Hoppa yfir valmynd
13. júlí 2018 Innviðaráðuneytið

Fjallað verði um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu í Landsskipulagsstefnu

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur falið Skipulagsstofnun að hefja vinnu við gerð landsskipulagsstefnu sem feli í sér viðbætur við Landsskipulagsstefnu 2015-2026. Gert er ráð fyrir að Landsskipulagsstefna 2015-2026 gildi áfram en að mótuð verði nánari stefna um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu í tengslum við framkvæmd skipulagsmála.

Lögð er áhersla á að í landsskipulagsstefnu verði sett fram stefna um hvernig beita megi skipulagsgerð til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, stuðla að bindingu þeirra og bregðast við og aðlagast þeim loftslagsbreytingum sem eru óumflýjanlegar.

Þá er áhersla á að sett verði fram stefna um skipulagsgerð með tilliti til landslags í þéttbýli, dreifbýli og óbyggðum. Sérstaklega verði fjallað um óbyggð víðerni í því sambandi, skipulag vindorkunýtingar með tilliti til landslags og um skipulag með tilliti til landslagsverndar.

Loks er lögð áhersla á sett verði fram stefna og leiðbeiningar um skipulagsgerð sem stuðli að bættri lýðheilsu og vellíðan.

Auk framangreindra breytinga er Skipulagsstofnun falið að yfirfara gildandi stefnu varðandi haf- og strandsvæði með tilliti til nýrra laga um skipulag haf- og strandsvæða.

Gert er ráð fyrir að tillaga Skipulagsstofnunar að breytingu á Landsskipulagsstefnu 2015-2026 berist ráðuneytinu eigi síðar en í desember 2019.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum