Hoppa yfir valmynd
21. september 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Úthlutun Orkusjóðs: Áhersla á verkefni sem draga mest og hraðast úr losun gróðurhúsaloftegunda

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, við kynningu á úthlutun styrkjanna. - mynd

Í hnotskurn:

  • Styrkir veittir til 58 fjölbreyttra verkefna í þremur flokkum, framleiðslu endurnýjanlegs eldsneytis, innviða fyrir orkuskipti og tækjabúnaðar sem skiptir út jarðefnaeldsneyti
  • Áhersla á þau verkefni sem talin eru ná mestum og hröðustum árangri í samdrætti í losun
  • Aldrei verið meiri ásókn í styrki
  • Allt að 4,3 milljón lítra af jarðefnaeldsneyti hverfa úr umferð árlega, eða sem nemur 12 þús. tonnum af CO2-ígildum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur ákveðið að veita 914 milljónum króna í almenna styrki til orkuskipta á þessu ári. Styrkveitingarnar nú hafa þau áhrif að 4,3 milljónir lítra af jarðefnaeldsneyti  hverfa úr umferð á skömmum tíma. Aldrei hafa jafn margar umsóknir borist í Orkusjóð, en eftirspurnin var rúmlega áttföld miðað við það fjármagn sem var til úthlutunar. Styrkveitingarnar eru hluti af markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum og orkuskiptum, sem m.a. kveða á um að 55% samdrætti í losun verði náð fyrir árið 2030 og að Ísland verði orðið óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040.

Verkefnin sem hljóta stuðning að þessu sinni eru þau sem talið er að nái mestum og hröðustum árangri í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Með þessum styrkveitingum er unnið að því að stjórnvöld nái með markvissum hætti framangreindum markmiðum. Styrkir sjóðsins fara m.a. í beinan stuðning við tækja- eða innviðakaup þar sem  jarðefnaeldsneyti er skipt út fyrir endurnýjanlega orku og skila verkefnin þannig samdrætti í losun strax við gangsetningu þeirra. Forgangsröðun við úthlutun styrkveitinga var í verkefni sem stuðla að samdrætti fyrir þá geira atvinnulífsins þar sem losunin telst á beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda.

Samtals fengu 58 verkefni styrk úr Orkusjóði að þessu sinni. Verkefnin eru stór og smá og koma í framkvæmd á landinu öllu og hafa það að markmiði að draga hratt úr losun. Alls bárust um 197 umsóknir að upphæð rúmlega 7,6 milljarða kr. og því ljóst að mikil eftirspurn er eftir styrkjum sem þessum. Áætlaður heildarkostnaður allra þeirra verkefna sem sótt var um styrki fyrir nam rúmum 20 milljörðum kr., en hver styrkupphæð getur hæst numið einum þriðja af heildarkostnaði verkefna.

Þrjú stærstu verkefnin sem hlutu styrk að þessu sinni eru samanlagt ábyrg fyrir 85% af þessum rúmlega fjórum milljónum lítra af jarðefnaeldsneyti sem hverfa úr umferð. Við úthlutunina var sérstaklega horft til þess hvernig verkefnin nýti tækni sem er tilbúin til notkunar strax og styðji með markvissum hætti við orkuskipti á hafi og uppbyggingu markaðs fyrir rafeldsneyti sem er enn á frumstigi hér á landi.

 

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:
„Það er kraftur og gangur í orkuskiptunum eins og við sjáum með fjölda og fjölbreytni umsókna. Við úthlutun þessa árs var áhersla lögð á þau  verkefni sem talið er að geti náð mestum og hröðustum árangri í samdrætti í losun og í allra stærstu verkefnum okkar gegna styrkir til orkuskipta hlutverki hvata til verka, því það er ljóst að kostnaður fyrirtækjanna er gífurlegur. Ég hef lagt mig fram um að auka framlög til sjóðsins,  því ekki  veitir af að halda í við kraft og áhuga íslenskra fyrirtækja og frumkvöðla á loftslagsmálunum, en ég vek athygli á að frumkvöðlar og fjárfestar koma með meirihluta fjárfestinganna. Við eigum líka langt í land með að ná þeim mikla stuðningi sem ríki Evrópusambandsins og Bandaríkin veita fyrirtækjum og frumkvöðlum til orkuskipta. Það er okkur öllum því mjög mikilvægt að öflug fyrirtæki, til að mynda í sjávarútvegi eru að feta sig á þessar brautir og leggja þannig sín lóð á vogarskálar verkefnisins um kolefnishlutlaust Ísland. Þetta er nokkuð sem vert er að hafa í huga við endurskoðun á starfsumhverfi fyrirtækja – við þurfum að vinna með þeim svo öll fyrirtæki geti látið sig þetta stóra verkefni varða.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum