Hoppa yfir valmynd
28. júní 2012 Utanríkisráðuneytið

Aukin tækifæri í útflutningi á landbúnaðarafurðum til EFTA ríkjanna

Radherrar-EFTA-rikjanna
Radherrar-EFTA-rikjanna

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tók í dag þátt í ráðherrafundi EFTA-ríkjanna í Gstaad í Sviss. Á fundinum fögnuðu ráðherrarnir því að nýlega náðist samkomulag um aukið frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarvörur á milli EFTA-ríkjanna. Í samkomulaginu felst að EFTA-ríkin munu í meginatriðum veita hvert öðru sama aðgang að mörkuðum sínum fyrir landbúnaðarvörur og þau veita Evrópusambandinu. Samkomulagið skapar því því aukin tækifæri til útflutnings á íslenskum landbúnaðarafurðum til Noregs og Sviss.

Í tengslum við ráðherrafundinn var undirrituð samstarfsyfirlýsing EFTA-ríkjanna við Georgíu. Utanríkisráðherra sagði í ávarpi sínu við undirritunina að líta ætti á samstarfsyfirlýsinguna sem pólitísk skilaboð um hvatningu til Georgíu um aukin samskipti og viðskipti milli EFTA ríkjanna og Georgíu.

Á fundinum var jafnframt fjallað um EES-samstarfið og leiddi utanríkisráðherra þá umræðu þar sem Ísland fer nú með formennsku í EES af hálfu EFTA-ríkjanna. Utanríkisráðherra lagði áherslu á að framkvæmd EES-samningsins gengi vel en eigi að síður væri brýnt að EFTA-ríkin héldu árvekni sinni við að standa vörð um EES-samstarfið á tímum örra breytinga í Evrópu. Til að mynda væri stofnanaminni um EES-samninginn innan Evrópusambandsins af skornum skammti og þekking á því sem samið var um á sínum tíma, færi minnkandi.

Á fundinum fóru ráðherrarnir yfir stöðuna í fríverslunarviðræðum EFTA-ríkjanna við Indland, tollabandalag Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan, Indónesíu, Bosníu, Víetnam og Mið-Ameríkuríkin Hondúras, Kosta Ríka og Panama. Þá lýstu ráðherrarnir áhuga sínum á því að taka upp þráðinn aftur í fríverslunarviðræðum EFTA-ríkjanna við Taíland, kanna möguleika á hefja fríverslunarviðræður við Malasíu og styrkja tengsl EFTA-ríkjanna við Filippseyjar. Ráðherrarnir lýstu einnig vilja sínum á því að auka tengsl EFTA-ríkjanna við Mercosur ríkin (Argentína, Brasilía, Úrúgvæ og Paragvæ). Einnig ákváðu ráðherrarnir að stefna að því að undirrita samstarfsyfirlýsingu við Pakistan síðar á þessu ári og ræddu möguleika á því að koma á frekari tengslum við ríki í sunnanverðri Afríku.

Þá áttu ráðherrarnir fund með þingmanna- og ráðgjafanefndum EFTA þar sem fjallað var um starfsemi EFTA, fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna við önnur ríki og EES-samstarfið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum