Hoppa yfir valmynd
28. október 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 30/2021 - Endurupptekið -Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í enduruppteknu máli nr. 30/2021

 

I. Málsatvik

Kærunefnd húsamála komst að þeirri niðurstöðu með áliti, dags. 31. ágúst 2021, í máli nr. 30/2021, að vísa bæri frá eftirfarandi kröfu álitsbeiðanda A vegna ágreinings hans við gagnaðila, þ.e. stjórn B:

Að viðurkennt verði að álitsbeiðandi fái að sjá dagskrártillögu sem samkvæmt fundargerð aðalfundar 29. september 2020 hafi verið lögð fram af einum eiganda í nafni þeirra sem hafi verið lengst í húsinu, sbr. það sem segir í fundargerð.

Með tölvupósti álitsbeiðanda, dags. 13. september 2021, sendi hann nefndinni viðbrögð sín við niðurstöðu nefndarinnar og fór fram á endurupptöku málsins. Fram kom meðal annars að hann hefði ekki fengið afrit af dagskrártillögu sem borin hefði verið upp til atkvæðagreiðslu á aðalfundi 29. september 2020 og að ekki hafi verið tekin til úrlausnar krafa hans vegna heimildar til ljósmyndunar gagna húsfélagsins.

Með bréfi kærunefndar, dags. 1. október 2021, var álitsbeiðandi upplýstur um að fallist hefði verið á að fjalla um kröfu hans í lið II í álitsbeiðni hans, dags. 5. apríl 2021, á nýjan leik sem og kröfu hans um heimild til að ljósmynda gögn húsfélagsins með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en beiðni um endurupptöku á öðrum kröfum álitsbeiðnarinnar var hafnað. Var gagnaðili upplýstur um þetta með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag, ásamt því sem honum var send endurupptökubeiðni álitsbeiðanda.

Með tölvupósti kærunefndar, dags. 4. október 2021, óskaði nefndin upplýsinga um hvort téð dagskrártillaga hafi verið lögð fram skriflega eða hvort aðeins hafi verið um að ræða tillögu sem hafi komið fram munnlega á fundinum. Svar barst frá varnaraðila með tölvupósti, dags. 7. október 2021, þar sem fram kom að tillagan hafi komið fram munnlega frá einum eiganda á fundinum og verið skrifuð upp eftir honum. Fram kemur einnig að hafi álitsbeiðandi áhuga á að sjá umrætt plagg, sé það heimilt. Athugasemdir gagnaðila voru kynntar álitsbeiðanda með tölvupósti kærunefndar, dags. 13. október 2021. Athugasemdir álitsbeiðanda við málsmeðferð kæruefndar bárust sama dag og var þeim svarað með tölvupósti nefndarinnar, dags. 14. október 2021. Frekari athugasemdir bárust frá álitsbeiðanda 17. október 2021.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi kærunefndar 28. október 2021.

II. Forsendur

Í 6. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að stjórn og framkvæmdastjóra sé skylt að veita eigendum upplýsingar og skýringar um öll atriði er varða málefni húsfélagsins, rekstur þess, sameiginlegt viðhald, efnahag og fjárhagsstöðu. Skulu eigendur hafa rétt til að skoða bækur félagsins, reikninga og fylgiskjöl með hæfilegum fyrirvara en þó jafnan að viðstöddum stjórnarmanni.

Til úrlausnar er krafa álitsbeiðanda um aðgang að tillögu sem lögð var fram af hálfu eiganda í húsinu undir umræðu um tillögu, sem getið hafði verið um í fundargerð, um að gera samning við Eignaumsjón um húsfélagsþjónustu á aðalfundi gagnaðila  29. september 2020. Í fundargerð kom fram að tillagan væri lögð fram af viðkomandi eiganda en í nafni þeirra sem lengst hafi verið í húsinu. Tillagan sem um ræðir var sú að málinu yrði vísað til stjórnar. Samkvæmt fundargerðinni voru mættir fulltrúar 47 íbúða og var sú tillaga samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn fjórum. Ekki er deilt um lögmæti ákvörðunarinnar en álitsbeiðandi krefst þess að fá aðgang að tillögunni þar sem hún sé lögð fram í nafni ótilgreindra aðila. Samkvæmt þeim upplýsingum sem kærunefnd hefur aflað frá varnaraðila var um að ræða tillögu sem var borin upp munnlega af einum eiganda á fundinum og var tillagan skrifuð upp eftir honum. Varnaraðili segir jafnframt að álitsbeiðanda sé heimilt að sjá umrætt skjal og má þá ætla að um sé að ræða það sem ritað hafi verið eftir viðkomandi eiganda á fundinum. Ljóst er að álitsbeiðandi á rétt á aðgengi að skjalinu, sbr. 6. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús, og hefur varnaraðili fallist á það. Er því ekki ágreiningur hér um meðal aðila.

Þá er deilt um hvort álitsbeiðanda sé heimilt að taka ljósmyndir af gögnum húsfélagsins. Að virtu framangreindu ákvæði um aðgang félagsmanna að gögnum sem og öðrum ákvæðum fjöleignarhúsalaga fær kærunefnd ekki ráðið að unnt sé að neita félagsmönnum húsfélags um að taka myndir af gögnum þess. Það er því niðurstaða kærunefndar að álitsbeiðanda sé heimilt að taka ljósmyndir af gögnum húsfélagsins.

 

III. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðanda sé heimilt að taka ljósmyndir af gögnum húsfélagsins.

 

Reykjavík, 28. október 2021

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                                      Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum