Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Samið við hjartalækna

Samninganefnd heibrigðisráðherra og hjartalæknar hafa gert samning um þjónustu þeirra síðarnefndu sem sögðu sig af samningi fyrir liðlega tveimur árum. Með samkomulaginu sem nú hefur verið undirritað er ekki lengur gerð krafa um tilvísun frá heilsugæslu- eða heimilislækni. Sjúklingar þurfa heldur ekki lengur að leggja út fyrir öllum kostnaði vegna þjónustu hjartalækna og sækja síðan um endurgreiðslu á hluta hans til Tryggingastofnunar ríkisins. Með samkomulaginu þurfa sjúklingar einungis að greiða hjartalækni hlutdeild sína í hinum umsamda kostnaði við þjónustuna.  Hjartalæknar fá mismuninn greiddan beint frá TR.  Samkomulagið felur þannig í sér bæði umtalsvert hagræði fyrir hina sjúkratryggðu og minni kostnað.

Samningurinn sem nú hefur verið gerður milli samninganefndar heilbrigðisráðherra og félags starfandi hjartalæknanna þýðir m.ö.o. að nú gilda sömu almennu reglurnar um greiðslur fyrir komur til hjartalækna og gilda fyrir komur til annarra sérfræðilækna. Samningurinn gildir um alla hjartalækna sem voru í starfi í apríl 2008 og tekur til þjónustu sem veitt er utan sjúkrahúsa. Hafa læknar frest til 1. júní til að staðfesta aðild sína að samningum, en samningurinn gildir frá 5. maí 2008 til og með 31. mars 2010.

Samningurinn milli samninganefndar heilbrigðisráðherra og hjartalækna er á sömu nótum og samningur sem undirritaður var fyrir skömmu og tekur til þjónustu annarra sérfræðilækna.

Megin markmið með samningum við hjartalæknana  er að tryggja bætta þjónustu við hjartasjúklinga og gera leið sjúklinga að þjónustu þeirra greiðari og sambærilega við það sem gildir um aðra sérfræðiþjónustu.

Kostnaður vegna samnings við hjartalækna er áætlaður 306 m.kr. á ársgrundvelli og þar af hlutur Tryggingastofnunar tæpar 200 milljónir króna. Þar sem samningurinn felur í sér aðlögun að þeirri þjónustu sem þegar er verið að veita má ætla að kostnaðarauki ríkissjóðs skili sér að verulegu leyti til hinna sjúkratryggðu.  Með samningnum mun jafnframt draga úr álagi og kostnaði heilsugæslustöðva (og sjúklinga) vegna afnáms tilvísunarskyldunnar.  Síðast en ekki síst batnar þjónustan við sjúklinga þar sem þeir þurfa ekki lengur að leggja út fyrir lækniskostnaði og sækja sérstaklega um endurgreiðslu hans til TR.

Með samkomulaginu fellur úr gildi reglugerð nr. 241/2006, með síðari breytingum, um greiðsluþátttöku TR vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga í hjartalækningum.  Um hlutdeild sjúklinga í kostnaði vegna þjónustu hjartalækna gilda eftirleiðis ákvæði reglugerðar nr. 1265/2007 um hlutdeild sjúklinga í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira