Hoppa yfir valmynd
29. september 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 238/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 238/2021

Miðvikudaginn 29. september 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 2. maí 2021, kærði B, réttindagæslumaður fatlaðs fólks, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. febrúar 2021 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 27. janúar 2021. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. febrúar 2021, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. maí 2021. Með bréfi, dags. 18. maí 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 2. júlí 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 6. júlí 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar um synjun á örorkulífeyri og að krafa sé gerð um að ákvörðunin verði felld úr gildi og málið tekið upp að nýju.

Tryggingastofnun ríkisins hafi synjað umsókn kæranda um örorku á þeim forsendum að endurhæfing sé ekki fullreynd og vísi þar til 18. gr. laga um almannatryggingar og heimildar í þeim lögum um að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi. Samkvæmt synjun sé ekki talið tímabært að taka afstöðu til örorku þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé að finna heimild til að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sé sem sé á aldrinum 18 til 67 verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys.

Kærandi sé með fimm greiningar; einhverfu, blandaðar sértækar þroskaraskanir, attention deficit hyperactivity disorder, hypothyroidism unspecified og depression nos.

Við túlkun og til lögskýringar beri að líta til frumvarps til laga nr. 118/1993 sem hafi komið heimildinni á. Þar segi; „ Heimilt er þegar ekki verður séð hver örorka einstaklings verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að tólf mánuði eftir að greiðslu sjúkra- eða slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar lýkur eða þar til unnt er að meta varanlega örorku, þó aldrei lengur en í 18 mánuði.“ Af þessu lúti að þar sé verið að horfa til fólks sem skerðist á lífsleiðinni eftir að lögaldri sé náð og kunni mögulega að ná bata með læknisfræðilegri endurhæfingu. Þetta eigi sem sagt ekki við um fatlað fólk í skilningi laga, og enn síður einstaklinga sem hafi áður verið skilgreindir sem fötluð börn og notið lögbundinnar þjónustu sem slíkri, þar á meðal frá Tryggingastofnun. Í lögum um félagslega aðstoð segi til dæmis, öfugt við endurhæfingarlífeyrinn, að umönnunargreiðslur greiðist til framfæranda fatlaðra og langveikra barna. Hafi framfærandi fatlaðs einstaklings á sínum tíma fengið umönnunargreiðslur verði ekki annað skilið en að Tryggingastofnun hafi samþykkt fötlun viðkomandi og þar með að hann falli ekki undir skilyrði til endurhæfingarlífeyris, enda sé fötlun almennt skilgreind sem langvarandi ástand í íslenskum rétti. 

Í 1. tölul. 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sé til að mynda að finna eftirfarandi skilgreiningu á hugtakinu fötlun, en henni svipi til skilgreininga Samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og ICF flokkunarkerfisins: „Afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.“

Enn fremur segi í 2. tölul. að til fatlaðs fólks teljist einstaklingar „með langvarandi líkamlega, geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun sem verður fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við.“ Með öðrum orðum, byggi árangursrík samfélagsþátttaka þessara einstaklinga, þar með talið virkni, ekki á læknisfræðilegri endurhæfingu heldur annars vegar á því að einstaklingurinn fái aðstoð og hins vegar að umhverfislegum og viðhorfslegum hindrunum sé rutt úr vegi til að koma í veg fyrir mismunun (með tilliti til aðgengis, sérstakra ráðstafana og viðeigandi aðlögunar, sbr. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 85/2018).

Stjórnvöld sem fari með matskenndar valdsheimildir og taki ákvarðanir um réttindi, skuli taka tillit til allra aðstæðna í hverju máli fyrir sig. Ekki sé heimilt að þrengja eða afnema mat með setningu fastmótaðrar reglu, líkt og virðist vera raunin við afgreiðslu umsóknar kæranda, þvert á markmið löggjafans.

Ítrekað skuli að þær greiningar sem kærandi hafi séu þess eðlis að endurhæfing hafi þar áhrif á, enda séu þær hvorki afleiðingar sjúkdóma né slyss heldur fötlunar líkt og Tryggingastofnun hafi áður staðfest við afgreiðslu umsókna um umönnunargreiðslur.

Stjórnvald, Tryggingastofnun í þessu tilfelli, skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í málinu. Þegar um stjórnvaldsákvörðun um mikilsverð réttindi sé að ræða, líkt og í máli kæranda, beri að rannsaka og afla nauðsynlegra gagna um málsatvik. Sú krafa hvíli á Tryggingastofnun samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að fram fari skyldubundið mat Tryggingastofnunar, ekki síst þegar ekki liggi efnislega ljóst fyrir til hvaða endurhæfingarúrræða verið sé að vísa.

Heimilt sé að setja það skilyrði að kærandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Ekkert sérhæft mat hafi farið fram á möguleikum kæranda, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Hann hafi hvorki verið kallaður til skoðunar hjá tryggingarlækni né hafi verið óskað frekari gagna sem varpi frekara ljósi á stöðu hans. Þar með hafi mál hans ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti og skyldubundið mat ekki farið fram. Ekki verði séð að Tryggingastofnun hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni með því að kalla kæranda til skoðunar eða kalla eftir frekari gögnum líkt og heimild sé fyrir.

Félagsmálaráðuneytið hafi farið fram með samstarfsverkefni sem kallist 4DX og sé um að ræða verkefni sem eigi að lækka nýgengi örorkumats fólks á aldrinum 18-29 ára. Ljóst sé að sett hafi verið allsherjarregla um að ungt fólk fái ekki samþykktan örorkulífeyri í stað þess að fram fari mat á stöðu einstaklingsins, líkt og í þessu máli.

Því sé nú krafa gerð um að synjun Tryggingastofnunar verði felld úr gildi og málið tekið upp að nýju.   

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkulífeyri.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum. Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Tryggingastofnun sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Þá sé í 37. gr. laganna meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum sem stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skulu staða og réttindi umsækjanda og greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun þann 27. janúar 2021. Með bréfum, dags. 2. og 23. febrúar 2021, hafi kæranda verið synjað um örorkumat samkvæmt 18. og 19. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og verið vísað á endurhæfingarlífeyri samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð þar sem stofnunin hafi talið nauðsynlegt að láta reyna á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kæranda hafi komið.

Kæranda hafi áður verið synjað af sömu ástæðu og í kjölfarið hafi hann sótt um endurhæfingarlífeyri árið 2019, en umsókn hans hafi verið vísað frá þar sem nauðsynleg gögn hafi ekki borist. Kæranda hafi verið greitt framlag vegna náms frá 1. ágúst 2019 til tuttugu ára aldurs.

Við mat á umsókn um örorkulífeyri hafi tryggingalæknir stuðst við þau gögn sem lágu fyrir. Við afgreiðslu á málinu hafi legið fyrir umsókn kæranda, dags. 27. janúar 2021, læknisvottorð, dags. 27. janúar 2021, svör kæranda við spurningalista, dags. 27. janúar 2021, og bréf frá félagsráðgjafa, dags. 29. janúar 2021. Einnig hafi eldri gögn legið fyrir.

Með bréfum stofnunarinnar, dags. 2. og 23. febrúar 2021, hafi kæranda verið synjað um örorkulífeyri og vísað á að sækja um endurhæfingarlífeyri. Það sé mat Tryggingastofnunar að út frá fyrirliggjandi gögnum sé ekki tímabært að meta örorku kæranda.

Kærandi sé xx ára gamall karlmaður. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi hann stundað nám á starfsbraut í framhaldsskóla þegar sótt hafi verið um örorkulífeyri og hafi afar takmarkaða vinnusögu. Samkvæmt læknisvottorði frá 27. janúar 2021 sé umsækjandi greindur með ódæmigerða einhverfu, ADHD og blandnar sértækar þroskaraskanir. Einnig sé hann greindur með vanstarfsemi í skjaldkirtli og sykursýki. Í læknisvottorði komi einnig fram að læknir telji mögulegt að færni kæranda muni aukast eftir læknismeðferð, með tímanum eða ekki. Vísað sé til læknisvottorða varðandi frekari upplýsingar og bréfs félagsráðgjafa, dags. 29. janúar 2021.

Tryggingastofnun vilji vekja athygli á því að hægt sé að bæta færni þeirra sem hafi sambærilegar greiningar og kærandi. Greiningin ein og sér leiði ekki til afskriftar af vinnumarkaði. Hver einstaklingur sé metinn heildstætt og sjálfstætt út frá þeim gögnum sem liggi fyrir hverju sinni.

Kærandi hafi ekki verið á endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni. Tryggingastofnun telji, líkt og fram komi í bréfum stofnunarinnar, að rétt sé að vinna endurhæfingaráætlun með hliðsjón af aðstæðum kæranda og hafi kæranda verið leiðbeint að leita sér frekari upplýsinga hjá heimilislækni um viðeigandi úrræði. Stofnunin vilji vekja sérstaka athygli á því að af gögnum málsins megi ráða að á þeim tíma sem kærandi hafi sótt um hafi hann verið að sinna ákveðnum þáttum sem geti verið hluti endurhæfingaráætlunar. Stofnunin vilji einnig vekja athygli á því að einstaklingar sem njóti greiðslna endurhæfingarlífeyris njóti annarra tengdra bóta og réttinda sem að örorkulífeyrisþegar njóti, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Að lokum vilji Tryggingastofnun taka fram að nokkrir mánuðir séu liðnir frá mati stofnunarinnar og hafi aðstæður breyst frá þeim tíma, geti kærandi sótt um að nýju og yrði þá slík umsókn tekin til efnislegrar meðferðar.

Tryggingastofnun vilji ítreka það að stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Stofnunin telji ljóst að endurhæfing sé ekki fullreynd í tilviki kæranda. 

Í ljósi alls ofangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, það er að synja um örorkumat og vísa í endurhæfingu hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Jafnframt skuli áréttað að ákvörðunin sem kærð hafi verið í þessu máli, hafi byggst á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. febrúar 2021 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda var læknisvottorð C, dags. 27. janúar 2021. Í vottorðinu koma fram eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„HYPOTHYROIDISM, UNSPECIFIED

DEPRESSION NOS

ATTENTION DEFICIT HYPERACTIVITY DISORDER

EINHVERFA

BLANDNAR SÉRTÆKAR ÞROSKARASKANIR“

Um fyrra heilsufar kæranda segir í vottorðinu:

„A var greindur með ódæmigerða einhverfu, ADHD og Blandnar sértækar þroskaraskanir á GRR 2011.

Hann hefur verið í eftirliti hjá D vegna vanstarfsemi á skjaldkirtli í nokkur ár. Nú nýlega einnig greindur með sykursýki. Tekur lyf við hvorutveggja.

Obese.“

Um núverandi heilsuvanda og færniskerðingu kæranda er vísað til umfjöllunar um fyrra heilsufar kæranda.

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi:

„A er rúmlega xx ára drengur. Hann er samvinnuþýður í viðtali. Greinilega í yfirþyngd. Svarar helst á ensku og augntengsl eru mjög slök.

Hjarta og lungnahlustun eðl.

Hann hefur afar sértæk áhugamál. Býr sér til búininga ut frá persónum sem hann sjálfur býr til.“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að búast megi við að færni hans aukist með tímanum, eftir læknismeðferð eða ekki. Ekki er það skýrt á nánari hátt.

Þá liggur einnig fyrir greinargerð E, félagsráðgjafa hjá velferðarsviði I, dags. 29. janúar 2021, og þar segir:

„[...]A hefur í gegnum tíðina glímt við svefnvanda. Hann tekur Melatonin fyrir svefn. Það hjálpar honum með svefninn en svo koma tímar sem hann sefur illa. Hann þarf að passa upp á að taka lyfið á réttum tíma, ef hann tekur lyfið of seint þá er hann lengi að sofna á kvöldin. Stundum virkar lyfið ekki og fer það mikið eftir því hvernig hann er stemmdur líkamlega og andlega.

A sinnir persónulegri umhirðu. Hann þarf stuðning og hvatningu við að sinna hreinlæti og þrifum á heimili. Það þarf að benda honum á að ganga frá eftir sig. Hann er fljótur að reiðast og þarf oft lítið til þess að hann reiðist.

Hann er félagslega einangraður og á ekki vini og hefur hann afmörkuð áhugamál. Hann er viðkvæmur fyrir hávaða og þolir illa ákveðin hljóð.

A gekk í F og frá 10 ára aldri var hann með stuðning í skólanum allan daginn. Hann stundar núna nám á starfsbraut í G og stefnir á útskrift í vor. A býr hjá móður sinni og stjúpföður. Á heimilinu eru tveir bræður hans og stjúpbróðir.

A á enga vinnusögu. Hann fékk vinnu í H árið 2018 og vann þar í tvo daga og fékk svo ekki áfram. Samkvæmt móður þá fékk hún upplýsingar um það að hann hafi brugðist illa við fyrirmælum og hreytti óviðeigandi athugasemdum til yfirmanns. Hann gerði þó yfirleitt það sem honum var sagt að gera að lokum.

Síðasta sumar vann hann í bæjarvinnunni með stuðning. I setti upp úrræði fyrir einstaklinga með fatlanir sem þurfa stuðning og var hann hluti af þeim hóp.

A er með SIS mat sem gert þann 01.12.2018. Samkvæmt niðurstöðum er hann í stuðningsflokki 6, stuðningsvísitala er 94, heilsuþörf 1 og hegðunarþörf 2.

A var með liðveislu frá velferðarsviði I frá árinu 2012-2018. Hann hefur verið á biðlista eftir tiltækum starfsmanni frá árinu 2018. Hann er núna kominn með liðveitanda.

A var í talþjálfun þegar hann var yngri í nokkra mánuði. Hann var einnig í sjúkraþjálfun ínokkur ár þar sem unnið var með fínhreyfingar. A var í þjónustu hjá J frá 10 ára aldri og var hann á dagdeild í nokkrar vikur. Einnig sótti hann félagsfærninámskeið á vegum J þegar hann var í 8 bekk. Eftir það var hann í eftirfylgni hjá J til 18 ára aldurs og hitti lækni reglulega.

Það er mat undirritaðar að A þarf stuðning og hvatningu í daglegu lífi. Hann þarf mikið utanumhald og skýr fyrirmæli. Það myndi henta honum vel að fá starf í gegnum Atvinna með stuðningi (AMS) hjá Vinnumálastofnun þar sem sveigjanleiki og skilningur er til staðar.“

Í fyrirliggjandi spurningalistum vegna færniskerðingar sem kærandi lagði fram með umsókn um örorkumat, dags. 27. janúar 2021, svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi ódæmigerða einhverfu, blandnar sértækar þroskaraskanir og ADHD. Í svörum kæranda varðandi líkamlega færni kemur fram að hann eigi stundum erfitt með að standa aftur upp eftir að hafa kropið og að ganga langar vegalengdir. Þá noti hann einnig gleraugu. Hvað varðar andlega færni greinir kærandi frá því að hann eigi erfitt með að tjá tilfinningar og hugsanir. Hann sé með þunglyndi og sé að taka þunglyndislyf. Þá tekur hann enn fremur fram að hann sé félagslega einangraður og eigi ekki vini.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að meta örorku þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um frekari endurhæfingarúrræði.

Kærandi byggir á því að 7. gr. laga um félagslega aðstoð eigi ekki við um fatlað fólk og enn síður einstaklinga sem hafi áður verið skilgreindir sem fötluð börn og notið lögbundinnar þjónustu sem slíkri, þar á meðal frá Tryggingastofnun. Þá er því haldið fram að Tryggingastofnun hafi þrengt eða afnumið mat með setningu fastmótaðrar reglu við afgreiðslu umsóknar kæranda.

Tryggingastofnun hefur litið svo á að einstaklingar með fötlun geti átt rétt á endurhæfingarlífeyri samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð að öðrum skilyrðum uppfylltum. Úrskurðarnefndin hefur ekki gert athugasemdir við það mat, enda telur nefndin mikilvægt að allir sem stunda endurhæfingu geti átt kost á að fá greiddan endurhæfingarlífeyri að uppfylltum öðrum skilyrðum. Úrskurðarnefndin telur slíkt jafnframt vera í samræmi við þá áherslu sem lögð er á að efla endurhæfingu sem fjallað er um í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 120/2009. Í athugasemdunum segir meðal annars svo:

„Mikilvægt er að allir sem einhverja starfsgetu hafa eigi kost á endurhæfingarúrræðum sem leiða til aukinna möguleika á atvinnuþátttöku. Efla þarf endurhæfingu þeirra sem búa við skerta starfshæfni og gera þeim þannig mögulegt að komast á ný út á vinnumarkað eða taka á annan hátt virkan þátt í samfélaginu. Það er ekki einvörðungu mikilvægt einstaklinganna sjálfra vegna heldur ekki síður samfélagsins alls að efla endurhæfingu eins og kostur er.“

Metið er sjálfstætt og heildstætt í hverju tilviki fyrir sig hvort endurhæfing sé fullreynd eða eftir atvikum hvort fyrir liggi sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar. Í tilviki kæranda liggur fyrir að hann hefur verið greindur með ódæmigerða einhverfu, ADHD, blandnar sértækar þroskaraskanir, vanstarfsemi á skjaldkirtli, sykursýki og þunglyndi. Kærandi er því bæði með fötlun og sjúkdóma. Þá liggur fyrir að hann hefur ekki gengist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar. Í læknisvottorði C, dags. 27. janúar 2021, kemur fram að kærandi sé óvinnufær og búast megi við því að færni aukist með tímanum, eftir læknismeðferð eða ekki. Í greinargerð E félagsráðgjafa segir að kærandi sé félagslega einangraður og eigi takmarkaða vinnusögu. Úrskurðarnefndin telur að hvorki verði ráðið af framangreindu læknisvottorði né eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti ekki komið að gangi. Fyrir liggur að kærandi er mjög ungur að árum og hefur ekki látið reyna á starfsendurhæfingu. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur ekki fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að kærandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar áður en til örorkumats kemur.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. febrúar 2021, um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum