Hoppa yfir valmynd
8. júní 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 340/2023 Úrskurður

 

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 8. júní 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 340/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23040105

 

Kæra […]

á ákvörðun

                                                                                                                                                                                               Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 27. apríl 2023 kærði […], kt. […], ríkisborgari Gana ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. apríl 2023, um að synja umsókn hans um endurnýjun á dvalarleyfi á grundvelli 57. gr. laga um útlendinga, sbr. 65. gr. sömu laga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að endurnýja dvalarleyfi hans vegna náms sem útgefið var 30. ágúst 2021. Einnig að viðurkennd verði heimild kæranda til að dveljast hér á landi samkvæmt fyrra leyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin á grundvelli umsóknar um endurnýjun leyfis, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að veita kæranda dvalarleyfi vegna meistaranáms samkvæmt umsókn, dags. 10. febrúar 2023. Einnig að viðurkennt verði að kæranda sé heimilt að dveljast hér á landi á meðan umsóknin er til meðferðar, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka mál hans til meðferðar á ný og að viðurkennt verði að honum sé heimilt að dvelja hér á landi á meðan mál hans er til meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 30. ágúst 2021 fékk kærandi útgefið dvalarleyfi vegna náms á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga með gildistíma til 15. júlí 2022. Hinn 10. maí 2022 lagði kærandi fram umsókn um alþjóðlega vernd. Tveimur dögum áður en gildistími framangreinds dvalarleyfis rann út, n.t.t. 13. júlí 2022, lagði kærandi fram umsókn um endurnýjun atvinnuleyfis síns en ekki endurnýjun dvalarleyfis. Samkvæmt gögnum málsins var umsókn kæranda um endurnýjun „lögð upp“ af þeim sökum að hann lagði fram umsókn um bráðabirgðadvalarleyfi í tengslum við umsókn sína um alþjóðlega vernd samkvæmt 1. mgr. 77. gr. laga um útlendinga. Kæranda var veitt bráðabirgðadvalarleyfi 21. október 2022. Með ákvörðun, dags. 8. febrúar 2023, synjaði Útlendingastofnun umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Hinn 10. febrúar 2023 lagði kærandi fram umsókn um endurnýjun á dvalarleyfi á grundvelli 57. gr. laga um útlendinga vegna náms, sbr. 65. gr. sömu laga. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. apríl 2023, var umsókn kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi synjað með vísan til þess að hann hafi ekki sótt um endurnýjun dvalarleyfis áður en gildistími dvalarleyfis hans hafði runnið út. Þá var það mat Útlendingastofnunar að ekki væru ríkar sanngirnisástæður sem heimiluðu undanþágu frá framangreindu skilyrði, enda hefði kærandi tekið meðvitaða ákvörðun um að leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd í stað þess að leggja fram umsókn um endurnýjun á dvalarleyfi. Þá horfði stofnunin til þess að kærandi hefði sótt um endurnýjun á dvalarleyfi vegna meistaranáms en að hann hafi áður dvalið á grundvelli dvalarleyfis vegna doktorsnáms. Kæranda var birt ákvörðun Útlendingastofnunar 14. apríl 2023. Kærunefnd barst kæra kæranda 27. apríl 2023. Greinargerð ásamt fylgiskjölum barst kærunefnd 13. maí 2023. Þá bárust kærunefnd gögn frá Útlendingastofnun 31. maí 2023.

Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 31. maí 2023 féllst kærunefnd á þá beiðni.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að 22. apríl 2021 hafi umsókn kæranda um innritun við Háskóla Íslands fyrir námsárið 2021-2022 verið samþykkt. Nám kæranda hafi verið viðbótardiplóma í þróunarfræði. Í ákvörðun Útlendingastofnunar komi ranglega fram að um hafi verið að ræða doktorsnám. Á grundvelli námsins hafi Útlendingastofnun veitt kæranda dvalarleyfi með gildistíma til 15. júlí 2022. Kærandi hafi sótt um inngöngu í meistaranám í hnattrænum fræðum við Háskóla Íslands 26. desember 2021 og fengið umsókn sína samþykkta 17. maí 2022.

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að endurnýja dvalarleyfi hans vegna náms sem útgefið var 30. ágúst 2021. Einnig að viðurkennd verði heimild kæranda til að dveljast hér á landi samkvæmt fyrra leyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin á grundvelli umsóknar um endurnýjun leyfis, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Fram komi í ákvörðun Útlendingastofnunar að umsókn kæranda, sem hann hafi lagt fram 13. júlí 2022, hafi verið lögð upp af Útlendingastofnun þar sem kærandi hafi lagt fram umsókn um bráðabirgðadvalarleyfi í tengslum við umsókn hans um alþjóðlega vernd. Hafi þetta hvorki verið skýrt nánar í ákvörðuninni né á hvaða lagagrundvelli umsóknin hafi verið lögð upp. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi borið að taka umsókn hans um endurnýjun á dvalarleyfi til meðferðar, enda ekki lagagrundvöllur til annars. Þar sem dvalarleyfi kæranda hafi ekki verið fallið úr gildi 13. júlí 2022 hafi Útlendingastofnun jafnframt borið að samþykkja umsóknina. Hafi lagaskilyrði til að fara með umsókn hans samkvæmt 51. gr. laga um útlendinga því ekki verið til staðar.

Fram kemur í greinargerð að Útlendingastofnun geti, samkvæmt 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga, heimilað útlendingi að dveljast hér á landi samkvæmt fyrra leyfi þar til ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli umsóknar um endurnýjun leyfis sem borist hafi eftir þann frest sem um geti í 2. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæli með því. Ríkar sanngirnisástæður mæli með því að umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis hans, sem hann hafi lagt fram 10. febrúar 2023, verði tekin til meðferðar og að ekki skuli fara með umsókn hans samkvæmt ákvæði 51. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til athugasemda við ákvæði 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga máli sínu til stuðnings. Þá bendir kærandi á að hann hafi ekki verið í doktorsnámi hér á landi líkt og Útlendingastofnun hafi haldið fram heldur hafi verið um að ræða hlutanám til eins árs. Þá hafi umsókn kæranda um alþjóðlega vernd átt sér réttmætar ástæður, enda hafi hann m.a. fengið hótanir vegna baráttu sinnar fyrir réttindum hinsegin fólks í heimaríki sínu og félagi hans í baráttunni hafi verið myrtur. Kærandi fái þá ekki séð að í mati Útlendingastofnunar hafi verið lagt mat á alla þá þætti sem gert sé ráð fyrir í fyrrnefndum athugasemdum, þ.e. hvað teljist afsakanlegt, hvað teljist til sanngirnis- og mannúðarástæðna og að horft hafi verið til þess hvort líklegt væri að dvalarleyfið yrði veitt. Kærandi telur afsakanlegt að kærandi hafi lagt fram umsókn um endurnýjun of seint, n.t.t. 10. febrúar 2023, með tilliti til þess að umsóknin sem hann hafi lagt fram 13. júlí 2022 hafi verið lögð upp hjá Útlendingastofnun af óljósum ástæðum. Þá megi telja sanngjarnt og mannúðlegt að kærandi fái tækifæri til að halda námi sínu áfram hér á landi. Kærandi stundi nú meistaranám í hnattrænum fræðum við Háskóla Íslands sem sé rökrétt framhald af því námi sem hann hafi nú lokið við skólann. Með umsókn sinni um alþjóðlega vernd hafi kærandi leitt líkur að því að öryggi hans kunni að vera ógnað í heimaríki sínu og megi því einnig horfa til mannúðarsjónarmiða hvað það varði. Enn fremur telur kærandi að líklegt sé að hann myndi fá umsókn sína um endurnýjun dvalarleyfis samþykkta, enda uppfylli umsóknin skilyrði leyfisins líkt og hin upprunalega umsókn.

Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að veita kæranda dvalarleyfi vegna meistaranáms samkvæmt umsókn, dags. 10. febrúar 2023. Einnig að viðurkennt verði að kæranda sé heimilt að dveljast hér á landi á meðan umsóknin er til meðferðar, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir á því að sanngirnisástæður mæli með því að undanþáguákvæði 3. mgr. 51. gr. verði beitt með vísan til þess að háskólanám teljist til mikilla hagsmuna í skilningi ákvæðisins og að rof á háskólanámi sé verulega íþyngjandi röskun á slíkum hagsmunum. Útlendingastofnun hafi aftur haldið því ranglega fram að kærandi hafi stundað doktorsnám hér á landi til stuðnings niðurstöðu sinni. Þá fái kærandi ekki séð að tengsl hans við heimaríki sitt eigi að koma til skoðunar við mat á hagsmunum hans líkt og gert hafi verið í ákvörðun Útlendingastofnunar. Kæranda sé hins vegar nauðsynlegt og skylt að framfæra börn sín í heimaríki og megi því telja að hagsmunir hans af háskólanámi séu ríkari fyrir vikið.

Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka mál hans til meðferðar á ný. Niðurstaða Útlendingastofnunar í ákvörðun kæranda hafi í ríkum mæli byggst á röngum upplýsingum. Kærandi telur ljóst að hinum röngu upplýsingum hafi verið gefið mikið vægi í ákvörðun Útlendingastofnunar og hafi augljóslega haft áhrif á niðurstöðuna. Telur kærandi það fela í sér brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Jafnframt hafi Útlendingastofnun ekki gætt meðalhófs samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga við mat á sanngirnisástæðum samkvæmt 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga og mat á hagsmunum hans samkvæmt 3. mgr. 51. gr. sömu laga. Samkvæmt ákvæðinu skuli stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Kærandi hafi mikla hagsmuni af því að fá að ljúka háskólanámi sínu hér á landi og sé ákvörðun um að gera honum að yfirgefa landið mjög íþyngjandi. Ekki verði séð að lögmæt markmið standi því í vegi að dvalarleyfi kæranda verði endurnýjað í því skyni að hann geti lokið því meistaranámi sem hann hafi nú hafið.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga skal útlendingur sem óskar eftir endurnýjun dvalarleyfis sækja um hana eigi síðar en fjórum vikum áður en dvalarleyfi fellur úr gildi. Í 3. mgr. ákvæðisins segir að sé ekki sótt um endurnýjun dvalarleyfis innan gildistíma fyrra dvalarleyfis skuli réttur til dvalar falla niður og fara skuli með umsókn skv. 51. gr. Þá segir í 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga að Útlendingastofnun geti heimilað útlendingi að dveljast hér á landi samkvæmt fyrra leyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin á grundvelli umsóknar um endurnýjun leyfis sem borist hefur eftir þann frest sem um getur í 2. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

Í athugasemdum við ákvæði 4. mgr. 57. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a.:

Í 4. mgr. er veitt undantekning frá 3. mgr. samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar ef afsakanlegt er að umsókn hafi borist eftir tilskilinn frest eða vegna ríkra sanngirnisástæðna. Sem dæmi um afsakanleg tilvik má nefna ef útlendingur hefur verið alvarlega veikur eða hann hefur af óviðráðanlegum ástæðum þurft að fara fyrirvaralaust til heimalands án þess að hafa haft tök á að leggja inn umsókn um endurnýjun. Sem dæmi um tilvik, sem ekki falla undir greinina, er ef útlendingur ber því við að hann hafi ekki vitað að leyfi hans væri að renna út eða að umboðsmaður hans hafi gert mistök. Ef útlendingur sækir of seint um endurnýjun dvalarleyfis, þ.e. eftir að leyfi hans rennur út, er hann í þeirri stöðu að þurfa að sækja um nýtt leyfi en ekki endurnýjun. Þetta verður til þess að útlendingur missir uppsöfnuð réttindi til ótímabundins dvalarleyfis, eftir atvikum. Vegna þessa verður í anda markmiðs um mannúð að líta sérstaklega til þessa við ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein sem og hvort líklegt sé að dvalarleyfi fáist endurnýjað. Við mat á því hvort umsækjanda sé heimilt að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin á grundvelli umsóknar hans skal hafa þýðingu hvort líklegt sé að dvalarleyfið verði veitt og hvort dvalarleyfi það er útlendingur óskar endurnýjunar á sé þess eðlis að það myndi grundvöll til ótímabundins dvalarleyfis. Hins vegar yrði að líta á það leyfi sem yrði eftir atvikum veitt sem nýtt leyfi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi lagt fram umsókn um endurnýjun á dvalarleyfi 13. júlí 2022. Umsóknin hafi hins vegar verið lögð upp þar sem kærandi hafi áður lagt fram umsókn um bráðabirgðadvalarleyfi. Með tölvubréfi til Útlendingastofnunar, dags. 31. maí 2023, óskaði kærunefnd eftir nánari upplýsingum um málsmeðferð stofnunarinnar í tengslum við framangreinda umsókn kæranda um endurnýjun. Svör Útlendingastofnunar leiddu í ljós að umsókn kæranda, dags. 13. júlí 2022, var umsókn um tímabundið atvinnuleyfi vegna sérstakra ástæðna en ekki umsókn um endurnýjun á dvalarleyfi. Með vísan til þess að kærandi hefði þegar sótt um bráðabirgðadvalarleyfi hafi sú ákvörðun verið tekin að leggja upp umsókn kæranda um tímabundið atvinnuleyfi. Liggur því fyrir að kærandi lagði ekki fram umsókn um endurnýjun á dvalarleyfi sínu fyrr en 10. febrúar 2023, eða um sjö mánuðum eftir að gildistími dvalarleyfis hans vegna náms rann út. Er því ljóst að sú dvalarleyfisumsókn sem hin kærða ákvörðun snýr að var ekki lögð fram innan þeirra tímaskilyrða sem ákvæði 2. mgr. 57. gr. áskilur.

Kemur þá næst til skoðunar hvort ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi í máli kæranda, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga, svo líta beri á dvalarleyfisumsókn kæranda, dags. 10. febrúar 2023, sem endurnýjun á fyrra dvalarleyfi. Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi samband við Útlendingastofnun 14. júlí 2022 þar sem honum var leiðbeint af fulltrúa stofnunarinnar um að leggja fram umsókn um dvalarleyfi eða endurnýjun á dvalarleyfi áður en dvalarleyfi hans rynni út. Var kæranda ráðlagt um tilteknar umsóknir og hann hvattur til að senda tölvubréf til stofnunarinnar með upplýsingum um hvaða leyfi hann hygðist sækja um. Kærandi lagði hins vegar ekki fram umsókn um dvalarleyfi eða endurnýjun á dvalarleyfi fyrr en 10. febrúar 2023 eða tæpum sjö mánuðum síðar. Í þeirri umsókn greindi kærandi frá því að á þeim tíma sem gildistími dvalarleyfis hans hafi verið við það að renna út hafi umsókn hans um alþjóðlega vernd verið til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Hann hafi ekki getað óskað eftir endurnýjun á dvalarleyfi sínu þar sem ekki hafi verið hægt að vera með tvær umsóknir til meðferðar á sama tíma. Þar sem umsókn hans um alþjóðlega vernd hafi nú verið synjað hafi hann ákveðið að leggja fram umsókn um endurnýjun á dvalarleyfi sínu og leggja stund á meistaranám við Háskóla Íslands. Ljóst er af gögnum málsins að kærandi hafði fengið inngöngu í meistaranámið 17. maí 2022, eða tveimur mánuðum áður en þágildandi dvalarleyfi hans rann út.

Við mat á því hvort ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga ber eins og áður greinir að horfa m.a. til þess hvort líklegt sé dvalarleyfi fáist endurnýjað og hvort dvalarleyfið geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis hér á landi. Það liggur fyrir að kærandi fékk umsókn sína um inngöngu í meistaranám við Háskóla Íslands samþykkta. Verður með tilliti til þess að telja líkur standa til þess að umsókn hans um endurnýjun um dvalarleyfi yrði samþykkt, að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, einkum í ljósi þess að um er að ræða framhald af því námi sem hann stundaði áður við Háskóla Íslands. Dvalarleyfi kæranda samkvæmt 65. gr. laga um útlendinga getur hins vegar ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis hér á landi, sbr. 9. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Þá horfir kærunefnd til þess að kæranda var leiðbeint sérstaklega af Útlendingastofnun um að sækja um endurnýjun á dvalarleyfi sínu áður en það rynni út. Fellst kærunefnd því ekki á að kærandi hafi staðið í þeirri trú að hann gæti einungis haft eina umsókn til meðferðar hjá Útlendingastofnun hverju sinni. Þá hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að kærandi hafi af óviðráðanlegum ástæðum ekki haft tök á að leggja fram umsókn um endurnýjun eða að afsakanlegt sé að umsókn hans hafi borist of seint. Bera gögn málsins með sér að kærandi hafi ekki viljað endurnýja dvalarleyfi sitt á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga fyrr en niðurstaða Útlendingastofnunar lægi fyrir varðandi umsókn hans um alþjóðlega vernd.

Þrátt fyrir að fallist verði á það með kæranda að hann hafi hagsmuni af því að fá að stunda áfram nám hér á landi þá verður ekki fram hjá því litið að kærandi var upplýstur um áhrif þess að láta hjá líða að leggja fram umsókn um endurnýjun dvalarleyfis en aðhafðist samt sem áður ekki í a.m.k. sjö mánuði þrátt fyrir leiðbeiningar og ráðleggingar Útlendingastofnunar. Við mat sitt horfir kærunefnd jafnframt til þess að ákvæði 4. mgr. 57. gr. er undanþáguákvæði sem almennt ber að túlka þröngt. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að skýringar kæranda séu ekki þess eðlis að fyrir hendi séu ríkar sanngirnisástæður í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Ber því að fara með umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis frá 10. febrúar 2023 samkvæmt 51. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 57. gr. laganna.

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram sú meginregla að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá því skilyrði er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og aðstæður hans falla undir a-c lið 1. mgr. 51. gr. Varða stafliðirnir þær aðstæður þar sem umsækjandi er maki eða sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. a-lið, barn íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar barnið er yngra en 18 ára, sbr. b-lið, eða þegar sótt er um dvalarleyfi á grundvelli 61., 63. eða 64. gr. laga um útlendinga.

Í 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga segir að heimild til dvalar þegar umsækjandi sé undanþeginn áritunarskyldu gildi þar til umsækjandi hafi dvalið í 90 daga á Schengen-svæðinu. Undantekningar a-c-liðar 1. mgr. gildi meðan umsækjandi hafi heimild til dvalar á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar eða á grundvelli dvalar án áritunar. Útlendingastofnun geti veitt umsækjendum á grundvelli a- og b-liðar 1. mgr. heimild til lengri dvalar meðan umsókn sé í vinnslu.

Samkvæmt gögnum málsins uppfyllir kærandi ekki skilyrði 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga og þá liggur fyrir að þegar hann lagði fram dvalarleyfisumsókn sína hér á landi var dvöl hans hvorki á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar né á grundvelli dvalar án áritunar, sbr. 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Í 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að heimilt sé að víkja frá 1. mgr. 51. gr. í öðrum tilvikum en þar eru upp talin ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Ákvæði 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er matskennt lagaákvæði en hugtakið „ríkar sanngirnisástæður“ er ekki útfært nánar í lögunum eða í reglugerð um útlendinga, líkt og ráðherra hefur heimild til. Eru einu leiðbeiningarnar sem stjórnvöld hafa við beitingu ákvæðisins þau sjónarmið sem fram koma í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga, en þar segir m.a. um 3. mgr. að ætlunin sé að ákvæðinu sé beitt þegar tryggja þarf samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi.

Samkvæmt gögnum málsins byggir kærandi á því að ríkar sanngirnisástæður í skilningi 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga séu fyrir hendi í máli hans með vísan til þess að háskólanám teljist til mikilla hagsmuna og að rof á háskólanámi sé verulega íþyngjandi röskun á slíkum hagsmunum. Þrátt fyrir að fallist verði á það að kærandi hafi hagsmuni af því að halda áfram námi sínu hér á landi telur kærunefnd að rof á námi geti ekki talist til mikilla hagsmuna í skilningi undanþáguákvæðis 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Þá er tímabil þess náms sem kærandi fékk inngöngu í liðið en það náði til skólaársins 2022 til 2023. Það liggur fyrir að kærandi dvaldi hér á landi frá 30. ágúst 2021 til 15. júlí 2022 á grundvelli dvalarleyfis vegna náms. Hann yfirgaf ekki landið og lét hjá líða að sækja um endurnýjun á dvalarleyfi . Þá hefur þegar verið tekin afstaða til málsástæðna kæranda, með úrskurði kærunefndar nr. 334/2023, varðandi umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kærandi væri ekki flóttamaður og að endursending hans til Gana væri ekki í andstöðu við 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Með vísan til þess sem rakið hefur verið í úrskurði þessum er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á að ríkar sanngirnisástæður í skilningi 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga séu fyrir hendi í máli hans.

Hvað varðar athugasemdir kæranda um að Útlendingastofnun hafi gerst brotleg við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga með því að halda því ranglega fram að hann hafi stundað doktorsnám hér á landi telur kærunefnd að bætt hafi verið úr þeim annmarka á málsmeðferð Útlendingastofnunar á kærustigi. Þá telur kærunefnd ljóst að umræddur annmarki hafði ekki áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti máls kæranda og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga um að sækja um dvalarleyfi áður en komið er til landsins og þá eiga undantekningar ákvæðisins ekki við. Ber því að hafna umsókn kæranda á þeim grundvelli, sbr. 4. mgr. 51. gr. laganna. Að öllu framangreindu virtu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn kæranda um dvalarleyfi.

V.        Samantekt og leiðbeiningar

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest. Kærunefnd bendir kæranda á að hann getur lagt fram aðra dvalarleyfisumsókn á sama grundvelli eftir að hann yfirgefur Ísland. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd þó ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli önnur skilyrði laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis.

Kærunefnd ítrekar leiðbeiningar Útlendingastofnunar þess efnis að kæranda beri að yfirgefa landið en yfirgefi hann ekki landið kann það að leiða til þess að honum verði brottvísað samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og ákveðið endurkomubann.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum