Hoppa yfir valmynd
13. desember 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Fækkun sjúkrabíla frestað með samningi við Rauða krossinn

Sjúkrabifreið
Sjúkrabifreið

Sjúkratryggingar Íslands og Rauði Kross Íslands hafa gert með sér samning sem tryggir til loka næsta árs áframhaldandi rekstur flestra þeirra sjúkrabíla á landsbyggðinni sem átti að taka úr rekstri í janúar á næsta ári samkvæmt kröfulýsingu velferðarráðuneytisins frá árinu 2012. Fyrri áform um fækkun bíla verða endurskoðuð.

Samkvæmt samningi um sjúkraflutninga sem gerður var árið 2012 til ársloka 2015 og kröfulýsingu velferðarráðuneytisins sem honum fylgdi var kveðið á um skipulagsbreytingar á sjúkraflutningum og fækkun sjúkrabíla á landsbyggðinni um níu; úr 77 í 68. Fækkun bíla átti að vera komin til framkvæmda í byrjun næsta árs.

Eins og fram kom í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu 7. nóvember síðastliðinn ákvað Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra að fresta áformaðri fækkun sjúkrabíla og taka málið til endurskoðunar. Í samræmi við þessa ákvörðun hafa Sjúkratryggingar Íslands og Rauði Kross Íslands gert með sér samning sem tryggir áframhaldandi rekstur sex sjúkrabíla sem ella hefðu verið teknir úr notkun. Áður var búið að fækka bílum um þrjá og stendur sú ákvörðun óbreytt þar sem fyrir liggur að þjónusta raskast ekki vegna þeirra breytinga. Frestun á fækkun sjúkrabíla tekur til þeirra bíla sem staðsettir eru í Ólafsvík, Búðardal, Hvammstanga, Ólafsfirði, Raufarhöfn og Skagaströnd.

Kristján Þór heilbrigðisráðherra segir að næsta ár verði nýtt til þess að endurskoða fyrirkomulag sjúkraflutninga: „Fyrst og fremst verður að tryggja öryggi sjúkraflutninga í öllum byggðum landsins. Það verður best gert með því að skoða aðstæður með staðkunnugum og skipuleggja fyrirkomulag sjúkraflutninga með hliðsjón af skipulagi heilbrigðisþjónustunnar á hverjum stað í náinni samvinnu við forsvarsmenn í hverju heilbrigðisumdæmi.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum