Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 276/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 12. júlí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 276/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18050031

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. maí 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. apríl 2018, um að synja henni um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga. Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar þann 26. apríl 2018 um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á Íslandi verði felld úr gildi. Þess er og krafist að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á Íslandi en til vara að málinu verði vísað aftur til Útlendingastofnunar til viðeigandi afgreiðslu. Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi fram umsókn um dvalar- og atvinnuleyfi þann 26. febrúar 2018. Með hinni kærðu ákvörðun, dags, 26. apríl 2018, synjaði Útlendingastofnun umsókn kæranda. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar þann 9. maí 2018. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 28. maí 2018, ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var umsókn kæranda um dvalarleyfi flokkuð sem umsókn um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga. Vísaði stofnunin til þess að samkvæmt b-lið 1. mgr. 62. gr. laganna væri það forsenda fyrir útgáfu dvalarleyfis á þeim grundvelli að atvinnuleyfi hefði áður verið gefið út skv. lögum nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Kom fram að með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. mars 2018, hafi kæranda verið synjað um atvinnuleyfi. Væri Útlendingastofnun því ekki heimilt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 62. gr. laga um útlendinga og var umsókn hennar hafnað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún sé stofnandi og eigandi félagsins [...], en félagið sé með starfsemi hér á landi. Kærandi hafi haft dvalarleyfi í EES-ríki frá stofnun félagsins og sé því heimil för innan Schengen-svæðisins. Vegna aukinna umsvifa félagsins sé aukin viðvera kæranda hér á landi nauðsynleg. Eftir leiðbeiningum Útlendingastofnunar hafi kærandi sótt um atvinnuleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar, sem hafi verið synjað af Vinnumálastofnun. Fram kemur að kærandi hafi óskað eftir endurupptöku á ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja henni um atvinnuleyfi.

Kærandi byggir á því að grundvöllur synjunar Útlendingastofnunar sé brostinn vegna rangra og breyttra forsenda. Vísar kærandi til þess að í hinni kærðu ákvörðun hafi henni verið synjað um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga, en hún hafi hins vegar sótt um tímabundið dvalar- og atvinnuleyfi vegna sérfræðiþekkingar, sbr. 61. gr. sömu laga. Forsendur fyrir synjun á umsókn kæranda séu þar af leiðandi ekki réttar og verði að telja óhjákvæmilegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi af þeirri ástæðu. Byggir kærandi einnig á því að ekki sé tímabært að taka ákvörðun um umsókn kæranda um dvalarleyfi meðan beiðni hennar um endurupptöku er til meðferðar hjá Vinnumálastofnun.

Þá byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi ekki gætt að leiðbeiningarskyldu í málinu, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, en hún geti ekki borið hallann af misvísandi upplýsingum frá stjórnvöldum. Kærandi vísar einnig til heimildar til útgáfu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga, og á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs, sbr. 79. gr. laganna. Leggur kærandi áherslu á félagsleg og menningarleg tengsl sín við landið á grundvelli eignarréttar hennar að áðurnefndu félagi og atvinnuþátttöku hennar í félaginu. Með greinargerð fylgdu upplýsingar úr hlutafélagaskrá vegna [...] og upplýsingar um fjárhag félagsins.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga.

Eins og áður greinir byggir kærandi á því að grundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar sé brostinn vegna rangra forsendna. Kærandi hafi í samræmi við leiðbeiningar frá Útlendingastofnun lagt fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar, sbr. 61. gr. laga um útlendinga, en í ákvörðun stofnunarinnar hafi henni verið synjað um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga.

Í gögnum málsins er að finna umsókn kæranda um dvalarleyfi, sem merkt var „Sérf.“ af Útlendingastofnun, auk umsóknar til Vinnumálastofnunar um tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar. Af gögnunum má jafnframt ráða að eftir framlagningu umsóknar kæranda um dvalarleyfi hafi umsóknin verið flokkuð hjá Útlendingastofnun sem umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar og að Vinnumálastofnun hafi leyst úr máli hennar á þeim grundvelli, sbr. 8. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, með þeirri niðurstöðu að synja kæranda um atvinnuleyfi.

Í hinni kærðu ákvörðun segir hins vegar að kærandi hafi lagt fram umsókn um tímabundið dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og að umsókn hennar hafi verið flokkuð á grundvelli 62. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðuninni var kæranda synjað um dvalarleyfi á þeim grundvelli. Er samkvæmt framansögðu ljóst að Útlendingastofnun leysti ekki úr máli kæranda á þeim lagagrundvelli sem umsókn hennar um dvalarleyfi var byggð á. Verður því ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi af þeirri ástæðu og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant‘s case.

 

Anna Tryggvadóttir                                       Gunnar Páll Baldvinsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum