Hoppa yfir valmynd
21. september 2017 Utanríkisráðuneytið

Ný stefna UNICEF til næstu fjögurra ára samþykkt á stjórnarfundi

Á stjórnarfundi Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) í síðustu viku í New York var samþykkt ný stefna UNICEF fyrir 2018-2021. Að sögn Hildigunnar Engilbertsdóttur sem sat fundinn fyrir hönd utanríkisráðuneytisins mun starfsfólk UNICEF nú undirbúa innleiðingu og framkvæmd stefnunnar. "Þótt nýja stefnan boði einhverjar breytingar á starfsskipulagi hjá UNICEF, þá hafa áherslur stofnunarinnar ekki breyst mikið milli ára. Áfram er lögð áhersla á að ná til þeirra barna sem búa við lökustu kjörin. Mannréttindi eru enn höfð að leiðarljósi og kynjajafnrétti og jafnræði eru samþætt öllum markmiðum stefnunnar," segir Hildigunnur.

Stjórnin samþykkti einnig samþætta fjárhagsáætlun UNICEF fyrir 2018-2021. Í skýrslu UNICEF sem fjallar um fjármögnun stefnunnar kemur fram að stefnt er að 21% tekjuvexti á tímabilinu til þess að stofnunin geti framkvæmt stefnuna. Í því skyni mun UNICEF leita allra leiða til að stækka þann hóp sem veitir framlög til UNICEF, þá sérstaklega einkageirann og einstaklinga sem veita framlög til landsnefnda UNICEF. Þess ber að geta að íslenska UNICEF landsnefndin safnaði hlutfallslega hæsta framlagi allra landsnefnda árið 2016.

Íslensk stjórnvöld styðja við ýmis verkefni UNICEF, svo sem verkefni í Sambesíufylki í Mósambík þar sem UNICEF byggir upp vatns-, hreinlætis- og salernisaðstöðu fyrir íbúa í sex héruðum. Einnig má nefna að íslensk stjórnvöld hafa um árabil stutt við verkefni UNICEF í Palestínu, en stjórn UNICEF samþykkti á áðurnefndum stjórnarfundi svæðaáætlun fyrir Palestínu og palestínsk börn og konur í nærliggjandi löndum.

Íslensk stjórnvöld veittu sömuleiðis kjarnaframlag til UNICEF að upphæð 123 miljónir króna árið 2017, en slík framlög gera stofnunum kleift að veita fé til þeirra svæða sem mest þurfa á aðstoð að halda og veita svigrúm þegar bregðast þarf skjótt við. Á síðasta ári notaði UNICEF kjarnaframlög til að m.a. meðhöndla 200 þúsund börn í Afganistan sem þjáðust af bráðri vannæringu og bólusetja meira en eina milljón barna undir eins árs aldri í Úganda.

Áhugasamir geta skoðað gögn um úthlutun UNICEF á kjarnaframlögum á svokallaðri gagnsæisgátt. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum