Hoppa yfir valmynd
10. desember 2021 Forsætisráðuneytið

Skýrsla nefndar um úttekt á fastanefndum Seðlabankans

Nefnd sem falið var að gera úttekt á reynslunni af starfi peningastefnunefndar, fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabanka Íslands frá gildistöku nýrra laga um bankann frá ársbyrjun 2020 hefur skilað forsætisráðherra skýrslu sinni.

Nefndin, sem skipuð var í júní sl., telur að gengið hafi verið rösklega til verks við sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins með góðum árangri. Samvinna milli sviða hafi aukist og starf fastanefndanna njóti góðs af samlegðaráhrifum. Tilkoma fjármálastöðugleikanefndar hafi skýrt til muna hvar ábyrgði liggur varðandi það verkefni að stuðla að fjármálastöðugleika.

Í skýrslu sinni bendir nefndin einnig á nokkur atriði sem bæta megi úr. Þannig þurfi að skilgreina betur hvaða verkefni fjármálaeftirlits þurfi að fela sérstakri nefnd og hvaða verkefni tilheyri hefðbundinni stjórnsýslu innan Seðlabankans. Núverandi fyrirkomulag um víðtækt starfssvið nefndarinnar sé óraunhæft.

Þá bendir nefndin á að ljúka þurfi endurskoðun á opinberri stefnu um fjármálastöðugleika og skýra þurfi betur verkaskiptingu milli Seðlabankans og peningastefnunefndar annars vegar og fjármálastöðugleikanefndar og peningastefnunefndar hins vegar. Nefndin telur einnig að ytri nefndarmenn þurfi meiri stuðning í aðdraganda nefndarfunda og að auglýsa mætti stöður ytri nefndarmanna, setja þeim hæfnisskilyrði og tryggja að þeim verði ekki skipt öllum út í einu.

Skýrslan er unnin með vísan til VI bráðabirgðaákvæðis laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands og flytur forsætisráðherra Alþingi skýrsluna við fyrsta tækifæri.

Skýrsla úttektarnefndar - Reynslan af starfi peningastefnunefndar, fjármálastöðugleikanefndar og fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabanka Íslands 2020-2021

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum