Hoppa yfir valmynd
21. september 2017 Utanríkisráðuneytið

Nemendafjöldi Landgræðsluskólans kominn yfir eitt hundrað á tíu árum

Utskrift1309_1505991302533Fjórtán nemar útskrifuðust frá Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku eftir sex mánaða nám á Íslandi. Heildarfjöldi nemenda skólans frá upphafi er nú kominn yfir eitt hundrað en skólinn hóf starfsemi árið 2007. Að þessu sinni útskrifuðust nemendur frá átta þjóðríkjum, flestir frá Gana og Mongólíu, þrír frá hvoru landi, tveir frá bæði Úganda og Lesótó, og einn frá Malaví, Eþíópíu, Níger og Úsbekistan, alls tíu karlar og fjórar konur.

Markmið Landgræðsluskólans er að byggja upp færni sérfræðinga frá þróunarlöndum í landgræðslu og sjálfbærri landnýtingu. Þetta er gert með því að þjálfa sérfræðinga sem starfa við landgræðslu- og landnýtingarmál í samstarfslöndum Landgræðsluskólans í Afríku og Mið-Asíu. Allir nemendurnir hafa háskólagráðu sem tengist viðfangsefnum skólans og starfa við stofnanir í heimalandi sínu.

Hafdís Hanna Ægisdóttir forstöðumaður Landgræðsluskólans kvaddi nemendur með ávarpi en einnig tóku til máls við útskriftina Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, Árni Bragason formaður stjórnar Landgræðsluskólans og landgræðslustjóri, og Björn Þorsteinsson rektor Landbúnaðarháskólans, sem flutti lokaorð. Fyrir hönd nemenda fluttu ávörp þau Badam Ariya frá Mongólíu og Emmanuel Lignule frá Gana.

Heimsmarkmiðin og Parísarsamningurinn

Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri sagði meðal annars í ávarpi sínu að nemarnir hefðu á síðustu sex mánuðum fengið tækifæri til að læra af kennurum sínum og samnemendum, en einnig hefðu þeir komið til Íslands með þekkingu og reynslu sem þeir hefðu deilt með öðrum. Hann sagði að útskriftarnemarnir fjórtán væru nú orðnir hluti af miklu stærra tengslaneti fræðimanna, stefnumótandi aðila og sérfræðinga. "Þið deilið öll sameiginlegri sýn og markmiði: að stýra landnýtingu á sjálfbæran hátt þannig að auðlindin nýtist komandi kynslóðum fremur en til skamms tíma; að endurheimta svæði sem áður voru horfin og ónothæf; að breyta viðhorfum til náttúrunnar og hvernig hún samtvinnast inn í öll samfélög," sagði Sturla.

Hann minnti á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsamninginn um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, sem hann sagði viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á mikilvægi sjálfbærrar þróunar og baráttunnar gegn lofslagsbreytingum. Samfélög þjóða stæðu sameinuð að þessum sáttmálum og hefðu sett fram forgangsröðun til að starfa eftir. "Á vegferð okkar til að útrýma hungri og fátækt og viðhalda líffræðilegum fjölbreytileika munum við standa frammi fyrir þeim sem véfengja málstað okkar, efast um þátt mannsins í breytingum á vistkerfum og afneita sameiginlegri ábyrgð okkar til að takast á við þessar áskoranir," sagði Sturla.

Rannsóknarverkefni

https://youtu.be/O6YUZFstumY

https://youtu.be/5uW9frSzAso Í byrjun mánaðarins stóðu nemendurnir fjórtán fyrir kynningu á lokaverkefnum í skólanum, rannsóknarverkefnum sem þeir hafa unnið að síðustu mánuði undir leiðsögn fræðimanna frá fjölmörgum stofnunum og háskólum, m.a. Landbúnaðarháskóla Íslands, Landgræðslu ríkisins, Háskóla Íslands, Listaháskólanum og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, auk tveggja verkfræðistofa, EFLA og Verkís. 

Í meðfylgjandi myndböndum má sjá tvo af nemendum skólans, þau Zalfa Businge frá Úganda og Emmanuel Mwathunga frá Malaví lýsa lokaverkefnum sínum.

Landgræðsluskólinn er samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins. Skólinn er hluti af framlagi Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og einn fjögurra háskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfa hér á landi.

Því er við að bæta að tveir nemendur fluttu frumsamið lag við útskriftina: Beatrice Dossah frá Gana og Emmanuel Mwathunga frá Malaví. Lagið og textinn er eftir Beatrice en það var  hluti af hennar verkefnavinnu við Landgræðsluskólann. 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum