Hoppa yfir valmynd
18. september 2020 Innviðaráðuneytið

Breytingar á skipulagslögum vegna flutningskerfis raforku og húsnæðismála

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til breytinga á skipulagslögum er varðar uppbyggingu flutningskerfis raforku og íbúðarhúsnæðis, sem sett hafa verið til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda.

Með frumvarpinu er kveðið á um heimild til að unnið sé sérstakt raflínuskipulag sem tekur til svæðis þvert á sveitarfélagamörk til að auðvelda og flýta fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku. Gert er ráð fyrir að gerð slíks skipulags yrði í höndum nefndar sem skipuð verður fulltrúum ríkis og sveitarfélaga.

Einnig er lagt til að umsagnarfrestur vegna tiltekinna auglýstra breytinga á deiliskipulagi verði styttur með það að markmiði að auka skilvirkni í stjórnsýslu vegna uppbyggingar íbúðarhúsnæðis. Í samræmi við stefnu stjórnvalda um stafræna stjórnsýslu er auk þess kveðið á um stafræna gagnagátt fyrir skipulagsáætlanir í frumvarpinu.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að treysta þurfi betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu og að hraða þurfi málsmeðferð ákvarðana sem tengjast línulögnum. Frumvarpið er liður í þessu en jafnframt hluti af úrvinnslu á tillögum átakshóps um úrbætur á innviðum í kjölfar óveðurs sem gekk yfir landið 10. og 11. desember 2019. Tillögurnar hafa þannig það markmið að einfalda og hraða málsmeðferð er varða framkvæmdir vegna raflína í meginflutningskerfi raforku sem liggja um fleiri en eitt sveitarfélag. Slíkar framkvæmdir geta kallað á breytingar á aðalskipulagi hvers sveitarfélags auk útgáfu framkvæmdaleyfis frá hverju sveitarfélagi. Tillagan gerir ráð fyrir  að tekin sé sameiginleg ákvörðun ríkis og viðkomandi sveitarfélaga um skipulag leyfisveitingar fyrir framkvæmd af þessu tagi.

Þau ákvæði frumvarpsins sem varða málsmeðferð vegna deiliskipulagsbreytinga og stafræna stjórnsýslu fela í sér framfylgd á hluta tillagna átakshóps í húsnæðismálum í tengslum við gerð lífskjarasamninga.

Óskað er eftir því að athugasemdir við frumvarpsdrögin berist eigi síðar 1. október 2020.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum