Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Ekkert lát á ofbeldisverkum gegn blaðamönnum

Á nýliðinu ári voru fimmtíu blaðamenn myrtir. Samkvæmt gögnum frá Fréttamönnum án landamæra (RSF) fækkar jafnt og þétt blaðamönnum sem falla í löndum þar sem átök geisa en fjölgar að skapi í löndum sem teljast friðsæl. Á árinu 2019 voru 53 blaðamenn myrtir en vegna kórónuveirunnar voru miklu færri fréttamenn á faraldsfæti í fyrra en árið áður.

Tveir af hverjum þremur blaðamönnum í hópi þeirra sem voru myrtir voru að störfum í löndum þar sem friður ríkir eins og Mexíkó (8), Indlandi (4), Filippseyjum (3) og Hondúras (3). Alls féllu 32 prósent blaðamanna í stríðshrjáðum löndum eins og Sýrlandi, Jemen, Afganistan og Írak en til samanburðar voru 58 prósent þeirra fréttamanna sem létu lífið í starfi á vettvangi á átakasvæðum árið 2016.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur lagt ríka áherslu á fjölmiðlafrelsi og sjálfstæði fjölmiðla í samræmi við áherslur Íslands á sviði mannréttinda. Ísland á aðild að Fjölmiðlafrelsisbandalaginu (Media Freedom Coalition) en markmið þess er að efla aðgerðir til að sporna við auknum áraásum á fjölmiðlafólk um allan heim, varpa ljósi á mál sem bregðast verður við og styðja ríki sem vilja stíga skref í átt að auknu fjölmiðlafrelsi. Þá gerðist Ísland nýlega aðili að alþjóðaverkefni UNESCO um frjálsa fjölmiðlun í þróunarlöndum, IPDC (International Programme for the Development of Communication). 

Í skýrslu Fréttamanna án landamæra kemur fram að í 84 prósentum tilvika hafi blaðmennirnir sem féllu í fyrra verið vísvitandi skotmark og sumir þeirra myrtir á sérstaklega villimannslegan hátt. „Sumir kunna að halda að blaðamenn séu einungis fórnarlömb áhættu í starfi en þeir verða í vaxandi mæli fyrir ofbeldi þegar þeir rannsaka eða fjalla um viðkvæm mál. Ofbeldið beinist gegn upplýsingaréttinum sem er réttur allra,“ segir Christophe Deloire framkvæmdastjóri RSF.

Fram kemur í skýrslu samtakanna að hættulegustu störf blaðamanna lúta að rannsóknum á málum sem varða spillingu innanlands og misnotkun almannafjár. Tíu blaðamenn voru myrtir á síðasta ári við slíka upplýsingaöflun. Fjórir voru myrtir sem unnu að rannsóknum á starfi skipulagðra glæpasamtaka og sjö sem fjölluðu um mótmæli.

Guðlaugur Þór hefur hvatt til þess að fjölmiðlafólki, sem hefur verið fangelsað vegna starfa sinna, verði sleppt. Alls eru 387 blaðamenn í haldi vegna starfa sinna, sem er svipaður fjöldi og árið áður. Konum í blaðamannastétt sem sviptar voru frelsi fjölgaði á árinu um 35 prósent. Þá eru 14 blaðamenn í haldi vegna umfjöllunar þeirra um COVID-19.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum