Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Styrkur til Landssamtakanna Þroskahjálpar til framleiðslu þáttaraðarinnar „Með okkar augum“

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar, hafa undirritað samning um styrkveitingu, að fjárhæð 2 milljónir króna, til framleiðslu á nýrri þátttaröð sjónvarpsþáttanna „Með okkar augum“ þar sem fólk með þroskahömlun er í lykilhlutverkum. 

Eygló Harðardóttir sagði að hún fagnaði samstarfinu við Landssamtökin Þroskahjálp og sagðist vona að haldið yrði áfram á þeirri góðu braut sem mörkuð hefur verið á undanförnum árum með gerð þáttanna og sýningu þeirra á RÚV. „Vinsældir þáttanna eru einnig hvatning til annarra fjölmiðla um að þeir láti ekki sitt eftir liggja við að auka sýnileika og virkni fatlaðs fólks í íslensku samfélagi,“ sagði Eygló.  

Ætlunin er að sex þættir verði framleiddir og þeir sýndir á RÚV á komandi sumri. Í þessari þáttaröð verður nýr liður „vinnustaðurinn minn“, þar sem fatlað fólk er heimsótt á ólíka vinnustaði og það spurt út í vinnuna. Einnig verður rætt við yfirmenn þess og samstarfsfólk.  Þættirnir hafa á undanförnum árum vakið mikla athygli og  hlotið margvíslegar viðurkenningar, meðal annars Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins gegn fordómum, hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands og hvatningarverðlaunin Kyndilinn sem réttindavakt velferðarráðuneytisins veitti.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum