (FIRs) (2010-December 2013) (Immigration and Refugee Board of Canada, 10. janúar 2014);
  • Pakistan - Mänskliga rättigheter, demokrati och rättstatens principer: situationen per den 31 december 2018 (Utrikesdepartimentet, 18. júní 2019);
  • Pakistan Security Report 2018 (PAK Institute for Peace Studies (PIPS), 6. janúar 2019);
  • Pakistan Security Report 2019 (PAK Institute for Peace Studies (PIPS), 5. janúar 2020);
  • State of Human Rights in 2018 (Human Rights Commission of Pakistan, 16. apríl 2019);
  • The World Factbook: Pakistan (Central Intelligence Agency, 5. ágúst 2020); 
  • World Report 2020 – Pakistan (Human Rights Watch, 15. janúar 2020);
  • Vefsíða Human Rights Commission of Pakistan (http://hrcp-web.org/hrcpweb/);
  • Vefsíða lögreglu í Khyber Pakhtunkhwa (http://kppolice.gov.pk/index.php);
  • Vefsíða: Provincial Ombudsman Khyber Pakhtunkhwa (https://www.ombudsmankp.gov.pk/);
  • Stjórnarskrá Pakistan (http://na.gov.pk/uploads/documents/1333523681_951.pdf).

Samkvæmt skýrslu CIA frá 2020 er Pakistan sambandslýðveldi með um 233 milljónir íbúa. Þann 30. september 1947 gerðist Pakistan aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 2010 og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 2008. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1966 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2010. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1996, en ríkið hefur hins vegar ekki undirritað valfrjálsa viðbótarbókun við samninginn. Pakistan fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk löggjöf banni handahófskenndar handtökur og varðhald, jafnframt sem lögin kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku fyrir dómi, þá sé spilling innan lögreglunnar vandamál í Pakistan. Spilling á lægri stigum lögreglunnar sé algeng og séu dæmi um að lögreglan þiggi mútur. Einstaklingar tilkynni um meinta glæpi eða brot til lögreglunnar með svokallaðri FIR skýrslu (e. first instance report). FIR skýrslan sé fyrsta skrefið við rannsókn sakamáls og sé hún oftast lögð fram af þriðja aðila þó svo að lögreglan hafi heimild til að gera slíka skýrslu sjálf. FIR skýrslan veiti lögreglunni heimild til að halda meintum brotamanni í gæsluvarðhaldi í 24 klukkustundir á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hægt sé að leggja fram slíka skýrslu hjá lögreglumanni, á lögreglustöð og á vefsíðum ákveðinna lögregluembætta í Pakistan. Þá hafi lögreglan í Khyber Pakhtunkhwa sett upp rafrænt kvörtunarkerfi til þess að taka á móti kvörtunum almennra borgara sem telji lögregluna ekki hafa sinnt skyldum sínum. Kvörtunum vegna þess að FIR skýrsla hafi ekki verið skráð eigi að svara innan 72 klukkustunda.

Í framangreindri skýrslu kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi, réttláta málsmeðferð og að enginn skuli sviptur lífi, eignum eða frelsi án dóms og laga bera gögnin með sér að dómskerfið hafi verið gagnrýnt fyrir spillingu. Spilling sé innan héraðsdómstóla en þeir séu afkastalitlir og undir þrýstingi frá auðugum og áhrifamiklum einstaklingum, einkum á sviði trúar- og stjórnmála. Þá kemur fram að þrátt fyrir að veikleikar séu í réttarkerfinu í Pakistan þá sé spilling refsiverð samkvæmt lögum, en ábyrgðarskrifstofa ríkisins (e. National Accountability Bureau (NAB)) hafi það hlutverk að útrýma spillingu í stjórnkerfum landsins með vitundarvakningu, forvörnum, rannsókn spillingarmála jafnframt sem skrifstofan ákæri í slíkum málum. NAB hafi heimild samkvæmt lögum að halda einstaklingum í 15 daga án þess að ákæra og mögulegt sé að framlengja varðhaldið með samþykki dómstóla. Synja megi einstaklingnum um leyfi til að ráðfæra sig við lögmann meðan á rannsókn standi. Þá sé ekki unnt að greiða tryggingu til að losna úr varðhaldi heldur sé það einungis ákvörðun formanns NAB að láta einstakling lausan.

Í skýrslu EASO frá 2019 fram að Tehrik-e- Taliban (TTP) séu regnhlífarsamtök þrettán aðskildra talíbanahópa í Pakistan. Upphafleg markmið TTP, sem hafi verið stofnuð árið 2007, hafi verið að aðstoða afganskar hersveitir talíbana við að hrekja herafla Atlantshafsbandalagsins (NATO) frá Afganistan, koma á fót sjaría lögum í Pakistan og heyja heilagt varnarstríð gegn pakistönskum yfirvöldum (e. defensive jihad). Í því skyni hafi TTP staðið að baki ótal hryðjuverka- og stjórnmálatengdum árásum, þá sérstaklega á ættbálkasvæðum í norðvestur Pakistan, áður þekkt sem FATA svæði (Federal Administered Tribal Areas), og í Khyber Pakhtunkhwa héraði. Yfirvöld í Pakistan hafi bannað TTP árið 2008, fryst eignir samtakanna og boðið verðlaunafé til höfuðs háttsettra leiðtoga þeirra. Friðarviðræður hafi átt sér stað á milli pakistanskra yfirvalda og TTP í byrjun árs 2014 en flosnað hafi upp úr þeim viðræðum í júní s.á.

Þá kemur í framangreindri skýrslu fram að þann 31. maí 2018 hafi FATA svæðið, þ.m.t. [...], hvar kærandi kveðst hafa starfað og haft búsetu áður en hann hafi lagt á flótta frá heimaríki, orðið hluti af [...] sýslu (e. fronter region Kohat) í Khyber Pakhtunkhwa héraði. Hryðjuverkaárásir TTP og annarra vígahópa, þ. á m. svæðisbundinna hópa Talíbana (e. local Taliban), hafi leitt til þess að öryggisástandið í Khyber Pakthunkhwa hafi víða verið ótryggt. Meirihluti árása hafi beinst að hersveitum yfirvalda en almennir borgarar hafi einnig verið skotmörk. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér verður ráðið að það sé fylgst náið með öryggisástandinu í Khyber Pakthunkhwa, þ. á m. taki frjálsu félagasamtökin PAK Institute for Peace Studies (PIPS) og Fata Research Centre (FRC) saman ítarlegar tölfræðilegar upplýsingar um árásir í héraðinu. Skýrslur ofangreindra samtaka frá árunum 2018 og 2019 bera það með sér að öryggisástandið í héraðinu hafi tekið talsverðum framförum. Héraðið sé undir stjórn pakistanskra hersveita sem hafi, með 187 hernaðaraðgerðum á árunum 2011-2015, að mestu tekist að hrekja sveitir TTP til Afganistan þar sem bækistöðvar þeirra séu nú. Samkvæmt ofangreindum skýrslum FRC hafi það leitt til þess að hryðjuverka- og sprengjuárásum í héraðinu hafi fækkað verulega, þ. á m. hafi engar skráðar árásir verið í [...] sýslu árin 2018 og 2019. Þá hafi mannföllum fækkað verulega, en 34 almennir borgarar í Khyber Pakhtunkhwa hafi látið lífið vegna slíkra árása árið 2019, samanborið við 75 árið áður og 197 árið 2017.

Jafnframt kemur fram á vefsíðu Provicincial Ombudsman að í Khyber Pakhtunkhwa sé starfandi umboðsmaður sem hafi m.a. það hlutverk að vernda rétt borgaranna gegn brotum opinberra starfsmanna og koma í veg fyrir spillingu. Umboðsmaðurinn geti tekið til skoðunar öll ætluð brot opinberra starfsmanna sem varði borgara landsins að undanskildum ætluðum brotum æðsta dómstólsins (e. High Court) og dómstóla sem vinni undir yfirstjórn hans.

Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd var byggð á því að hann væri í hættu í heimaríki sínu, Pakistan, vegna þess að hann óttaðist að Talíbanar muni taka hann af lífi. Annars vegar vegna starfa hans fyrir frjálsu félagasamtökin Zubaida Foundation og hins vegar vegna þess að yngri bróðir leiðtoga Talíbana hafi látið lífið í skotbardaga milli félagasamtakanna og Talíbananna. Skotbardaginn hafi farið fram við húsnæði samtakanna í [...], [...] sýslu, hvar kærandi hafi einnig búið, og hafi kæranda tekist að flýja.

Þrátt fyrir ítrekaðar óskir kærunefndar lagði kærandi ekki fram gögn eða vísaði til upplýsinga sem renndu stoðum undir frásögn hans um starfsemi Zubaida Foundation og störf kæranda fyrir samtökin. Þá fékk frásögn kæranda af ofangreindri árás ekki stoð í gögnum málsins um skráðar árásir í [...] sýslu í Khyber Pakthunkhwa héraði árið 2018 og lagði kærandi ekki fram gögn sem sýndi fram á að hún hafi átt sér stað. Samkvæmt framansögðu var því ekki unnt að leggja til grundvallar í málinu að kærandi ætti á hættu ofsóknir af hálfu TTP eða svæðisbundinna hópa Talibana. Þá var ekkert í gögnum málsins sem benti til þess að kærandi hafi haft ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaríki hans af öðrum ástæðum.

Í endurupptökubeiðni kærenda kemur ekkert fram sem breytt getur fyrra mati nefndarinnar á þeim þáttum sem skipta máli vegna umsóknar um alþjóðlega vernd. Telur kærunefnd því að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá hefur ekkert komið fram sem breytt getur niðurstöðu málsins að því er varðar 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur m.a. fram að veita megi útlendingi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef hann getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða almennra aðstæðna í heimaríki. Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að útlendingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi en ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustígi innan 18 mánaða skuli veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá segir í ákvæðinu að því verði ekki beitt nema skorið hafi verið úr því að útlendingur uppfylli ekki skilyrði 37. og 39. gr. laga um útlendinga. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Eins og komið hefur fram sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi þann 11. september 2018 og var úrskurður kærunefndar í máli hans birtur honum þann 20. apríl 2020, eða rúmum 19 mánuðum eftir framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd. Kærandi fékk því ekki niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Er því heimilt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins að uppfylltum öðrum skilyrðum 74. gr. Þann 6. ágúst 2020 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun um hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort þær væru á ábyrgð kæranda, sbr. d-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Svar frá Útlendingastofnun barst samdægurs og var það mat stofnunarinnar að kærandi hafi ekki tafið mál sitt meðan það hafi verið til meðferðar hjá stofnuninni nema að því leyti að kalla hafi þurft til framhaldsviðtala þar sem trúverðugleiki frásagnar kæranda var kannaður.

Að mati kærunefndar uppfyllir kærandi skilyrði a- til d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Líkt og að framan greinir hefur kærandi nú lagt fram pakistanskt kennivottorð, sem lögregla mat ófalsað, til stuðnings beiðni sinnar um endurupptöku. Verður því talið að ekki leiki lengur vafi á því hver kærandi sé, sbr. b-lið 2. mgr. 74. gr. laganna. Kærunefnd hefur einnig litið til d-liðar 2. mgr. ákvæðisins sem gerir þá kröfu að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls. Kærunefnd telur að þrátt fyrir að frásögn kæranda hafi verið metin ótrúverðug sé skilyrðið, eins og hér stendur á, engu að síður uppfyllt. Þá er það mat kærunefndar að ákvæði a- til d-liðar 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda varðandi umsókn hans um alþjóðlega vernd er staðfest.

 

The appellant’s request for re-examination of his case is granted. The Directorate of Immigration is instructed to issue a residence permit for the appellant based on Article 74, paragraph 2, of the Act on Foreigners.

The decision of the Directorate of Immigration in the case of the appellant related to his application for international protection is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                                          Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum