Hoppa yfir valmynd
13. september 2017

Vöxtur í bláa lífhagkerfinu ein helsta forsenda Heimsmarkmiðanna

Meginþema ráðstefnunnar World Seafood Congress 2017 sem lýkur í Hörpu í dag er vöxtur í bláa lífhagkerfinu. Hugtakið er tilvísun í mikilvægi hafsins þar sem veruleg tækifæri liggja til vaxtar, nýsköpunar, rannsókna, markaðssetningar með matvælaöryggi, fæðuöryggi, sjálfbærni og matarheilindi að leiðarljósi. Áhersluatriðin eru nýsköpun í sjávarútvegi - nýjar vörur og möguleikar til fjárfestinga; matvælaöryggi - forsenda nýsköpunar í matvælaframleiðslu og alþjóðlegrar verslunar með mat; og í þriðja lagi matarheilindi - baráttan gegn svikum í matvælaframleiðslu og -sölu á tímum netverslunar, matartengdrar ferðaþjónustu og ósk neytenda um rekjanleika í matvælaframleiðslu. 

Bláa lífhagkerfið og breytingar í vinnslu sjávarafurða voru meginstefin í ræðum á upphafsdegi World Seafood Congress 2017 (Heimsráðstefnu um sjávarfang) sem hófst í Hörpu á mánudag. Talið er að bláa lífhagkerfið sé eitt lykilatriðanna í því að ná Heimsmarkmiðunum en nú er sjávarfang aðeins um 5% af matvælum sem neytt er í heiminum. 

Utanríkisráðherra á tveimur viðburðum

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók þátt í tveimur fundum í vikunni í tengslum við World Seafood Congress (WSC). "Nýtt tækifæri fyrir höfin" var yfirskrift hliðarviðburðar WSC í hádeginu í gær, þriðjudaginn 12. september, sem haldinn var í boði utanríkisráðuneytisins, atvinnuvega- og  nýsköpunarráðuneytisins, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (FAO) og Matís í Rímusalnum.

Meginumræðuefni fundarins var heimsmarkmið SÞ nr. 14, sem fjallar um hafið: "Vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun". Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti inngangsorð og ræddi áherslur íslenskra stjórnvalda í þessu samhengi. Að loknu ávarpinu tók dr. Manuel  Barange, aðstoðarskrifstofustjóri fiskideildar FAO, við og stjórnaði pallborðsumræðum um 14. heimsmarkmiðið. Aðrir þátttakendur voru: Carey Bonnell, International Association of Fish Inspectors (IAFI), Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Mary Frances Davidson, Sjávarútvegsskólanum, og Sveinn Margeirsson, Matís.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flytur einnig inngangsorð á ráðherrafundi að lokinni World Seafood Congress en sá fundur fer fram í Háuloftum í Hörpu síðar í dag, kl. 13:30-16:30. Í fundinum taka þátt sendinefndir frá Bangladess, Grænhöfðaeyjum, Kostaríka, Nígeríu, Malasíu, Kanada, Nova Scotia, Nýfundnalandi og Labrador,  Prince Edward-eyju í Kanada, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO), Alþjóðabankanum, Norrænu ráðherranefndinni, Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Iðnþróunarstofnun SÞ (UNIDO). 

Meginumræðuefni fundarins lýtur að því hvernig vinna megi að framgangi bláa hagkerfisins og nýta á bestan hátt möguleika hafsins (Promoting the Blue Bioeconomy - Making Best Use of Ocean Opportunities). Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er í forsæti fyrir Íslands hönd á fyrri hluta fundarins, en þá mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra taka við. Ráðherrarnir og aðrir formenn sendinefnda munu ræða um bláa hagkerfið undir leiðsögn dr. Ray Hilborn prófessors í háskólanum í Washingtonfylki í Bandaríkjunum, sem fjallar um fiskveiðistjórnun, og dr. Önnu Kristínar Daníelsdóttur, yfirmanni rannsókna og  nýsköpunar hjá MATÍS, sem ræðir um það, hvað þurfi til, til að skapa öflugt blátt hagkerfi. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum