Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nánari skilgreining á skóladögum í grunnskólum

Í kjölfar álits mennta- og menningarmálaráðuneytis, dags. 16. apríl 2012, um skiptingu skóladaga í grunnskólum milli kennsludaga og annarra skóladaga bárust ráðuneytinu athugasemdir og fyrirspurnir um framangreint álit. Fjallað var sérstaklega um álitið á fundi samráðsnefndar leik- og grunnskóla í maí auk þess sem samráðsfundir voru haldnir með fulltrúum frá Kennarasambandi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem rætt var um þessi mál frá ýmsum hliðum. Óskað var eftir því að ráðuneytið endurskoðaði álitið með það í huga að gefa skólum og sveitarfélögum aukið svigrúm til að skipuleggja skólahald í samræmi við framkvæmd sem hefði viðgengist í sátt milli samningsaðila, allt frá því að skólaárið í grunnskólum var lengt í tengslum við kjarasamninga árið 2001.

Í framangreindu áliti frá 16. apríl sl. er rakin ítarlega sú breyting sem varð á lengd skólaársins í grunnskólum, fyrst með kjarasamningum 2001 og síðan með setningu grunnskólalaga árið 2008. Vikið er að ýmsum álitamálum um túlkun á skóladögum og skiptingu þeirra í kennsludaga og aðra skóladaga. Í lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, segir að árlegir skóladagar nemenda skulu eigi vera færri en 180 og að skipting milli kennsludaga og annarra skóladaga nemenda sé á ábyrgð skólastjóra að höfðu samráði við skólaráð og að fenginni staðfestingu skólanefndar. Ráðuneytið áréttar að ekki er hægt að telja óvenjulega langan skóladag nema einn kennsludag.

Samkvæmt 28. gr. grunnskólalaga hefur ráðuneytið ekki heimild til að veita sveitarfélögum eða skólum undanþágu frá starfstíma skóla, hvorki árlegum né vikulegum. Með lögunum 2008 var fellt út ákvæði eldri laga þess efnis að ráðherra gæti veitt tímabundna undanþágu frá árlegum starfstíma skóla með hliðsjón af atvinnuháttum og aðstæðum í einstökum sveitarfélögum, en slíkar undanþágubeiðnir heyrðu orðið til algerra undantekninga. Eins og fram kemur í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 91/2008 varð ekki breyting á vikulegum kennslutíma hvers nemanda að lágmarki í mínútum talið frá eldri lögum. Í greinargerðinni segir enn fremur: „Nýtt ákvæði er þess efnis að heimilt sé að víkja tímabundið frá lágmarks vikulegum kennslutíma en tryggja nemendum viðbótarkennslu sem nemur frávikinu innan sama skólaárs. Þetta er hugsað til að auka möguleika á sveigjanlegu skólastarfi miðað við aðstæður á hverjum stað. Einstakir skólar gætu t.d. tekið þá ákvörðun að hafa styttri vikulegan skólatíma í svartasta skammdeginu en lengja skóladaginn á móti að hausti og vori. Vikulegur kennslutími getur því orðið breytilegur náist um það samkomulag innan skólans, skólaráðs og skólanefndar.“ Þegar það fyrirkomulag sem skilgreint er í grunnskólalögum  er útfært telur ráðuneytið mikilvægt að fram fari umræður innan skólaráðs og skólanefndar. Viðhorf hagsmunaaðila í skólasamfélaginu þarf að kanna rækilega, m.a. með opnum foreldrafundum eða rafrænum viðhorfskönnunum, áður en endanleg útfærsla er valin og þess þarf að gæta að daglegt vinnuálag á nemendur verði ekki óhóflegt.

Í ljósi viðbragða frá skólasamfélaginu við fyrra áliti ráðuneytisins og að höfðu samráði við hagsmunaaðila vill ráðuneytið til áréttingar fyrri túlkunar á því hvernig skilgreina skuli skóladaga í grunnskólum taka fram eftirfarandi.

1. Ráðuneytið áréttar að árlegur lágmarksfjöldi kennsludaga skuli vera 170 og að óheimilt er að telja sem kennsludaga aðra en þá daga sem nemandi starfar í skólanum eða í vettvangsferðum utan skóla að lágmarki í sambærilegan tíma og gert er ráð fyrir í stundaskrá. Ef skólar skipuleggja t.d. námsmat með þeim hætti að nemendur mæti í skólann í sérstaka prófa- eða námsmatsdaga þá teljist þeir ekki til kennsludaga nema framangreint skilyrði sé uppfyllt. Með sama hætti teljast vettvangsferðir ekki til kennsludaga nema að uppfylltum framangreindum skilyrðum.

2. Sérstaklega hefur verið spurt um möguleika skóla til að skipuleggja árlega skólahald á laugardögum á skóladagatali  í ljósi fyrra álits. Ráðuneytið stendur við fyrra álit hvað varðar skólahald á laugardögum, en telur engu að síður að í vissum tilvikum geti skólar skipulagt skólahald af einhverju sérstöku tagi um helgar, sé gætt að lögbundu samráði og að allir aðilar skólasamfélagsins séu samþykkir slíku fyrirkomulagi. Ráðuneytið telur hins vegar æskilegt að halda slíku í algjöru lágmarki, enda er gert ráð fyrir því að skólahald fari almennt fram á virkum dögum skólaársins.

3. Í fyrra áliti ráðuneytisins var sérstaklega kveðið á um að ekki mætti telja nema einn kennsludag þá vinnu nemenda sem fram færi innan sama skóladags, t.d. viðveru nemenda frá morgni langt fram á kvöld eða viðburð að loknum hefðbundnum skóladegi. Í kjölfar þess álits var athygli ráðuneytisins vakin á því að Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga hefðu litið svo á að fara mætti með aðra skóladaga sem samið var um í kjarasamningum 2001 með öðrum hætti en lögbundna kennsludaga. Þessir aðilar líta áfram svo á að þrátt fyrir að með setningu grunnskólalaga 2008 hafi verið bætt við 10 skóladögum, hafi ekki verið ætlunin að hrófla við túlkun á því með hvaða hætti mætti skipuleggja þessa daga. Í fyrra áliti ráðuneytisins var ekki fjallað sérstaklega um að munur væri á kennsludögum og öðrum skóladögum. Í viðræðum við framangreinda aðila hefur nú komið fram sú ósk að ráðuneytið líti öðrum augum á þessa aðra skóladaga með því að staðfesta að heimilt sé að tvítelja tiltekna skóladaga eða dreifa skólastarfinu á nokkra daga, t.d. foreldraviðtölum, ef um slíkt er samkomulag í viðkomandi skólasamfélagi. Óskað var eftir að ráðuneytið heimili að langur skóladagur gæti þá flokkast sem einn kennsludagur og að auki sem annar skóladagur, þ.e. sem einn af öðrum skóladögum sem kveðið var fyrst á um í kjarasamningum og síðan lögbundnir 2008. Einnig að heimilt yrði að telja viðburð að afloknum kennsludegi með sama hætti, þ.e. einn kennsludag og einn annan skóladag.  

Í þessu sambandi vill ráðuneytið árétta að eitt af markmiðunum með því að lengja lögbundið skólaár í 180 skóladaga árið 2008 var að að tryggja eins og kostur er jafnrétti til náms hér á landi. Einnig var markmiðið að gera skólaárið hér á landi sambærilegt við það sem almennt gerist í nágrannalöndunum. Eftirlit ráðuneytisins með skólahaldi í grunnskólum sem Hagstofa Íslands annast fyrir ráðuneytið hefur m.a. miðað að því að tryggja nemendum þann rétt að fá lögbundinn vikulegan kennslutíma og árlegan fjölda skóladaga.

Ráðuneytið er ekki reiðubúið að fallast á þá túlkun að almennt megi fækka árlegum lögbundnum skóladögum nemenda. Skóladagar nemenda eiga að vera að lágmarki 180 samkvæmt grunnskólalögum og ráðuneytið leggur áherslu á að nemendum sé tryggður lögbundinn árlegur starfstími. Ráðuneytið áréttar að aldrei er heimilt að hafa árlega kennsludaga færri en 170 og mikilvægt er að sveigjanleikinn sem gefinn er í lögunum með fjölgun skóladaga sé nýttur til að bjóða nemendum upp á fjölbreytt skólastarf miðað við aðstæður, þarfir og óskir viðkomandi skólasamfélags.

Ráðuneytið bendir hins vegar á þann sveigjanleika sem skilgreindur er í greinargerð með grunnskólafrumvarpinu og getið er um hér að framan. Ef allir aðilar skólasamfélagsins eru sammála því að ljúka árlegu lögbundnu skólahaldi á færri dögum  og dreifa verkefnum á aðra daga skólaársins, þá gerir ráðuneytið ekki athugasemd fyrir sitt leyti við það fyrirkomulag, enda sé það aldrei ákveðið nema til eins árs í senn.

Þess er vænst að framangreind umfjöllun muni skýra enn frekar afstöðu ráðuneytisins til túlkunar á skilgreiningu á skóladögum í grunnskóla.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum