Hoppa yfir valmynd
28. júní 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Mikill ávinningur af bættri lýðheilsu

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði forvarnarstarf og bætta lýðheilsu verða eitt af forgangsverkefnum stjórnvalda framundan þegar hann ávarpaði málþing um lýðheilsu í Háskólanum í Reykjavík í dag. Hann gerði sérstaklega að umtalsefni þá heilbrigðisógn sem stafar af ofþyngd og offitu og ræddi einnig um mikla lyfjanotkun landsmanna.

„Áhrifaþættir á heilsu og vellíðan – frá rannsóknum til aðgerða“ var yfirskrift ráðstefnunnar sem velferðarráðuneytið, Embætti landlæknis og Háskólinn í Reykjavík efndu til í minningu dr. Guðjóns Magnússonar. Aðalfyrirlesari á ráðstefnunni var Sir Michael Marmot og var ráðstefnan haldin í Háskólanum í Reykjavík.

Áhrif félagslegra þátta

Ráðherra ræddi skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á heilbrigði sem hann sagði liggja nærri spakmælinu sem allir landsmenn þekkja um heilbrigða sál í hraustum líkama. Við þyrftum þó að hafa hugfast að áhrifaþættir heilsu eru fjölmargir og félagslegir áhrifaþættir væru þar á meðal: „Æ sterkari vísbendingar hafa komið fram á síðustu árum um mikilvægi félagslegra aðstæðna fólks varðandi heilsu og heilbrigði. Erlendar rannsóknir sýna að þeim sem standa höllum fæti vegna félagslegra þátta farnast oft og tíðum verr heilsufarslega en öðrum í samfélaginu. Þar hafa atvinnuleysi og fátækt valdið heilbrigðisvanda sem oft er erfiðara að glíma við en marga sjúkdóma.“

Ráðherra sagði félagslegum þáttum hafa verið gefinn aukinn gaumur á síðari árum, þótt ekki hefði verið skoðað ítarlega hvort félagslegir áhrifaþættir hérlendis hafi áhrif á heilbrigði landsmanna og þá í hversu ríkum mæli. Vísbendingar hefðu þó komið fram í könnuninni Heilsa og líðan Íslendinga frá árinu 2009 um að þeir sem eru tekjuhærri og með meiri menntun væru líklegri til að stunda heilsusamlega hegðun en þeir sem hafa lægri tekjur og minni menntun.

Ofþyngd og offita vanmetin ógn

Ráðherra kom víða við í ræðu sinni en gerði að sérstöku umtalsefni þá heilbrigðisógn sem okkur stafar af ofþyngd og offitu auk þess sem hann lýsti áhyggjum af mikilli lyfjanotkun landsmanna. Hann benti á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sagt enga lýðheilsuógn sé jafn vanmetin um víða veröld og ofþyngd og offita og líkir vandanum við heimsfaraldur. Sterk tengsl eru á milli offitu, ýmissa alvarlegra sjúkdóma, stoðkerfisvandamála og aukinna dánarlíkinda. Áhrifin eru mikil á líf fólks sem stríðir við vandann og álag eykst á heilbrigðiskerfið með tilheyrandi kostnaði. „Í stuttu máli er ætlað að yfir 60% Íslendinga séu yfir kjörþyngd. Það er augljóst að staða okkar í þessum efnum er slæm og hér er mikið verk að vinna“ sagði Kristján Þór meðal annars um þetta efni.

Mikil lyfjanotkun áhyggjuefni

Ráðherra benti á mikla notkun tauga- og geðlyfja hér á landi þar sem Íslendingar skera sig verulega úr til dæmis í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Hann sagði notkun metýlfenidats hér á landi sérstakt áhyggjuefni, enda hefði Alþjóðafíkniefnaráð Sameinuðu þjóðanna séð ástæðu til að vekja athygli íslenskra heilbrigðisyfirvalda á því að notkun þessara lyfja sem er hvergi í heiminum meiri en á Íslandi: „Mikil hætta er á misnotkun metýlfenidats komist það í rangar hendur. Samkvæmt upplýsingum frá SÁÁ er þetta eitt helsta fíkniefni sprautufíkla og þorra lyfjanna hefur verið ávísað af læknum. Þessi misnotkunarvandi birtist glöggt í nýlegum dómi þar sem ungur maður var dæmdur fyrir dreifingu og sölu á metýlfenidat-lyfjum sem hann hafði fengið ávísað hjá læknum. Að mínu mati er það óþolandi staða að íslenska ríkið sé að útvega og niðurgreiða efni fyrir fíkniefnasala og í raun halda að einhverju leyti uppi sprautufíklamarkaðnum. Það verður að bregðast hart við þessari þróun og það ætla ég gera.“

Í lokin sagði ráðherra að fyrir óþolinmóða stjórnmálamenn sem vilja sjá árangur fljótt geti verið erfitt að helga sig lýðheilsumálum; „því þau krefjast langlundargeðs og þolinmæði áður en uppskeran kemur í ljós. Því getur verið þessum málaflokki mjög til framdráttar að vinna hagfræðilegar greiningar þar sem reynt er að varpa ljósi á beinan og óbeinan kostnað samfélagsins af tilteknum lýðheilsuvandamálum – og sýna jafnframt ávinninginn sem felst í því ef tekst að snúa vondri þróun við, líkt og ég nefndi hér áðan varðandi offituvandann.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum