Hoppa yfir valmynd
13. september 2017 Utanríkisráðuneytið

Tuttugu ára afmæli Sjávarútvegsskólans minnst með margvíslegum hætti

UNU-FTP_Nemendur2Á þessu skólaári munu 21 nemandi taka þátt í sex-mánaða námi Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, meirihluti þeirra eru konur eða 13 talsins. Alls koma nemendurnir frá 15 löndum í Asíu, Afríku, Mið-Ameríku og Karíbahafinu. 

Átta þeirra ætla að sérhæfa sig á sviði gæðastjórnunar, sjö á sviði stofnmats, og sex á sviði sjálfbærs fiskeldis. Námið er skipulagt í þrjá ólíka hluta: Inngangur (sex vikur); sérhæfing (sex vikur); og þriggja mánaða rannsóknarvinna /lokaverkefni. 

Í inngangnum fá nemendur heildstætt yfirlit um sjávarútveg í heiminum og innsýn inn í hin ýmsu svið greinarinnar og hvernig þau tengjast. Í sérhæfingunni byggja nemendurnir upp færni á einu sviði með því að sækja fyrirlestra, vinna verkefni og heimsækja valin fyrirtæki og stofnanir. Í lokaverkefninu vinna þeir undir handleiðslu umsjónarkennara - taka að sér rannsókn eða verkefni sem hefur mikla þýðingu fyrir heimaland þeirra og tengist starfi þeirra þar. 

Tuttugu ár

Former-fellowsSjávarútvegsskólinn tekur nú á  móti nýjum hópi nemenda í tuttugasta sinn frá því hann var stofnaður árið 1997. Haldið verður upp á þann áfanga með ýmsum hætti, en einna hæst ber þátttöku á ráðstefnunni World Seafood Congress 2017. Á vegum skólans taka til dæmis um 50 núverandi og fyrrverandi nemendur virkan þátt með framsögum og kynningum. Skólinn á einnig veg og vanda að því að fá á ráðstefnuna Ray Hilborn einn frægasta sjávarlíffræðing heims. Sjávarútvegsskólanum hefur frá upphafi verið ætlað mikilvægt hlutverk í aðstoð Íslands við þróunarlönd.

"Veigamikill hluti af því námi og þjálfun sem skólinn býður upp á snýr að meðferð og vinnslu afla, en það er einmitt mjög mikilvægur liður í að tryggja almenningi í þróunarríkjum aðgang að hollum og öruggum matvælum og einnig lykilforsenda árangurs á sviði útflutnings sjávarafurða. Á sama tíma hefur alltaf verið ljóst að skólinn getur, t.d. með uppbyggingu á tengslanetum innan sjávarútvegs á alþjóðavísu, haft mikið gildi fyrir íslenskan sjávarútveg og skyldar greinar og styrkt stöðu okkar sem einnar af leiðandi fiskveiði- og fiskvinnsluþjóðum heims," segir í frétt frá skólanum.

Haldið er upp á tuttugu ára starfsafmæli skólans ýmsum hætti, m.a. með því að bjóða 22 eldri nemendum að taka þátt í ráðstefnunni World Seafood Congress (WSC) og Íslensku sjávarútvegssýningunni (Icefish) sem báðar fara fram í þessari viku.

Nemendurnir hafa verið önnum kafnir síðan þeir komu til landsins um síðustu helgi - hlýða á erindi, ganga frá veggspjöldum fyrir ráðstefnuna, halda fyrirlestra, styrkja tengsl við kollega og - að sjálfsögðu - skemmta sér.

Alls hafa 347 nemendur lokið námi frá skólanum frá upphafi, þ.e. útskrifast á árunum 1999-2017. Þessu til viðbótar koma svo þeir nemendur sem hófu nám í síðustu viku og  útskrifast næsta vor (2018) alls 21 nemandi.Þeir koma frá alls 53 löndum. Flestir frá Víetnam, eða 26, og tuttugu eða fleiri hafa komið frá Úganda, Kína, Kenía, Sri Lanka og Tansaníu. Hingað hafa komið nemendur frá Nárú og Vanúatú, Súrínam og Sankti Lúsíu, svo fátt eitt sé talið. Og sex hafa komið frá Norður-Kóreu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum