Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 56/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. febrúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 56/2021

í stjórnsýslumálum nr. KNU20120023 og KNU20120024

 

Beiðni [...] um endurupptöku og frestun framkvæmdar

 

I. Málsatvik

Þann 14. maí 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 24. febrúar 2020 um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Nígeríu um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 25. maí 2020. Þann 1. júní 2020 óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar en beiðninni var hafnað þann 12. júní 2020. Þann 9. desember 2020 óskaði kærandi eftir frestun á framkvæmd úrskurðar kærunefndar. Þann 11. desember 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt fylgigögnum. Þá bárust frekari gögn frá kæranda dagana 14. og 18. desember 2020 og 28 janúar 2021. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 28. janúar 2021 ásamt lögmanni sínum.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kærenda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku aðallega á þeim grundvelli að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá sé krafan jafnframt reist á þeim grundvelli að ákvörðun hafi verið byggð á ófullnægjandi og röngum upplýsingum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá sé krafan einnig byggð á óskráðri meginreglu þess efnis að endurupptaka sé heimil sé ákvörðun haldin verulegum annmarka. Í beiðni kæranda um endurupptöku er byggt á því að hann sé samkynhneigður.

Í beiðni sinni vísar kærandi til þess að við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun hafi hann reitt sig á mjög ótrúverðuga frásögn sem hann hafi ekki vikið frá á æðra stjórnsýslustigi. Þau gögn málsins sem kærandi hafi byggt á í beiðni um frestun réttaráhrifa, dags. 9. desember 2020, beri hins vegar með sér að hann hafi ekki greint frá raunverulegum ástæðum flótta síns frá heimaríki. Vafalaust sé um að ræða nýja málsástæðu. Allt að einu sé nauðsynlegt að gera grein fyrir hvers vegna henni hafi ekki verið haldið á lofti fyrr en nú. Kærandi hafi ekki greint frá kynhneigð sinni fyrr, þrátt fyrir að eiga í ástarsambandi við karlmann, en það sé raunveruleg ástæða flótta hans frá heimaríki. Kærandi greinir frá því að hafa orðið fyrir líkamsárás á Ítalíu vegna kynhneigðar sinnar. Þá hafi hann í áraraðir lifað við mikinn ótta við að ljóstra upp um kynhneigð sína enda hafi hann sætt árásum vegna hennar í Nígeríu og á Ítalíu. Kærandi hafi ekki viljað greina frá einkahögum sínum m.a. af ótta við að þeir myndu spyrjast út. Kærandi vísar til stuðningsyfirlýsingar sálfræðings Samtakanna '78 sem fylgt hafi endurupptökubeiðni hans. Þar komi m.a. fram að hann hafi um langt skeið átt í ástarsambandi við karlmann. Þá vísar hann jafnframt til yfirlýsingar elskhuga síns sem einnig hafi verið lögð fram með endurupptökubeiðninni.

Kærandi krefst þess að úrskurði nefndarinnar nr. KNU20030014, verði frestað, sbr. lokamálsliður 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Í beiðni kæranda þar að lútandi kemur m.a. fram að vegna aðstæðna samkynhneigðra í Nígeríu ætti að liggja fyrir að endursending kæranda til heimaríkis myndi valda honum óafturkræfum skaða. Vísar kærandi í því samhengi til 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga og 33. gr. samnings um réttarstöðu flóttamanna. Þá vísar kærandi einnig til útbreiðslu Covid-19 faraldursins á Ítalíu.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. laganna.

Þann 11. desember 2020 óskaði kærandi eftir endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 14. maí 2020 sem birtur var kæranda þann 25. maí 2020. Með úrskurðinum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og ætti því ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd telur að leggja megi þann skilning í beiðni kæranda að hann byggi endurupptökubeiðni sína annars vegar á því að ákvörðun í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og hins vegar að atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðunin var tekin, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Til stuðnings beiðni sinni hefur kærandi m.a. lagt fram yfirlýsingu frá sálfræðingi Samtakanna '78, dags. 1. september 2020 og 26. janúar 2021, yfirlýsingu frá meintum elskhuga kæranda, dags. 23. október 2020, auk mynda og skjáskota af samtölum kæranda og meints elskhuga.

Eins og fram kemur í úrskurði kærunefndar frá 14. maí 2020 byggði kærandi umsókn sína um alþjóðlega vernd m.a. á því að hann ætti á hættu ofsóknir í heimaríki, m.a. vegna ítrekaðs ofbeldis sem hann hefði orðið fyrir, þeirrar hættu á að vera fangelsaður að ósekju og þeirrar mismununar og illu meðferðar sem hann ætti á hættu að sæta vegna þess geðsjúkdóms sem hann sé haldinn. Kærandi greindi þá frá ástæðum flótta síns frá heimaríki. Faðir hans væri konungur í Benín borg í Nígeríu. Kærandi væri elsti sonur föður síns og því erfingi krúnu hans og eigna. Síðan faðir hans hafi tilkynnt honum um væntanlegan arf hafi systkini hans ekki virt hann viðlits og hótað honum lífláti afsalaði hann sér ekki arfinum. Dag einn hafi lögregla gert húsleit hjá kæranda. Við leit í herbergi hans hafi fundist fíkniefni sem hafi komið kæranda á óvart enda væri hann hvorki fíkniefnaneytandi né fíkniefnasali. Hann hafi í kjölfarið verið settur í fangageymslu og að lokum verið ákærður. Nokkrum dögum síðar hafi kærandi verið skotinn í hægri fótlegg og nokkrum dögum eftir það lent í alvarlegu slysi sem hafi valdið meðvitundarleysi í nokkra daga. Nokkrir félagar hans hafi látist í slysinu. Nokkru síðar hafi vinur kæranda verið myrtur og blóðugur fatnaður og byssukúla fundist við húsleit hjá kæranda. Kærandi hafi eftir það farið til föðurbróður síns í Lagos. Föðurbróðir hans hafi svo verið myrtur nokkrum dögum síðar. Kærandi hafi þá ekki átt í nein hús að venda og flúið til Líbýu. Eftir rannsókn kærunefndar taldi nefndin frásögn kæranda ótrúverðuga í heild sinni og var hún því ekki lögð til grundvallar í málinu. Í ljósi nýrrar málsástæðu kæranda um samkynhneigð taldi kærunefnd ástæðu til að boða hann í viðtal hjá nefndinni, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, til að leggja mat á trúverðugleika frásagnar hans og hvort þær nýju upplýsingar, sem kærandi byggir endurupptökubeiðni sína á, gætu leitt til endurupptöku málsins.

Í viðtali hjá nefndinni, dags. 28. janúar 2021, greindi kærandi frá því að hann hafi flúið heimaríki sitt vegna samkynhneigðar. Kona hans hafi komið að honum með öðrum manni og í kjölfarið greint lögreglu og fjölskyldu hans frá því. Hann hafi óttast um líf sitt og flúið til Líbíu þaðan sem hann hafi svo farið til Ítalíu með báti. Kvað hann fyrri sögu sína vera uppspuna og þá sögu hafi hann fengið frá herbergisfélaga sínum á Ítalíu. Kærandi kvaðst hafa verið í sambandi með einum manni í Nígeríu og einum manni hér á landi. Hann hafi ekki greint frá raunverulegum ástæðum flótta síns fyrr í málsmeðferðinni sökum hræðslu og ótta um líf sitt.

Í beiðni kæranda um endurupptöku málsins, dags. 11. desember 2020, greindi kærandi frá því að hafa orðið fyrir ofbeldi á Ítalíu og í Nígeríu vegna kynhneigðar sinnar. Vegna hinna nýju upplýsinga frá kæranda taldi kærunefnd ástæðu til að kalla hann í viðtal hjá nefndinni til að meta trúverðugleika nýrrar frásagnar hans.

Í viðtali hjá kærunefnd, dags. 28. janúar 2021, kvaðst kærandi ekki hafa greint frá kynhneigð sinni á Ítalíu. Þá kom ekki fram af hans hálfu í viðtalinu að hann hefði sætt ofbeldi á Ítalíu eða í Nígeríu þegar hann lýsti flótta sínum frá heimaríki. Kærandi greindi einnig frá því að hafa verið í sambandi með öðrum manni í Nígeríu. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 29. janúar 2021, veitti kærunefnd kæranda frest til að leggja fram frekari gögn sem sýndu fram á samband hans við annan mann þar í landi. Í svari frá kæranda þann sama dag kvaðst kærandi ekki geta lagt fram gögn varðandi ástarsamband sitt í Nígeríu enda sé hann ekki í samskiptum við fjölskyldu sína eða aðra einstaklinga þar í landi. Í yfirlýsingum frá sálfræðingi Samtakanna '78, dags. 1. september 2020, sem kærandi lagði fram með endurupptökubeiðni sinni, og dags. 26. janúar 2021, sem kærandi lagði fram við meðferð málsins, kemur fram að kærandi hafi greint frá því að hafa verið í sambandi með að minnsta kosti einum öðrum manni hér á landi áður en hann hafi kynnst núverandi elskhuga sínum, [...]. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 29. janúar 2021, gaf nefndin kæranda færi á að greina frá því sambandi eða leggja fram gögn sem sýndu fram á samband hans við þann mann. Í svari frá kæranda þann sama dag kom fram að kærandi hafi einungis verið með [...] hér á landi. Því sé líklega um misskilning að ræða af hálfu sálfræðingsins en maðurinn sem vísað sé til sé líklega vinur kæranda sem einnig sé hluti af LGBT+ samfélaginu. Í tölvubréfi frá lögmanni kæranda, dags. 18. desember 2020, kemur fram að kærandi og [...] hafi kynnst í gegnum stefnumótaforrit. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 29. janúar 2021, óskaði nefndin eftir svörum frá kæranda varðandi það hvernig og hvenær kærandi og [...] hefðu kynnst. Í svari frá kæranda þann sama dag kemur fram að þeir hafi kynnst í ágúst 2019 á [...] [ ].

Kærandi hefur einungis lagt fram gögn sem sýna fram á samskipti hans við [...] frá 9. ágúst 2020 og síðar, en fyrstu samskiptin voru rúmum tveimur mánuðum eftir að kæranda var birt niðurstaða kærunefndar í máli hans. Engin gögn liggja fyrir um meinta samkynhneigð kæranda fyrir þann tíma þrátt fyrir að kærandi hafi m.a. greint frá því að hafa kynnst [...] í ágúst 2019.

Kærandi hefur ekki lagt fram haldbærar skýringar á því hvers vegna hann hafi ekki greint frá samkynhneigð sinni fyrr en 10. desember 2020, eða rúmum tveimur árum eftir að hann kom hingað til lands og sótti um alþjóðlega vernd , og um einu og hálfu ári eftir að hann kveðst hafa kynnst núverandi elskhuga sínum. Kærandi hefur við meðferð málsins mætt í þrjú viðtöl hjá Útlendingastofnun, 15. nóvember 2018, 18. febrúar 2019 og 4. september 2019, og lagt fram tvær greinargerðir fyrir stjórnvöldum hér á landi auk beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar, dags. 1. júní 2020, en aldrei greint frá meintri samkynhneigð sinni. Þá hefur kærandi viðurkennt að hafa byggt á frásögn til stuðnings umsókn sinni um alþjóðlega vernd sem hafi verið ósönn. Að mati kærunefndar draga þau atriði sem rakin hafa verið úr trúverðugleika kæranda að því er varðar meinta samkynhneigð hans.

Þrátt fyrir að umsækjendur um alþjóðlega vernd tefli fram nýjum málsástæðum í beiðni um endurupptöku leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að hin nýja frásögn teljist ótrúverðug. Hins vegar er rétt að líta svo á að því lengri tími sem líður frá því að umsókn er lögð fram og þar til greint er frá nýrri málsástæðu má gera auknar kröfur til umsækjanda um að veita haldbærar og rökréttar skýringar á þeim drætti. Á það sérstaklega við þegar umsækjandi hefur haft næg tækifæri og ástæðu til að segja fyrr frá þeim ástæðum flótta sem hann ber fyrir sig síðar.

Með vísan til alls framangreinds telur kærunefnd málsástæðu kæranda er varðar meinta samkynhneigð hans ekki trúverðuga. Kærunefnd telur að virtri frásögn kæranda og framlögðum gögnum að ekki séu fyrir hendi upplýsingar sem séu þess eðlis að þær geti leitt til endurupptöku úrskurðarins.

Að teknu tilliti til alls framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 14. maí 2020 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik sem leitt hefðu til annarrar niðurstöðu eða að atvik hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var birtur, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að hvorki skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga né óskráðra meginreglna um endurupptöku séu uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd er því hafnað.

Hvað varðar kröfu kæranda um frestun framkvæmdar á úrskurði kærunefndar útlendingamála, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga þá vísast til framangreindrar umfjöllunar um nýjar málsástæður hans. Varðandi tilvísun til Covid-19 faraldursins á Ítalíu hefur nefndin lagt mat á stöðu faraldursins þar í landi og telur aðstæður ekki með þeim hætti að fallast beri á kröfu kæranda hvað það varðar. Með hliðsjón af framangreindu er ekki talin ástæða til þess að fjalla frekar um beiðni kæranda um frestun framkvæmdar á úrskurði kærunefndar útlendingamála, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og er henni jafnframt hafnað.

 

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda er hafnað.

The appellant‘s requests are denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                          Sindri M. Stephensen

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum