Hoppa yfir valmynd
7. maí 2018 Utanríkisráðuneytið

Þrír sendifulltrúar Rauða krossins að störfum í Bangladess

Sendifulltrúar Rauða krossins sem eru að störfum í Bangladess, t.f.v. Hildur Ey, Aðalheiður og Orri. Ljósm. RK - mynd

Þrír sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi eru nú að störfum í tjaldsjúkrahúsi Rauða krossins í flóttamannabúðum við Cox´s Bazar í Bangladess. Þau Aðalheiður Jónsdóttir og Orri Gunnarsson héldu til Bangladess í lok apríl og Hildur Ey Sveinsdóttir hélt utan í dag.

Aðalheiður sinnir sálrænum stuðningi og þjálfar sjálfboðaliða í að veita sálrænan stuðning en Orri sinnir tæknimálum á sjúkrahúsinu. Þetta er fyrsta starfsferð Aðalheiðar sem sendifulltrúi fyrir Rauða krossinn en önnur ferð Orra. Hann starfaði á neyðartjaldsjúkrahúsi á Filippiseyjum árið 2013 í kjölfar mannskæðs fellibyls og einnig er hann með reynslu af störfum með friðargæslu utanríkisráðuneytisins í Mósambik.

Þá hélt Hildur Ey Sveinsdóttir í sína aðra starfsferð til Bangladess í dag, en hún var í fyrsta teyminu sem fór á vettvang í september síðastliðnum. Hildur segir það að vissu leyti spennandi að fara aftur, þótt aðstæður séu erfiðar og neyðin mikil. „Þar sem ég var í fyrsta teyminu sem fór á vettvang vorum við aðallega að koma sjúkrahúsinu upp og ég starfaði aðeins í viku á sjúkrahúsinu sjálfu. Ég var að aðstoða við að byggja sjúkrahúsið upp frá grunni og koma tækjum og tólum á sinn stað svo það verður gott að geta starfað við mitt sérsvið núna sem er barnahjúkrun. Þá verður merkilegt að sjá hvernig sjúkrahúsið hefur breyst og hvernig starfið gengur fyrir sig þegar allt er komið í fastari skorður.“

Hjálparsamtök á svæðinu eru búin undir hið versta núna þegar mikið rigningartímabil fer í hönd. „Það getur komið upp kórelufaraldur ef grunnvatn mengast og allt er í hæðum og hólum svo það er hætta á að aurskriður verði, en Rauði krossinn hefur útbúið viðbragðsáætlanir eins vel og hægt er.“

Hér er er 360° heimasíða sem finnski Rauði krossinn bjó til af svæðinu sem tjaldsjúkrahúsið er á.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira