Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 547/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 547/2022

Miðvikudaginn 1. febrúar 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 21. nóvember 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. nóvember 2022 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 19. september 2022. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 3. nóvember 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar sem barst kæranda með bréfi, dags. 9. nóvember 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. nóvember 2022. Með bréfi, dags. 22. nóvember 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 13. desember 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar samdægurs. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að Ráðgjafar- og greiningarstöð, læknir kæranda og félagsráðgjafi séu sammála um að endurhæfing sé ekki fyrir hana þar sem hún sé greind með mikla einhverfu.

Tryggingastofnun hafi ekki tekið inn í mat sitt á örorku kæranda vottorð frá Ráðgjafar- og greiningarstöð sem hafi borist stofnuninni 1. nóvember 2022. Kærandi hafi hvorki tök á því að vera í fullu námi né á vinnumarkaði þar sem úthald hennar sé lítið sem ekkert og þurfi hún mikinn stuðning og leiðbeiningar allt sitt líf. Kærandi voni að Tryggingastofnun geti endurskoðað mat sitt og metið henni örorkulífeyri sem fyrst.

Kærandi sé í hálfu námi sem reynist henni erfitt. Einnig sé hún í hlutastarfi sem hún geti lítið sinnt. Endurhæfing myndi ekki koma henni að gagni vegna greininga hennar eins og sérfræðingarnir segi til um.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkumati, dags. 3. nóvember 2022. Í kærðri ákvörðun hafi kæranda verið synjað um örorkumat þar sem ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á annaðhvort örorkulífeyri eða örorkustyrk samkvæmt 18. eða 19. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Eins og b-liður 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar kveði á um, greiðist örorkulífeyrir þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Í 19. gr. laganna sé kveðið á um að örorkustyrkur greiðist þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna meti Tryggingastofnun ríkisins örorku umsækjenda um örorkubætur og sé það gert í samræmi við sérstakan örorkustaðal sem kveðið sé á um í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Í 2. mgr. 18. gr. laganna komi einnig fram að heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Í samræmi við ákvæðið sé það liður í verklagi Tryggingastofnunar við afgreiðslu umsókna um örorkumat að skoða hvort endurhæfing sé fullreynd áður en til örorkumats komi. Stofnunin leggi sjálfstætt mat á gögn málsins. Þannig geti til dæmis endurhæfingaraðili talið að ekki verði lengra komist á vegum hans en vísað á önnur úrræði. Í læknisvottorði eigi að koma fram hvort búast megi við að færni aukist með læknismeðferð, eftir endurhæfingu eða með tímanum. Í gögnum sem berist til Tryggingastofnunar geti verið óvissa um hvort meðferð/endurhæfingu sé að fullu lokið. Ef heildarmat Tryggingastofnunar, út frá öllum fyrirliggjandi gögnum, bendi til að endurhæfing sé ekki fullreynd, þá sé synjað um örorkumat. Ef umsókn um örorkumat sé synjað á grundvelli þess að endurhæfing sé ekki fullreynd þá geti reynt á endurhæfingarlífeyri, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum, þar sem segi:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma og slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna úr sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Í 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé veitt heimild til að framlengja greiðslutímabilið um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi þannig að greiðslutímabil endurhæfingarlífeyris geti að hámarki varað í 36 mánuði.

Í 51. gr. laga um almannatryggingar segi að bætur, sem ætlaðar séu bótaþegum sjálfum, greiðist ekki ef hlutaðeigandi vanræki að fara að læknisráðum eða neiti að hlíta fyrirmælum um þátttöku í þjálfun eða starfsnámi sem bætt gæti afkomu hans eða búið hann undir nýtt starf.

Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókninni og um framhald málsins.

Kærandi sé X ára gömul stúlka sem stundi nám í B ásamt afgreiðslustarfi í C. Starf hennar sé hlutastarf sem hún mæti í tvisvar í viku. Kærandi hafi verið sein til máls og við X árs heilsugæsluskoðun hafi vaknað grunur um einhverfurófsröskun. Við athugun í kringum X ára aldur hafi einhverfugreining ekki verið staðfest en niðurstöður hafi gefið til kynna málhömlun og ADHD röskun. Kærandi hafi greinst með einhverfu við upphaf grunnskólanáms. Í uppvextinum hafi hún verið í eftirfylgd hjá sérfræðilæknum. Umönnunarmat hafi fyrst verið samþykkt fyrir hana árið 2008, eða við X ára aldur. Tímabilum þar sem kærandi hafi verið með umönnunarkort megi skipta í tvennt. Annars vegar hafi það verið tímabilið 2008 til 2016, með hálfs árs hléi á tímabilinu 2011 til 2012. Hins vegar hafi það verið tímabilið frá 2020 þangað til hún hafi orðið X ára í október 2022. Greiðsluhlutfall fyrra tímabilsins hafi verið ýmist 25% eða 0%, en 35% á síðara tímabilinu. Kærandi hafi sótt um örorku þegar hún hafi átt þess kost við X ára aldur og sé synjun þeirrar umsóknar kærð í þessu máli.

Tveimur dögum áður en ákvörðun hafi verið tekin af hálfu Tryggingastofnunar um synjun á örorku hafi stofnunin móttekið nýtt læknisvottorð. Umrætt læknisvottorð sé undirritað af D, lækni hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð, dags. 28. október 2022. Læknisvottorðið sé ekki tilgreint meðal gagna sem hafi legið fyrir við mat í synjunarbréfi Tryggingastofnunar, en samkvæmt læknateymi stofnunarinnar gefi vottorðið ekki tilefni til að breyta fyrri ákvörðun.

Við mat á umsóknum um örorkulífeyri styðjist tryggingalæknar við þau gögn sem liggi fyrir hverju sinni. Við matið hafi legið fyrir spurningalisti vegna færniskerðingar, dags. 17. október 2022, læknisvottorð vegna örorku, dags. 17. október 2022, önnur fylgigögn eins og niðurstaða félagsráðgjafa, dags. 19. september 2022, og umsókn um örorku, dags. 19. september 2022. Til viðbótar hafi legið til grundvallar læknisvottorð, dags. 28. október 2022, og læknisvottorð, dags. 8. febrúar 2021.

Niðurstaða matsins hafi verið sú að ekki væri tímabært að samþykkja umsókn kæranda um örorku þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Mikilvægt sé að hafa í huga í þessu sambandi að Tryggingastofnun sé í ákvörðunum sínum bundin af jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveði á um að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis. Læknateymi og aðrir sérfræðingar Tryggingastofnunar meti mál kæranda með þeim hætti að umsækjendum um örorkulífeyri í sambærilegum málum hafi verið synjað um slíkan lífeyri. Það sem liggi til grundvallar því mati sé hvort tveggja sá heilsufarsvandi sem um ræði og sú endurhæfing sem enn sé talin möguleg.

Kærandi sé ung að aldri, nýorðin X ára, og þó að hún hafi þegið umönnunarbætur vegna heilsuvanda í uppvexti, þá sé heilsuvandinn og færnisskerðingin ekki slík að það réttlæti örorkumat á þessu stigi, heldur sé sá farvegur metinn eðlilegri að kærandi reyni endurhæfingu og sæki um endurhæfingarlífeyri samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Kærandi stundi framhaldsskólanám og sé í hlutastarfi og óljóst sé á þessum tímapunkti að hvaða marki ýmis endurhæfing geti gagnast kæranda í lífi og starfi. Síðara fyrirliggjandi læknisvottorðið, dags. 28. október 2022, styrki þá skoðun, enda komi þar fram meðferðarúrræði sem geti haft jákvæð áhrif á líðan og færni kæranda. Ýmis atriði sem nefnd séu í niðurstöðum sérfræðiteymis Ráðgjafar- og greiningarstöðvar styrki mat læknateymis Tryggingastofnunar enn frekar, enda komi þar fram að kærandi hafi staðið sig vel á ýmsan hátt, eins og greint sé frá í atvikalýsingu, sem gefi tilefni til bjartsýni varðandi framtíð kæranda og von um að markviss endurhæfing geti komið að notum.

Tryggingastofnun meti sjálfstætt færniskerðingu umsækjanda á grundvelli framlagðra gagna þar sem meðal annars sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarssögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem umsækjandi hafi undirgengist í kjölfar veikinda og/eða slysa. Við mat á umsóknum um örorkulífeyri sé stofnunin því ekki bundin af ályktunum lækna eða annarra meðferðaraðila um meinta örorku eða óvinnufærni umsækjanda. Við það mati skipti máli hvort að gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfi Tryggingastofnun til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs.

Í kjölfar synjunar Tryggingastofnunar um örorku hafi kærandi sótt um endurhæfingarlífeyri sem sé í samræmi við ábendingu í synjunarbréfi. Í því bréfi sé einnig tekið fram að Tryggingastofnun hvetji kæranda til að hafa samband við heimilislækni sinn til að leita ráðgjafar um þau endurhæfingarúrræði sem séu í boði. Það sé hins vegar ekki hlutverk lækna og annarra sérfræðinga Tryggingastofnunar að mæla með endurhæfingarúrræðum þar sem stofnunin sé framkvæmdaraðili, heldur sé slík ráðlegging á hendi aðila innan heilbrigðiskerfisins.

Það sé mat lækna og annarra sérfræðinga Tryggingastofnunar að endurhæfing kæranda sé ekki fullreynd og af þeim sökum sé ekki tímabært að samþykkja umsókn hennar um örorkulífeyri eða örorkustyrk, sbr. 18. gr. eða 19. gr. laga um almannatryggingar. Niðurstaða stofnunarinnar sé jafnframt sú að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat sem geri ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðalsins.

Niðurstaða Tryggingastofnunar sé sú að afgreiðslan á umsókn kæranda, þ.e. að synja umsókn hennar um örorkulífeyri vegna þess að ekki sé tímabært að taka afstöðu til örorku hennar þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd, sé rétt. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem eigi stoð í gildandi lögum og reglum.

Tryggingastofnun fari fram á staðfestingu á ákvörðun sinni frá 3. nóvember 2022 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Þó að umsókn um örorkulífeyri sé synjað bendi stofnunin kæranda á reglur um endurhæfingarlífeyri, enda geti hún fengið slíkan lífeyri í alls 36 mánuði ef skilyrði þess séu fyrir hendi.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. nóvember 2022 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í þágildandi 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð E, dags. 17. október 2022. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„LEARNING DISABILITY NOS

ATTENTION DEFICIT DISORDER WITH HYPERACTIVITY

EINHVERFA

BLANDIN RÖSKUN HEGÐUNAR OG GEÐBRIGÐA, ÓTILGREIND“

Um heilsuvanda og færniskerðingu nú segir í vottorðinu:

„X ára stúlka. Verið hjá F og GRG, nú að útskrifast í eftirfylgd til heilsugæslunnar. Greind með dæmigerða einhverfu, tornæmi, ADHD, blandin röskun hegðunar og geðbrigða ásamt álagi í félagslegu umhverfi. Gengið brösulega að lyfjastilla. Glímir við skapsveiflur og reiði sem og kvíða. Gengið illa ð ná utan um hegðun og líðan. Á erfitt með aðlögun og glímir við mikla samskiptaerfiðleika. Töluvert um áráttu og þráhyggju, félagsfærni töluvert skert.

Hefur fengið stuðning félagsþjónustunnar í G, er með mikinn stuðning þaðan en ekki talin ábending fyrir starfsendurhæfingu eða umsókn til VIRK“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi í vottorðinu:

„Útlit samsvarara aldri, móðir svarar að mestu fyrir hana.

Hefur verið að hluta á starfsbraut en ekki viljað vera í námi þar, hefur verið hjá stuðningsgsfjölskyldu en ekki gengið.

Nú í B, 3 önn, ekki fullu námi. Vinnur x2svar viku hlutastarfi.“

Í vottorðinu segir að kærandi sé óvinnufær og ekki megi búast við að færni aukist.

Í málinu liggur einnig fyrir læknisvottorð D, læknis hjá Ráðgjafar- og greiningarstöðinni, dags. 28. október 2022. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„Einhverfa

Almennir námserfiðleikar

Athyglisbrestur með ofvirkni

Blandin kvíða- og geðlægðarröskun

Álag í félagsumhverfi“

Um fyrra heilsufar kæranda segir í vottorðinu:

„A er hraust stúlka líkamlega. Hún greindist hins vegar ung með ADHD röskun og á seinni árum hefur bæst við kvíði og andleg vanlíðan.“

Um heilsuvanda og færniskerðingu nú segir:

„Færniskerðing A tengist einkum einhverfu og námserfiðleikum. Stúlkan er auk þess með hegðunar- og tilfinningavanda sem háir henni verulega. Heildartala greindar á WISC-IV prófinu mældis nýlega 64 og liggur þroski hennar í heild nálægt greiningarmrökum fyrir þroskahömlun. A er einangruð félagslega og hefur í gegnum árin verið í eftirfylgd hjá sérfræðilæknum. Meðan fjölskyldan bjó í Hð var hún í eftirfylgd bæði hjá sérfræðingum á barna- og unglingageðdeild og einning innan barnahabilitering. A stundar nám í B en skólasókn hefur verið ábótavant.“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi í vottorðinu:

„A var vel til höfð í heimsókn á RGR nú í september en hún var frekar dauf í bragði, gaf slakt augnsamband og var svipbrigðalítil í andliti. Henni liggur lágt rómur og hún talaði svolítið óskýrt. Stúlkan hefur litla innsýn í eigin stöðu og var hálf ósátt með að vera komin til athugunar. Ekki náðist samvinna við líkamlega skoðun.“

Í vottorðinu segir að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. nóvember 2022 en að búast megi við að færni aukist með tímanum. Í athugasemdum segir:

„A er X ára gömul stúlka með færniskerðingu og fötlun í tengslum við einhverfu, námserfiðleika og hegðunar- og tilfinningarvanda. Hún hefur verið í eftirfylgd hjá sérfræðilæknum frá unga aldri og er á samþættri lyfjameðferð til að hafa áhrif á hegðun og líðan. Búið er að óska eftir DAM meðferð fyrir hana á göngudeild geðdeildar LSH og einnig verður send beiðni í teymi fyrir ungmenni með taugaþroskaraskanir sem starfar á vegum heilsugæslunnar. Hugsanlega mun sálfræðileg og læknisfræðileg aðstoð m.a. á þessum vettvangi hafa jákvæð áhrif á líðan stúlkunnar og færni.

Eins og staðan er núna er A í þörf fyrir örorkumat því ólíklegt er að hún geti lokið námi í framhaldsskóla og stundað vinnu á almennum vinnumarkaði. Hugsanlega gæti atvinna með stuðningi nýst henni seinna meir. Óskað er eftir tímabundnu örorkumati þar til ljóst er hvaða stefnu færni og líðan stúlkunnar tekur.“

Í málsgögnum liggur einnig fyrir vottorði teymis frá Ráðgjafar- og greiningarstöðinni sem samanstóð af félagsráðgjafa, sálfræðingi og barnalækni, dags. 13. september 2022. Varðandi niðurstöður athugunar á sviði eldri barna segir:

„Aer hæglát unglingsstúlka. Hún haf slakt augnsamband í viðtali og var svipbrigðalítil í andliti. A er barngóð og mikill dýravinur. Meðan fjölskyldan bjó í H eignaðist hún vinkonur sem voru með henni í I. A er komin með bílpróf og hefur m.a. haft frumkvæði að því sjálf að sækja um atvinnu. WISC-IV greinarprófið var lagt fyrir A og mældist heildartala greindar 64 sem er verulega undir meðallagi. Aðlögunarfærni stúlkunnar samkvæmt Vineland viðtalinu sem tekið var við foreldra hennar er einnig undir meðallagi jafnaldra. A hefur þó sýnt styrkleika á ákveðnum verklegum þáttum og í núverandi námi í B. Það var því mat teymisins að greiningin almennir námserfiðleikar séu lýsandi fyrir þroskastöðu hennar. A hefur liðið illa á tímabilum, sýnt erfiða hegðun og mótþróa. Hún fékk góða aðstoð vegna þessa í H m.a. á barna- og unglingageðdeild og hún er núna í eftirfylgd hjá barnalækni. Við athugun á einkennum einhverfu (ADOS-2) fóru hegðunareinkenni A yfir greiningarmrök fyrir þá röskun. Það vantaði t.d. upp á gagnkvæmni í samskiptum og gæði í félagslegu frumkvæði. Einnig virðist A hafa skert innsæi í félagsleg hlutverk eins og vináttu. Matslistar sem bæði foreldrar og kennari fylltu út gefa til kynna samþættan hegðunar- og tilfinningavanda. Álag er í félagsumhverfi A sem m.a. tengist erfiðum samskiptum á heimilinu.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem kærandi lagði fram með umsókn sinni um örorkumat, svaraði hún spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi einhverfu, almenna námserfiðleika, ADHD, kvíða, geðlægðarröskun og álag á félagsumhverfi. Af svörum kæranda verður ráðið að hún glími við erfiðleika vegna greininga sinna. Kærandi greinir frá því að verða óróleg, hún glími við skapbresti og eigi erfitt með að hemja skap sitt.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki farið fram. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði.

Fyrir liggur að kærandi er með varanlega fötlun sem mun hafa áhrif á starfsgetu hennar til frambúðar. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hefur ekki verið í starfsendurhæfingu. Í fyrrgreindu læknisvottorði E, dags. 17. október 2022, kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni aukist. Í læknisvottorði D, dags. 28. október 2022, kemur fram að kærandi sé óvinnufær en búast megi við að færni hennar aukist með tímanum. Fyrir liggur að kærandi er mjög ung að árum og hefur ekki látið reyna á endurhæfingu. Í ljósi framangreinds telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að kærandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. nóvember 2022, um að synja kæranda um örorkumat.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum