Hoppa yfir valmynd
8. mars 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 118/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 8. mars 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 118/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU17110011

 

Beiðni […] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 5. október 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. ágúst 2017, um að synja umsókn […], fd. […], ríkisborgara Kósovó (hér eftir nefndur kærandi) um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 10. október 2017. Þann 6. nóvember 2017 barst kærunefnd beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð sinn. Með beiðni kæranda bárust fylgigögn. Viðbótargögn bárust kærunefnd þann 9., 19. og 20. febrúar 2018.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi óskaði eftir því að fá að koma fyrir nefndina og gera grein fyrir sjónarmiðum sínum. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi óskar eftir endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem að íþyngjandi ákvörðun í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Í sameiginlegri greinargerð kæranda og fjölskyldu hans er því haldið fram að þau uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi og fjölskylda hans tilheyri þjóðarbrotinu Ashkali sem sé minnihlutahópur í heimaríki þeirra sem sæti stöðugum ofsóknum auk þess sem þau séu í mikilli hættu vegna blóðhefndar. Kærandi og fjölskylda hans hafi ítrekað leitað til lögreglu í heimaríki vegna ofsókna og ofbeldis í þeirra garð en vegna ónógra sannana og þess minnihlutahóps sem þau tilheyri hafi yfirvöld ekki veitt þeim aðstoð. Þrjár elstu dætur kæranda þjáist allar af miklu þunglyndi og streitu jafnframt sem þær hafi allar lýst því yfir að þær muni fremur svipta sig lífi en að snúa aftur til heimaríkis. Dóttir kæranda, […], hafi verið í sálfræðimeðferð á vegum þjónustu hælisleitendateymis Reykjavíkurborgar. Þá muni tvær eldri dætur kæranda, sem séu báðar eldri en 18 ára, einnig fá slíka aðstoð vegna þeirrar vanlíðanar og sjálfsvígshugsana sem þær glími við. Dóttir kæranda, […], hafi þurft að sækja sér aðstoð á Barnaspítala Hringsins þar sem hún hafi fengið næringu í æð þar sem hún glími við næringarskort í kjölfar mikillar andlegrar vanlíðanar. Í beiðni kæranda kemur jafnframt fram að bróðir kæranda hafi mikil völd yfir fjölskyldunni og krefjist þess m.a. að fjölskyldan gangist við múslimatrú, styðji ISIS, fari í mosku og að konurnar í fjölskyldunni gangi með höfuðslæðu. Þá hafi hjónaband kæranda og eiginkonu hans aldrei hlotið samþykki fjölskyldna þeirra. Kærandi fái ekki atvinnu vegna uppruna síns og því hafi fjölskyldan búið í húsnæði bróður hans. Dætur kæranda hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu eldri bróður kæranda og sonum hans og þá sérstaklega þeim elsta.

Kærandi telur jafnframt að skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt í máli fjölskyldunnar og bendir m.a. á andlega og líkamlega vanheilsu dóttur hans. Með beiðni kæranda fylgdi m.a. greinargerð félagsráðgjafa hjá þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða dags. 1. nóvember 2017 auk annarra fylgigagna varðandi læknis- og sálfræðiþjónustu fyrir […]. Í greinargerð framangreinds félagsráðgjafa kemur m.a. fram að fjölskyldan hafi reglulega mætt í viðtöl og þegið læknis -og sálfræðiþjónustu. Fjölskyldan hafi rætt reynslu sína í heimaríki og þær ofsóknir sem þau hafi orðið fyrir vegna uppruna síns. Þá hafi þrjár elstu dætur kæranda tjáð sig um ofsóknir og ofbeldi sem þær hafi orðið fyrir í heimaríki vegna þess minnihlutahóps sem þær tilheyri og þeirrar ákvörðunar sinnar að ganga ekki með höfuðslæðu. Dætur kæranda hafi orðið fyrir neikvæðu umtali og mannorð þeirra svert í heimaríki. Þá hafi þær greint frá kynferðislegri áreitni sem þær hafi reglulega orðið fyrir í heimaríki og nágrenni. Þá hafi dætur kæranda hætt að mæta í líkamsrækt og sund vegna ótta við frænda sinn sem hafi dvalið hér á landi. Enn fremur fylgdi með beiðni kæranda bréf sálfræðings Reykjavíkurborgar dags. 2. nóvember 2017 þar sem fram kemur m.a. að dóttur kæranda, […], líði ekki nógu vel og að foreldrar hennar hafi lýst yfir áhyggjum af henni. Dóttir kæranda hafi greint frá kvíða, depurð, svefnvanda og erfiðleikum með að innbyrða mat vegna magaverkja. Grunur hafi verið um átröskunarsjúkdóm en hún hafi líklega þróað með sér slík einkenni vegna streitukenndra aðstæðna og óvissu um framtíð sína og fjölskyldunnar í heild. Í bréfi sama sálfræðings kemur fram að […] komi illa niður mat auk þess sem hún megi ekki neyta ákveðinna fæðutegunda vegna nýrnasjúkdóms.

Þá voru lagðar fram myndir af dóttur kæranda þar sem hún dvelur á spítala og er sjáanlega bólgin í andliti. Í bráðamóttökuskrá frá Landspítalanum sem kærandi lagði einnig fram kemur fram að grunur hafi verið um ofnæmi en dóttir kæranda hafi áður sýnt ofnæmisviðbrögð við sýklalyfjum. Dóttir kæranda eigi sögu um nýrnasjúkdóm, ofsakláða og ofsabjúg.

Í ljósi alls framangreinds telji kærandi tilefni til þess að mál hans og fjölskyldu hans verði tekið upp að nýju og að uppfyllt séu skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem íþyngjandi ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Er því farið fram á að mál kæranda verði tekið upp að nýju og að honum verði veitt alþjóðlega vernd hér á landi skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Endursending kæranda og fjölskyldu hans til heimaríkis brjóti gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. útlendingalaga.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur fram:

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. á aðili máls rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hér verður því að vera um að ræða upplýsingar sem byggt var á við ákvörðun málsins en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem mjög litla þýðingu höfðu við úrlausn þess.

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafa breyst verulega er eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Ákvæði þetta hefur náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 5. október 2017 þar sem kærunefnd staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. ágúst 2017, um að synja honum um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á framangreindum úrskurði ásamt þeim fylgigögnum sem bárust með beiðninni og aðrar upplýsingar um aðstæður í Kósovó, einkum skýrslur varðandi heilbrigðisþjónustu (Kosovo: Helsevesenet (Landinfo ,14. ágúst 201)) og Access to Healthcare in Kosovo ((Kosovo Women‘s Network, 2016).

Kærunefnd telur að í þeim gögnum sem kærandi hafi skilað inn í tengslum við beiðni kæranda um endurupptöku sé að finna ítarlegri upplýsingar um það sem þegar lá fyrir þegar úrskurður í máli kæranda var kveðinn upp þann 5. október 2017. Kærunefnd áréttar að í úrskurði í máli eiginkonu kæranda og barna þeirra hafi, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, verið litið sérstaklega til hagsmuna barna kæranda og komist að þeirri niðurstöðu að öryggi þeirra, velferð og félagslegum þroska væri ekki búin hætta fylgi þau foreldrum sínum til heimaríkis. Jafnframt var sérstakt tillit tekið til barna kæranda við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga væru uppfyllt í málinu og í kjölfarið komist að þeirri niðurstöðu að þær aðstæður sem bíði fjölskyldunnar í heimaríki næðu ekki því alvarleikastigi að sýnt hafi verið fram á að börn kæranda hefðu ríka þörf á vernd hér á landi.

Eins og að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að í beiðni kæranda um endurupptöku hafi ekki komið fram nýjar upplýsingar eða gögn um aðstæður fjölskyldunnar sem benda til þess að aðstæður séu breyttar frá því að úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp. Þá er það afstaða kærunefndar að þau gögn sem kærandi hefur lagt fram, greinargerð félagsráðgjafa, bréf sálfræðings, viðtal í Barnahúsi, sjúkraskrá frá sálfræðingi á Göngudeild sóttvarna og upplýsingar úr bráðamóttökuskrá séu ekki þess eðlis að hægt sé að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 5. október 2017 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Því sé jafnframt ekki hægt að fallast á endurupptöku málsins á þeim grundvelli.

Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd er því hafnað.


 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                             Pétur Dam Leifsso

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum