Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2025 Forsætisráðuneytið

1268/2025. Úrskurður frá 9. apríl 2025

Hinn 9. apríl 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1268/2025 í máli ÚNU 25040005.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 3. apríl 2025, kærði […], fréttamaður á Ríkisútvarpinu, til úrskurðanefndar um upp­lýsingamál ákvörðun skrifstofu Alþingis að synja honum aðgang að gögn­um. Kærandi óskaði eftir að fá afhent bréf sem bárust Alþingi frá fyrrverandi umboðsmanni Al­þing­is í tengslum við skipun núverandi umboðsmanns Alþingis.
 
Eins og mál þetta er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að kynna kæruna skrifstofu Alþingis og veita kost á að koma á framfæri umsögn um kæruna, sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
 

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, taka lögin til allrar starfsemi stjórnvalda. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, kemur fram að undir ákvæðið falli einungis þeir aðilar sem falið er að fara með stjórn­sýslu og teljist til handhafa framkvæmdarvalds í ljósi þrískiptingar ríkisvaldsins. Með lögum nr. 72/2019 um breytingu á upplýsingalögum var bætt við ákvæði í 4. mgr. 2. gr. laganna, þar sem segir eftirfarandi:
 
Lög þessi taka til stjórnsýslu Alþingis eins og nánar er afmarkað í lögum um þingsköp Alþingis og reglum forsætisnefndar sem settar eru á grundvelli þeirra. [...] Ákvæði V.–VII. kafla taka ekki til Alþingis eða stofnana þess.
 
Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 72/2019 kemur fram að tilgangur ákvæðis­ins sé verið að víkka út upplýsingarétt almennings yfir þá starf­semi handhafa löggjafarvalds sem ætti hvað mest skylt við stjórnsýslu, til að mynda ráðstöfun fjár­veitinga, innkaup og önnur fjármál, starfs­mannahald, símenntun og þjónustu, upplýsinga- og tækni­mál og önnur atriði sem falla undir hug­takið rekstur í víðum skilningi. Hins vegar væri gert ráð fyrir að Alþingi sjálft myndi með reglum sem forsætisnefnd setti á grundvelli laga um þingsköp Al­þingis skilgreina hvaða gögn vörðuðu stjórn­sýslu Alþingis og hvaða gögn vörðuðu starfsemi Al­þingis sem fulltrúasamkomu. Reglur forsætis­nefnd­ar eru aðgengilegar á vef Alþingis.
 
Í framangreindri 4. mgr. 2. gr. upplýsingalaga kemur fram að ákvæði V.–VII. kafla laganna taki ekki til Alþingis eða stofnana þess. Ákvæði um úrskurðarnefnd um upplýsingamál, þar á meðal um kæruheimild til nefndarinnar, er að finna í V. kafla laganna. Það er því ljóst að ákvarðanir Al­þingis um aðgang að gögnum, hvort sem þau varða stjórnsýslu Alþingis eða starfsemi Alþingis sem fulltrúasamkomu, sæta ekki kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Því er óhjákvæmi­legt að vísa kærunni frá nefndinni.
 

Úrskurðarorð

Kæru […], dags. 3. apríl 2025, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsinga­mál.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta